Bókun Flokks fólksins við svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um nýtingu eða sölu metans hjá Sorpu bs:
Gott er að lesa í svari frá SORPU að nýlega sendi SORPA erindi á sveitarfélögin sem eiga SORPU og innti eftir áætlunum þeirra um nýtingu á metani. Ýmis ljón eru á veginum eftir því sem næst er komist svo hægt sé að tryggja fjármögnun innviða áður en Strætó getur hafið uppbyggingu á metanvögnum. Flokkur fólksins vill enn og aftur leggja áherslu á mikilvægi þess að nýta þennan vistvæna orkugjafa sem nóg er til af og verður enn meira þegar ný jarðgerðarstöð í Álfsnesi er komin í fulla virkni. SORPA veit augljóslega um flesta notkunarmöguleika en gera aðrir sé grein fyrir þeim? Það er ekki nóg að aðili lýsi yfir áhuga sínum því metan selst ekki að sjálfu sér. Metan þarf að selja á hinn almenna bílaflota í Reykjavík. Til að það takist þarf að verðleggja það lágt til að bíleigendur kaupi bíla sem ganga fyrir metani. Afhendingarstöðum þarf svo að fjölga samfara aukinni notkun. Í þessu hefur ríkt hægagangur og menn virðast gleyma því að brennsla metans á báli er sóun. Notkun metans sparar innflutning á öðru eldsneyti sem er allra hagur. Borgarfulltrúi Flokks fólksins heyrir ekki mikið af hvatningu um að nýta metan. Allur sorpbílafloti Reykjavíkur er bara dropi í hafið af því sem gæti verið.
Bókun við lið 5. í fundargerð öldungaráðs um endurskoðun bæklings fyrri eldri borgara
Flokkur fólksins fagnar því að öldungaráðið fjallaði um bækling sem sendur er til allra sem verða 75 ára og eldri. Vísað er í tillögu Flokks fólksins um breytingar sem gera þarf á bæklingnum og tillögunni var einmitt vísað til meðferðar velferðarsviðs og öldungaráðs til nánari vinnslu. Meðal þess sem eldri borgurum Flokks fólksins lögðu til var að bæklingurinn byrjaði á sérstökum kafla þar sem upplýsingar um réttindi væru sundurliðaðar eftir hópum, og að þær væru aðgengilegar. Einnig var lagt til að fram kæmi hvað það væri sem er eldri borgurum væri að kostnaðarlausu og hvað er gegn gjaldi. Þeim fannst jafnframt að það væri mikilvægt að bæklingurinn hefði ákveðnar grunnupplýsingar s.s. upptalningu á félagsmiðstöðvum, félagasamtökum og stöðum þar sem hægt er að fá keyptar máltíðir. Hugsa þarf svona bækling þannig að hann sé fyrir breiðan hóp fólks, bæði þá sem eru efnaðir og efnaminni sem og fátækir og/eða einmana og einangraðir. Þetta er sennilega aðeins smá brot af því sem mætti nefna til að bæta bækling þann sem hér um ræðir. Svona bækling þarf helst að endurútgefa reglulega ef vel á að vera.
Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulagsráðs 20. nóvember við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að fjölga bílastæðum fyrir stóra bíla í úthverfum:
Bókun var lögð fram við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að skipulagsyfirvöld fjölgi bílastæðum fyrir stóra bíla í úthverfum borgarinnar á fundi skipulagsráðs 20.11. Tillagan var felld að segir í bókun meirihlutans að “það væri ekki hlutverk sveitarfélaga að útvega stæði fyrir stórar bifreiðar, hópferðabíla og stór vinnutæki í íbúabyggð”. Fulltrúi Flokks fólksins í borgarráði finnst þetta snubbótt bókun og spyr í framhaldinu hvers hlutverk er það þá ef ekki skipulagsyfirvalda borgarinnar? Hér er verið að ræða um bílstjóra stórra bifreiða sem eru t.d. sjálfstættstarfandi.
En að efni tillögunnar. Sú staðreynd blasir við að það vantar bílastæði fyrir stóra bíla í úthverfum alla vega í sumum úthverfum og eru bílstjórar á eigin vegum sem í störfum sínum nota stóra bíla sem atvinnutæki oft í vandræðum. Þessi mál þarf að leysa. Einhvers staðar þarf allt að vera, einnig stórir bílar sem eru atvinnutæki sem og sem ekki eru í tengslum við nein ákveðin fyrirtæki og hafa bílstjórar þar að leiðandi ekki aðgang að stæði á fyrirtækjalóð.
Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 20. nóvember vegna tilmæla umboðsmanns borgarbúa um að meirihlutinn hafi samráð við borgarbúa:
Flokkur fólksins hefur ítrekað reynt að fá borgaryfirvöld til að hlusta á borgarbúa og virða þeirra óskir þegar kemur að stórframkvæmdum sem hafa víðtæk áhrif á rekstur. Flokkar eins og Viðreisn og Píratar hjala um að hafa samráð sem eru bara orðin tóm. Nú hefur umboðsmaður borgarbúa bæst í hóp þeirra sem eru að reyna að koma vitinu fyrir borgarmeirihlutann. Með tilmælum sínum kallar umboðsmaðurinn eftir að borgarmeirihlutinn keyri ekki áfram framkvæmdir ýmist í óþökk íbúa og rekstraraðila nema hvort tveggja sé. Hvert málið hefur rekið annað þar sem farið er í framkvæmdir þrátt fyrir hávær mótmæli og ákall um hlustun. Eiga erindin það sammerkt að lýsa neikvæðri upplifun aðilanna af Reykjavíkurborg í tengslum við þær framkvæmdir. Snúa umkvörtunarefnin helst að skorti á árangursríku samráði og nægu upplýsingaflæði í aðdraganda framkvæmda og á verktíma eins og segir í tilmælum umboðsmanns borgarbúa. Það er nokkuð alvarlegt þegar umboðsmaður borgarbúa telur sig knúinn til að koma með tilmæli sem þessi.