Borgarstjórn 19. febrúar 2019

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fyrirspurn Flokks fólksins um tölvupóstsendingar
Svar borgarinnar

Spurningin var hvort reglur og lög leyfa að viðtakandi skeytis bæti öðrum við í samtalsþráð svarskeytis án fengins leyfis þess sem sendi skeytið upphaflega. Á þessu hefur borið í borginni. Í fljótu bragði er erfitt að greina svarið við fyrirspurninni í löngu svari borgarlögmanns. Flokks fólksins ákvað að leita með sömu fyrirspurn til Persónuverndar og fékk eftirfarandi svar:
Það hvort tölvupóstsamskipti megi áframsenda öðrum, s.s. með því að bæta nýjum viðtakendum við slík samskipti, verður að ætla að fari mjög eftir efni samskiptanna. Sé um að ræða samskipti um persónuleg málefni ætti svigrúmið til slíks að vera þrengra en ella. Lúti samskiptin aftur á móti að opinberum málefnum ætti svigrúmið að vera rýmra. Þá ætti eitt af viðmiðunum, sem líta þarf til, að vera það hvort um ræði samskipti sem varði hlutaðeigandi á einhvern hátt. Séu þau þess eðlis að þau falli undir rétt almennings til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012 gæti krafan um góða stjórnsýsluhætti engu að síður falið í sér að fylgja þyrfti þessu viðmiði, þ.e. að því gefnu að ekki ræði um sendingu samskiptanna til að verða við aðgangsbeiðni á grundvelli laganna.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fyrirspurn Flokks fólksins um svör við bréfasendingum
Svar borgarinnar

Í löngu, lagalegu svari er ljóst að reglur eru til en spurning er hvort farið er eftir þeim þar sem kvartanir eru svo tíðar sem raun ber vitni. Við yfirferð reglnanna er að finna skýringar á af hverju dráttur er á svörum. Í stjórnsýslulögum er nefnilega ekki að finna ákvæði um „fastan afgreiðslutíma“. Afgreiða skal mál „eins hratt og unnt er“ . Þetta er vissulega hægt að teygja og toga á alla kanta. Algengast er sennilega að ekki er svarað vegna mikilla anna og álags. Talað er um að svara erindum „án ástæðulausra tafa“. Hvað þýðir það? Ekki er heldur hægt að skilgreina „eðlilegur afgreiðslutími“ því það er sagt fara eftir málaflokkum. Í raun er þessa vegna hægt að tefja út í hið óendanlega að svara ef því er að skipta. Segir þó í reglunum „að láta skal vita af töfum“. Það er því miður bara oft alls ekki gert. Engar samræmdar reglur eru til um svörun erinda hjá borginni vegna þess að starfsemi er oft „margþætt og ólík“.
Tekið er undir það að kerfi borgarinnar er flókið sem hlýtur að koma niður á stjórnsýsluháttum. Við lestur þessara reglna má sjá að þær geti varla verið loðnari og óljósari sem skýrir af hverju ekkert lát er á kvörtunum frá þjónustuþegum borgarinnar.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fyrirspurn Flokks fólksins um sölu bifreiða í eigu Félagsbústaða:
Svar borgarinnar

Þetta kann að þykja smámál en hafa skal í huga að fæstir myndu láta sér detta í hug að Félagsbústaðir eigi yfir höfuð marga bíla og að þeir séu að selja bíla til starfsmanna. Í ljósi slakrar ímyndar sem þetta fyrirtæki hefur, þótt vonandi horfi það til betri vegar þá vekur svona lagað upp tortryggni.

Við lestur svars framkvæmdarstjórans við fyrirspurninni vakna einnig upp nokkrar spurningar og þá fyrst, af hverju gátu Félagsbústaðir  ekki nota þessa gömlu bíla, ekið þá út eins og sagt er. Nú á fyrirtækið 3 nýja Renault fólksbíla í umsjá framkvæmdardeildar, einn nýjan í umsjá þjónustudeildar og einn Kia Sóul í umsjá fasteginaþróunar. Margir notendur þessa fyrirtækis eru bláfátækt fólk rúmlega 900 eru á biðlista. Því þætti það engum undrum sæta þótt upp komi spurningar þegar fréttist að Félagsbústaðir séu að selja starfsmönnum sínum bíla. Nú hefur verið staðfest að Félagsbústaðir eigi þrjá glænýja bíla. Svona upplýsingar eru einfaldlega ekki til að bæta laskaða ímynd Félagsbústaða. Flokkur fólksins og Miðflokkurinn leggja til að stjórn Félagsbústaða fari að hugsa sinn gang í þessum efnum og gleymi því ekki að sá hópur sem fyrirtækið þjónar sættir sig ekki við hvað sem er.

Bókun Flokks fólksins við liðinn: Fyrirspurn Flokks fólksins um hvort börn hafi þurft að hætta á frístundarheimili vegna fjárhagsvanda:
Svar borgarinnar:

Engu barni er vísað frá vegna þess að foreldar hafa ekki efni á að greiða vistunargjald frístundarheimilis segir í svari frá Skóla- og frístundarráði. Þetta svar er mikill léttir. Í svarinu er sagt að þetta svar hafi verið í fyrri umsögnum en ekki minnist borgarfulltrúinn þess. Borgarfulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvernig það er þá ef skuldin er aldrei greidd og hvort komi þá e.t.v. að skuldadögum einn daginn fyrir foreldrið?

Framhaldsfyrirspurn vegna skulda í frístund:
Í ljósi þessa svars er spurt hvort þá megi álykta sem svo að enda þótt skuldin sé aldrei greidd verði barni örugglega aldrei vísað frá?

Ef skuldin er aldrei greidd á tímabilinu sem barnið er í frístundinni verður hún þá felld niður eða mun koma að skuldadögum síðar og þá jafnvel eftir að barnið er hætt í frístund með öllu?

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um stefnumótun í sérkennslumálum:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fara þess á leit við skóla- og frístundasvið:
a) að borgin móti sér heildstæða stefnu í sérkennslumálum.
b) að árangur sérkennslu verði mælanlegur á einstaklingsgrunni og milli skóla.
c) að fjármagn sérkennslu til skóla byggist á mælingum (fjölda, þörf o.s.frv.).
d) að sérkennslan verði skilgreind að fullu þannig að skýr greinarmunur verði á stuðningskennslu annars vegar og hins vegar sérkennslu sem kemur alfarið í staðinn fyrir bekkjarnámsefni jafningja sinna (hve margir nemendur eru í hvorum hóp, hvað er á bak við hvern hóp (greiningar, skimanir o.s.frv.

Greinargerð:
Í svari skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn Flokks fólksins um greiningar og sérkennsluþörf kemur eftirfarandi fram:
1. Að engin rannsókn eða heildarúttekt hafi verið gerð á framkvæmd sérkennslu í skólum borgarinnar og því sé ekki hægt að vita hvort sérkennslan sé að nýtast börnunum.
2. Kostnaður vegna sérkennslu beggja skólastiga fyrir árið 2017 var um 4,5 milljarðar á síðasta ári.
3. 30% nemenda grunnskólans eru að jafnaði í sérkennslu.

Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst alvarlegt að ekkert er vitað um hvort og þá hvernig sérkennsla er að nýtast börnunum og hver sé ávinningurinn fyrir börnin sem sum eru í sérkennslu, jafnvel alla grunnskólagönguna.
Skóla- og frístundasvið rennir blint í sjóinn með hvernig þetta fjármagn nýtist börnunum þar sem engar samræmdar árangursmælingar hafa verið gerðar. Það sem rannsóknir hafa hins vegar sýnt og sjá má í tölum sem gefnar hafa verið út af menntamálaráðuneytinu er að um 30% drengja og um 12% stúlkna geti hvorki lesið sér til gagns né til gamans við lok grunnskóla.

Enn fremur segir í svari skóla- og frístundasviðs að:

1. Ekki er sótt um sérkennslu fyrir börn nema sterkar líkur séu á að þau þarfnist sértækrar aðstoðar oftast að undangengnum skimunum og mati með viðeigandi matstækjum.
2. Skimun, samræmd próf og námsmat er lagt til grundvallar við skipulag almennar sérkennslu í skólum.
3. Í þeim skólum sem hafa menntaða sérkennara eru námslegar greiningar á einstökum nemendum gerðar.
4. Ekki er vitað hvernig málum er háttað í skólum sem hafa ekki menntaða sérkennara.

Af þessu að dæma er margt í lausu lofti þegar kemur að sérkennslumálum í borginni. Skortur á heildrænni stefnu, yfirsýn og skýrum mælanlegum markmiðum koma fyrst og fremst niður á börnunum sem þarfnast þessarar þjónustu. Sérkennsla getur varað í langan tíma eða verið tímabundin. Sum börn eru í sérkennslu alla skólagöngu sína. Ekki heldur í þeim tilfellum virðist árangur vera mældur en hver skóli ber sjálfur ábyrgð á hvernig hann nýtir fjármuni til sérkennslu.

Hagstofa Íslands mælir að einhverju leyti árangur af sérkennslu og byggir á gögnum sem kallað er eftir frá skólum. Ekki er vitað hve nákvæmlega upplýsingarnar eru greindar eða hversu nákvæmar þær eru. Gera má þó ráð fyrir að upplýsingar séu til um fjölda barna sem eru í sérkennsluveri og/eða inni í bekkjum. Við öflun upplýsinga hlýtur að vera mikilvægt að gera greinarmun á hvort nemendur eru að koma einu sinni í viku til sérkennara eða daglega, og kannski í nokkrar kennslustundir í einu. Stór munur getur verið á því hvort nemandi er að koma einu sinni í viku í eina klukkustund eða einu sinni í viku í fjórar klukkustundir eða er í sérkennslu 10 tíma á viku kannski allt skólaárið og jafnvel með aðstoð inn í bekk að auki og hins vegar nemendur sem koma 2-4 kennslustundir í viku í afmarkaðan tíma, kannski í tvo mánuði eða skemur.

Sé ekki gerður greinarmunur á þessu er ekki skrýtið að hátt hlutfall grunnskólanema flokkist í sérkennslu. Hópur þeirra barna sem þarfnast sérkennslu er fjölbreyttur. Sumum nemendum nægir að fá að vinna í smærri hóp með leiðsögn þar sem þau fylgja engu að síður bekkjarnámsefninu. Aðrir nemendur hafa verið greindir með sértæka námserfiðleika eða annan námslega vanda sem kallar á sérefni, einstaklingsnámskrá og sér námsáætlun. Margir þessara nemenda eru einnig með stuðningsfulltrúa inn í bekk. Það getur verið erfitt fyrir sérkennara að vera með nemendahóp á breiðu getustigi. Við slíkar aðstæður má ávallt velta vöngum yfir hvort börnin séu að fá námslegum þörfum sínum fullnægt á sínum forsendum. Stundum er staðan þannig í skólum að erfitt er að skipta upp hópum vegna plássleysis.

Allt þetta hlýtur að koma til skoðunar þegar rætt er um árangur sérkennslu. Til að mæla árangur þurfa að liggja fyrir grunnmælingar í byrjun sérkennslu; skimanir, sálfræðigreiningar eins og WISC greindarpróf og önnur gögn. Niðurstöður liggja þá fyrir við upphaf sérkennslu og að ákveðnum tíma liðnum eru mælingar endurteknar og þá kemur í ljós hvort markmið er að nást að hluta til eða öllu leyti. Endurmat á sérkennsluþörf yrði síðan byggt á niðurstöðum prófana. Hér er annars vegar verið að ræða um einstaklingsmælingar en síðan skiptir ekki síður máli að mæla samræmt og þá fyrst er hægt að svara þeirri spurningu hvort sérkennsla sú sem verið er að veita börnunum sé að skila tilætluðum árangri.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:
Tillaga Flokks fólksins, D og M að sveitarstjórnarráðuneytinu verði falið að skoða aðgerðir Reykjavíkurborgar í tengslum við kosningaþátttöku tiltekinna hópa:

Borgin braut lög og það þarf að skoða af þar til bærum yfirvöldum sem er í þessu tilfelli sveitarstjórnarráðuneytið. Þeir sem brutu lög reyna allt hvað þeir geta til að dreifa athygli borgarbúa frá alvarleika málsins. Ákvörðun Persónuverndar er skýr og rakin í fjórum liðum. Upplýsingar um veigamikil atriði voru ekki send Persónuvernd sem er ámælisvert. Í bréfi til unga fólksins var talað um skyldu þeirra að kjósa ella væri lýðræðinu ógnað.  Með þessum orðum er verið að leggja óþarfa ábyrgð á herðar þeirra. Eins og lýðræðið hvíli á þeirra herðum ella væri það í hættu. Konur yfir áttrætt var hópur sem var aldrei hluti af þessari rannsókn. Engin rök eru fyrir að upplýsa konur yfir áttrætt um kosningarétt þeirra, heldur virkar það frekar niðurlægjandi. Fram kemur hjá Persónuvernd að rannsóknin var ekki til „að skilja lága og minnkandi kjörsókn ungs fólks“ enda skilaboðin gildishlaðin og röng. Hér er aðeins eitt orð sem lýsir þessu best, sem er enska orðið „manipulation“, en ekkert íslenskt orð nær nákvæmlega  þeirri merkingu.  Aðkoma sveitarfélags að könnun sem þessari rétt fyrir kosningar gerir fátt annað en að skapa tortryggni, Þetta er réttlætt með því að segja þetta í þágu almannahagsmuna. Ekki er almennur skilningur manna að hér hafi almannahagsmunir verið í húfi.

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Tillögur um breytingar á skipulagi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar:

Tiltekt í borginni er löngu tímabær og stórtækra breytinga er þörf. Fyrirtækið Strategía segir skipurit borgarinnar flókið og ógegnsætt. Vandamál stjórnsýslunnar hafa ekki farið fram hjá neinum. Sannarlega þarf að skerpa á eftirlitshlutverkinu og framkvæmdarstjórnin þarf að vera sýnileg og ábyrg. Skemmst er að minnast braggamálsins, eftirlitslaust, framkvæmdarstjórnin týnd. Tekið er undir tillöguna um að innri endurskoðun og Umboðsmaður borgarbúa heyri beint undir borgarráð. Það sama ætti að gilda um borgarlögmann og borgarritara en þeir heyra undir borgarstjóra. Þessir embættismenn eiga að vinna fyrir alla borgarfulltrúa og borgarbúa. Meirihlutinn leggur fram 11 tillögur. Borgarfulltrúi vill bóka um 11. tillöguna en hún snýr að skilgreiningu á hlutverki borgarinnar sem eiganda B-hluta fyrirtækja þar með byggðasamlaga á borð við Strætó. Byggðasamlög eru eins og ríki í ríkinu sem eru ekki undir beinu lýðræði. Þar eru sérstjórnir sem ráðast af fjölda kjósenda. Ef þarf að vera með mörg byggðasamlög, væri ekki nær að sveitarfélög einfaldlega sameinist? B hluta fyrirtæki eru orðin svo aftengd borginni að fólk gleymir að þau eru borgarfyrirtæki. Vandi hefur verið með sum þessara fyrirtækja. Skemmst er að minnast Orkuveitunnar og Félagsbústaða en það síðara hefur haft á sér slæma ímynd í langan tíma. Áfram munu B hlutafélög heyra undir einn embættismann, borgarritara. Er það raunhæft?