Bókun Flokks fólksins við kynningu á aðgerðaáætlun vegna matarstefnu
Flokkur fólksins áttar sig ekki alveg á hlutverki þessa hóps. Borgarstjóri skipar hópinn en ekki þykir líklegt að neinn úr minnihlutanum verði boðin þátttaka. Minnihlutinn hefur skoðanir á matarstefnunni og þekkingu. Margt er gott í þessari „stefnu“ en vissulega eru þetta bara enn orð á blaði. Nýlega var fjallað um í fréttum niðurstöður rannsóknar þar sem fram kom að mun meiri matarsóun er í íslenskum grunnskólum en í nágrannalöndunum. Þá er matur barna í skólum mjög einsleitur. Það skýtur því skökku við að fá fréttir af því að meirihlutinn vill draga úr dýraafurðum, sem gerir matinn enn einsleitari. Það eru ekki ný tíðindi að börn vilja ekki mikið af grófmeti. Börn sem eru ekki vön að borða grænkeramat fara varla að taka upp á því í skólanum. Flokkur fólksins lagði fram tillögu í borgarstjórn í september 2018 að borgin myndi beita sér m.a. fjárhagslega fyrir því að allir skólar í Reykjavík yrðu grænfánaskólar. Í greinargerð með tillögunni var m.a. komið inn á leiðir til að stemma stigu við matarsóun, sem dæmi er mikilvægt að börn skammti sér sjálf og vigti og skrái síðan það sem þau leifa. Einnig þarf maturinn að vera fjölbreyttur og börn þurfa að hafa val.
Bókun Flokks fólksins við tillögu Sósíalistaflokksins um sveigjanlegri félagslega heimaþjónustu:
Flokkur fólksins vill taka undir þessa tillögu ekki síst mikilvægi þess að gefa kost á lengri viðveru þeirra sem veita heimaþjónustu til þess að veita þjónustuþega smá félagsskap. Margir notendur þjónustunnar eru í þeim aðstæðum að vera einangraðir og finnst erfitt ef sá sem veitir þjónustuna er á mikilli hraðferð. Mörgum finnst þessi velferðartækni ógnandi og þá er átt við allar tæknilegar lausnir til að bæta velferðarþjónustu við einstaklinga eða hópa. Dæmi: Hjólastóll, göngugrind, öryggishnappur og margt fleira sem ekki gerir kröfu um að þjónustugjafinn komi til þjónustuþega, heldur er þjónustan veitt í gegn um tölvu eða snjallsíma. Þetta er gott og blessað eins langt og það nær en velferðartæknin getur aldrei komið í stað persónulegrar nándar og tengsla. Margir eru einmana, haldnir kvíða og annarri vanlíðan. Dæmi eru um að eldri borgarar séu jafnvel búnir að dekka borð og langar til að spjalla stuttlega. Sumir reyna að hjálpa til við þrifin til að eiga meiri möguleika á nokkrum mínútum(til að spjalla) með heimaþjónustufólkinu. Hægt væri að gera einfalda könnun á þessu . Óþarfi er að flækja málið eða gera úr þessu milljóna kostnað eins og fram kemur í svari og telur Ff ekki þörf á djúpviðtölum á þessu stigi.
Lögð fram að nýju tillaga Flokks fólksins um að Félagsbústaðir haldi sjálfir utan um greiðsludreifingu og innheimtu leiguskulda
Samþykkt að vísa til Félagsbústaða.
Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu málsins
Þessari tillögu er vísað til stjórnar Félagsbústaðar og við því mátti búast. Flokkur fólksins setur sig ekki upp á móti því. Flokkur fólksins vill senda meðferðis það álit og skoðun að þessi regla er með eindæmum ómanneskjuleg og hefur að því er virðist komið aftan að fjölmörgum. Alla vega komu leigjendur margir af fjöllum þegar skuld þeirra, oft lítilvæg var komin til lögfræðinga. Hér er jafnvel um að ræða leigjendur sem hafa áður dreift skuld sinni hjá skrifstofunni og gengið vel. Í ljósi þess að leigjendur eru upp til hópa fólk í fjárhagserfiðleikum er þess vænst að Félagsbústaðir taki upp þá leið sem var áður en hún var að hægt væri að semja um skuldir við skrifstofu Félagsbústaða. Félagsbústaðir eiga að hugsa um skjólstæðinga sína fyrst og fremst en ekki að styrkja lögfræðinga. Flokkur fólksins upplifir ennþá allt of oft að Félagsbústaðir sýni of mikla hörku og óbilgirni þótt hlutir hafi vissulega nokkuð lagast síðasta misseri. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill minna á það að Félagsbústaðir eru í eigu borgarinnar og notendur sem eru leigjendur eru afar viðkvæmur hópur. Svona fyrirtæki er ekki hægt að reka eins og banka.
Bókun Flokks fólksins við svarið við fyrirspurn Flokks fólksins um úrræði foreldra sem bíða eftir húsnæði fyrir fatlaða einstaklinga:
Það er sláandi hvað margir fatlaðir bíða eftir húsnæði eða 168 einstaklingar og að frá 2016 hafi einungis 52 fengið úthlutað nýju húsnæði sem byggt var á grunni uppbyggingaráætlunar. Þetta sýnir glöggt að allt of lítið hefur verið byggt af húsnæði fyrir þennan hóp. Hann hefur bersýnilega ekki verið í neinum forgangi ella biðu nú ekki 168 einstaklingar 18 ára og eldri eftir húsnæði. Hér þarf að gera breytingar, þennan biðlista verður að stytta, helst útrýma enda ekki eðlilega langur í borg sem státar af hagnaði og er stýrð að jafnaðarflokkum eins og Samfylkingu og VG. Það er oft gríðarálag á þeim sem bíða eftir húsnæðinu og fjölskyldum þeirra. Hér er verið að tala um fullorðna einstaklinga sem eiga rétt á að fá húsnæði við sitt hæfi til að geta lifað sínu persónulega lífi. Talað er um í umsögninni við fyrirspurninni um húsnæði sem hefur losnað. Borgarfulltrúa Flokks fólksins fýsir að vita nánar um það, í hvaða tilfellum eru íbúðir að losna?
Bókun Flokks fólksins við fyrirspurn um húsnæði fyrir fatlað fólk:
Það eru 168 fatlaðir einstaklingar sem bíða eftir húsnæði og aðeins 52 hafa fengið úthlutað sl. 3 ár. Fyrir þennan og síðasta meirihluta er þessi hópur greinilega ekki hátt skrifaður þegar kemur að forgangi. Það skýtur skökku við í ljósi þess að Samfylkingin hefur verið við völd í a.m.k. 10 ár. Sú áætlun sem hér er birt í svari gefur til kynna að sumir gætu þurft að bíða í tíu ár eða lengur eftir búsetuúrræði. Einstaklingar eru jafnvel komnir á miðjan aldur þegar þeir loksins fá húsnæði. Er vitað hvar þessir einstaklingar búa sem eru á biðlistanum? Hjá foreldrum? Systkinum? Þetta er óásættanlegt. Samkvæmt áætluninni á að vera búið að byggja 80-90 íbúðir fyrir 2020. Það styttist í 2020. Er búið að byggja þessar íbúðir? Miða við að aðeins 52 hafi fengið húsaskjól síðustu þrjú árin stenst þessi áætlun ekki. Á svona bið græðir engin. Dæmi eru um að fjölskyldur eru rjúkandi rústir, slíkt er álagið. Í þessum fjölskyldum eru oft yngri systkini sem verða fyrir áhrifum af álaginu sem er á heimilinu og foreldrum. Aðstandendur eru oft örmagna og sá sem bíður eftir húsnæðinu orðin þunglyndur.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna legga fram svohljóðandi gagnbókun:
Vakin er athygli á að 52 nýjar íbúðir hafa verið teknar í notkun á síðustu 3 árum en mun fleiri verið úthlutað.
Bókun Flokks fólksins við fyrirspurn Flokks fólksins um ýmis atriði í bæklingi eldri borgara:
Í fyrirspurn frá fulltrúa Flokks fólksins var spurt um ýmislegt er varðar upplýsingagjöf í bæklingi sem sendur er heim til allra eldri en 75 ára. Í svari um hvað lengi þurfi að bíða eftir að fá Rauða kross vin í heimsókn segir að það sé misjafnt. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta ekki svara fyrirspurninni. Hvað er verið að tala um hér, allt frá einum degi í tvö mánuði? Óskað er nánari greiningu á þessu. Í b. og d. lið er svarað með tölvulinki. Í fyrirspurninni er einmitt tekið fram að áhersla er á þá sem ekki nota tölvur. Þess vegna finnst borgarfulltrúa sérkennilegt að í svari í tveimur liðum er aðeins gefinn upp netlinkur. Ef hér væri eldri borgari að spyrja sömu spurninga, væri honum svarað með því að láta hann hafa netlink? Í þessu kjarnast e.t.v. áhyggjur Flokks fólksins að allt of stór hluti samskipta sé orðinn rafrænn og að ekki sé gefinn tími til að svara skriflega eða munnlegra eftir því sem við á. Þær fyrirspurnir sem lagðar voru fram nú voru að beiðni eldri borgara sem ekki nota tölvur. Á borgarfulltrúi Flokks fólksins nú að afhenda þeim linka sem svar.
Bókun Flokks fólksins við fyrirspurn um sundurliðun á 14.000 ferðum í akstursþjónustu.
Í svari við fyrirspurn um akstursþjónustu aldraðra, en spurt var um sundurliðum á 14 þúsund ferðum sem rúmlega 500 manns fóru á hálfu ári, kemur fram að ekki hafi verið safnað upplýsingum um erindi þessara ferða t.d. hvort fólk hafi verið að fara á menningarviðburði. Þessi fyrirspurn var lögð fram m.a. í samhengi við notkun menningarkortsins. Fulltrúi Flokks fólksins hefur nefnilega áhyggjur af því að nú þegar eldri borgarar þurfa að kaupa sér menningarskort til að fara á viðburði þá munu þeir e.t.v. síður fara. Nú hefur það komið í ljós að á hálfs árs tímabili eru aðeins 69 notendur akstursþjónustu af 505 sem búa í þjónustuíbúðum, restin þ.e. rúmlega 400 manns býr annars staðar. Þetta er óvenju lágt hlutfall sem býr í þjónustuíbúðum sem nýtir sér akstursþjónustuna. Ekki er gott að átta sig á hvað þetta merkir. Það er mjög mikilvægt að sundurliða til hvers þessar ferðir eru notaðar ekki síst til að fá upplýsingar um hvort eldri borgar kaupi sér menningarskort og noti það. Hér sár vantar frekari upplýsingar og þar sem ekki hefur verið safnað upplýsingum um þetta fram að þessu er mikilvægt að hefja slíka upplýsingasöfnun strax.
Bókun Flokks fólksins við fyrirspurn um kostnað ferða í akstursþjónustu, biðtíma, tegund notenda og búsetu þeirra:
Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið. Fram kemur að meðalkostnaður við ferð í akstursþjónustu aldraðra og fatlaðra er kr. 3.918 samkv. upplýsingum frá Strætó. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta há meðaltalsupphæð og telur að lækka ætti þessa gjaldskrá. Að sjálfsögðu á kostnaður að vera óháður fjölda ferða. Fjöldi ferða kemur kostnaði ekkert við. Samkvæmt þessu svari er biðtími ásættanlegur en betur má ef duga skal. Enginn ætti að bíða eftir þjónustu af þessu tagi í 15 mínútur eða meira. Það sem kemur mest á óvart er greining á notendum akstursþjónustunnar á tímabili jan. til júní, en 17% eru karlar en 83% eru konur. Þetta er ótrúlegur mismunur. Annað athyglisvert í svari er að af 505 notendum þjónustunnar bjuggu aðeins 69 í þjónustuíbúðum aldraðra.
Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn Flokks fólksins, um aðferðir velferðarsviðs til að upplýsa fólk um styrki á grundvelli 16. gr. a.:
Spurt var um aðferðir til að upplýsa fólk um styrki á grundvelli 16. gr. A í reglum um fjárhagsaðstoð. Spurningin var lögð fram vegna þess að fram hafði komið í öðru svari við fyrirspurn Flokks fólksins að fjöldi þeirra sem sækja um fjárhagsaðstoð er mestur í Hóla- og Fellahverfi en þar er einnig frístundarkortið minnst nýtt af öllum hverfum. Fulltrúi Flokks fólksins vill leiða líkur að því að það sé vegna þess að frístundarkortið er skilyrði þess að foreldrar geti sótt um fjárhagsaðstoð. Í svari kemur fram að á tímabili jan. til júlí 2019 sóttu 51% barnafjölskyldna um fjárhagsaðstoð en aðeins 41% fékk aðstoðina. Þetta allt er því að taka á sig enn skrýtnari mynd. Hér er verið að segja að 50 % sækja um en aðeins 40 % fá aðstoð. Mögulegar ástæður eru reifaðar í svari frá velferðarsviðinu en sviðið virðist ekki vita mikið um ástæðurnar. Flokkur fólksins spyr hvort ekki sé rétt að kafa nánar ofan í þetta? Bent er á í svarinu að rafrænar lausnir kunni að leysa þetta. Flokkur fólksins hefur efasemdir um það enda hafa ekki allir þeir sem eru á fjárhagsaðstoð ráð á snjalltækjum/tölvum.
Tillaga Flokks fólksins að gerðar verði breytingar á eftirfarandi bæklingi vegna ábendinga sem borist hafa
Um er að ræða FSK.2 EINMANALEIKI MEÐAL ELDRA FÓLKS. Bæklingur útgefinn af Velferðarsviði Reykjavíkur ofl. 2018. Ábendingar hafa borist að talsverðir fordómar einkenna þennan bækling auk vanþekkingar. Dæmi: Miðlungs hætta „Lýsir sér sem einfara eða sérvitringi (dæmigerður karl)“ Einhver myndi gera athugasemd ef þarna stæði „dæmigerð kona“. Hvers vegna er verið að kyngera fólk? Dæmi: Miðlungs hætta „Hefur ekki vestrænan bakgrunn“. Fólk á Íslandi sem er ættað frá austurlöndum hefur sumt hvert öflugt félagslegt net meðal samlanda og er duglegt að hjálpa og heimsækja hvert annað. Hvers vegna er fólki frá austurlöndum hættara en öðrum að einangrast sbr. það sem gefið er í skyn í þessum bæklingi? Ekki er minnst á fjárhagsstöðu nema í miðlungs áhættuhópnum „Metur fjárhagsstöðu slæma“ þá eru miðlungs líkur á einmanaleika. Samkvæmt því ætti lítil hætta að vera á einmanaleika hjá þeim sem meta fjárhagsstöðu góða og mikil hætta hjá þeim sem meta fjárhagsstöðu sína vonlausa, þ.e. hafa ekki til hnífs og skeiðar. Hvergi í þessum bæklingi er minnst á húsnæðisaðstöðu eða öryggi sem skiptir samt veigamiklu máli ásamt efnahag. Hvergi er minnst á áfengisvandamál sem er vandi í öllum aldurshópum, líka meðal eldri borgara.
Vísað frá.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Þessi bæklingur var þýddur og ekki fyrirhugað að gefa hann út aftur.
Tillaga Flokks fólksins er varðar mötuneytisþjónustu eldri borgara
Tillaga Flokks fólksins að eftirfarandi þættir er varða eldri borgara og mötuneyti verði endurskoðaðir og betrumbættir hið fyrsta.
1. Að þeir sem þurfa að fá mat sendan heim vegna veikinda, ef þeir búa í húsnæði sem er tengt við mötuneyti, t.d. Borgir mötuneyti og íbúar í Eirborgum fái mat alla daga vikunnar á meðan veikindin standa yfir.
2. Að leyfilegt verði að taka með sér mat heim ef einhver vill. Stundum eru líka engin laus sæti í matsal. Þá hefur fólk þurft að bíða eftir að sæti losnar.
3. Benda þarf fólki á að engin á einhver föst sæti. Dæmi eru um að fólk hafi verið rekið úr sæti vegna þess að einhver telur sig eiga það eða að viðkomandi er beðin að færa sig. Þetta hefur fælingarmátt og þarf því að ræða og benda á mikilvægi umburðarlyndis og sveigjanleika. Að sjálfsögðu á þó alltaf að taka tillit til hreyfihamlaðra við sætaskipun.
4. Leyfa þarf fólki að taka afgang matar með sér heim, ef viðkomandi hefur ekki lyst á að klára matinn sem er skammtaður. Að öðrum kosti er matnum hent. Þetta þykir eldri borgurum sárt enda vanir að nýta allan mat auk þess sem meirihlutinn í borginni er að boða minnkun á matarsóun.
Óskað eftir umsögn frá velferðarsviði.
Tillaga Flokks fólksins að hætt verði að nota frauðílát í mötuneytum eldri borgara
Tillaga Flokks fólksins að hætt verði að nota frauðbakka/frauðílát í mötuneytum eldri borgara. Komi þeir ekki með sín eigin ílát þá sé notað pappaílát. Flokkur fólksins hefur áður lagt fram tillögu er varðar plastílát í mötuneytum. Eldri borgarar vilja eins og aðrir í samfélaginu leggja sitt af mörkum til að draga úr plastmengun. Það er því erfitt fyrir þá að þurfa að taka við mat í frauðílátum. Borgarmeirihutinn og velferðarráð þurfa að fara að taka til hendinni í þessum málum, það er ekki bara nóg að leggja fram einhverjar stefnur um að minnka plast heldur þarf að sýna vilja í verki og leita allra leiða til að aðrar umbúðir en plast eru notaðar í stofnunum á vegum borgarinnar. Það er því einkennilegt að eldri borgurum er skammtaður matur í frauðílát í mötuneyti á vegum borgarinnar.
Samþykkt að vísa til umhverfis- og skipulagssviðs í stýrihóp um plaststefnu.
Tillaga Flokks fólksins að leita orsaka af hverju mun færri fá fjárhagsaðstoð sem þeir hafa þó sótt um
Tillaga um að leita orsaka þess af hverju munur er svo mikill á þeim sem sækja um fjárhagsaðstoð og fá hana síðan. Í ljósi þess að fram hefur komið í svörum að á hálfs árs tímabili sóttu 51% barnafjölskyldna um fjárhagsaðstoð en aðeins 41% fékk aðstoðina. Ástæður þarf að skoða og leggur Flokkur fólksins til að farið verði í að rannsaka hverju þetta sæti. Nota má til þess einfaldar aðferðir sem er t.d. hringja í fólkið og spyrja það hver var ástæða þess að sótt var um en aðstoðin ekki fengin? Var það vegna þess að fólk taldi sig ekki þurfa hana, eða áttu ekki rétt á henni þrátt fyrir að hafa sótt um, eða af því að ekki var skilað inn staðfestingu og af hverju var henni þá ekki skilað inn? Nefnt er sem möguleg ástæða að foreldrar eru í skuld og styrkur er ekki veittur þegar fólk er í skuld, eins og sagt er þegar um „áfallandi greiðslur er að ræða“. Það er engan vegin hægt að búa við það að vita ekki þessar ástæður. Vel kann að vera að ástæður séu einfaldar og hefði mátt, með lítilli leiðbeiningu, veita fjárhagsaðstoðina sem sótt var um?
Frestað, óskað eftir umsögn frá velferðarsviði.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvað er átt við með velferðarsmiðju, hvort búið er að stofna hana og hverju hún hefur áorkað?:
Velferðarsmiðja. Hvað er nákvæmlega átt við með þessu orði? Margir eldri borgarar átta sig bara alls ekki á því. Á að smíða velferð? Er búið að stofna velferðarsmiðju, eins og sagt hefur verið í bæklingnum (að átti að gera 2018). Er búið að ráða verkefnisstjóra, og annan starfsmann með honum? Ef svo er: Hverju hefur velferðarsmiðjan áorkað? Velferðartæknismiðja. Er búið að stofna hana í einhverju hverfi Reykjavíkur? Hlutverk hennar á að vera að þarfagreina, gera úttektir, prófa og fylgja eftir stefnu um velferðartækni. Hvernig gengur þetta allt? Hvaða endurbætur hafa orðið? Flokkur fólksins veltir fyrir sér hvort það sé unnið að því að búa til æ nýjar stjórnunareiningar innan velferðarsviðsins en á meðan gleymist það sem mestu máli skiptir sem er samvera og nálægt við eldri borgara. Eldri borgurum, fjölmörgum finnst þeir aldrei spurðir um neitt, hvorki álits né skoðanir á því sem verið er að gera. Hvenær var síðasta spurningarkönnun um þessi mál lögð fyrir eldri borgara? Vilja þeir þetta? Hugnast þeim þessar breytingar? Hvað af þessu eru þeir ánægðir með? Hvað finnst þeim skorta í þjónustuna?
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um í hvaða tilfellum íbúðir eru að losna sem ætlaðar eru fötluðum:
Það bíða 168 einstaklingar með fötlun eftir húsnæði. Hér gæti verið um margra ára bið. Í svari við fyrirspurn um biðlista er talað um húsnæði sem losnar. Borgarfulltrúa Flokks fólksins fýsir að vita nánar um þetta, í hvaða tilfellum eru íbúðir að losna? Hvað hafa margar íbúðir losnað síðustu 3 ár?
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvar 168 fatlaðir einstaklingar sem eru á biðlista eftir húsnæði búa?:
Fyrirspurn um hvar búa þeir 168 fatlaðir einstaklingar sem eru á biðlista eftir húsnæði og hafa verið á biðlistanum e.t.v. í mörg ár? Eru þessir einstaklingar sem nú bíða búsettir hjá foreldrum? Eða hjá systkinum, eða annars staðar?
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um biðtíma eftir Rauðakrossvini en fram hefur komið að hann sé „mislangur“:
Fyrirspurn vegna biðtíma eftir Rauðakrossvini. Hvað er átt við að fólk bíði mislengi eftir símtali við Rauðakrossvin? Hvað felst í þessu „mislengi“?
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um akstursþjónustu, af hverju svo fáir karlar nota hana í samanburði við konur?:
Í svari við fyrirspurn Flokks fólksins um akstursþjónustu kemur fram að við greiningu á notendum akstursþjónustunnar á tímabili jan. til júní., kom í ljós að 17% eru karlar en 83% eru konur. Óskað er eftir upplýsingum um af hverju þessi mismunur er svo mikill, hvað liggur þarna til grundvallar. Gert er ráð fyrir að velferðarsvið hafi velt þessu fyrir sér og kannað ástæður og óskar Flokkur fólksins eftir að fá upplýsingar um það.