Velferðrráð 5. febrúar 2020

Bókun Flokks fólksins við kynningu á  húsnæðismálum fólks með fjölþættan vanda:

Kynnt er húsnæði fyrir heimilislaust fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Fulltrúi Flokks fólksins þakkar hana. Á biðlista eftir húsnæði eru 61. Flokkur fólksins veltir fyrir sér hvar þessi aðilar eru og hver sé staða þeirra nú sem og hvort það geti verið fleiri þarna sem ekki hafa sett sig í samband við þjónustumiðstöðvar. Hugmyndafræðin Húsnæði fyrst (Housing First) er góð. Húsnæði fyrst snýst um að allt fólk eigi rétt á húsnæði og geti haldið því með einstaklingsbundinni nærþjónustu undir formerkjum skaðaminnkunar.  Til langs tíma hefur þessi hópur fólks verið jaðarsettur í samfélaginu og of hægt í of langan tíma hefur gengið að finna bestu lausnirnar fyrir þennan hóp. Þróunin hér á landi er í rétta átt.

Fyrirspurnir Flokks fólksins um þá 61 einstakling á biðlista eftir húsnæði sem eru með miklar og flóknar þjónustuþarfir:

Kynnt er húsnæði fyrir heimilislaust fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Flokkur fólksins hefur spurningar í því sambandi. Á biðlista eru 61. Hver er staðan þeirra í dag? Spurt er hvort geti verið að það séu fleiri þarna úti sem ekki er vitað um, t.d. einhverjir sem ekki hafa getað sett sig i samband við þjónustumiðstöðvar og Vorteymið? Liggur fyrir hvenær þessir 61 aðili fái tryggt og varanlegt húsaskjól?

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 5. febrúar 2020, um breytingu á reglum um sérstakan húsnæðisstuðning:

Velferðarráð leggur til að samþykktar verða breytingar frá 1. jan. 2020 í kjölfarið á breytingum á reglugerð nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur. Þetta er eðlilegt framhald þar sem ráðherra breytti frítekjumörkum vegna húsnæðisbóta þá er Reykjavík að breyta frítekjumörkum vegna sérstaks húsnæðisstuðnings svo að samræmi sé á milli flokkanna. Þó það sé ákveðin skynsemi fólgin í því að láta frítekjumark vegna sérstaks húsnæðisstuðnings hækka um sömu prósentu og frítekjumark vegna húsnæðisbóta þá þarf að athuga hvort ef til vill sé tilefni til að borgin gangi lengra í þessum efnum en leiðbeiningar ráðherra gera. Það má kannski tala samhliða þessu um annað sem þarf að bæta í málaflokknum, kannski mætti hækka fjárhæð stuðningsins(hann er núna 1.000 kr. fyrir hverjar 1.000 kr. sem viðkomandi fær í húsnæðisbætur), bæta umsóknarferlið eða endurskoða matsviðmið fyrir þörf á sérstökum húsnæðisstuðningi.

Bókun Flokks fólksins við tillögu um menningarkort til öryrkja og breytingatillögu velferðarráðs um að öryrkjar geti fengið menningarkort á sölustöðum þess gjaldfrjálst framvísi þeir staðfestingu á örorku,  svokölluðu örorkuskírteini frá Tryggingastofnun ríkisins:

Flokkur fólksins styður að Reykjavíkurborg komi menningarkorti í hendur þeirra borgarbúa sem jafnframt eru öryrkjar þeim að kostnaðarlausu. Það er mikilvægt fyrir þá að hafa kortið til að framvísa á söfnum, á bókasöfnum og annars staðar þar sem kortið gildir án þess að þurfa að framvísa staðfestingu frá TR. Það er mikilvægt að borgaryfirvöld eigi frumkvæði að ná til öryrkja t.d. með auglýsingum, með því að senda skeyti, póst, hringja eða nota tengilið ef þess er kostur eins og hagsmunasamtök. Umfram allt þarf borgin að eiga frumkvæði að því að finna leiðir til að koma kortinu í þeirra hendur þeim að kostnaðarlausu en bíði ekki eftir að fólk uppgötvi rétt sinn og leiti eftir honum.

Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 5. febrúar 2020, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 18 lið fundargerðar velferðarráðs þann 13. nóvember 2019 um greiningu á tilvísunum sem bíða afgreiðslu í skjólaþjónustu:

Fulltrúi í velferðarráði óskaði eftir greiningu á 452 börnum sem bíða eftir fyrstu sérfræðiþjónustu skólaþjónustunnar  og 307 börnum  sem bíða eftir framhaldsþjónustu. Af þessum börnum eru mest sláandi tölur barna sem bíða eftir þjónustu sálfræðings en þau eru 224  í grunnskóla og 111 leikskólabörn bíða eftir þjónustu talmeinafræðings. Miklar áhyggjur eru af börnum sem bíða eftir talmeinafræðingi því fái þau ekki þjónustu fljótt er hætta á að vandinn fylgi þeim áfram. Börnin (307) sem bíða eftir “frekari” þjónustu hafa fengið  “skimun” en þurfa meiri þjónustu.   Þetta fyrirkomulag er erfitt því börn fara af einum biðlista yfir á annan innan skólakerfisins. Þegar biðlista grunnskóla líkur tekur við hjá sumum börnum biðlisti inn á aðrar stofnanir. Efla mætti samvinnu milli  yfirstjórnar skólaþjónustunnar í borginni og  annarra stofnanna og einnig  yfirstjórnar og heilsugæslu og þá sérstaklega samvinnu við heilsugæslulækna. Sum þessara mála þurfa aðkomu bæði sálfræðinga og lækna. Það er orðið knýjandi að meirihlutinn í borginni taki betur utan um þennan málaflokk. Fjölgun hefur aukist um 23% á milli ára og fjölgun kemur ekki til af engu. Bak við hverja tilvísun eru börn sem glíma við vanda og líður illa.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu lykiltalna janúar – nóvember 2019:

Lagðar eru fram lykiltölur fyrir jan-nóv 2019. Einhverjar tölur hafa lækkað en aðrar hafa hækkað. Nánast allir liðir undir fjárhagsaðstoð hafa hækkað og sumt um rúmlega 40%. Hvað segir þetta? Þetta segir að þeir sem ekki geta framfleytt sér og sínum fer fjölgandi. Fleiri þurfa fjárhagsaðstoð. Biðlistatölur sem ekki hafa lækkað er t.d.: bið eftir húsnæði fyrir fatlað fólk; félagsleg heimaþjónusta; liðveisla og tilsjón. Lengsti biðlistinn er bið barna eftir skólaþjónustu, þ.e. sérfræðiþjónustu skóla. Hér eru um margra mánaða bið að ræða. Það þarf ekki ríkt hugmyndaflug til að láta sér detta í hug hversu illa þetta fer með börn og foreldra þeirra. Vandi barns hverfur oftast ekki  á meðan beðið er. Foreldrar í þessari stöðu kljást oft við kvíða og streitu og þeir foreldrar sem eru efnalitlir og geta ekki leitað til fagfólks utan skólaþjónustu upplifa iðulega jafnvel  vanmátt.  Snúist málið um náms- og/eða hegðunarvanda getur barnið dregist aftur úr í námi og mörg hver ná aldrei að vinna upp forskot jafnaldra. Félagsleg staða barnsins getur hríðversnað og sjálfsmynd þess skaðast.