Borgarráð 7. nóvember 2019

Tillaga um að velferðarráð bregðist við breyttum lögum með því að aðlaga viðmið sín til þess að leiga hækki ekki hjá Félagsbústöðum

Lagt er til að velferðarráð bregðist við breyttum lögum frá því í sumar um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar, þar sem dregið var úr tekjutengingu sérstakrar uppbótar, með því að breyta viðmiðum sínum til þess að húsnæðisstuðningur Félagsbústaða til örorkulífeyrisþega lækki ekki eins og nú hefur verið gert og hefur leitt til þess að leiga fjölmargra öryrkja hefur hækkað umtalsvert.

65% af tekjum örorkuþega hafa nú áhrif á útreikning sérstakrar uppbótar í stað 100 prósenta. Breytingar gilda frá áramótum en voru lögfestar á miðju ári og því fengu öryrkjar leiðréttinguna greidda afturvirkt 1. ágúst síðastliðinn. Þær auknu tekjur sem frumvarpið skilar örorkulífeyrisþegum hafa þurrkast út í mörgum tilfellum vegna þess að Félagsbústaðir skerða húsnæðisstuðning til leigjenda vegna aukinna tekna. Við þessu hefur borgarmeirihlutinn og velferðarráð ekki brugðist. Það hefur því gerst að Félagsbústaðir hafa lækkað sérstakan húsnæðisstuðning hjá öryrkjum sem fengu þessa leiðréttingu bóta og er því fólk að borga mun hærri leigu.

Bókun Flokks fólksins við 2. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 6. nóvember 2019 er varðar áæltun borgarlínu:

Hér er verið að tala um áætlun til 15 ára sem minnir á að mörg ár eru í borgarlínu. Sjálfssagt er að gera áætlanir en það þýðir ekki að hunsa megi núverandi umferðarvanda sem þyngist með hverjum degi. Segja má að skipulagsyfirvöld hafi misst sig dálítið of langt inn í framtíðina og samhliða gleymt hver staðan er í dag og verður a.m.k. næstu árin. Núna er umferðaröngþveiti mikið á þessu svæði. Skipulagsyfirvöld hafa ekkert reynt að leysa þær. Fjölmargt er hægt að gera strax með því að koma t.d. upp snjallstýringu ljósa. Þetta er ólíðandi aðstæður fyrir alla, ekki síst fyrir þá sem vinna á svæðinu og eru ekki búsettir í nágrenninu. Umferðarteppur menga. Erfitt er að taka afstöðu til fjölmargra hluta tengt þessu máli, samkeppni um deiliskipulag og þróun samgöngumiðstöðvar enda liggur engin útfærsla fyrir á þessu stigi. Það er sérstakt að þetta vandamál sé ekki ávarpað í umsögn umhverfis- og skipulagssviðs og samgöngustjóra um fimmtán ára samgönguáætlun og fimm ára aðgerðaáætlun 2020-2024 borgarinnar.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Stekkjarbakki Þ73 – breyting á deiliskipulagi til afgreiðslu:

Það er vont til þess að vita að búið sé að auglýsa og samþykkja þessar framkvæmdir áður en búið er að bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunar. Er meiningin kannski bara að hunsa þessar athugasemdir? Við lestur bréfs frá Skipulagsstofnun fer ekki á milli mála að heilmiklar efasemdir eru í gangi, sem dæmi er varðar ljósmagn frá væntanlegri gróðurhvelfingu. Hér eru áhyggjur af ljósmengun. Stofnunin mælir með að leitað verði afstöðu Heilbrigðiseftirlits um viðmiðunarmörk vegna umferðarhávaða fyrir þjónustuíbúðir, fyrirkomulag á fráveitulögnum og önnur atriði. Svo margt annað er óljóst í þessu stóra verkefni og má þar nefna hina umdeildu gróðurhvelfingu Aldin Biodome sem byggja á í Elliðaárdalnum á skipulagsreit. Hverjar eru fyrirætlanir með hana er ekki vitað. Hér er óttast enn eina ferðina enn að borgin sé að taka á sig óheyrilegar skuldbindingar. Borgin ætlar að taka á sig 80% kostnaðar en framkvæmdaraðili 20%? Eins vantar að fá staðfest hvað verður um Gilsbakka sem Minjastofnun leggur til að verði verndað en í deiliskipulagi er talað um að íbúðarhúsið sé víkjandi. Flokkur fólksins vill að haft verði raunverulegt samráð við íbúana en ekki látið duga að hafa 1-2 gervisamráðsfundi. Það verður aldrei sátt um nýtt þróunarsvæði á Stekkjarbakka nema það fari í íbúakosningu.

Bókun Flokks fólksins við reglum um bílastæði fyrir visthæfar bifreiðar í Reykjavík til afgreiðslu:

Flokkur fólksins fagnar allri rýmkun á reglum um heimild til að leggja bifreiðum sem skilgreindar eru visthæfar gjaldfrjálst í 90 mínútur í gjaldskyld stæði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er þó ekki sáttur við öll þessi skilyrði sem umvefja þessar reglur, til dæmis að frítt stæði býðst ekki visthæfum bílum ef þeir eru á nagladekkjum. Stundum er það þannig að fólk verður að setja nagladekk undir bíla sína, til dæmis þeir sem búa í efri byggðum þar sem ófærð er oft meiri og einnig þeir sem eru mikið á faraldsfæti út á landsbyggðinni. Bílaleigubílar verða án efa að vera á nagldekkjum. Hér skipta líf og limir öllu máli. Flokkur fólksins lagði fram tillögu þann 6. júní á þessu ári að Reykjavíkurborg rýmki aftur reglur um hvaða bílar teljist vistvænir og þeir sem það teljast geti lagt frítt í gjaldskyld bílastæði í allt að 90 mín. Skipulagsyfirvöld hafa verið allt of lengi að taka við sér í þessum efnum. Sú var tíðin að sparneytnir bílar (bensínbílar) höfðu þessa umbun en hún var síðan tekin af. Það kom á óvart og telur Flokkur fólksins það hafi verið mistök. Hvetja átti fólk fyrir löngu að hugsa í þessa átt þ.e. fyrst að aka vistvænum, sparneytnum bílum og nú visthæfum bílum (metan og rafmagn) og þannig flýta fyrir orkuskiptum.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Ekki er verið að rýmka reglur um heimild til að leggja bifreiðum sem skilgreindar eru visthæfar gjaldfrjálst í 90 mín í gjaldskyld stæði. Verið er að herða þær reglur verulega. Eftir gildistöku þessara nýju reglna eru færri bifreiðar sem hafa heimild að leggja gjaldfrjálst í 90 mín en áður voru. Samanburður við aðrar borgir sýnir raunar að slíkar ívilnanir eru heldur fátíðar. Um sinn var þó talið réttast að halda ívilnunum áfram en einskorða þær við þá bíla undir 5 metrum sem ganga að fullu fyrir rafmagni eða vetni. Sá kostnaður sem fellur á samfélagið vegna þeirra sem aka á nagladekkjum er óásættanlegur. Notkun nagladekkja er í langflestum tilvikum óþörf innan þéttbýlis og eykur verulega slit á götum og hefur slæm áhrif á loftgæði. Það þarf að vera sameiginlegt markmið okkar allra að bæta loftgæði í þéttbýli þar sem þau hafa áhrif á lífsgæði allra, sérstaklega aldraða, börn og þau sem eru með undirliggjandi öndunarfæra- og/eða hjartasjúkdóma.
 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Nýr borgarfulltrúi, formaður skipulags- og samgönguráðs, man ef til vill ekki eftir því þegar í gangi voru reglur um að sparneytnir bensnínbílar fengu að leggja frítt í stæði í smá tíma í Reykjavík. Borgarfulltrúi Flokks fólksins átti slíkan bíl og gat náð í klukku til að setja í framrúðuna. Síðan gerðist það að þessar reglur voru lagðar af. Í gangi hafa verið reglur er varða einungis rafbíla en engar sem snúa að sparneytnum bensínbílum. Svo hér er nú um einhverja rýmkun að ræða sem vissulega hefði mátt vera mikið meiri enda viljum við að bíleigendur geti ekið bíl sínum niðri í bæ og lagt þar með auðveldum og aðgengilegum hætti. Ef borgarmeirihlutanum er í alvöru annt um lungu fólks ætti að byrja á að losa um umferðarhnúta víðsvegar í borginni, til dæmis með því að snjallvæða ljósastýringar svo flæði verði betra. Þá þurfa bílar ekki að hökta í hægagangi með tilheyrandi útblæstri.

Bókun Flokks fólksins við svar fyrir fyrirspurn Flokks fólksins um LEAN straumlínustjórnun lögð fram 29. ágúst:

Áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins finnst þetta svar koma mjög seint. Fyrirspurnin var lögð fram í ágúst. Flokkur fólksins fagnar því að Lean hafi ekki verið innleitt formlega hjá borginni í heild og engar ákvarðanir teknar um það. Ekki er þar með sagt að Lean kunni ekki að henta einstaka starfsstöðvum en umrædd aðferðaræði er mjög dýr og og hentar engan vegin alls staðar eins og gengur. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst eins og hér sé um ákveðna tískusveiflu að ræða að mörgu leyti. Borgin þarf að varast að gleypa ekki alla strauma og stefnur sem renna fram hjá jafnvel þótt þær hafi verið rannsakaðar og sýnt að virki vel við ákveðna aðstæður. Mannauður borgarinnar er mikill og sérfræðiþekking að sama skapi. Hægt er að reka deild, svið, skrifstofu farsællega með góðan stjórnanda sem hefur góðan stjórnunarstíl án þess að innleiða milljóna aðferðafræði. Treysta þarf fólki t.d. yfirmönnum til að stýra sínum deildum af fagmennsku og alúð án þess að þurfi að fjárfesta endilega í aðkeyptri aðferðarfræði. Oft þarf einfaldlega ekki að leita langt yfir skammt til að finna réttu verkfærin í verkefnastjórnun borgarinnar.

Bókun Flokks fólksins við tillögu velferðarráðs um breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um styrki til náms og verkfærakaupa fatlaðs fólks til afgreiðslu:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst að hækka hefði mátt styrkinn um að minnsta kosti 20.000 krónur. Einnig er ítrekað mikilvægi þess sem snýr að 10 gr. að það verði ákveðið hvert verður hámark þess tíma sem áfrýjunarnefndin hefur til að taka ákvörðun og standi þar „Áfrýjunarnefnd velferðarráðs skal fjalla um umsóknina og taka ákvörðun svo fljótt sem unnt er en eigi síðar en 4 vikum eftir að umsókn berst.“

Að segja aðeins „svo fljótt sem unnt er“ finnst fulltrúa Flokks fólksins of opið. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af tilhneigingu meirihlutans til ofurregluvæðingar. Óþarfa gagna/upplýsinga er oft aflað sem kemur afgreiðslu umsóknarinnar lítið við. Létta má á umsóknarferlinu til muna. Einnig er sjálfsagt að úthlutun sé tvisvar á ári í stað einu sinni á ári. Borgarmeirihlutinn á sífellt að reyna að létta undir með fólkinu í borginni í stað þess að þyngja spor þeirra sem sækja um aðstoð en nógu þung eru þau spor, að minnsta kosti fyrir marga.

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarmeirihlutans um að samþykkja áframhaldandi aðild að verkefninu Nordic Safe Cities með vísan til hjálagðrar tillögu mannréttindastjóra:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar öllu samstarfi sem Reykjavík getur átt við aðrar borgir. Hér er um að ræða norrænt samstarf – Nordic Safe Cities. Samstarf sem þetta getur verið bæði gefandi og lærdómsríkt. Flokkur fólksins fagnar því að samskipti eigi að fara að mestu í gegnum fjarfundarbúnað þannig að hér sé því ekki verið að auka útgjaldalið þegar kemur að ferðakostnaði og dagpeningaútgjöldum borgarinnar sem nógu stór er nú þegar. Um er að ræða 2 fundi á ári sem fara þarf á og finnst borgarfulltrúa mikilvægt að á þá fundi fari almennur starfsmaður sem hefur verið að sinna verkefnum í tengslum við verkefnið en ekki yfirmenn.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um aðkomu að göngubrú yfir Breiðholtsbraut norðan megin

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins hefur verið með vangaveltur um notkun brúar í Breiðholti og komst að því að ekki er hægt að komast upp á brúna nema nánast á fjórum fótum ef komið er norðan megin við Breiðholtsbrautina. Það er vont að geta ekki gengið beint upp frá Mjóddinni og upp á brúna. Markmiðið með byggingu svona mannvirkis hlýtur að vera að það sé aðgengilegt frá báðum endum þannig að það nýtist fólki, einnig þeim sem eru með skerta hreyfigetu.  Stundum er það þannig að þeir sem fengnir eru til að hanna mannvirki af þessu tagi þekkja ekki nægjanlega vel til aðstæðna og til þess hóps sem á að nota það. Kannski finnst engum það tiltökumál að taka á sig sveigju, komandi frá Mjóddinni og velja leiðina með fram Arnarbakka að norðaustanverður, þvera Arnarbakka á einum stað til að komast inn á stíginn sem liggur upp að göngubrúnni sem hér um ræðir. En þetta er sú leið sem fólk þarf að fara samkvæmt svari til að komast upp á brúna, komi fólk frá Mjóddinni. Það virkar kannski einfalt í orðum en er það reyndin?

Fyrirspurn um notkun brúar yfir Breiðholtsbraut í ljósi þess að taka þarf sveigju inn í Arnarbakkan ef komið er frá Mjódd norðanmegin til að koma að brúnni yfir Breiðholtsbraut

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins spyr í framhaldinu af þessu svari um hversu mikið þessi brú er notuð? Komandi frá Mjódd þarf að taka sveigju inn í Arnarbakkann og ganga með fram honum og þaðan inn á stíg til að komast að brúnni. Er talning í gangi? Hafa íbúar Breiðholts verið spurðir hvernig brúin nýtist þeim og hvort þeir séu ánægðir með hana? Þetta er mikilvægt því það er ekki góð hugsun að verið sé að setja milljónir í brúarmannvirki sem ekki er notað nema af litlum hópi. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er einnig að reyna að átta sig á hversu vel heppnað mannvirki hin nýja Breiðholtsbrú almennt séð er. Brúin er e.t.v. ekki á réttum stað, ekki nægjanlega vel hugsuð? Vissulega nota einhverjir þessa brú en eru undirgöngin neðar kannski meira?

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögunnar um að fulltrúi leigjenda taki sæti í stjórn húsfélagsins á Lindargötu 57-66

Tillögunni hefur verið vísað frá og sagt að þetta sé ekkert á forræði borgarinnar. Borgarmeirihlutinn hefur hvorki kjark né þor til að bera tillöguna upp til atkvæða. Allt er þetta sérkennilegt þar sem formaður velferðarráðs, sem sæti á í borgarráði á einnig sæti í stjórn Félagsbústaða svo hæg ættu nú heimatökin að vera. Borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði til að fulltrúi leigjenda taki sæti í stjórn húsfélagsins á Lindargötu 57-66. Borist hefur umsögn frá Félagsbústöðum. Í svari segir að rétt sé að beina tillögunni til stjórnar húsfélagsins á Lindargötu. Þetta svar kemur reyndar einnig á óvart þar sem á fundi síðasta húsfélags stýrði framkvæmdarstjóri Félagsbústaðar fundi sem borgarfulltrúa finnst hljóti að vera merki um hvar valdið liggur. Minna skal á að Félagsbústaðir eru í eigu borgarinnar. í húsfélögum þar sem langflestar íbúðir eru í eigu Félagsbústaða eða eins og í þessu tilfelli 81 íbúð á meðan aðeins 13 eru í einkaeigu er enginn fulltrúi leigjenda en fulltrúi þeirra 13 sem eiga íbúð í einkaeigu, eiga sinn fulltrúa í stjórn. Það væri eðlilegur ferill og sanngirnismál að Félagsbústaðir tryggi fulltrúa leigjenda 81 íbúða Félagsbústaða setu í stjórn. Það ætti að vera metnaður að sýna leigjendum Félagsbústaða þá virðingu að bjóða þeim sæti í stjórnum húsfélaga.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um stofnun húsfélaga í fjölbýlishúsum í eigu Félagsbústaða:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði til að stofnuð verði húsfélög í fjölbýlishúsum í eign Félagsbústaða. Tillögunni hefur verið vísað frá og sagt að þetta sé ekkert á forræði borgarinnar. Í svari eða umsögn segir að verið sé að skoða að auka áhrif og samstarf við og sé það í skoðun hjá undirbúningsnefnd. Það er jákvætt. Með stofnun húsfélags þar sem leigjendur eiga sæti getur sá fulltrúi gætt hagsmuna leigjenda í stjórn húsfélagsins. En fyrsta skrefið er vissulega að stofna húsfélagið. Það er ekki aðeins lýðræðislegt heldur einnig sanngjarnt að stofnuð verði húsfélög og að fulltrúi leigjenda eigi þar sæti til að tryggja enn frekar að rödd leigjenda heyrist. Þetta er ein helsta leiðin til að tryggja aðkomu leigjenda að málefnum íbúðanna s.s. nauðsynlegs viðhalds þeirra og tryggja aðkomu, þátttöku og áhrif þeirra á málefnum sem snúa að íbúðunum og sameigninni almennt séð. Þetta er líka leið til að sýna að Félagsbústaðir sem fyrirtæki borgarinnar sýni leigjendum tilhlýðilega virðingu og traust.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um notkun fjarfundabúnaðar til að fækka utanlandsferðum:

Það er mikilvægt að allir fundir, fjarfundir sem og aðrir fundir séu skráðir hjá borginni. Öðruvísi er ekki nokkur leið að hafa heildarsýn á samskiptum borgarstarfsmanna innbyrðis eða út á við ( innanlands eða erlendis) og kostnað í sambandi við það. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er að reyna að átta sig á hvort notkun fjarfunda er að aukast og mögulega spara borginni fjölda utanlandsferða. Fram kemur í svari að ekki séu teknar saman upplýsingar um fjölda fjarfunda og því ekki unnt að svara spurningunni. Ef fundir af öllu tagi eru ekki skráðir hvernig á þá að vera hægt að átta sig á hvort fjarfundir eru yfir höfuð að koma í staðin fyrir fundarferðir erlendis? Þar sem svarið er ófullnægjandi vill borgarfulltrúi Flokks fólksins reyna að snúa spurningunni við og spyrja þá frekar um fjölda ferða erlendis, hversu margir, hverjir og í hvaða tilgangi voru farnar ferðir erlendis.

Lögð fram svohljóðandi framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins vegna ófullnægjandi svars borrgarritara er viðkemur fjarfundum og hvort og þá hversu mikið þeir leysa af utanlandsferðir vegna funda og ráðstefna:

Þar sem ekki var hægt að svara fyrirspurninni um fjölda fjarfunda sem mögulega voru að koma í staðinn fyrir ferðir á fundi erlendis er spurt um fjölda ferða erlendis á vegum borgarinnar síðastliðin 2 ár? Hversu margir starfsmenn, embættismenn og borgarfulltrúar hafa sótt fundi erlendis síðastliðin 2 ár og í hvaða tilgangi voru þeir fundir? Fjarfundir eru ekki skráðir en ferðir á fundi erlendis eru vissulega skráðar. Óskað er sundurliðunar eftir störfum (embættismenn, yfirmenn, borgarfulltrúar, aðrir), eftir sviðum, deildum, skrifstofum og eftir tegund og eðli funda, lengd ferðar og fleira sem þessu viðkemur. Gott er að fá upplýsingar um meðaltal ferða og loks sundurliðunar kostnaðar svo og hvers vegna ekki var notast við fjarfundabúnað frekar en að taka ferðina á hendur?