Velferðarráð 20. nóvember 2019

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við kynningu á Grettistaki:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar kynninguna um Grettistak og veit til þess að Grettistak hefur hjálpað mörgum. Ekki komast allir í prógrammið sem vilja og geta vegna mikillar aðsóknar. Synja þurfti 25 einstaklingum í sumar. Úr þessu er mikilvægt að bæta til að fleiri geti notið góðs af prógramminu. Þótt Grettistak sé sannarlega að hjálpa mörgum er engu að síður mikilvægt að gera  árangursmat á því en aðeins eru til gamlar rannsóknir á árangri. Nýleg þjónustukönnun er til en mikilvægt er að gera sambærilega rannsókn og gerð var 2011 og 2013 til að hægt sé að gera marktækan samanburð á árangri.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við svari sviðstjóra við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um lista yfir ferðir starfsmanna og kjörinna fulltrúa síðustu þriggja ára og upplýsingar um kostnað borgarinnar í því sambandi:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið og er vel kunnugt um ferðareglurnar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það mikilvægt að orð og verk fari saman hjá þessum meirihluta en sífellt er verið að boða að draga úr kolefnissporum. Ferðalög erlendis eru mörg slík spor. Þess utan vantar sviðið fé til að taka á biðlistum og margt annað þarf að gera til að bæta þjónustu við börn og aðra hópa. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að horfa þurfi á þetta allt í samhengi. Kostnaður sem hlýst af ferðum t.d. skoðunarferðum er mikill og skilur oft ekki mikið eftir sig nema reynsluminningar í huga þess sem fer ferðina. Hvað varðar fundi og fræðslu má vissulega nota tæknina mun meira til að halda góðu sambandi við fagfólk erlendis.  Árið 2017 og 2018 voru dýr ár hvað þetta varðar hjá sviðinu. Allt of dýr. Ekki má gleyma að þetta er tekið af útsvarspeningum borgarbúa.  Samtals fyrir þessi tvö ár var eytt um 10 milljón í alls konar ferðir erlendis á vegum sviðsins.  Fyrir þennan pening hefði mátt ráða t.d. sálfræðinga í skólum til að vinna niður biðlistana.