Velferðarráð 1. apríl 2020

Bókun Flokks fólksins við framlagningu lykiltalna – árstölur 1.2. 2020

Fulltrúa Flokks fólksins finnst erfitt að sjá hvað biðlistatölur hreyfast lítið. Eftir húsnæði fyrir fatlað fólk bíða 142 og munar um tvo frá síðasta yfirliti. Biðlistinn eftir félagslegri heimaþjónustu er sá sami eða 202. Enn bíða 674 eftir þjónustu sérfræðinga skóla, rúmlega 400 börn eftir fyrstu þjónustu og um 250 eftir frekari þjónustu. Á næsta fundi borgarstjórnar mun borgarfulltrúi Flokks fólksins leggja fram enn eina lausn til að taka á þessum málum. Lagt verður þá til að skóla- og velferðaryfirvöld leiti eftir formlegu samstarfi skólaþjónustu og Þroska- og hegðunarstöðvar til að tryggja skjótari þjónustu og stytta biðlista. Þannig verður hægt að vinna saman að málum barna þar sem aðkoma barnalæknis er nauðsynleg. Með samstarfinu er börnum hlíft við lengri bið á biðlista eftir sérfræðiþjónustu. Samstarfið skal snúa að þeim málum þar sem við skimun hefur komið í ljós að sterkar vísbendingar eru t.d. um ADHD með tilheyrandi fylgikvillum. Þessi hópur barna fengju þar með greiningu og viðeigandi meðferðarúrlausn fyrr. Með samstarfi þessara tveggja þjónustustofnana myndu biðlistar styttast. Ástandið í þessum málum í dag er slæmt. Börn sem þurfa aðstoð sérfræðinga skóla eru mánuðum saman á biðlista.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um frístundakort:

Tillaga Flokks fólksins, sem er ein af mörgum um frístundakort, er lögð fram hér og er um að aftengja það fjárhagsstöðu foreldra. Henni var vísað til veðferðarráðs frá menningar-, íþrótta- og tómstundaráði. Tillagan hefur nú verið felld en í rauninni er hún samt samþykkt sbr. breytingin í 16. gr. a og b. í reglum um fjárhagsaðstoð. Þetta er tillaga sem Flokkur fólksins hefur lagt fram í mörgum myndum, mál sem borgarfulltrúi hefur barist lengi fyrir. Tillögunni var vísað í starfshóp um sárafátækt og fór þaðan áfram inn í breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð. Nú finnst borgarfulltrúa því tímabært og eðlilegt að tillagan um frístundarkort sem nú liggur fyrir og kemur frá menningar og tómstundaráði að þessu sinni verði samþykkt formlega. Úrfelling skilyrða um frístundarkort í 16. gr. væri ekki veruleiki nema vegna tillögu og baráttu Flokks fólksins fyrir málinu. Borgarfulltrúi hefur mætt alls kyns mótlæti með þetta mál og skemmst er að minnast viðtals við yfirmann þjónustumiðstöðvar 20. febrúar sl. þar sem hreinlega var gert lítið úr borgarfulltrúa Flokks fólksins með því að segja að frístundarkortið kæmi hvergi nærri fjárhagsaðstoð. Hér voru útúrsnúningar og reynt að villa um jafnvel þótt vel væri að vitað að hér var auðvitað verið að tala um fjárhagsaðstoð vegna barns enda hvernig ætti frístundakort annars að koma við sögu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Tillögunni var vísað til stýrihóps um aðgerðir gegn sárafátækt barna og var hluti af þeim tillögum sem lagðar voru fram í áfangaskilum hópsins. Efni tillögunnar hefur því ratað inn í breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð. Fulltrúar meirihlutans kannast ekki við að hafa staðið í vegi fyrir þessu breytingum og frábiðja sér allar dylgjur um slíkt.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Flokkur fólksins lagði þessa tillögu fram fyrir ári síðan og hefur ítrekað eftir það borið málið upp í alls kyns formi á ýmsum stöðum. Dæmi voru um að borgarfulltrúi varð fyrir háði og spotti og meðal annars virtist meirihlutinn oft eiga erfitt með að skilja út á hvað þetta gekk utan einn sem er formaður skóla- og frístundarráðs. Nú ætti meirihlutinn að sjá sóma sinn í að samþykkja þessa tillögu sem tillögu Flokks fólksins enda væri þetta ekki komið inn í breytingar á fjárhagsaðstoð nema vegna þessarar baráttu borgarfulltrúa Flokks fólksins. Þetta má sjá í fjölda gagna, skrifa og viðtala.

 

Bókun Flokks fólksins við kynningu á verkefninu Betri borg fyrir börn

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar kynninguna á verkefninu Betri borg fyrir börn og sýnist verkefnið ætla að verða metnaðarfullt og fela í sér fjölmarga þætti, kannski of marga? Það hefði verið gott að fá þessa kynningu fyrirfram til að geta lagst yfir hana og þá komið með viðbrögð, ábendingar, frekari hugmyndir um útfærslur eða annað. Fulltrúa Flokks fólksins finnst erfitt að ná utan um þetta í svona yfirferð og t.d. að átta sig á hlutverki nýs fagstjóra eins og því er lýst. Þegar verið er að búa til nýja stöðu kemur stundum upp sú hugsun hvort boðleiðir lengist og verði flóknari. Markmiðið er að einfalda en það á eftir að koma í ljós hvort það markmið náist. Í nýju verkefni er auðvelt að segja hvað á að gera en síðan er þetta allt spurning um hvernig, hver verður forgangsröðunin, hverjar eru helstu áherslurnar t.d. þegar daglegt líf kemst aftur í sitt venjulega horf eftir C-19?

Bókun Flokks fólksins við svari og afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að leita orsaka af hverju munur er á þeim sem sækja um fjárhagsaðstoð og þeirra sem hana fá, 50% sóttu um en 40% fengu.

Flokkur fólksins lagði til að leitað yrði orsaka þess af hverju munur er svo mikill á þeim sem sækja um fjárhagsaðstoð og fá hana síðan. Í ljósi þess að fram hefur komið í svörum að á hálfs árs tímabili sóttu 51% barnafjölskyldna um fjárhagsaðstoð en aðeins 41% fékk aðstoðina. Velferðarsvið hlýtur að vilja vita hverju þetta sæti. Tillagan hefur verið felld. Í svari segir að þetta sé umfangsmikil könnun og verið sé að breyta reglunum. Flokkur fólksins fyndist réttar að í stað þess að fella tillöguna mætti setja hana í geymslu eða gera á henni skemmri skírn síðar þegar um hægist. Þetta mál er vissulega ekki brýnt núna en með því að fella tillöguna er í raun verið að segja að svona upplýsingar eru óþarfar? Við getum öll grætt á upplýsingum en þegar tillagan var lögð fram var vissulega ekki vitað að nú þegar hún loksins kemur fram á fundi að heimurinn væri í miðjum Covid 19 faraldri.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra velferðarsviðs að reglum um fjárhagsaðstoð

Fulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að hér sé ekki um heildarskoðun á reglunum að ræða og fara þær núna í umsagnarferli. Það eru margar góðar breytingar í reglum um fjárhagsaðstoð og þá er það fyrst að nefna tillögu Flokks fólksins að ekki sé lengur skilyrði fyrir aðstoð að umsækjandi nýti sér fyrst rétt sinn samkv. frístundarkorti í 16. gr. a og b. Flokkur fólksins hefur barist fyrir þessu í meira en ár með ýmis konar útfærslum á tillögum, fjölda bókana og greinarskrifum. Í nýjum reglum er oft komið inn á einstaklingsáætlun og þá er mikilvægt að hægt sé að sjá hvernig sú áætlun sé unnin og að hún sé unnin í samráði við einstaklinginn enda áætlun um hann sjálfan og að hann hafi val? Aðrar vangaveltur fulltrúa Flokks fólksins snúa að greiðslum hjá t.d. sálfræðingum en talað er um að fjölda tíma en kostnaður á tíma er mismunandi og getur munað talsvert miklu. Það einfaldar hlutina að hafa ákveðna upphæð sem viðkomandi hefur til ráðstafana. Í minnisblaði með drögum kemur fram að haft hafi verið notendasamráð og sjá má að eitt og annað hefur verið rætt en sem sést ekki beint hvernig skilaði sér inn í breytingarnar.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra velferðarsviðs um rekstur hjúkrunarheimilis um samstarf við ríkið:

Tillaga sviðstjóra velferðarsviðs um samvinnu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og ríkisins um rekstur hjúkrunarheimilis fyrir fólk með flóknar þjónustuþarfir er lögð hér fram og að stofnað verði til viðræðna við heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið vegna reksturs 10-15 hjúkrunarrýma fyrir heimilislausa einstaklinga með fíknivanda. Samtal er til alls fyrst og vonandi leiða samræður til góðs. Gera má ráð fyrir að ef næst samkomulag þá geti það tekið amk. 2-3 ár að koma á laggirnar hjúkrunarrými. Staðan í dag er alvarleg. Borgarfulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvar þessir einstaklingar eru t.d. núna í miðjum Covid 19 faraldrinum. Sumir voru án efa vanir að koma í hin ýmsu úrræði eins og dag-göngudeildir, hvíldar- og afþreyingastaði hagsmunasamtaka og heilbrigðisstofnanna sem nú eru lokuð. Einhverjir hafa e.t.v. ekki í nein hús að vernda, eru veikir, einmana og einangraðir og hafa nú e.t.v. ekki lengur nein afdrep, athvörf, þar sem þeir geta notið félagsskapar, tekið þátt í hópastarfi, verkefnavinnu og afþreyingu af ýmsu tagi og fengið mat. Aðstæður eru sérlega erfiðar nú fyrir þennan hóp vegna Covid 19 þar sem flestar dag- og dægradvalir eru nú lokaðar.

Bókun Flokks fólksins fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um húsnæðisbætur, kostnað þess ef leiga hefði haldist óbreytt þrátt fyrir tekjuhækkun:

Svar liggur nú fyrir við fyrirspurn Flokks fólksins um heildarkostnað Reykjavíkurborgar ef tekið væri mið af auknum tekjum lífeyrisþega. Þetta mál má rekja til þess að dregið var úr skerðingum á sérstakri uppbót á lífeyri með lagabreytingum sl. sumar. Hér var Flokkur fólksins að leita eftir upplýsingum um stöðuna ef upphæð húsnæðisstuðnings þessa hóps héldist óbreyttur þrátt fyrir tekjuaukninguna. Forsaga málsins er sú að síðastliðið sumar var lögum breytt um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar, þar sem dregið var úr tekjutengingu sérstakrar uppbótar, 65% af tekjum örorkuþega höfðu áhrif á útreikning sérstakrar uppbótar í stað 100 prósenta. Leiga fjölmargra öryrkja hækkaði umtalsvert og hafa því þær auknu tekjur sem frumvarpið skilar örorkulífeyrisþegum þurrkast út vegna þess að Félagsbústaðir skertu húsnæðisstuðning til leigjenda vegna aukinna tekna. Flokkur fólksins vill bóka við þessu svari að um 1.123 manns fengu lægri húsnæðisstuðning en ella, vegna leiðréttar sérstakrar uppbótar. Það hefði aðeins kostað Reykjavíkurborg 18 milljónir að horfa fram hjá þessu, varla dropi í hafið, en mikil búbót hjá yfir 1.000 manns. Enda þótt styðjast megi við lögfræðilega hlutann þá er það siðferðislega ámælisvert að bregðast ekki við þessu með hagsmuni fólksins að leiðarljósi. Engin lagaleg fyrirstaða er fyrir að aðstoða meira en núverandi regluverk gerir ráð fyrir.