Skipulags- og samgönguráð 20. maí 2020

Bókun Flokks fólksins við liðnum Samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda

Reykjavíkurborg óskaði eftir að fá greiningu EFLU verkfræðistofu á gögnum úr ferðavenjukönnun meðal íbúa borgarinnar.  Efla nefnir reyndar orkuskiptin og rafmagnsbíla í sinni skýrslu en segir að þrátt fyrir að hlutfall rafmagnsbíla eykst þá muni það taka langan tíma að breyta samsetningu bifreiðaflotans og skýrist það af löngum líftíma bíla. Ekkert er minnst á metan bíla. Hraða má  orkuskiptum enn meira ef borgaryfirvöld myndu t.d. liðka enn meira um reglur og bjóða frekari ívilnanir. Því fleiri mentan- og rafmagnsbílar sem koma á götuna því minni losun og hvað varðar metani, því meira sem það er nýtt því minna er sóað af því. Beinn eða óbeinn stuðningur frá borgaryfirvöldum til að hvetja fólk til að skipta yfir í rafmagn og metan myndi flýta skiptunum. Fólk væri frekar tilbúið til að skipta ef t.d. það gæti verið visst um að metanverðið haldist óbreytt sem nemur líftíma bíls. Bílum er að fjölga og nú eftir að slakað hefur verið á samkomubanni er umferðin orðin jafn þung og fyrir Covid-19. Allir streyma niður í bæ að morgni og úr bænum síðla dags. Engin umferð er á móti. Starfsstöðvar eru flestar miðsvæðis og á meðan ekki næst jafnvægi milli búsetu og vinnustaða þá leysist umferðarvandinn aldrei fyrir alvöru.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Nagladekkjatalningar í Reykjavík:  

Kynntar eru niðurstöður mælinga á hlutfalli bifreiða á nagladekkjum í Reykjavík veturinn 2019-2020. Gott hefði verið ef kynning hefði fylgt með í fundargögnum.  En horfast þarf í augu við að vetur á Íslandi er oft mjög snjóþungir. Borgarbúar og landinn er mikið á ferðinni, borgarbúar eru e.t.v. upp til hópa á faraldsfæti vetur jafnt sem sumur. Líf og heilsa fólks skiptir aðal máli og staðreyndin er sú að sé ferðalangur að fara t.d. út fyrir borgina yfir hávetur dugar fátt annað en að vera á nagladekkjum. Að nagladekk spæni upp malbiki er ef til vill ofmetið?  Sennilega fer það eftir tegund nagla? Gott væri að fá hlutlausa athugun á þessu og niðurstöður í kjölfarið. Leiða má líkur á því að nákvæmlega sami hluti bíla sé á negldum dekkjum í Hvalfjarðargöngum og í Reykjavík.  En malbikið í Hvalfjarðargöngum þarf aðeins að endurnýja á um 20 ára fresti, en endingartími malbiks í Reykjavík er mun styttri. Mismunurinn hefur verið skýrður með mismunandi malarsteinum í malbikinu. En Reykjavík hefur ekki nýtt þessa reynslu eftir því sem næst er komist. Negldur dekkjabúnaður hefur bjargað mörgum lífum. Fólk er ekki að leika sér að því að vera á nagladekkjum, bara til að skemma malbik.

 

Bókun Flokks fólksins við Hjólreiðaáætlun 2021-2025, stofnun stýrihóps:

Það sem sá stýrihópur sem hér um ræðir verður að gera er að huga að reglum á blönduðum stígum. Oft hefur legið við stórslysum á blönduðum stígum. Að leggja stíga, blandaða stíga sérstaklega fylgir ábyrgð að öryggi þeirra sem eiga að nota hann verði sem best tryggt. Setja þarf hámarkshraði hjóla á göngu- og hjólastígum og aðliggjandi gangstéttum til að tryggja öryggi hjólandi og gangandi. Flokkur fólksins bendir jafnframt á að tilefni kann að vera til að auka eftirlit með umferð á blönduðum stígum vegna t.d. mikillar umferðar á rafknúnum vespum, raf-hlaupahjólum og öðrum minni vélknúnum faratækjum. Á sínum tíma var lögð lína þar sem gangandi fengu tvo metra og hjól einn metra. Sú lína er ekki lengur þar sem umferð á stígum hefur aukist mikið. Í hjólreiðaáætlun er markmiðið að aðskilja gangandi og hjólandi umferð frá meginstofnleiðum borgarinnar. Þetta tekur mörg ár. Nú myndast iðulega vandræða- og hættuástand á blönduðum stígum. Fólk er hvatt til að hjóla en aðstæður fyrir hjólandi og gangandi eru bara víða ekki góðar. Þar sem hægt er að hafa línu til að aðskilja gangandi og hjólandi þá ætti hún að vera til staðar. Skipulagsyfirvöld voru of fljót á sér að fræsa línuna í burtu og halda að skilti duga. Sums staðar hefur línan verið látin eyðast.

 

Bókun Flokks fólksins við Vogabyggð svæði 1, breyting á skilmálum:

Lögð er fram umsókn THG Arkitekta ehf. dags. 22. apríl 2020 varðandi breytingu á skilmálum deiliskipulags Vogabyggðar svæðis 1.
Flokkur fólksins telur að hafi þessi breyting ekki neikvæð áhrif á gæði eigna nágranna er hún í lagi. Breytingin mun eflaust auka gildi þeirra eigna sem um ræðir. En það væri gott að fá útskýringu á hvað er átt við með B-fermetrum?

Bókun Flokks fólksins við liðnum Vogabyggð svæði 3, deiliskipulag miðsvæði.
Kynnt eru drög að kynningu fyrir nýtt deiliskipulag á svæði 3 í Vogabyggð, dags. 14. maí 2020.  

Samkvæmt þeim teikningum sem hér eru sýndar er ekki að sjá að þetta séu mjög þróaðar hugmyndir en grunnhugmyndin er sannarlega góð. Það er  spurning hvort áhersla ætti að vera svona mikil á að halda í hverfisímynd iðnaðarhverfis sem er ekki er beinlínis hrífandi sem íbúabyggð. Einhvern milliveg þarf að fara en auðvitað fer þetta eftir því hvers kona iðnaðstarfssemi fólk velur að hafa þarna, smá- eða stórgerðan iðnað.  Húsin munu aðlöguð að nýju hlutverki og við þá aðlögun er óumflýjanlegt og einfaldlega eðlilegt að upprunaleg heildarmynd svæðisins breytist og ásýndin þar með að einhverju leyti. Fulltrúa Flokks fólksins finnst vanta möguleika fyrir þá sem vilja hugsanlega einbýli, fyrir þá sem vilja reka stórgerðari iðnað sem þyrfti meira rými og stærra svæði fyrir utan hjá sér. Af myndum að sjá eru þetta smávegis eins og verið sé að stafla fjölskyldum saman, fólk sem þarf að koma sér saman eins og fram kom í kynningu, en um hvað? Verið er að koma sem flestum fyrir á sem minnsta blettinum en engu að síður á fólk að geta haft atvinnustarfssemi þarna. Sýnt þykir að deiliskipulagið hlýtur að vera á frumstigi og vonandi eiga margir eftir að koma að frekari þróun þess.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Hraunbær 103A, breyting á deiliskipulagi:

Hér er verið leggja fram umsókn aðila um að fá að hafa þakgarða á hluta þaks yfir 5. og 7. hæð. Þetta er athyglisverð og jákvæð breyting. Benda má á að þarna ætti að skrá reynslu af þakgörðum, sem gætu nýst í framtíðinni. Fulltrúi Flokks fólksins í skipulags- og samgönguráði hvetur til þess að ef verið er að búa til þak með gróðri ofan á mun það þak verða þungt og gott væri að  skrá niður reynslu af slíku með nákvæmum hætti sem gætu nýst til framtíðar fyrir þá sem vilja gera sambærilega hluti.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Sjómannaskólareitur, kæra:

Það var vitað að það kæmu kærur vegna  Sjómannaskólareitsins. Bakkað var með ákveðna þætti sem var gott en áfram þarf að finna leiðir með fólki til að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Þessi reitur hefur tilfinningagildi fyrir fjölmarga enda einn fallegasti reitur borgarinnar. Hagsmunir eru að þessu sinni vegna mögulegs skuggavarps sem deiliskipulagsbreytingin mun leiða af sér og útsýnisskerðingar yfir Háteigsveg, Hallgrímskirkju og Sjómannaskólann. Í ljósi neikvæðra reynslu af hvernig komið hefur verið fram við hagsmunaaðila miðbæjar í sambandi við götulokanir vill Flokkur fólksins hvetja skipulagsyfirvöld til að hlusta á raddir hagsmunaaðila í þessu máli og frekar að staldra við en að ana áfram á móti straumnum. Enda þótt meirihlutinn hafi bitið í sig að gera ákveðna hluti þá er hann maður að meiri að bakka þegar ákvörðun stríðir augljóslega gegn hagsmunum, hvort heldur fjárhagslegum og tilfinningalegum, fjölda manns.

Bókun Flokks fólksins við fellingu tillögu Flokks fólksins um að settur verði  hámarkshraði hjóla á göngu- og hjólastígum og aðliggjandi gangstéttum til að tryggja öryggi hjólandi og gangandi.

Fellt með 4 greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sitja hjá.

Tillaga Flokks fólksins um hámarkshraða á hjólastígum hefur verið felld í skipulagsráði með þeim rökum að ekki þurfi að auka eftirlit með hjólreiðafólki og að ekki sé minnst á hámarkshraða á hjólastígum í nýjum umferðarlögum og  að ekki sé því ljóst hvort sú heimild sé til staðar eða hver ætti að framfylgja henni. Flokkur fólksins vill benda á að nýju umferðarlögin setja ákveðnar almennar reglur um ökuhraða. Þær reglur gilda gagnvart ökumanns ökutækis.
Reiðhjól teljast til ökutækja, en ökutæki eru skilgreind sem svo: Tæki á hjólum, beltum, völtum, meiðum eða öðru sem ætlað er til aksturs á landi og eigi rennur á spori. Það er því ljóst að almennur 50 km/h hámarkshraði ökutækja gildir um reiðhjól, sbr. 2. mgr. 37. gr. Sá hámarkshraði gildir um ökutæki en ekki ákveðna vegi. Það ber að virða þennan hámarkshraða og það ber að hafa eftirlit með því að hann sé virtur.
Það virðist sem svo að hjólastígar sem ekki liggja samhliða götum falli utan skilgreiningar nýju umferðarlaganna um vegi og því gildi heimild veghaldara til að ákveða hámarkshraða ekki um hjólastíga. Eflaust er um yfirsjón að ræða. Eftir stendur þó að veghaldara er heimilt að ákvarða hámarkshraða á göngustígum. Huga þarf betur að öryggi hjólandi og gangandi á blönduðum stígum.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Ekki er fallist á þau rök að auka þurfi eftirlit með hjólreiðafólki. Ekki er minnst á hámarkshraða á hjólastígum í nýjum umferðarlögum og því ekki ljóst hvort sú heimild sé til staðar, hver ætti að fylgja henni eftir eða hver viðurlögin yrðu. Í nýjum leiðbeiningum sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins og Vegagerðarinnar fyrir hjólastíga kemur fram að hönnunarhraði hjólastíga sé 20 til 40 km á klst.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram óskir um að fá upplýsingar um hvort það sé reglulega borinn saman kostnaður við að nota sterk steinefni t.d. frá Noregi eða veikari íslenska steinablöndu í malbik í Reykjavík 

Flokkur fólksins fýsir að fá upplýsingar um hvort það sé reglulega borinn saman kostnaður við að nota sterk steinefni t.d. frá Noregi eða veikari íslenska steinablöndu í malbik í Reykjavík? Það er mikilvægt  að gæði malbiks séu ávallt þau bestu og ef til vill ætti víðar að notast við sterkari gerð steinefnis í malbikið það sem flutt er inn frá Noregi. Venjulega er notast við sterkara malbik aðeins á mestu umferðargötunum eftir því sem fram kemur í kynningu. Nota ætti sterkara malbikið miklu víðar. Þá verður minna um slit og auknar líkur eru á að dregið verði úr svifryksmengun af völdum slits.

Frestað.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram fyrirspurn um hvort öll verk sem telur tugir milljóna á ári hafi verið boðin út?

Fulltrúi Flokks fólksins hefur tekið eftir því að skipulagsyfirvöld skipta mikið við Eflu, verkfræðistofu. Hér er um að ræða milljónir árlega. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort öll þessi verk hafi verið boðin út? Athuga ber að ekki þarf að ná viðmiði um útboðsreglur innkauparáðs til að geta boðið verk út. Eina sem ávallt ber að hafa í huga er að fara vel með fé borgarbúa. Eins veltir fulltrúi Flokks fólksins því fyrir sér hvort allur sá aragrúi af hámenntuðu starfsfólki borgarinnar geti ekki sinnt einhverjum af þeim verkum sem Efla fær inn á sitt borð? Til hvers er að ráða starfsfólk, hámenntað og fært í flestan sjó ef það fær svo ekki að nýta færni sína vegna þess að verkefni á þeirra sviði eru boðin út? Fyrir þá sem ekki vita og lesa fundargerð skipulags- og samgönguráðs þá er Efla  alhliða verkfræði- og ráðgjafarfyrirtæki sem veitir fjölbreytta þjónustu á öllum sviðum verkfræði, tækni og tengdum greinum. En þetta er einmitt lýsing á starfsgetu og færni margra sérfræðinga á skipulagssviði sem gætu án efa sinnt fjölmörgum verkum sem Eflu er falið.

Frestað.