Borgarráð 27. júní 2019

Tillaga Flokks fólksins að settar verði á laggirnar skipulagðar ferðir frá íbúakjörnum eldri borgara og félagsmiðstöðvum

Flokkur fólksins leggur til að settar verða á laggirnar skipulagðar, reglulegar ferðir frá íbúakjörnum eldri borgara og félagsmiðstöðvum á ýmis söfn og aðra viðburði. Margir eldri borgarar hafa löngun til að sækja sýningar og viðburði en treysta sér ekki til að komast á staðinn eða hafa engan til að fara með. Auk þess er vetrarfærð misjöfn og getur hæglega komið í veg fyrir að fólk treysti sér út úr húsi.

Greinargerð fylgir tillögunni

Finna þarf góða leið til að auglýsa viðburði, til að ná sem flestum í bíl sem áhuga hafa á að sjá sýningu eða fara á viðburð. Margir eldri borgarar hafa einangrast og mikla fyrir sér að taka sér ferð á hendur til að sækja söfn eins og Listasafn Reykjavíkur eða Borgarsögusafnið. Ekki liggja fyrir tölur, hversu margir af þeim,sem sækja ofangreind söfn sem dæmi, eru eldri en 67 ára. Þess vegna er afar mikilvægt, að bjóða eldri borgurum upp á skipulagðar ferðir, á sýningar/viðburði og að það verði gert með reglubundnum hætti, þannig að hægt verði að treysta á, að farið verði örugglega. Ákveðinn hópur eldri borgara eru einmanna og einangraðir en myndu svo gjarnan vilja vera félagslega virkari. Með öruggri akstursþjónustu á sýningar og viðburði er hægt að tryggja að fleiri eldri borgarar njóti félagsskapar og skemmtunar á því sem borgin hefur upp á að bjóða.

Vísað til meðferðar velferðarráðs.

Tillaga Flokks fólksins að Reykjavíkurborg bjóði eldri borgurum að vera sóttir heim og eknir á félagsmiðstöð sína óski þau þess

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að Reykjavíkurborg bjóði eldri borgurum að hringja á félagsmiðstöðina sína og biðja um að láta sækja sig í félagsstarfið. Ef þeir af einhverjum ástæðum geta ekki komið sér sjálfir þann daginn væri akstursþjónusta lykillinn að félagslífi þeirra. En til þess að þetta virki vel, þarf þessi þjónusta að vera tiltæk og að ekki sé nauðsynlegt að panta hana fyrirfram. Viðkomandi er síðan ekið heim eftir á, þegar hann óskar. Hægt er að hafa einhverja lágmarksupphæð fyrir hverja ferð. Möguleiki væri að hanna einhvers konar áskrift á akstursþjónustu. Ítrekaður leigubílakostnaður, væri öldruðum ofviða og væri líklegur til að hindra eða draga úr þátttöku í félagslífi sem væri samt brýn þörf fyrir. Félagslíf eykur virkni og vellíðan og minnkar þörf fyrir lyf svo það er nauðsynlegt að ýta undir félagslífið. R19060229

Vísað til meðferðar velferðarráðs.

Lögð fram  fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins af hverju tillögu um að loka fyrir beygju til vinstri inn á Bústaðaveg var ekki vísað til Vegagerðarinnar 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill spyrja af hverju tillögunni um að loka fyrir beygju til vinstri inn á Bústaðaveg hvern virkan dag frá kl 16 til 18 í tilraunaskyni var ekki vísað til Vegagerðarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og á fundi skipulags- samgönguráðs 26. júní. Tillagan fjallaði um að þar yrðu ljósin tekin úr notkun á þessum tíma. Með slíkri framkvæmd má draga verulega úr töfum vegfarenda á leið sinni suður og norður eftir Breiðholtsbrautinni. Það eru fjölmargir sem styðja þessa tillögu enda myndi þetta geta virkilega leyst úr mjög erfiðum flöskuháls sem þarna myndast. Enda þótt mæling hafi einhvern tímann sýnt að þetta sé ekki til bóta er ekki þar með sagt að það myndi ekki gera það núna. Þetta er eitt dæmi þess að borgarmeirihlutinn virðist einfaldlega ekki vilja gera neitt í umferðarmálum og þráast við þegar koma góðar tillögur til bóta. Er það vegna þess að verið er að gera stöðuna eins erfiða og hægt er til að sýna fram á mikilvægi borgarlínu og útrýma bílnum úr miðbænum? En eitt útilokar ekki annað. Borgarlína kemur ekki á morgun og þangað til er sjálfsagt að grípa til aðgerða strax sem leysir helsta vandann. Borgarfulltrúa finnst borgarmeirihlutinn sýna mikið andvaraleysi og áhugaleysi en vill þessi meirihluti lítið gera fyrir bílaeigendur í borginni. Lágmarksviðbrögð væru að vísa þessum tillögum í vinnu Vegagerðarinnar og Samtök sveitarfélagana á höfuðborgarsvæðinu og er spurt hér af hverju það var ekki gert.

Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

Lögð fram fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvað margar fjölskyldur í Fella- og Hólahverfi glíma við félagslega einangrun og hvað mörg börn í hverfinu eru undir fátæktarmörkum?

Óskað er eftir upplýsingum um hvað margar fjölskyldur í Fella- og Hólahverfi glíma við félagslega einangrun og hvað mörg börn í hverfinu eru undir fátæktarmörkum? Það hefur vissulega verið margt gert og ekki er dregið úr því. Hins vegar má segja að Breiðholti sé einstakt vegna fjölbreytileika. Eins og vitað er hefur félagsleg blöndun mistekist á þessu svæði og þarna búa fjölskyldur og einstaklingar sem hafa einangrast mikið. Þar er fjöldi fátækra barna mestur. Í Breiðholti hefur fátækt fólk einangrast. Í Reykjavík ættu engin börn að þurfa að lifa undir fátæktarmörkum. Ástæðan er ekki sú að ekki sé nægt fjármagn til heldur frekar að fjármagni er veitt í aðra hluti og segja má sóað í aðra hluti á meðan láglaunafólk og börn þeirra og öryrkjar ná ekki endum saman. Það væri því eðlilegt og sjálfsagt að borgin sinnti þessu hverfi sérstaklega. Því vill borgarfulltrúi Flokks fólksins fá þessar upplýsingar til að hægt sé að leggja mat á stöðuna og skoða hvað þarf að gera til að bæta hana komi í ljós að hún sé óviðunandi. Ekki er óeðlilegt að Breiðholtið og þá sérstaklega Fella- og Hólahverfi fái sérstaka aðhlynningu enda mesta fjölmenningin þar í allri Reykjavík.

Vísað til meðferðar velferðarráðs.

Lögð fram fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varða Seljaskóla sem fengið hefur að drabbast niður eins og margir aðrir skólar í Reykjavík

Það er almennt til háborinnar skammar hversu lengi skólabyggingar hafa fengið að drabbast niður í Reykjavík. Seljaskóli er þar engin undantekning. Vandamálin eru víðtæk og öll má rekja til vanrækslu á viðhaldi þessa og síðasta meirihluta í borginni. Það hefur „brunnið“ mest á Seljaskóla í heil 15 ár frá skýrslunni 2004 og svo eftir brunann. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill spyrja borgaryfirvöld eftirfarandi spurninga:
1. Fær skólinn bætt þá innanstokksmuni sem skemmdust í brunanum, bækur, tölvur o.s.frv.
2. Verða húsgögn og búnaður almennt uppfærð?
3. Verður smíðastofan áfram í bráðabirgðahúsnæðinu sem hún fór í fyrir 20 árum? Og með búnaði í Miðbæjarskólanum frá 1950?
4. Verður húsnæði skólans áfram sprungið þar sem enn er ekki búið að klára málin gagnvart teikningunni sem fór af stað eftir ofangreinda skýrslu?
5. Hvenær verður hætt að kenna í 60-70 manna bekkjum? Allt þetta er óboðlegt fyrir nemendur sem og kennara – allof stórar einingar. Óskað er skýrra svara við þessum spurningum hið fyrsta

Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um vanrækslu á umhverfi Árbæjarsafns

Flokkur fólksins er með fyrirspurnir er varða umhverfi Árbæjarsafns. Borist hafa ábendingar um að mikil óhirða er í kringum Árbæjarsafn. Grasið er úr sér vaxið og þétt af fíflum. Húsveggir þarfnast viðhalds. Sjá má glöggt að þarna skortir verulega á viðhald og snyrtingu. Óskað er eftir svörum við eftirfarandi spurningum er varða umhirðu á lóð Árbæjarsafns. 1. Hvaða stofnun/ fyrirtæki sér um umhirðu á lóðum eins og í kringum Árbæjarsafn? 2. Hversu oft er farið og kannað ástand umhirðu á slíkum lóðum? 3. Ef einkaaðilar, þá er spurt hefur verk/eftirlit verið boðið út?

Vísað til umsagnar menningar- og ferðamálasviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um langtímaveikindi starfsmanna sem heyra undir velferðarsviði og skóla- og frístundasviði

Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um langtímaveikindi starfsmanna sem heyra undir velferðarsvið og skóla- og frístundasvið. Óskað er upplýsinga um hve margir starfa á sviðunum hvoru um sig og hversu margir af þeim hafa veikst til langs tíma, annars vegar þeirra sem starfa undir velferðarsviði og hins vegar skóla- og frístundarsviði, helstu ástæður, gróflega flokkað og tímabil veikindanna. Fram hefur komið í fréttum að á árunum 2009-2017 varði Reykjavíkurborg samtals um 5,3 milljörðum (miðað við verðlag 2018) í langtímaveikindi starfsmanna, aðeins á skóla- og frístundasviði.

Vísað til umsagnar velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um skýringar á háum greiðslum til fyrrverandi forstjóra Félagsbústaða

Flokkur fólksins óskar skýringa á háum greiðslu til fyrrverandi forstjóra Félagsbústaða á árinu 2018 en samkvæmt ársreikningi 2018 á bls. 12 nema þær 36.9 milljónum. Var gerður starfslokasamningur við fyrrverandi forstjóra Félagsbústaða? Hafi svo verið er óskað allra upplýsinga sem varða þann samning.

Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um í hvað marga borgara 75 ára og eldri velferðarsvið hefur hringt í til að kanna hvort þeir séu upplýstir um réttindi sín og hvernig þeim líður

Flokkur fólksins óskar eftir upplýsingum um í hversu marga borgara sem eru 75 ára og eldri hefur velferðarsvið hringt í til að kanna hvort viðkomandi er upplýstur um réttindi sín og almennt séð hvernig viðkomandi líður. Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að ýmislegt er reynt til að koma upplýsingum til borgarbúa. En betur má ef duga skal. Of mikið er treyst á netið og að fólk sé almennt nettengt. Það er ekki alveg raunveruleikinn. Fjölmargir eiga ekki tölvu t.d. elstu borgararnir. Leggja þarf meiri áherslu á símtal til fólks og fylgjast með eldri borgurum og öryrkjum hvort allir hafa örugglega fengið upplýsingar t.d. um réttindi sín. Fram kemur að verið er að uppfæra bækling sem gefinn var út árið 2017 og sendur var öllum eldri borgurum 75 ára og eldri um þá þjónustu sem stendur þeim til boða. Nú er árið 2019.

Vísað til umsagnar velferðarsviðs.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að tölvumaður verði ávallt til staðar í Ráðhúsinu þegar fundir eru í gangi

Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir og leggur til að tölvumaður verði ávallt til staðar í Ráðhúsinu þegar fundir eru í gangi. Sýnt hefur að það getur skapast ófremdarástand ef tæknivandamál koma upp á miðjum fundi og ekki er hægt að ná í tölvumann. Slíkt ástand getur leitt til þess að viðkomandi borgarfulltrúi getur ekki komið frá sér málum sínum og bókunum þar sem ekki er hægt að gera það eftir að fundi er slitið.

Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

Fyrirspurn  Flokks fólksins um niðurstöður vinnustaðakönnunar Strætó bs

Flokkur fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um niðurstöður vinnustaðakönnunar Strætó bs. 2019 þar sem sérstaklega var spurt um einelti, áreitni og ofbeldi og sem minnst er á í fundargerð Strætó bs. frá 4. júní og lögð var fyrir borgarráð 27. júní 2019.

Vísað til umsagnar hjá stjórn Strætó bs.

Bókun Flokks fólksins við svari við tillögu um útgáfu auglýsingabæklings og aukna upplýsingagjöf til borgarbúa um réttindi þeirra

Tillagan er felld. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að ýmislegt er reynt til að koma upplýsingum til borgarbúa. En betur má ef duga skal. Of mikið er treyst á netið og að fólk sé almennt nettengt. Það er ekki alveg raunveruleikinn. Fjölmargir eiga ekki tölvu t.d. elstu borgararnir. Leggja þarf meiri áherslu á símtal til fólks og fylgjast með eldri borgurum og öryrkjum hvort allir hafa örugglega fengið upplýsingar t.d. um réttindi sín. Fram kemur að verið er að uppfæra bækling sem gefinn var út árið 2017 og sendur var öllum eldri borgurum 75 ára og eldri um þá þjónustu sem stendur þeim til boða. Nú er árið 2019. Áhugavert væri að vita í hvað marga í þessum aldurshópi hefur verið haft samband við símleiðis?

Bókun Flokks fólksins og Miðflokksins við svari skrifstofustjóra borgarstjórnar og borgarritara, dags. 24. maí 2019, við fyrirspurn um hvernig tekið er á ósiðlegri umræðu starfsmanna Reykjavíkurborgar á opinberum vettvangi, sbr. 66. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. maí 2019

Svarið ber með sér að vísað sé í tiltekna starfsmenn sem vekur furðu þar sem ekkert í fyrirspurninni gefur slíkt til kynna. Það er fullkomlega eðlilegt að kjörnir fulltrúar komi með hinar ýmsu spurningar sem snúa að stjórnsýslunni enda hafa þeir ríkt eftirlitshlutverk. Til að geta rækt það hlutverk sitt verða þeir að geta aflað upplýsinga. Í þessari tilteknu fyrirspurn var verið að spyrja almennt um verkferla ef mál af tilteknum toga kæmu upp. Það er því einkennilegt að breyta almennri fyrirspurn í svar á einstaka starfsmenn. Það er ekki sæmandi þeim sem bera ábyrgð á svarinu að ræða einstök mál starfsmanna þegar verið er að spyrja almennra spurninga. Þá er þess getið í svarinu að starfsmenn á skrifstofum borgarstjórnar, borgarstjóra og borgarritara njóti líkt og aðrir borgarar þeirra grundvallarréttinda sem eru fólgin í tjáningarfrelsinu og þeim er veitt er vernd í Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og alþjóðlegum sáttmálum. Þessi ábending hlýtur þá að eiga við kjörna fulltrúa sömuleiðis þannig að tjáningarfrelsi þeirra sé veitt vernd með sama hætti.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu svars skóla- og frístundasviðs, dags. 20. júní 2019 við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um úttektir í grunnskólum borgarinnar sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. maí 2019. 

Þessi úttektarmál á skólum virðast býsna ruglingsleg. Innra og ytra mat er hluti af lögbundinni skyldu og sýnist borgarfulltrúa Flokks fólksins á öllu að skólar eru að vinna sínar innri úttektir vel enda mikil vinna ásamt því að sinna öllum öðrum verkum. Aðeins flóknara virðist vera með ytra mat og það kannski meira háð tilviljunum? Stundum hefur það líka verið þannig að Menntamálastofnun gerir úttekt en ekki er ljóst hvað ákvarðar það eða hverjir taka ákvörðun um slíkt. Til eru alls konar úttektir, úttektir á kennslunni og námsárangri en einnig úttektir heilbrigðiseftirlits, vinnueftirlits, úttekt vegna brunamála og fleira þess háttar. Skilja má að almennt séð er „ytra mat“ framkvæmt af sveitarfélaginu og er það samkvæmt lögum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins myndi telja að betra væri að fá óháðan, utanaðkomandi aðila til að annast ytra mat. Til dæmis gæti verið gott að Menntamálstofnun annaðist allar úttektir en ekki bara einstaka.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu viðauka við fjárhagsáætlun 2019 vegna fjárfestingaráætlunar

Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að reyna á að sinna langtímaviðhaldsleysi skólabygginga eitthvað meira en undanfarin ár. Eins og marg sinnis hefur komið fram m.a. frá all mörgum skólastjórnendum og foreldrum þá er ástand skólabygginga hrikalegt sums staðar vegna viðhaldsleysis og langtímamyglu. Nú á að setja 215 milljónir í viðbót í viðhald skólabygginga eftir því sem borgarfulltrúi skilur. Það hlýtur að liggja í augum uppi að það er bara brot af því fjármagni sem þyrfti að leggja í þetta risaverkefni ef ekki á að taka áratug að koma málum í viðunandi horf.

Bókun Flokks fólksins við kynningu Strætó bs á framtíðarsýn fyrirtækisins

Framtíðarsýnin lítur vel út en langt er í að þessi fallega sýn verði að veruleika. Fullt af flottum fyrirætlunum en ekki útskýrt nóg hvernig. Talað er um minnkun gróðurhúsalofttegunda – grænt bókhald, kolefnishlutlaust fyrirtæki. Strætó getur varla orðið kolefnishlutlaust eftir 10 ár nema með því að nýta metan eða rafmagn og þá helst með sítengingu við veiturafmagn, þ.e. að stöðug tenging sé við rafstreng, svo sem eru í sporvögnum í borgum erlendis. Framleiðsla á vetni með rafgreiningu er dýr. Það á að kolefnisjafna en það er ekki hægt að kolefnisjafna á meðan mikilli olíu er brennt. Áður hefur borgarfulltrúi lagt til notkun metans frá Sorpu en ekki er unnið að því að auka hlut metans sem eldsneyti hjá Strætó. Nýlega bárust upplýsingar um fjölda kvartana sem Strætó fær. Tölur eru sláandi sem getur varla talist eðlilegt. Beðið er eftir upplýsingum um sundurliðun og nánar um eftirfylgni. Gróflega reiknað eru um tífalt fleiri kvartanir hér en í sambærilegu vagnafyrirtæki í London. Borgarfulltrúi fær vikulegar ábendingar frá óánægðum notendum strætó vegna þjónustu strætó. Ekkert er minnst á fjölda kvartana í kynningunni en hér er eitthvað sem vel mætti taka á af krafti og það strax.

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans um endurbætur í Seljaskóla vegna bruna

Þegar alvarlegur atburður gerist eins og bruni í Seljaskóla bætist enn ofan á hið alvarlega ástand sem er í skólanum. Það er einstakt að það brenni tvisvar í sama skóla eins og í Seljaskóla. Miklar áhyggjur eru af því hvort gerðar verði nauðsynlegar lagfæringar ofan á annað sem þarf að laga í Seljaskóla. Nú bíður barnanna mikið rask en börnin hafa lengi búið við mikið rask. Í dag er óljóst hver framkvæmdatími á endurnýjun Seljaskóla verður. Börnum í Seljaskóla hefur lengi verið þeytt fram og til baka. Fram hefur komið hjá foreldrafélagi að það gengur ekki að vera í kirkjunni, í ÍR heimilinu né hjá KSÍ. Alls konar reddingar eru í gangi núna þegar afleiðingar brunans bætast ofan á allt annað. Það er ljóst að Seljaskóli þarf auka fjármagn/mannafla til að fylgja eftir verkefnum og til að tryggja að framkvæmdatími haldist. Fyrri verk í Seljaskóla hafa nærri öll dregist úr hófi fram. Þá þarf fjármagn fyrir þá innanstokksmuni sem töpuðust í brunanum, t.d. tölvur, bækur og annan búnað ef að tryggingafélagið, VÍS, bætir ekki innanstokksmuni. Svona mætti lengi telja og veit borgarfulltrúi Flokks fólksins að starfsfólk, foreldrar og nemendur eru uggandi.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs menningar- og ferðamálasviðs, dags. 24. júní 2019, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs, dags. 24. júní 2019, á tillögu um afslátt á menningarkorti fyrir eldri borgara. Áður var frítt inn á söfn fyrir eldri borgara

Það er jákvætt að öryrkjar og börn og unglingar fái ókeypis á söfn borgarinnar. Hins vegar á að afnema þau réttindi sem eldri borgarar hafa haft hingað til þannig að þeir muni ekki fá frítt inn á söfn lengur. Það hefur ótvírætt gildi fyrir eldri borgara og þá sem hættir eru að vinna að geta notið menningarlífsins og skoðað t.d. listasöfnin í borginni, heimsótt Árbæjarsafnið og Sjóminjasafnið en það gæti orðið liður í að draga úr félagslegri einangrun og eflt lýðheilsu þessa aldurshóps. Því miður hafa ekki allir í þessum aldurshópi ráð á að fara á söfn eða kaupa menningarkort þó svo það verði á afslætti. Frír aðgangur fyrir eldri borgara er hvati fyrir starfsfólkið að fara á söfn með hópinn eða frá dagvist aldraðra. Mjög margir eldri borgarar geta ekki einu sinni leyft sér að fara á söfn því miður. Ef fara á skipulagða ferð á vegum félagsmiðstöðvar gæti komið í ljós að einhver á ekki kort og fer því ekki með. Til að koma í veg fyrir tekjumissi af ferðamönnum í þessum aldurshópi sem fá þá líka frítt inn mætti hafa þann hátt á að sækja þarf um menningarkortið sem yrði endurgjaldslaust hjá félags- eða þjónustumiðstöðvum. Það er miður að Reykjavíkurborg skuli ganga fram með þeim hætti að rýra kjör eldri borgara enn frekar.

Lögð fram fundargerð velferðarráðs frá 19. júní 2019.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar:

Borgarfulltrúi vill rifja upp að fyrir ári, á þeim degi sem meirihlutinn kynnti sáttmála sinn gaf borgarstjóri loforð um að taka ætti á biðlistum í heimaþjónustu og hjúkrun. Nú er liðið ár og enn þarf að skerða þjónustu í sumar því ekki hefur tekist að manna stöður þrátt fyrir ítarlega leit að fólki. Það segir sig sjálft að það tekst ekki að manna störfin á meðan greidd eru fyrir þau svo lág laun. Það verður að koma til einhver frekari hvatning ef hægt á að vera að manna þessi mikilvægu krefjandi störf t.d. eins og stytting vinnuviku eða betra fyrirkomulag vakta. Það er borgarmeirihlutans að gera þessi störf meira aðlaðandi svo fólk vilji vinna þau. Þann 1. apríl 2019 voru alls 67 einstaklingar á biðlista eftir félagslegri heimaþjónustu. Af þeim voru 43 eldri en 67. Alls 80 einstaklingar bíða auk þess eftir frekari þjónustu. Af þeim eru 78 eldri en 67. Þetta er stór hópur og margir búnir að bíða lengi. Á biðlista eftir varanlegri vistun biðu í apríl 158 einstaklingar. Það loforð sem gefið var fyrir ári að taka á þessum málum hefur ekki verið efnt. Svona hefur staðan verið í mörg ár eins og mannekla og biðlistar séu orðnir einhvers konar lögmál hjá borgaryfirvöldum.

Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 4. júní 2019.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. og 8. lið:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar því að tilboð Strætó bs. að bjóða út kaup á vetnisvögnum hefur runnið út í sandinn. Borgarfulltrúi spyr hvort menn séu búnir að gleyma tilraun með vetnistrætó upp úr árinu 2000. Ætla borgaryfirvöld að láta plata sig aftur eins og þá, tilraunaverkefni sem kostaði milljarð. Vitað er að framleiðsla á vetni með rafgreiningu er dýr en það er eina leiðin til að búa það til hér á landi. Þess vegna myndi þurfa að flytja vetnið inn. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill minna á tillögu sem lögð var fram í borgarstjórn 18. júni þess efnis að Strætó og Sorpa sem bæði eru fyrirtæki í meirihlutaeigu borgarinnar vinni saman og að Sorpa hætti brennslu á metani og að það verði þess í stað nýtt sem eldsneyti t.d. með því að fjölga metanvögnum Strætó bs. Það er sárt að sjá hvernig metan er á söfnunarstað verðlaust og brennt á báli þegar hægt væri að nýta það sem orkugjafa á strætisvagna. Hér er um eðlilegt og sjálfsagt sparnaðar- og hagræðingarsjónarmið að ræða.

Undir 8. lið í fundargerðinni kemur fram að rætt er um niðurstöður vinnustaðakönnunar þar sem sérstaklega er spurt um einelti, áreitni og ofbeldi.
Borgarfulltrúi vill minna á ný endurskoðaða stefnu og verkferli í eineltismálum sem stýrihópur sem borgarfulltrúi Flokks fólksins fór fyrir og hvetja Strætó bs til að tileinka sér hvorutveggja, stefnu og verkferli.

Lögð fram fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 11. júní 2019.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar er varðar heimsmarkmiðin og fræðsla á þeim í leikskólum:

Bókun við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins að borgaryfirvöld samþykki að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með áherslu á sérstaka fræðslu um heimsmarkmiðin á leikskólum. Tillagan var felld, Sjálfstæðisflokkur og Sósialistaflokkur sátu hjá. Borgarfulltrúa Flokks fólksins þykir leitt að þessi tillaga skyldi ekki fá náð fyrir augum meirihlutans. Hér er um mikilvægt verkefni að ræða þ.e. innleiðing á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna þar sem lagt er sérstaklega til að fjallað verði um þau í leikskólum borgarinnar. Þessi tillaga getur auðveldlega fallið að menntastefnunni sem kemur einnig inn á heimsmarkmiðin. Flokkur fólksins er hér að huga að þeim yngstu ekki síður enda geta flestir verið sammála því að með því að byrja snemma og einmitt á leikskólaaldri er líklegt að börnin meðtaki fræðsluna og geti byrjað að taka þátt á eigin forsendum allt eftir aldri, getu og þroska. Mikilvægt er ekki síður að grunnskólar leggi áherslu á Heimsmarkmiðin í sinni almennu kennslu, starfi og leik. Það er því leitt að þessi tillaga fékk ekki brautargengi eins og hún væri ekki þess verð að fá nánari skoðun. Vel hefði mátt leyfa henni að fljóta með samhliða innleiðingu menntastefnu. Borgin á að vera frumkvöðull hvað þetta varðar, draga vagninn og gera það með reisn.

Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 26. júní 2019. 
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 18. lið fundargerðarinnar vegna frávísunar tillögu um samráð við rekstraraðila vegna lokun Laugavegs og Skólavörðustígs

Tillögu Flokks fólksins um að komið verði á markvissu samráði við rekstrar- og hagsmunaaðila vegna fyrirhugaðrar varanlegrar lokunar verslunargatna í miðborginni hefur verið vísað frá. Með tillögunni fylgdi ítarleg greinargerð. Nú hefur það verið staðfest í viðhorfskönnun sem Zenter rannsóknir framkvæmdi fyrir Miðborgina okkar og SVÞ fjármagnaði að meirihluti rekstraraðila á svæðinu og borgarbúa, utan þeirra sem búa þar eru mjög óánægðir með varanlegar göngugötur. Skemmdarverk hefur verið unnið með þessum breytingum og stefnir í einsleitan miðbæ verði ekki horfið frá þessari stefnu. Þau fyrirtæki sem þjónusta mat, drykki og selja minjagripi munu þrífast og þeir sem heimsækja miðbæinn eru í meirihluta yngra fólk sem sækir skemmtanalífið. Búið er með þessum breytingum án samráðs að hrekja tugi verslana úr bænum og æ færri leggja leið sína á svæðið. Það er kaldhæðnislegt að Miðborgin okkar sem vænti án efa annarrar niðurstöðu skuli nú verða að kyngja blákaldri staðreyndinni. Göngugötur eru samkvæmt þessu að fæla fólk frá. Bærinn er að missa af 4. hverjum viðskiptavini. Þetta blasti við þótt meirihlutinn í borgarstjórn reyndi hvað hann gat að slá ryki í augu fólks. Sérstakt er að skoða kynjamismun í þessu sambandi en 25% karla og 21% kvenna myndu koma sjaldnar ef göngugötur væru varanlegar. Rekstraraðilar hafa ekki efni á því að missa svona stóran viðskiptavinahóp.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Reynslan af göngugötum í miðborg Reykjavíkur er góð og ánægja Reykvíkinga mikil líkt og kannanir staðfesta. Göngugötur skapa rými fyrir fólk og bæta mannlíf. Þá hafa erlendar athuganir sýnt að velta verslana eykst þegar göngugötur eru opnaðar. Við undirbúning varanlegra göngugatna í Reykjavík er víðtækt samráð algjört leiðarstef, svo hefur verið hingað til og verður áfram. Rekstraraðilar í miðbænum hafa beðist vægðar á umræðum sem tala niður rekstur á svæðinu. Miðborgin er í blóma og hefur fjöldi verslana og veitingastaða aldrei verið meiri í sögu Reykjavíkur. Það er mál að ósanngjarnri gagnrýni einstaka borgarfulltrúa á starfsemi í miðbænum linni.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi frábiður sér þöggunartilburði meirihlutans með því að segja við þá sem vilja tjá sig um stöðu miðbæjarins að þeir séu að „tala niður bæinn“. Sá sem leyfir sér að tala um ástandið sem er að skapast í miðbænum og lýsa áhyggjum sínum er snupraður fyrir að vera að „tala miðbæinn niður“, eins og það er orðað. Að snupra fólk sem lýsir áhyggjum sínum af stöðu mála í miðborginni með þessum hætti er ekkert annað en taktík til að þagga niður í fólki. Með þessu er verið að varpa ábyrgðinni á þá sem vilja ræða málin með opinskáum hætti og tjá skoðanir sínar. Það er vissulega handhægt fyrir þá, þar með meirihlutann í borgarstjórn, sem vilja ekki virða lýðræðislega umræðu að beita þessari aðferð. Þöggun er ein birtingarmynd kúgunar

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Ásökunum um þöggunartilburði og kúgun er vísað á bug. Borgarfulltrúa Flokks flokksins er að sjálfsögðu heimilt að tjá skoðun sína á stefnu meirihlutans. Á sama hátt er það réttur okkar að benda á þær afleiðingar sem sú orðræða kann að hafa.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu minnisblaðs  sviðstjóra íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 24. júní 2019, vegna tónleika Secret Solstice sem fóru fram í Laugardal 21.-23. júní 2019

Borgarfulltrúi Flokks fólksins er þakklátur fyrir að vísbendingar eru um að Secret Solstice hátíðin gekk betur en í fyrra. Beðið er eftir frekari upplýsingum áður en hægt er að leggja endanlegt mat á hversu vel gekk raunverulega. Það er þó mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að ekki skuli halda þessa hátíð aftur á sama stað enda staðsetningin alls ekki hentug inn í miðju íbúðarhverfi.

Tillaga Flokks fólksins um að upplýsingafulltrúi borgarinnar tiltaki í tilkynningu sinni til fjölmiðla hvaða flokkar standi að baki þeim málum sem samþykkt eru í borgarráði og borgarstjórn.

Lagt er til að upplýsingafulltrúi borgarinnar tiltaki í tilkynningu sinni til fjölmiðla hvaða flokkar standi að baki þeim málum sem samþykkt eru í borgarráði og borgarstjórn. Markmiðið er að upplýsa almenning um afstöðu einstakra flokka til málsins/málanna. Ávinningurinn af þessu gæti verið að stuðla að upplýstri stjórnmálaumræðu í samfélaginu þar sem þá sést hvaða flokkar styðja mismunandi mál og varpar jafnframt ljósi á stefnu og afstöðu flokka í viðkomandi málum. Það hlýtur að vera gott fyrir lýðræðislega umræðu að vitað sé hverjir stóðu að baki einstaka málum.