Velferðarráð 4. september 2019

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Stöðumat á kaupum hjá Félagsbústöðum og yfirlit úthlutana í félagsleg húsnæði

Það sem vekur áhyggjur er að Félagsbústaðir hafa fallið frá því að gera samkomulag um greiðsludreifingu og greiðslufresti á skrifstofu félagsins. Ef fólk fer í skuld, stóra eða smáa er skuldin send kerfisbundið til lögfræðinga í innheimtu. Félagsbústaðir eru í eigu borgarinnar, sett á laggirnar til að halda utan um okkar verst settu borgarbúa. Enginn leikur sér að því að borga ekki. Margir hafa kvartað og stendur ógn af því Félagsbústaðir skuli siga á þá lögfræðingum eins og fólk orðar það sjálft. Oft er um að ræða fólk sem hefur staðið í skilum en eitthvað komið upp á. Dæmi er um að einn mánuður í skuld er sendur umsvifalaust til Motus. Það er umhugsunarefni að Félagsbústaðir skuli velja að beina skjólstæðingum í þessa átt í stað þess að gefa þeim tækifæri til að dreifa skuld sinni hjá Félagsbústöðum. Skjólstæðingar Félagsbústaða hafa lítið milli handanna og eru í viðkvæmri stöðu. Okkur ber að hafa gagnrýna hugsun og taka allar ábendingar til greina og skoða með hvaða hætti hægt er að bæta starfsemina og gera enn betur í þágu notenda þjónustunnar. Reglur eru vissulega nauðsynlegar en þær þurfa að vera manneskjulegar, sanngjarnar og taka mið af aðstæðum hvers og eins.

Tillaga Flokks fólksins að Félagsbústaðir haldi sjálfir utan um greiðsludreifingu leiguskulda hjá leigjendum sínum og hætti alfarið að senda skuldir í innheimtu hjá lögfræðingum

Eins og fram kemur í kynningu hefur verið fallið frá því að gera samkomulag um greiðsludreifingu og greiðslufresti á skrifstofu félagsins. Kallað er eftir í velferðarráði að minnihlutinn komi með hugmyndir að lausnum fyrir Félagsbústaði sem nú hefur ákveðið að senda skuldir, smáar og stórar í innheimtu hjá lögfræðingum.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að Félagsbústaðir hætti við að falla frá því að gera samkomulag um greiðsludreifingu og greiðslufresti á skrifstofu félagsins heldur semji sjálft við fólk sem komið er í skuld og spari með því að borga lögfræðingum út í bæ fyrir að innheimta skuld af fólki sem berst í bökkum.

Fyrirspurn Flokks fólksins leggur um aðferðir velferðarsviðs til að upplýsa fólk um styrki á grundvelli 16.gr. a:

Hvað gerir velferðarsvið til að upplýsa fólk um að hægt sé að sækja um styrk á grundvelli 16. greinar a í reglum um fjárhagsaðstoð? Í svari við fyrirspurn Flokks fólksins um fjölda fjölskyldna í Fella- og Hólahverfi sem búa við félagslega einangrun kemur fram að fjöldi foreldra með fjárhagsstöðu til framfærslu sem sækja um styrk á grundvelli 16. gr. a í reglum um fjárhagsaðstoð (styrkur t.d. til að greiða daggæslu barna í heimahúsum, leikskóla, skólamáltíðir, frístundaheimili, sumardvöl og eða þátttöku í tómstundastarfi) er mestur í Breiðholti. Borgarfulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hverju þetta sætir og hvort ástæður liggi í skorti á upplýsingum um þessa 16. grein a. Spurt er hvað og hvort velferðarsvið þurfi ekki að gera miklu meira en gert er til að upplýsa fólk um að hægt er að sækja um styrk á grundvelli 16. gr. a í reglum um fjárhagsaðstoð t.d. til þess að þurfa ekki að nota frístundarkortið sem gjaldmiðil til að greiða gjald frístundaheimilis.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Ferðaheimild Velferðarráðs jan- til júní 2019

Listi yfir ferðir starfsmanna og kjörinna fulltrúa janúar til júní 2019 Samkvæmt verklagsreglum um ferðaheimildir og greiðslu ferðakostnaðar í ferðum á vegum Reykjavíkurborgar (FMS-VLR-029) er lagt fram. Hér er um að ræða 1.8 millj. Flokkur fólksins óskar eftir að fá yfirlit yfir ferðir síðustu þriggja  ára og fá upplýsingar um kostnað borgarinnar í því sambandi.

Fyrirspurn Flokks fólksins um ferðir starfsmanna þriggja ára og kostnað við þær 

Í yfirliti sem lagt hefur verið fram og nær yfir síðasta hálfa ár er um að ræða 1,8 millj. Flokkur fólksins óskar eftir að fá yfirlit yfir ferðir síðustu þriggja ára og fá upplýsingar um kostnað borgarinnar í því sambandi. Einnig er kallað eftir hvaða stefnu velferðarsvið og ráðið hefur um ferðir erlendis og kostnað í sambandi við þær?

Bókun Flokks fólksins  við afgreiðslu tillögu um samstarf við ríkið um útgáfu heildstæðs upplýsingabæklings fyrir foreldra fatlaðra barna, fatlaða einstaklinga og eldri borgara

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins.

Bókun Flokks fólksins: Í þessari tillögu Flokks fólksins sem nú er til afgreiðslu í velferðarráði er talað um að velferðarsvið eigi frumkvæði að samtali og samvinnu við ríkið að gera sameiginlegan bækling um réttindi fólks þar sem skilgreint er hvað er á forræði borgarinnar og hvað er á forræði ríkisins. Tillagan hefur verið felld í velferðarráði. Þessi tillaga er hugsuð til að ríki og borg geti tengst í sameiginlegu átaki í þágu íbúanna og að koma upplýsingum til þeirra með skýrum hætti þannig að fólk sjái á einum stað hvað er borgarinnar og hvað er ríkisins. Meirihlutinn verður að hlusta á fólkið. Að hlusta á fólk, þarfir þess, óskir og væntingar krefst engrar pólitíkur. Nefnt var dæmi í tillögunni um konu, móður fatlaðs einstaklings sem er oft búin að greiða meira en henni ber vegna þess að hún veit ekki betur og jafnvel sá sem tekur við peningunum veit ekki betur. Stærsti vandinn er að fólk veit ekki hvað er borgarinnar og hvað er ríkisins.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um útgáfu bæklings um framlag eldri borgara til samfélagsins, sbr. 15 lið fundargerðar velferðarráðs 21. ágúst 2019.

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.

Bókun Flokks fólksins: Tillaga er um að gefa út bækling um framlag eldri borgara til samfélagsins. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill að vel sé haldið utan það sem þessi hópur er að leggja til samfélagsins og það tryggt að sé opinbert. Borgarfulltrúi virðir ólíkar skoðanir í garð verkefnisins en finnst engu að síður að hægt hefði verið að vinna áfram með þessa hugmynd í einhverri útfærslu.

Bókun Flokks fólksins við svari velferðarráðs við fyrirspurn Flokks fólksins um stöðu barna í Fella- og Hólaskóla.

Af svari að dæma er stór hópur barna félagslega einangruð í Breiðholti. Þar ríkir einnig hvað mesta fátæktin. Í Breiðholti býr einnig hæsta hlutfall fólks sem er af erlendu bergi brotið. Í Breiðholti á stór hópur barna erfitt uppdráttar. Þetta kemur t.d. fram í skýrslu innri endurskoðunar (IE) um úthlutun fjármagns til grunnskóla. Félagsleg blöndun hefur mistekist í Breiðholti og eru afleiðingar að verða okkur æ skýrari. Hlutfallslega eiga börn í Breiðholti erfiðast með íslenskuna sem eykur en hættuna á einangrun, bæði að einangrast sem einstaklingar og einnig sem hópur.  Fram kom í skýrslu IE að  fjármagni er úthlutað sérstaklega til grunnskóla vegna kennslu barna af erlendu bergi. Grunnur fyrir úthlutun er svokallað Milli mála málkönnunarpróf sem lagt er fyrir börn sem hafa annað móður mál en íslensku en prófið er ætlað að greina færni þeirra í íslensku. Niðurstöður eru flokkaðar í grænan, gulan, og rauðan. Þau sem fá gulan eða rauðan þurfa aðstoð. Fjöldi barna sem fengu rauða niðurstöðu árið 2018 voru 1.797. 45 % af þeim eru börn sem fædd eru á Íslandi af erlendum foreldrum. Hér er mögulega enn ein skýring þess að fjölskyldur og börn á þessu svæði eru svo einangruð sem raun ber vitni.

Tillaga Flokks fólksins um breytingar á bæklingi velferðarsviðs fyrir eldri borgara

Tillaga Flokks fólksins að nokkrum breytingum sem gera má á þeim bæklingi sem borgin sendir öllum þeim sem verða 75 ára. Bæklingur sem þessi þarf auk þess að vera aðgengilegur helst að byrja á sérstökum kafla þar sem upplýsingar um réttindi sundurliðuð eftir hópum eru listaðar upp, gerð grein fyrir þeim í stuttu máli, og hvað það er sem er neytendum að kostnaðarlausu og hvað er gegn gjaldi.
Fallegar myndir eru ekki atriði í svona bæklingi. Mikilvægt er að hafa upptalningu á félagsmiðstöðvum, félagasamtökum, og stöðum þar sem hægt er að fá keyptar máltíðir. Einnig hvaða matvöruverslanir senda heim vörur ef keypt er fyrir ákveðna lágmarksupphæð. Í bæklingnum mættu vera upplýsingar um hvar eldri borgarar fá sálfræðiþjónustu eða annan stuðning. Nefna þarf samtök og félög sem styðja við bakið á eldri borgurum t.d. vinaheimsóknir Rauða Krossins. Í bæklingnum ættu að vera upplýsingar sem gagnast þeim sem eru ánetjaðir lyfjum eða áfengi og hvert hægt er að sækja aðstoð. Hugsa þarf svona bækling að hann sé fyrir breiðan hóp fólks, bæði þá sem eru efnaðir og efnaminni sem og fátækir og/eða einmana og einangraðir. Þetta er sennilega aðeins smá brot af því sem mætti nefna til að bæta bækling þann sem hér um ræðir.

Lagt er til að tillögunni verði vísað til meðferðar velferðarssviðs og Öldungaráðs til nánari vinnslu.
Samþykkt.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Gjaldskrár Velferðarsviðs 2020

Borgarfulltrúi Flokks fólksins er andvígur öllum hækkunum á gjaldskrá á þessum tímapunkti. Hækkanir þótt jafnvel séu hóflegar geta komið viðkvæmustu hópunum illa. Finna þarf aðrar leiðir en að hækka gjöldin til að mæta auknum kosnaði við að veita fullnægjandi þjónustu. En hér er vissulega aðeins um fyrstu drög að ræða og eiga gjaldskrár eftir að fara í frekari vinnslu.