Skóla- og frístundarráð 25. febrúar 2020

Bókun Flokks fólksins við liðnum Viðbrögð og áhrif vegna verkfalla félagsmanna Eflingar hjá Reykjavíkurborg:

Það verkfall sem nú er í gangi er með öllu óviðunandi og getur borgarstjóri farið í að leysa það umsvifalaust sé til þess vilji. Verkfallið hefur áhrif á rúmlega 3.500 leikskólabörn og 1.650 notendur velferðarþjónustu. Fram hefur komið að samninganefnd borgarinnar hefur ítrekað slegið á sáttartilboð frá Eflingu. Borgin verður að fara að koma betur til móts við Eflingarfélaga. Flokkur fólksins telur að skóla- og frístundaráð eigi að beita sér með ríkari hætti t.d. með því að taka stöðu með þeim sem berjast fyrir að fá mannsæmandi laun. Leggjast þarf á eitt til að höggva á hnútinn enda kominn tími til að lyfta þessum láglaunabotni með séraðgerð. Allir vita að útilokað er að lifa með mannsæmandi hætti á þeim launum sem Eflingarfólki er boðið. Allt tal um lífskjör og lífskjarasamninga hlýtur að hljóma eins og öskur í eyru þeirra sem fátt geta veitt sér eftir að hafa greitt leigu, lán og reikninga. Hér er um að ræða hópa fólks sem á kannski eftir örfáa þúsundkalla til að lifa af þegar búið er að greiða leigu og reikninga. Verkfall kemur illa niður á börnunum sem bíða í óvissu um hvenær rútína kemst aftur á líf þeirra.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Staðfesting skóladagatals grunnskóla í Reykjavík:

Flokkur fólksins styður þá skoðun sem fram hefur komið á fundi skóla- og frístundaráðs í umræðunni um staðfestingu á skóladagatali þar sem fram kemur að um sé að ræða of mikla miðstýringu. Sjálfsagt er að setja ramma en innan þess ramma eigi skólum að vera treyst til að skipulegga dagatal sitt eins og hentar, og í samráði við kennara og jafnvel foreldra.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um að skóla- og frístundaráð styrki tengsl sín og samskipti við skólastjórnendur og almennt starfsfólk í ljósi nýútkominnar skýrslu Innri endurskoðunar um úthlutun fjárhagsramma til skóla:

Tillaga Flokks fólksins um að skóla- og frístundaráð styrki tengsl sín og samskipti við
skólastjórnendur og almennt starfsfólk í ljósi nýútkominnar skýrslu Innri endurskoðunar um úthlutun fjárhagsramma til skóla. Lagt er til af Flokki fólksins að skóla- og frístundaráð fundi með skólastjórnendum í Reykjavík. Markmiðið er að skóla- og frístundaráð komist í betri tengsl við skólastjórnendur og fólkið á gólfinu og fái að heyra frá fyrstu hendi óskir þeirra og ábendingar um hvað betur má fara. Skýrsla Innri endurskoðunar gefur sterkar vísbendingar um að skóla- og frístundaráð sé ekki og hafi ekki verið lengi í tengslum við skólanna. Of margir milliliðir eru milli skólastjórnenda, kennara, foreldra og barnanna annars vegar og stjórnvalds borgarinnar í skólamálum hins vegar. Brúa þarf þetta bil og verður það aðeins gert ef skóla- og frístundaráð fer í skólana með opnum huga og ræðir beint við stjórnendur, kennara og nemendur. Enda þótt fulltrúar allra skólahópa sitji fundi ráðsins er það ekki það sama og þau tengsl og tengingar sem hér eru lagðar til.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um að inntökureglur í svokallaðan þátttökubekk verði rýmkaðar til muna:

Flokkur fólksins vill leggja til að inntökureglur í svokallaðan þátttökubekk verði rýmkaðar til muna. Til stóð að bekkirnir yrðu 4 í borginni. Fjölgi umsóknum í „þátttökubekk“ er lagt til að þeim verði fjölgað eftir þörfum. Eins og staðan er í dag eru inntökuskilyrði í þátttökubekkina þau sömu og í Klettaskóla. Þetta eru of ströng og stíf skilyrði að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins og fælir mögulega foreldra frá að sækja um fyrir börn sín sem gætu notið góðs af því að stunda nám í þátttökubekk. Fram hefur komið að nú fyrst er sá eini þátttökubekkur sem er rekinn fullur en lengi vel var aðsókn ekki mikil. Ástæðan gæti verið sú að inntökuskilyrðin eru of ströng og að foreldrar barna sem ekki ná þessum viðmiðunum sækja þar að leiðandi ekki um. Vitað er að hópur barna (ekki vitað hve mörg) eru að berjast í bökkum í almennum bekk með eða án stuðnings eða sérkennslu. Það er skylda okkar að gera allt sem við getum til að sjá til þess að hverju einasta barni líði vel í skólanum og finni sig meðal jafningja. Að rýmka inntökuskilyrðin í þátttökubekk og fjölga þeim eftir þörfum gæti verið byrjun á að mæta enn frekar ólíkum náms- og félagslegum þörfum barna.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Betri borg fyrir börn, verkefni í Breiðholti:

Betri borg verkefninu er ætlað stórt hlutverk. Flokkur fólksins leggur áherslu á að Betri borg skoði vel árangursmælingar og samstarf. Stundum er nauðsynlegt að fá utanaðkomandi aðila til að mæla árangur til að gæta hlutleysis. Árangursmælingar skipta miklu máli fyrir öll verkefni og má í þessu sambandi nefna mælingar á sérkennslu, stuðningi og skólaþjónustu til að auka gæði og virkni þjónustunnar fyrir börnin. Skóla- og frístundasvið hefur alla tíð rennt blint í sjóinn með það hvernig fjármagn, um 5 milljarðar, sem veitt er í sérkennslu nýtist börnunum þar sem litlar samræmdar árangursmælingar hafa verið gerðar. Þetta tengist niðurstöðum PISA sem sýna að íslensk börn standa illa að vígi í lesskilningi samanborið við önnur lönd og 30% drengja og um 12% stúlkna geti hvorki lesið sér til gagns né til gamans við lok grunnskóla. Flokkur fólksins leggur áherslu á að samstarf sé aukið við heilsugæsluna í formi ráðgjafar frá læknum og sálfræðingum Þroska- og hegðunarmiðstöðvar með það að markmiði að saxa á biðlistana. Hér þarf skóla- og frístundaráð að eiga frumkvæði en Betri borg verkefnið getur leikið stórt hlutverk. Minna má á í þessu sambandi að mörg hundruð börn bíða eftir fyrstu og frekari þjónustu hjá sérfræðingum skólaþjónustu.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Staða húsnæðismála í Fossvogsskóla:

Flokkur fólksins þakkar kynningu á stöðu húsnæðismála í Fossvogsskóla. Miklar framkvæmdir eru að baki en engu að síður eru vísbendingar um að vandinn kraumi enn. Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið þær upplýsingar að í nóvember hafi aftur komið upp leki þar sem yngstu börnin eru og aftur séu komin upp veikindi. Óskað hefur verið eftir frekari mælingum. Margir foreldrar eru uggandi og finnst þeir ekki fá nægja hlustun á málið núna. Mygluvandi í Fossvogsskóla á sér langa sögu og hefur verið fyrir skólastjórnendur, foreldra og börn mikil þrautarganga. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu um að gerð verði ítarlegri úttekt á loftgæðum í Fossvogsskóla. Flokkur fólksins hefur einnig lagt til að borgin komi sér upp verkferlum þegar myglumál koma upp í skólum. Fleiri myglumál eiga örugglega eftir að koma fram í dagsljósið næstu árin og þá þarf að vera til faglega samþykkt verklag sem allir sem að málinu koma geti verið sáttir við. Í einhverjum tilfellum gæti þurft að að leita til utanaðkomandi fagaðila sem eru e.t.v með fullkomnari tækni til að mæla myglu en Heilbrigðiseftirlitið hefur yfir að ráða.

Bókun Flokks fólksins (og Sjálfstæðisflokks) við liðnum Svar við fyrirspurn um opnun mötuneytis í Dalskóla:

Óskað var upplýsinga um mötuneyti Dalskóla, hvenær það kemst í notkun. Fram kemur að það verði nú í mars. Þetta er því miður eitt af þeim verkum sem hefur tafist mikið. Í maí í fyrra bókaði Flokkur fólksins að mikilvægt væri að finna lausn á þessum málum fyrir skólabyrjun haustið 2019. Fram til þessa hefur Dalskóli því ekki getað uppfyllt þær lagalegu kröfur sem gerðar eru til skóla um sbr. einkum 1. mgr. 23. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 þar sem segir að í grunnskóla skuli nemendur eiga kost á málsverði á skólatíma í samræmi við opinber manneldismarkmið