Skipulags- og samgönguráð 1. júlí 2020

Bókun Flokks fólksins við Sértæku búsetuúrræði, breyting á:

Markmiðið er að auka möguleika á að setja niður t.d. smáhýsi fyrir heimilislausa og er í því samhengi jákvæð breyting. Breytingin snýst um að rýmka það svæði sem hægt er að setja upp skammtímahúsnæði. svo sem: Verslunar- og þjónustusvæða, Miðsvæða, Athafnasvæða  Hafnarsvæða Iðnaðarsvæða  Opinna svæða og Landbúnaðarsvæða  enda byggingar einkum staðsettar innan þegar skilgreinds byggingarreits eða lóðar samkvæmt fyrirliggjandi deiliskipulagi og í samráði við lóðarhafa eða landeiganda. Þessi breyting ætti að skýra betur heimildir um mögulega staðsetningu þessara húsnæðislausna innan mismunandi landnotkunarsvæða aðalskipulagsins. Nægur sveigjanleiki þarf að vera til að hægt sé að koma fyrir fjölbreyttum húsnæðisúrræðum eftir því sem þörf krefur hverju sinni.

 

Bókun Flokks fólksins við Bólstaðarhlíð 20, breyting á deiliskipulagi:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að hlusta á á raddir fólks í þessu máli og ganga í það að lagfæra og minnka umfang battavallarins eða finna aðrar lausnir sem eru ásættanlegri.  Framkvæmdin var gerð í óleyfi, ekki lá fyrir heimild frá skipulagsyfirvöldum. Völlurinn er á vegum skólans en ábyrgðin engu að síður nokkuð óljós. Svona völlur er sannarlega mikilvægur og börnum til gleði en hann má ekki vera staðsettur þar sem hann veldur öðrum ólíðandi ama og truflar heimilislíf eins og lýst er í þessu máli.

 

Bókun Flokks fólksins við Vesturlandsvegur, breyting á deiliskipulagi:

Lagt er fram á fundi umsókn um breytingu á deiliskipulagi Vesturlandsvegar vegna útfærslu vegar. Í gögnum er gert ráð fyrir að göngu- og hjólaleið verði annað hvort á vegöxl hliðarvega eða að gerður verður sérstakur göngu- og hjólastígur. Það er mat Flokks fólksins að enda þótt áhersla sé á að til verði samfelld og  örugg göngu- og hjólaleið með fram Vesturlandsvegi sé öryggi gangandi og hjólandi best tryggt ef stígar eru vel til hliðar frekar en að vera á vegöxl. Aðstæður eru mismunandi en ávallt ætti að reyna til hins ítrasta að hafa stíga fyrir gangandi og hjólandi eins fjarri umferð og hægt er. Þarna ætti að gera góðan hjólastíg  án undanbragða og sá stígur ætti að liggja með hæðarlínum og þannig hallalaus. Ekki er boðlegt að segja í áætlun að: ,, Bætt er við þeim möguleika að gera sérstakan göngu- og hjólastíg, eftir því sem aðstæður leyfa, sem kæmi þá í stað göngu- og hjólaleiðar á vegöxl hliðarvega. Leitast verður við að stígarnir séu 3-3,5 metra breiðir”. Orðalag þarf að vera meira afgerandi hér að mati Flokks fólksins.

 

Bókun Flokks fólksins við Kjalarnes, Esjumelar, breyting á deiliskipulagi:

Skipulagsyfirvöld leggja fram tillögu um breytingar, Kjalarnes, Esjumelar, breyting á deiliskipulagi. Í breytingunum felst m.a. að skipulögð er um 5 hektara lóð fyrir Malbikunarstöð Höfða þar sem fyrirtækið hyggst  starfsemi sína á Esjumela. Það er mat Flokks fólksins að þær athugasemdir sem borist hafa séu réttmætar enda  varða þær allar neikvæð umhverfis- og sjónræn áhrif sem breytingin hefur í för með sér og sem munu skerða gæði útivistar fyrir nærliggjandi svæði.  Hér er verið að  búa til stóra lóð  undir malbikunarstöð, sem óhjákvæmilega mun hafa áhrif á umhverfið. Flokkur fólksins hefur oft tjáð sig í bókunum um hvort viðleitni Reykjavíkurborgar til að veita hagsmunaaðilum andmælarétt sé heil og sönn?. Það er afar mikilvægt að hlustað verði á þá sem hafa sent inn athugasemdir og lýst yfir áhyggjum sínum.

 

Bókun Flokks fólksins við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030. Nýi Skerjafjörður:

Flokkur fólksins  er alfarið andvígur því að landfyllingar séu gerðar í þeim tilgangi að  búa til land fyrir nýbyggingar.  Náttúrulegar fjörur í Reykjavík eru takmörkuð auðlind og eru útivistarsvæði margra auk þess sem margar eru mikilvægar fyrir  lífríki svæðisins. Engin þörf er á landfyllingum í Skerjafirði. Þegar flugvöllurinn fer, fari hann þ.e.a.s.  verður hægt að skipuleggja góðan byggðakjarna án landfyllinga. Þess vegna ætti að koma til  greina að fresta skipulagsmálum í og við flugvallarsvæðið, þar til tímasett verður hvenær flugvöllurinn fer. Fram kemur að ströndin sé röskuð en óþarfi er kannski að raska henni enn meira?

 

Bókun Flokks fólksins við Skerjafjörður Þ5, deiliskipulag:

Þrátt fyrir minnkun á landfyllingu verður engu að síður um að ræða óafturkræfanlegar skemmdir á náttúrulegri fjöru. Áhyggjuefnin eru mörg varðandi þetta framtíðarsvæði eins og því er stillt upp. Mengun er í jörðu og hávaðamengun af flugvélum. Hvorutveggja er raunveruleiki þótt reynt verði að milda áhrifin.  Aðeins ein af merktum jarðvegsholum er skráð „í lagi“,  16 falla undir „slæmt og mjög slæmt“ af 96 alls. Mengaðan jarðveg þarf að skófla burt. Annað áhyggjuefni er fjöldi íbúða sem þarna á að rísa. Fjöldi íbúða hækkar úr 800 í 1300 og  eru að mestu hugsað fyrir hjólandi og gangandi enda engin bílastæði við húsin heldur  á að leggja í  einum stórum sameiginlegum bílakjallara. Reiknað er með því að bílafjöldi um vestasta hluta Einarsness fari úr 2 þús. bílum á sólarhring í 7 þús. Íbúar á bíl, sem starfa jafnvel langt frá heimili þurfa að komast í og úr hverfinu. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að aðgengi inn og út úr hverfinu er ekki fyrirsjáanlegt. Hverfi mega ekki verða einangraðir afkimar borgarlandsins. Horfa þarf til samfellu í borgarlandinu og að gott flæði verði í samgöngum þar sem liðkað er fyrir öllum tegundum af ferðamáta.

 

Bókun Flokks fólksins við Dunhagi, Hjarðarhagi og Tómasarhagi,  deiliskipulag:

Skipulagsyfirvöld leggja fram nýja tillögu að skipulagslýsingu fyrir Dunhaga, Hjarðarhaga og Tómasarhaga. Einnig er lögð fram umsókn THG Arkitekta um nýtt deiliskipulag fyrir svæði sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhagi 27-33 og Tómasarhaga 32-46. Í tillögunni elst m.a. niðurrif og uppbygging á loð nr. 18-20 við Dunhaga. Í báðum þessum málum vill fulltrúi  Flokks fólksins minna skipulagsyfirvöld á loforð um samráð við borgara/íbúa þegar þessi meirihluti tók við völdum. Ekki er betur séð í þessu máli að ekki hafi verið hlustað á alla þá sem vilja tjá sig um málið og sem málið snertir. Óskað er eftir frest á að skila inn athugasemdum og eiga skipulagsyfirvöld að verða við því. Andmæli við fyrirhugaðar breytingar hafa verið miklar og djúpstæðar og kemur fram að andmælendur hafa tvívegis unnið mál fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála. Auglýsing að skipulagslýsingu var ekki send hagsmunaaðilum á skipulagsreitnum. Eigendur verða að fá  eðlilegan frest til að skila athugasemdum. Enn eru einhverjir sem vilja tjá sig um málið áður en það fer lengra

 

Bókun Flokks fólksins við hámarkshraðabreytingar:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessum aðgerðum og sérstaklega þeim sérstaka viðburði að tillaga Flokks fólksins um lækkun hámarkshraða úr 50 km/klst.  í 30 km/klst.   á Laugarásvegi var samþykkt. Á þessari götu var þörf að lækka hraðan enda þótt hraðahindranir geri vissulega sitt gagn. Þetta er í raun í samræmi við aðrar götur í hverfinu þar sem íbúðarhúsnæði er þétt. Ökumenn aka jafnan hraðar en  30 km/klst. á Laugarásvegi sem skapar  hættu en mikið af börnum búa í götunni og leika sér fyrir framan húsin. Gatan er löng og þ.a.l. eiga ökumenn það til að auka hraðann verulega. Íbúar við Laugarásveg eru uggandi um börn sín og telja að það auki öryggi þeirra til muna verði hámarkshraði lækkaður í 30 km/klst sem nú er orðinn að raunveruleika.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu skipulags- og samgönguráð um hvaða bílastæði verði merkt sérstaklega fyrir hreyfihamlaða:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að meirihlutinn í skipulags og samgönguráði  er að taka við sér og merkja nú handhöfum stæðiskorta sérstök stæði við göngugötur og eru þar með að fylgja lögum, þ.e. 10. grein nýrra umferðarlaga sem tók gildi 1. janúar 2020. Í 10. greininni er kveðið á um að handhafar stæðiskorta megi aka göngugötur og leggja í  þar til merkt stæði. Handhafar stæðiskorta hafa haft áhyggjur af þessu og óttast jafnframt að nýta þessa heimild m.a. vegna andstöðu meirihlutans við lagaheimildinni. Það minnisblað sem skipulagsyfirvöld  sendu   til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins þar sem farið er fram á að fá þessu breytt liggur enn hjá Alþingi. Ekki eru miklar líkur á að þessu verði breytt enda hér um áralanga baráttu fatlaðs fólks að ræða sem loksins gekk í gegn.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu yfirlits yfir ferðakostnað starfsmanna umhverfis- og skipulagssviðs frá janúar – mars 2020:

Lagt er fram yfirlit Umhverfis- og skipulagssvið  yfir ferðir og kostnað við þær frá jan. – mars 2020. Upphæðin að þessu sinn er 865.000. Í mars lögðust af allar ferðir vegna COVID-19 og er því upphæð vorannar einstaklega lág eðli málsins samkvæmt. Eins og vitað er þá hefur farið  gríðarmikið fé í ferðir erlendis hjá þessu sviði. Nú má vænta þess að ferðum snar fækki vegna þess að með Covid-19 lærði fólk að nota fjarfundakerfi sem gekk almennt sé mjög vel.  Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að ferðalög  á kostnað útsvarsgreiðenda eiga því að vera alger undantekning.

 

Bókun Flokks fólksins við Barmahlíð 19 og 21, kæra:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst kærur allt of margar sem berast skipulagssviði og þess vert að skoða hvort það kunni að vera vegna þess að reglur eru ýmist óljósar eða of stífar.  Fulltrúi Flokks fólksins hefur ekki oft tjáð sig um kærur enda ekki með sömu forsendur og starfsmenn/embættismenn skipulagsins. Til að taka afstöðu þarf að lesa ofan í kjölinn báðar málshliðar auk þess sem mikilvægt er að hafa einhverja smá þekkingu í byggingar- og hönnunarfræðum og mörgu öðru til að geta tekið vitræna afstöðu. Það hefur komið fyrir að fulltrúi Flokks fólksins sér þó alls engin rök fyrir að verið sé að synja fólki um að t.d. stækka glugga eða hækka þök þegar framkvæmdin káfar ekki upp á neinn í nágrenninu. Í þessu tilfelli Barmahlíð 19-21 er ekki hægt að sjá hvaða rök liggja að baki synjun. Hér eru fordæmi fyrir hendi og ekki virðist gætt jafnræði og meðalhófs. Það er von fulltrúa Flokks fólksins að í málum sem ríkur vafi leikur á um að rök teljist sanngjörn og fagleg fái þau aftur skoðun skipulagsyfirvalda og færist jafnvel í aðrar hendur innan borgarkerfisins svo málið fái eins hlutlausa afgreiðslu og hugsast getur.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu vegna samþykktar borgarráðs frá 28. maí 2020 um rammaskipulag fyrir Austurheiðar:

Ljóst er að mikill metnaður hefur verið lagður í verkefnið. Fulltrúi Flokks fólksins lagði, í sínum bókunum í málinu, áherslu á að hagsmunaaðilar verði hafðir með í ráðum allt til enda og að áfram verði haldnir fundir  og að fundargerðir verði ávallt aðgengilegar til að samráðið sé að fullu gegnsætt. Öllu máli skiptir að þetta sé unnið í sátt allt til enda og að hagsmunaaðilar fái að koma að undirbúningsvinnu og þeir upplýstir um í hvaða skref er verið að taka hverju sinni. Flestar lóðir við Langavatn eru eignarlóðir. Ræktun gamalla lóða verður vonandi nýtt í stórum stíl. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að, eins og svæðið er skipulagt, að nóg ætti að verða af bílastæðum við aðkomuleiðir. Tryggja þarf aðgengi allra, akandi, hjólandi og gangandi og gæta þess að aðgengi fatlaðs fólks sé fullnægjandi.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs borgarstjóra dags. 18. júní 2020 vegna samþykktar borgarstjórnar frá 16. júní 2020 á  breytingu á deiliskipulagi Nauthólsvíkur:

Skipulagsyfirvöld samþykktu tillögu að breytingu á deiliskipulagi í Nauthólsvíkur og Reykjavíkurflugvallar í borgarstjórn 16. júní 2020. Færa á flugvallargirðingu til austurs til móts við Nauthólsvík vegna aðkomutengingar við Fossvogsbrú. Til að geta lagt umferðartengingu milli Nauthóls og Fossvogsbrúar þarf landfyllingu. Fulltrúi Flokks fólksins vill aftur minna hér á skemmdir á fjörum sem allt þetta hefur í för með sér. Skipulagsyfirvöld hafa áður verið gagnrýnd fyrir að fara offari í landfyllingum.  Breytingartillagan bar með sér óvissuna sem felst í því hvort flugvöllurinn verður eða fer. Nýta þarf hvern einn og einasta útnára í kringum flugvöllinn. Nær hefði verið að bíða enda yrði uppbygging á svæðinu allt önnur ef flugvöllurinn færi úr Vatnsmýrinni. Það er vissulega með öllu óljóst á þessu stigi máls. Meðal þess sem áhyggjur eru af er að það vantar alveg að gera grein fyrir aðgengismálum í tillögum að breytingu á deiliskipulagi Nauthólsvíkur og Reykjavíkurflugvallar.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs um breytingu á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar:

Það var mat fulltrúa Flokks fólksins að fresta hefði átt byggingaráformum í nágrenni flugvallarins þar til hann fer úr Vatnsmýrinni, fari hann þ.e.a.s.,  enda verður þá allt annað umhverfi í boði. Vissulega liggur það ekki fyrir að hann fari en nokkuð er ljóst að hann verður á sínum stað næstu 15 árin samkvæmt því sem borgarstjóri hefur fullyrt. Fimmtán ár í sögu Reykjavíkur er brot af sögu borgarinnar og þessi 15 ár mega vel líða án stórframkvæmda. Hér er um stórt skipulagsmál að ræða. Fari flugvöllurinn býður svæðið upp á ólíka uppbyggingu en nú er stefnt að. Nú þarf allt skipulag að taka mið af flugvellinum og með því hefur möguleikum á annars konar byggðaþróun verið spillt. Fari flugvöllurinn eru sem dæmi ekki sömu takmarkanir á hæð bygginga eða öryggisgirðingar svo eitthvað sé nefnt.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs borgarstjóra varðandi breytingu á deiliskipulagi Eiðsgranda, miðsvæði, vegna lóðarinnar nr. 14 við Rekagranda:

Skipulagsyfirvöld hafa ákveðið að gera grundvallarbreytingar á lóð nr. 14 við Rekagranda. Lóð leikskólans stækkar sem er gott en fjarlægður er snúningsreitur og nokkur bílastæði. Við þessa ákvörðun hefur ljóslega ekki verið horft til  þeirra fjölskyldna sem ekki búa næst leikskólanum og geta ekki nýtt sér almenningssamgöngur. Þegar komið er með börnin í leikskóla á álagstímum er stundum engin stæði laus og þarf þá að bíða í götunni þar til stæði losnar, aðstæður sem geta skapað hættu. Ef reglur um fjölda bílastæða í Reykjavík eru skoðaðar segir að gera eigi ráð fyrir 0,2 – 0,5 bílastæði á starf, og gera þarf ráð fyrir mun fleirum stæðum þ.m.t. „sleppistæðum“ við leikskóla. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ekki fengið það staðfest hvort að skipulagsyfirvöld fari í einu og öllu eftir þessum reglum?

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs Landverndar til borgarstjórans í Reykjavík og skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, dags. 29. apríl 2020, um landfyllingu austan við Laugarnes og áhrif á náttúru, landslag og útivist:

Hér er um landfyllingar við Sundahöfn austan við Laugarnes að ræða. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir með Landvernd og lýsir yfir vonbrigðum með að beitt skuli undantekningarákvæðum vegna framangreindra framkvæmda. Ekki verður séð af gögnum að ítarlega hafi verið fjallað um framkvæmdina í aðalskipulagi. Alvarlegt er að framkvæmdir séu hafnar þótt ekki liggi fyrir samþykkt deiliskipulag á svæðinu en segir í lögum að framkvæmdaleyfi skal ávallt vera í samræmi við skipulag.  Laugarnestangi er á náttúruminjaskrá og nýtur hverfisverndar í aðalskipulagi m.a. vegna þess að mikið er um búsetuminjar og ströndin er að mestu ósnortin. Skipulagsyfirvöld segja sjálf í gögnum, að “mikilvægt sé að halda í þetta merkilega menningarlandslag, samspil náttúru og minja, sem er hvergi að finna annars staðar í Reykjavík.” En ekki er  litið til framgreindar lýsingar á þeim verðmætum sem í húfi eru. Áhrif framkvæmda á verðmætt náttúru- og útivistarsvæði hafa ekki verið vel athuguð, Fulltrúi Flokks fólksins  vill fagleg vinnubrögð skipulagsyfirvalda og að “skipulagsyfirvöld taki framangreinda þætti til vandlegrar skoðunar og kynninga vel áður en teknar verða ákvarðanir um deiliskipulag og frekari framkvæmdir á og við framangreinda landfyllingu.” Skipulagsyfirvöld verða að hætta að skerða einatt fjörur þegar eitthvað þarf að gera nálægt sjó.

 

Bókun Flokks fólksins við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar vegna stoppistöðvar Strætó og barst skipulags- og samgönguráði 1. apríl 2020:

Í tengslum við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingar um stoppistöðvar Strætó vill fulltrúi Flokks fólksins nefna að fatlað fólk (ÖBI) hefur lengi bent á að  aðgengi að biðstöðvum er víða í lamasessi í borgarlandinu. Fengnir voru tveir fatlaðir menn til að gera úttekt á strætósamgöngum í samstarfi við Strætó bs. sumarið 2018 og voru niðurstöður birtar vorið 2019 (https://www.obi.is/is/utgafa/frettir/getur-fatlad-folk-notad-straeto). Við uppsetningu nýju skýlanna átti jafnframt að bæta allt aðgengi að biðskýlunum. Það er almennt betra fyrir vikið en ekki alltaf eins og best verður á kosið. Það er búið að ráða sumarstarfsmann til að gera úttekt á aðgengismálum við biðstöðvar strætó, eins og kemur fram í svarinu og er það vel.

 

Bókun Flokks fólksins við áður framlagðri tillögu fulltrúa Flokks fólksins vegna leiðarkerfis Strætós bs. í Grafarvogi, Grafarholti og Úlfarsárdal og barst skipulags- og samgönguráði 4. mars 2020.

Vísað til faghóps um leiðakerfismál hjá Strætó bs.:

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu vegna leiðarkerfis Strætós bs. í Grafarvogi, Grafarholti og Úlfarsárdal. Tillagan gekk út á að leiðarkerfið verði þétt og skilvirkt milli hverfanna og til að svo megi verða þarf að endurskoða leiðarkerfið Strætó með hliðsjón af ábendingum og athugasemdum íbúa þessara hverfa.  Umsögn hefur borist og lagt er til að vísa  ábendingum Flokks fólksins til faghóps um leiðakerfismál, til frekari greiningar og úrvinnslu. Það er að mati fulltrúa Flokks fólksins ágætt næsta skref. Flokkur fólksins vill í þessu sem öðru gæta þess að ávallt sé tekið tillit til athugasemda íbúa og í þessu tilfelli er um að reiða óviðunandi leiðarkerfi Strætó bs. Hér er ekki síst um að ræða öryggi barnanna sem koma úr þremur hverfum. Það eru ekki allir á bíl og það fólk þarf að geta nýtt almenningsvagna til að komast í verslanir.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um neyðarnúmer/þjónustusíma sem hægt er að hringja í eftir hefðbundinn opnunartíma þjónustuvers.

Tillögunni fylgir greinargerð.

Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um kostnað hundagerðis í Vesturbæ sem nú hefur verið fallið frá.

Hundagerðið var frá upphafi ófullnægjandi fyrir ýmsar sakir og skellt var skolleyrum við ábendingum og varnarorðum hundaeigenda. Engu að síður var haldið áfram með verkefnið  Flokkur fólksins óskar eftir að vita hvað þetta hundagerði kostaði borgarbúa?

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, Skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að Reykjavíkurborg ráðist í átak gegn hættulegu húsnæði í borginni með áherslu á að efla brunavarnir í eldri húsum borgarinnar og aukið eftirlit með ósamþykktu íbúðarhúsnæði

Lagt er til að Reykjavíkurborg ráðist í átak gegn hættulegu húsnæði í borginni með áherslu á að efla brunavarnir í eldri húsum borgarinnar og aukið eftirlit með ósamþykktu íbúðarhúsnæði. Lagt er til að slökkviliðsstjóri og byggingarfulltrúi skipuleggi og sjái um framkvæmd aðgerða. Harmleikurinn sem átti sér stað þegar kviknaði í illa búnu húsnæði á Bræðraborgarstíg átti sér aðdraganda. Aðbúnaður í húsinu hafði áður komið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Í þessu tilviki var um að ræða húsnæði sem nýtt var til útleigu umfram það sem eðlilegt getur talist þrátt fyrir að aðeins væri einn brunaútgangur á húsinu. Þá höfðu verið gerðar breytingar á húsinu án tilskilinna leyfa. Í slíkum tilvikum fer ekki fram skoðun eftirlitsmanna á fyrirhuguðum teikningum og öryggismat. Það skiptir máli að eftirlit með aðbúnaði og brunavörnum sé ekki aðeins virkt á framkvæmdarstiginu. Það þarf að efla frumkvæðiseftirlit slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa. Lagt er jafnframt til að fagaðilar greini hvað þarf að efla í eftirliti með brunavörnum og aðbúnaði mannvirkja og hvort þörf sé á frekari eftirlitsheimildum eða auknum mannafla eða fjármagni í verkefnið. Flokkur fólksins leggur einnig til að áhersla verði lögð á vitundarvakningu meðal almennings, og þá sérstaklega fólks á leigumarkaði, um brunavarnir og aðbúnað.

Greinargerð

Flokkur fólksins leggur til að Reykjavík feli slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa að skipuleggja og sjá um framkvæmd á sérstöku átaki gegn hættulegu húsnæði. Þessir aðilar hafa sérþekkingu um öryggismál og sjá auk þess um eftirlit með brunavörnum og aðbúnaði mannvirkja í borginni.

Mikið er af eldri húsum í miðborg Reykjavíkur. Þegar þessi hús voru byggð var tíðin önnur. Í dag gerum við miklu meiri kröfur um gæði og öryggi mannvirkja. Þó gjarnan sé búið að gera ýmsar úrbætur á eldri húsum í átt að meira öryggi þá leynast víða hús í slæmu ástandi sem bjóða upp á slysahættu. Það þarf að kortleggja hvaða hús þarfnast úrbóta og hvaða úrbætur gagnist best í þeim efnum. Þetta má gera með því að hafa samband að fyrra bragði við eigendur eldri húsa og bjóða þeim upp á skoðun eftirlitsaðila.
Þá er mikið um það að fólk á leigumarkaði neyðist vegna fátæktar að leigja íbúðir í ósamþykktu húsnæði. Þessar íbúðir þarf að athuga sérstaklega. Það er nauðsynlegt að auka fræðslu til almennings um hvaða kröfur íbúðir þurfi að uppfylla til að þær teljist öruggar og að leigutakar eigi rétt á því að krefjast þess að leigusali ráðist í þessar úrbætur. Stór hluti þeirra sem leigja ósamþykktar íbúðir eru af erlendu bergi brotnir og þekkja ekki sín réttindi í þessum efnum eða hræðast það að missa húsnæði sitt ef þeir gera yfirvöldum viðvart. Það þarf að ná til þessa fólks og fræða þau um réttindi sín og hve alvarlegt það getur verið ef aðbúnaði og brunavörnum er ábótavant. Reykjavík þarf að hafa frumkvæði með það að fræða fólk á leigumarkaði um réttindi sín og fólk almennt um öryggi og aðbúnað húsnæðis.
Þá þarf að kortleggja eftirlitsheimildir slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa og athuga hvort þörf er á frekari heimildum til frumkvæðiseftirlits eða frekari heimildum til að beita viðurlögum. Komi í ljós að frekari heimildir þurfi þá þarf Reykjavík að kalla eftir samráði við Alþingi um lagasetningu á þessu sviði.
Þá þarf að útbúa gæðastimpil og kynna almenningi. Sýnileg vottun um öryggi húsnæðis eykur bæði vitund almennings um öryggi og hvetur eigendur mannvirkja til úrbóta.  Gæðastimpill yrði þá Skjöldur sem hægt er að festa á vegg húsnæðis. Hann yrði veittur húsnæði ef það uppfyllir kröfur laga og reglugerða um brunavarnir og aðbúnað og mætti þá prýða hús gæðastimplinum, líkt og AirBnB íbúðir gera með TripAdvisor viðurkenningar. Þannig yrði almenningi, bæði leigjendum og öðrum auðvelt að kanna hvort tiltekið húsnæði uppfyllti allar tilskyldar kröfur. Þá yrði slíkt fyrirkomulag til hvatningar til leigusala þar sem það eykur traust gagnvart leigusala ef hann er framúrskarandi í öryggismálum. Þessir gæðastimplar yrðu þá merktir með ártali og myndu gilda í tiltekinn tíma, líkt og t.d. vottanir heilbrigðiseftirlits. Að þeim tíma liðnum færi fram úttekt að nýju ef eigandi óskar þess.

Vísað til meðferðar borgarráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að sama ívilnun gildi fyrir visthæfa bíla, þe. 90 mín. frítt í stæði í bílastæðahúsum og í götustæði.

Tillaga Flokks fólksins að sama ívilnun gildi fyrir visthæfa bíla, þe. 90 mín. frítt í stæði í bílastæðahúsum og í götustæði. Það er ekki rökrétt að bjóða visthæfu bílaeigendum að leggja frítt í stæði á götu í 90 mínútur en ekki í bílastæðahúsi. Með því að hafa ekki sömu ívilnun í bílastæðahúsinu  eru skipulagsyfirvöld að hvetja þessar bílaeigendur að leggja frekar bíl sínum á götu en í bílastæðahúsi. Hér eru skipulagsyfirvöld í  mótsögn við sjálfa sig. Þau agnúast út í bílaeigendur sem  koma í miðborgina á bíl sínum en gera hins vegar fátt til að hvetja þá til að a.m.k. nýta sér bílastæðahúsin sem eru mörg hver illa nýtt. Samkvæmt samgöngustjóra (17. 2., 20) er nýting húsanna á þessum tíma almennt lítil, 10-15% nýting ef langtímanotendur með mánaðarkort eru taldir með. Engu að síður sjá skipulagsyfirvöld ofsjónum yfir lækkun tekna bílastæðasjóðs ef gjaldfrjálst verður í bílahúsin frá kl. 22:00 til kl. 08:00 eins og ein af tillögu Flokks fólksins gekk út á. Ef lagt er yfir nótt frá kl. 22:00 að kvöldi og sótt rétt kl. 8:00 morguninn eftir þarf sem dæmi að greiða 1.050 kr. í Stjörnuporti, og Vitatorgi en 1.320 kr.

Frestað.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að bíllinn verði aðgengilegur allan sólarhringinn í bílastæðahúsum og að kostnaður við að leggja í bílastæðahús verði áþreifanlega minni en ef lagt er á götum úti.

Tillaga Flokks fólksins að bíllinn verði aðgengilegur allan sólarhringinn í bílastæðahúsum og að kostnaður við að leggja í bílastæðahús verði áþreifanlega minni en ef lagt er á götum úti. Bílastæðasjóður Reykjavíkurborgar rekur sjö bílastæðahús. Viðurkennt hefur verið af skipulagsyfirvöldum að skammtímastæði þar eru illa nýtt seint á degi og um kvöld. Þar er ekki boðið upp á að greiða með t.d. leggja.is eða öðru sambærilegu. Samkvæmt heimasíðu Bílastæðasjóðs er dýrara að leggja í bílastæðahúsum en út á götu á gjaldsvæðum 2-4. Í bílastæðahúsum þarf að greiða gjald fyrir allan þann tíma sem bíl er lagt og ekki er boðið upp á ívilnanir fyrir metan- eða rafbíla eða frítt stæði í 90 mín eins og í gjaldstæði á götum.  Á heimasíðu bílastæðasjóðs eru ekki upplýsingar um nýjar reglur um gjaldskyldu og gjaldskyldusvæði sem samþykktar voru 12. september 2029. Helstu breytingar voru að gjaldskylda er nú á sunnudögum og lengja á gjaldskyldu á gjaldsvæði 1 til 20:00 á virkum dögum. Eru þær reglur kannski ekki búnar að taka gildi? Ef bílastæðahús eiga að vera nýtt með fullnægjandi hætta þurfa þau að vera opin allan sólarhringinn þannig að þeir sem vilja dvelja í miðbænum fram yfir miðnætti geta lagt þar.

Frestað.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að bílastæðasjóður birti á heimasíðu sinni réttar upplýsingar um gjaldskyldutíma.

Tillaga að bílastæðasjóður birti á heimasíðu sinni réttar upplýsingar um gjaldskyldutíma. Samþykkt var sl.  vetur á fundi skipulags- og samgönguráðs 12. september 2019 að lengja gjaldskyldu á svæði 1 til klukkan 20 á vikum dögum og á laugardögum og að bæta við gjaldskyldu á svæðinu á sunnudögum frá klukkan 10-16. Á heimasíðu bílastæðasjóðs kemur þessi breyting ekki fram, nema að þessar nýju reglur hafi ekki tekið gildi? Ef þær hafa gert það þá hefur heimasíðan ekki verið uppfærð. Upplýsingar á heimasíðunni gefa til kynna núna að gjaldskyldu ljúki kl. 18 en ekki 20 í gjaldstæði 1 og að engin gjaldskylda sé á sunnudögum. Einnig segir að gjald sé innheimt á virkum dögum milli 9-18 og á laugardögum 10-16 og í P4 8-16 . Auk þess eru aðrar upplýsingar einnig villandi. Í dálknum gjaldskyld svæði eru sunnudagar ekki nefndir. Neðar á heimasíðunni er listi yfir daga sem ekki er tekið gjald en þar eru sunnudagar ekki heldur nefndir. Þessar mikilvægu upplýsingar skipta máli fyrir fólk sem veltir fyrir sér hvort það vilji heimsækja bæinn á sunnudögum og þurfi þá e.t.v. að leggja í gjaldskyld svæði. https://www.bilastaedasjodur.is/gjaldskylda/gjaldsvaedin.
Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um uppbyggingaráform Skerjafjarðar

Í gögnum um uppbyggingu í Skerjafirði kemur fram að draga eigi úr byggingarheimildum atvinnusvæðis í Skerjafirði. Nú þegar er þetta svæði ekki mikið atvinnusvæði. Spurt er þess vegna hvað átt sé við hér, hvernig atvinnusvæði er verið að vísa til?
Frestað.