Bókun Flokks fólksins við 6 mánaða uppgjöri fjármálaskrifstofu
Fram kemur í kynningu fjármálaskrifstofu í 6 mánaða uppgjöri að 49% af nettó útgjöldum í hlutfalli af skatttekjum borgarinnar fer í Skóla- og frístundarsvið. Sviðið er með 1 m.kr umfram fjárheimildir. Engu að síður er ástandið í skólamálum slæmt. Ástand skólahúsnæðis vegna viðhaldsleysis sl. 10 ára með tilheyrandi afleiðingum, raka og leka (myglu) er vel þekkt orðið. Nú liggur fyrir skýrsla innri endurskoðanda sem staðfestir þetta og fleiri vandamál. Í skýrslunni segir að mismunandi skilningur er á milli skólastjórnenda og fjárveitingarvaldsins hjá Reykjavíkurborg um hversu mikið fjármagn þarf til að reka grunnskóla í borginni. Lítið svigrúm er til hagræðingar innan skólanna og gripið er til sameiningar og lokana oftast í óþökk foreldra og jafnvel skólastjórnenda. Í sérkennslu fara um 5 milljarðar en hún er ekki árangursmæld og því óljóst hvort hún sé að skila sér sem skyldi til barna sem hennar njóta. Það er erfitt að átta sig á hvert borgarmeirihlutinn er að fara í skólamálum borgarinnar. Kapp er lagt á að allt lítið vel út á yfirborðinu, skóli án aðgreiningar og allt það. Af þessu að dæma má e.t.v. hlýtur það að liggja í augum uppi að fé sem veitt er í skólakerfið sé einhvern veginn ekki að nýtast.
Bókun Flokks fólksins við lið 1 Skýrsla innri endurskoðunar um úthlutun fjárhagsramma og rekstur skóla í fundargerð Skóla- og frístundarsviðs dags. 20 ágúst.
Fram kemur í skýrslu innri endurskoðanda að viðhaldi skólanna hefur ekki verið sinn sem skyldi sl. 10 ár vegna niðurskurðar. Fjárveitingavald borgarinnar virðist ekki skilja að sinna þarf húsum ef þau eiga ekki að grotna niður. Nú á að setja í þetta 300 milljónir sem er eins og dropi í hafið ef tekið er mið af ástandi skólabygginga. Tugir barna og kennara hafa verið og eru veik vegna heilsuspillandi skólahúsnæðis. Nýlega var Flokkur fólksins með umræðu um ástand skólabygginga í Borgarstjórn. Þar var sérstaklega rakið ástandið m.a. í Hagaskóla. Til er svokölluð 5 skóla skýrsla sem borgarfulltrúi hefur óskað eftir að verði gerð opinber en án árangurs. Vandi skólanna er mikill og hefur haft alvarleg líkamleg og andleg áhrif á kennara, starfsfólk og nemendur. Gera þarf stórátak í þessum málum og verja í hann 1-2 milljörðum. Stokka þarf upp á nýtt forgangsröðun borgarinnar þegar kemur að útdeilingu fjármagns, setja á fé í þjónustu við börnin og fresta dýrum skreytingarverkefnum á meðan. Hégómleg verkefni eiga ekki við ef börnin þurfa að sækja skóla í ónýtum skólabyggingum. Fjármagnið er of knappt eins og fram kemur í skýrslu innri endurskoðunar. Ætla mætti að ekki þurfi innri endurskoðanda til að segja valdhöfum borgarinnar að gyrða sig í brók í þessum málum.
Bókun Flokks fólksins við fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur er varða launahækkun forstjórans
Borgarfulltrúi Flokks fólksins mótmælir svo mikilli launahækkun forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur. Nú hefur starfskjaranefnd ákveðið að hækka laun forstjóra um 5.5% í stað 3.7% og er hækkun afturvirk til 1. mars.
Hækkunin nemur um 130.000 krónum á mánuði. Hækkunin hefur verið gagnrýnd enda hafi verið samþykkt á síðasta aðalfundi OR að hækka laun stjórnarmanna um 3,7% en ekki 5,5%.
Flokkur Fólksins vill minna á að margt fólk sem er með 300.000 krónur í laun á mánuði er ætlað að greiða rúmlega helminginn af því í húsaleigu og lifa á restinni. Hækkun forstjórans á einu bretti nemur helmingi af launum þeirra sem er lægst launaðir í borginni.
Bókun Flokks fólksins við Grænbók um flugsamgöngur, umsögn Reykjavíkurborgar
Allt er í góðu með að vinna grænbók og huga til næstu ára en staðreyndin er engu að síður sú að flugvöllurinn í Vatnsmýri er ekki að fara neitt næstu árin og fer ekki fyrr en ný staðsetning er fundin sem talin er fullkomalega henta, sem þjónar landinu öllu og sem getur þjónað fullnægjandi öryggishlutverki. Þar til verður flugvöllurinn í Vatnsmýrinni áfram öryggisflugvöllur og æfingar- og kennsluflugvöllur.
Bókun Flokks fólksins við úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í máli vegna álagningar Orkuveitu Reykjavíkur á vatnsgjaldi
Fyrr á þessu ári komst samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið að þeirri niðurstöðu að vatnsgjöld vegna ársins 2016 hefðu verið of há. Búið er að endurreiknað vatnsgjaldið, leiðrétta og endurgreiða afturvirkt og því ber að fagna. Það er ekki annað hægt að segja en að þetta sé hið mesta leiðindarmál en sem betur fer virðist sem fyrirtækið sýni auðmýkt núna í það minnsta var farið í að leiðrétta þessa oftöku gjalds en það þurfti vissulega úrskurð til. Það var ekki að frumkvæði Orkuveitunar að kanna hvort seilst hafi verið of mikið í vasa borgaranna heldur er það einstaklingur sem fer af stað með málið.
Fyrirspurn frá Flokki fólksins um hvað borgin ætlar að setja mikið fjármagn í Lean
Nú heyrist æ oftar að meirihlutinn í borginni kynnir með stolti fyrirhugaða innleiðingu Lean/Straumlínustjórnun. Lean er lýst sem umbótarkerfi sem snýst um að finna út hvað er virði fyrirtækisins í augum viðskiptavinarins og finna þær aðgerðir sem skapa virði, sem skapa ekki virði og eru sóun. Það er vissulega gott og blessað. Það er hins vegar alþekkt að sums staðar sem Lean hefur verið innleitt þá hefur það ekki tekist vel, ekki virkað og ekki verið mikil ánægja með það. Sums staðar hefur það hreinlega alls ekki verið virkað og starfsmenn verið því andsnúnir. Hér er um að ræða mikla fjármuni, sem sennilega hleypur á tugi milljóna og ef Lean kerfið á ekki við þá er er þessum fjármunum sóað.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill spyrja hvað miklum fjármunum er stefnt að því að verja í innleiðingu Lean og hvar innan borgarkerfisins verður það innleitt?
Hvað hefur verið gert í aðdraganda þess að ákveðið er að taka inn Lean sem staðfestir að það muni virka vel á starfsstöðum borgarinnar? Hvaða athuganir/rannsóknir liggja til grundvallar innleiðingunni í borginni?
Fyrirspurn frá Flokki fólksins um hvenær laga á aðgengi að Breiðholtsbrúnni vinstra megin við Brautina þegar komið er frá Mjódd
Að komast upp á brúna sem er yfir Breiðholtsbrautina ef komið er norðan megin við Breiðholtsbrautina (frá Mjódd) er aðeins fyrir þá fótafimustu. Til að komast upp á brúna er nokkra metra all brattur rampur sem er mold og grjót. Það er ekki hægt að ætlast til þess að t.d. eldri borgara eða hreyfihamlaðir komist upp þennan ramp til að komast á brúna. Þessi frágangur er óásættanlegur því það þarf nánsta að skríða þarna upp og á vetrum gæti þetta orðið eins og rennibraut. Sjá myndir
Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr: Af hverju er þetta skilið eftir með þessum hætti?
Hvenær stendur til að ljúka þessu frágangi þannig að aðgengi þarna megin við brúna verði fyrir alla?
Fyrirspurn frá Flokki fólksins vegna klifurgrindar í Öskjuhlíð sem var síðan rifin
Í Öskjuhlíð var unnið að því að setja upp klifurgrind eða leiksgrind, sjá mynd. Búið var að grafa heilan grunn, steypa undirstöður, setja upp grindina en síðan allt rifið niður og þökur lagðar yfir og ummerkjum eytt.
Þetta er í Öskjuhlíð, vestan við Perluna við hliðina á göngustígnum niður í skóginn.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr hvað átti þetta að þýða? Hvað kostaði þetta og af hverju var þetta rifið niður? Með fyrirspurninni fylgir mynd til útskýringa.
Fyrirspurnir frá Flokki fólksins um leikskóla í Úlfarsárdal.
Uppbyggingin í Úlfarsárdal hefur verið hröð. Nú er þar einn leikskóli og sárlega vantar fleiri. Foreldrar sem búa í Úlfarsárdal hafa þurft að fara með börn sín í leikskóla í öðrum hverfum:
Hvenær verður annar leikskóli opnaður í Úlfarsárdal?
Hvað verða margir leikskólar í hverfinu?
Hvenær verða allir leikskólarnir í hverfinu farnir að starfa?
Fyrirspurn frá Flokki fólksins um rafmagnstrætó og hvernig reynslan hafi verið af þeim
Árið 2017 var sagt frá því að Strætó bs. hafi fjárfest í 9 hreinum rafstrætisvögnum frá kínverska framleiðandanum Yutong. „Hröð skref yrðu stigin í átt að rafvæðingu flotans sem spara myndi yfir 1.000 tonn af útblæstri gróðurhúsalofttegunda strax á næsta ári. Segir einnig í þessari frétt frá 2017:
Í júní næstkomandi mun Strætó bs. taka í notkun fyrstu fjóra rafmagnsvagnana af þeim níu sem fyrirtækið hefur fest kaup á úr verksmiðjum Yutong í Kína. Verða það fyrstu strætisvagnarnir hérlendis sem einvörðungu verða knúnir áfram af rafmagni.
Vagnarnir sjást sjaldan í umferðinni og langar borgarfulltrúa Flokks fólksins að fá upplýsingar um hvernig reynslan hefur verið með þessa 9 rafmagnsvagna og hvort bílaflotinn sé ekki allur að rafvæðast?
Borgarráð
22. ágúst 2019
Tillaga Flokks fólksins að heimilt verði að leggja frítt í bílastæðahúsin í borginni í 120 mínútur á dag.
Tillaga Flokks fólksins sem hér er lögð fram er að heimila að leggja frítt í bílastæðahúsin í 120 mínútur á dag. Lagt er til að viðbótarkostnaður sem af þessu hlýst verði tekinn af kostnaðarliðnum ófyrirséð 09205. Áður hefur Flokkur fólksins lagt til að heimila að leggja frítt í 90 mínútur í bílastæði Miðbæjarins og einnig að komið verði á bifreiðastæðaklukku í borginni sem reynst hefur frábærlega vel þar sem slíkt fyrirkomulag er. Enn hafa ekki borist viðbrögð borgarmeirihlutans við þessum tillögum. Bílastæði Miðborgarinnar eru ekki fullnýtt og kemur þar margt til. Að heimila frítt stæði í 2 tíma á dag er hvatning fyrir íslendinga að skjótast í Miðbæinn. Auka mætti sýnileika þessara bílastæðahúsa, t.d. með því að auglýsa þau betur með myndrænum hætti. Annað mál er síðan hvernig ástatt er um bílastæðahúsin en mörg þeirra eru því miður afar óaðlaðandi og aðkoma þröng og hafa þar að leiðandi fælingaráhrif. Mjög margt eldra fólk forðast þau. Eins og vitað er hefur miðbærinn svo gott sem tæmst af íslendingum og er nú fátt að finna þar nema ferðamenn og þá sem búa á svæðinu auk gesta sem sækja skemmtanalífið.
Greinargerð
Könnun Zenter rannsókna sýna að æ færri íslendingar leggja leið sína í miðbæinn og kemur margt til. Fyrst er að nefna að mikil fækkun verslana, eldri sem nýrri hafa flutt sig úr bænum eftir að götum var lokað þar sem verslun þeirra snarminnkaði í kjölfarið. Samkvæmt talningu 18. ágúst voru 38 laus verslunarrými á Laugavegi. Skólavörðustíg og Hverfisgötu. Mikið af þeim glæsileg rými sem hýstu þekktar verslanir sem eru farnar.Þetta er fyrir utan þann fjölda nýrra rýma á jarðhæðum á þessu svæði sem koma á til leigu og til sölu markaðinn á næstu misserum. Enn eru þó blessunarlega verslanir í bænum og spurning er hversu lengi þær þrauka. Þess vegna verður borgin að grípa til allra mögulegra úrræða til að hvetja íslendinga til að koma í bæinn og versla. Mestu máli myndi skipa að snúa frá þeirri skaðlegu stefnu sem borgarmeirihlutinn keyrir nú með því að loka götum í óþökk á þriðja hundrað rekstraraðila.
Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er meðalstærð íbúða;
Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill spyrja hvort það hafi aldrei komið til greina við skipulag einstakra reita að setja inn ákvæði um meðalstærð íbúða. Sem dæmi ef ákvæði væri að meðaltalið væri 80 fm. íbúð, myndi það þýða að ef byggingarverktakinn byggði eina 100 fm. íbúð, þyrfti hann að byggja aðra 60 fm. íbúð á móti til að ná 80 fm. meðaltali. Borgaryfirvöld gætu sett slík meðaltalsmörk til að stuðla að breytilegri stærð íbúða á ákveðnum reitum/svæði og þar með að margar stærðir íbúða stæðu til boða.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar ný umferðarlög:
Eins og vitað er eru komin ný umferðarlög. Samkvæmt þeim mega hreyfihamlaðir, með svokölluð P-kort, keyra á göngugötum. Borgarfulltrúi Viðreisnar hefur nýlega tjáð sig um þetta ákvæði í fjölmiðlum á þann hátt að það vekur upp áhyggjur af því hvort borgarmeirihlutinn ætli kannski að hunsa þetta ákvæði og þar með brjóta lög? Borgarfulltrúi Viðreisnar segir að löggjafinn hafa verið á villigötum þegar ný umferðarlög voru samþykkt. Það þykir nokkuð alvarlegt þegar borgarfulltrúi er farinn að segja að löggjafinn „sé á villigötum“. Með því að segja það er hann að grafa undan trausti fólks á löggjafanum. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst það sérstaklega alvarlegt að kjörinn fulltrúi tjái sig með þessum hætti um löggjafann. Borgarfulltrúi Viðreisnar hefur áhyggjur af heildarásýndinni en tjáir sig ekkert um þarfir fatlaðs fólks og að gefa þeim kost á að komast inn á göngugötu. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er feginn að frumvarpið kom aldrei fyrir sjónir borgarmeirihlutans sem hefði þá lagt allt kapp á að beita sér gegn því og þar með hefta möguleika fatlaðra að komast leiðar sinnar. Ætlar meirihlutinn að virða ný umferðarlög, það ákvæði sem kveður á um að hreyfihamlaðir geti ekið og lagt á göngugötu?
Tillaga Flokks fólksins að meirihlutinn í borgarstjórn/Skipulags- og samgönguráði eigi alvöru og heiðarlegt samtal við hvern einn aðila sem sendi borgarstjórn opið bréf í maí s.l. og ræði afstöðu þeirra og óskir hvað varðar fyrirkomulag á Laugavegi og Skólavörðustíg.
Í bréfinu segir
„Við sem skrifum þetta opna bréf rekum öll fyrirtæki sem hafa starfað í miðbænum í 25 ár eða lengur. Samanlögð viðskiptasaga fyrirtækjanna er 1.689 ár. Við höfum því lifað tímana tvenna. Við höfum staðið vaktina þrátt fyrir tilkomu Kringlu, Smáralindar og fleiri verslunarkjarna víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu. Sumarlokanir gatna í miðbænum frá árinu 2012 og síendurteknar skyndilokanir hafa leitt af sér mikinn samdrátt í verslun. Viðskiptavinir venjast af því að versla hér á þessu svæði þegar götunum er lokað og ástandið versnar í hvert sinn sem lokað er að nýju. Á þetta hefur ítrekað verið bent, meðal annars með veltutölum, en við höfum talað fyrir daufum eyrum borgaryfirvalda. Svo fór að Miðbæjarfélagið kærði ákvörðun um lokun gatna til ráðherra og það mál fór einnig fyrir umboðsmann Alþingis sem komst að þeirri niðurstöðu að staðið hefði verið að lokunum með ólögmætum hætti. Borgaryfirvöld létu það álit sem vind um eyru þjóta og héldu uppteknum hætti.“
Greinargerð
Þeir sem skrifa undir hafa lagst gegn lokunum gatna í miðbænum og segja að lokanirnar hafi skaðað rekstur þeirra verulega undanfarin ár. Nú er kominn tími til að borgarmeirihlutinn eigi alvöru samtal og SAMRÁÐ við þessa aðila enda mál að linni að framkvæma eitthvað sem stór hluti borgarbúa leggst gegn. Staðan í verslun í miðbænum er grafalvarleg. Ýmis rótgróin fyrirtæki eru að hverfa á braut og fleiri að hugsa sér til hreyfings. Það er ekki hvað síst afleiðing götulokana undanfarinna ára. Neikvæð áhrif lokanna ná langt út fyrir þau svæði þar sem lokað er. Þrátt fyrir það boða borgaryfirvöld nú í áföngum lokun Laugavegar, Bankastrætis og neðsta hlutar Skólavörðustígs til frambúðar. Ítrekuðum óskum um samráð hefur verið hafnað og á fundum með embættismönnum og borgarfulltrúum hefur sjónarmiðum þeirra beinlínis verið mætt með hótfyndni og dónaskap að sögn rekstraraðilanna. Margir sjá alls engan rekstrargrundvöll í lokaðri götu og telja því eina kostinn að flytja fyrirtækin annað. Til að verslunin fái þrifist þarf aðgengi að henni að vera greitt.
Eftirfarandi kemur einnig fram í bréfinu:
„Milli okkar hefur gengið undirskriftarlisti þar sem lokunum er mótmælt og þegar hafa hátt í 170 rekstraraðilar á Laugavegi, Skólavörðustíg og Bankastræti skrifað undir og undirskriftum fjölgar dag frá degi (er nú í ágúst 2019 orðnir 240). Enginn þarf að velkjast í vafa um afstöðu meginþorra rekstraraðila í þessu efni.
Gullkistan, sem á sér samfellda sögu í 147 ár, er ein fjölmargra verslana sem líður fyrir götulokanir borgarstjórnar. Verslunar- og þjónustufyrirtæki sem eiga sér áratugalanga sögu eru mikilvægur þáttur í menningu borgarinnar.
Nú er mál til komið að borgaryfirvöld hlusti á okkur sem staðið höfum vaktina í fyrirtækjum okkar í áratugi og hefji raunverulegt samráð um leiðir til að efla verslun og þar með mannlíf hér á þessu svæði, því án blómlegrar verslunar er enginn miðbær.“
Gullkistan skrautgripaverslun, Frakkastíg 10 (rétt við hornið á Laugavegi) – rekstrarsaga í 147
Penninn Eymundsson, Austurstræti 18, Laugavegi 77, Skólavörðustíg 11 – verslunarsaga í 140 ár
Verslun Guðsteins Eyjólfssonar, Laugavegi 34 – verslunarsaga í 101 ár
Brynja, Laugavegi 29 – verslunarsaga í 100 ár
Guðlaugur A. Magnússon, Skólavörðustíg 10 – verslunarsaga í 95 ár
Listvinahúsið leirkerasmíði og minjagripaverslun – rekstrarsaga í 92 ár
Efnalaugin Úðafoss, Vitastíg 13 (50 metra frá Laugavegi) – rekstrarsaga í 86 ár
Snyrtivöruverslunin Stella, Bankastræti 3 – verslunarsaga í 77 ár
Vinnufatabúðin, Laugavegi 76 – verslunarsaga í 75 ár
Dún og fiður, Laugavegi 86 – verslunarsaga í 60 ár
Gullsmíðaverslun og verkstæði Hjálmars Torfasonar, Laugavegi 71 – verslunarsaga í 60 ár
Mál og menning, Laugavegi 18 – verslunarsaga í 60 ár
Gleraugnasalan 65, Laugavegi 65 – verslunarsaga í 58 ár
Tösku og hanskabúðin, Laugavegi 103 – verslunarsaga í 58 ár
Herrahúsið, Laugavegi 47 – verslunasaga í 54 ár (flytur nú í Ármúla 27)
Gullsmíðaverslun Guðbrandur J. Jezorski, Laugavegi 48 – verslunarsaga í 53 ár
Gull & Silfur skartgripaverslun og verkstæði – verslunarsaga í 48 ár
Jón og Óskar úra og skartgripaverslun, Laugavegi 61 – verslunarsaga í 48 ár
Gleraugnamiðstöðin Profil-Optik, Laugavegi 24 – verslunarsaga í 47 ár
Linsan gleraugnaverslun, Skólavörðustíg 41 – verslunarsaga í 47 ár
Gilbert úrsmiður, Laugavegi 62 – verslunarsaga í 45 ár
Dimmalimm, Laugavegi 53b – verslunarsaga í 30 ár
Gullkúnst Helgu, Laugavegi 13 – verslunarsaga í 30 ár
Gullsmiðja og Listmunahús Ófeigs, Skólavörðustíg 5 – verslunarsaga í 27 ár
Verslunin Kós, Laugavegi 94 – verslunarsaga í 26 ár
Caruso við Lækjartorg – veitingasaga í 25 ár
Bolli Kristinsson, kaupmaður við Laugaveg
Lögð fram fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 13. ágúst 2019.
Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins við 7. lið fundargerðarinnar:
Svar Skóla- og frístundarráðs við tillögu Flokks fólksins að sviðið hafi aðgang að upplýsingum um tekjur umsækjenda til að umsóknarferli verði skilvirkara
Sviðsstjóri bendir í svari sínu á verklagsreglur milli skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs sem samþykktar voru 2013. Þar er gert ráð fyrir að „fram fari mat á aðstæðum hverju sinni í stað þess að tekjurnar einar og sér ráði gjaldi foreldra“. Flokkur fólksins vill benda á að tengsl eru á milli tekna og aðstæðna. Foreldrar með 350 þ.kr. tekjur á mánuði og borga þar af leigu geta varla haft mikið aukreitis. Skóla- og frístundasvið á að hafa heildarmynd af hverri fjölskyldu til að afgreiðsla geti verið skilvirkari. Til að fá þriggja mánaða skuldaskjól þarf foreldri oft að bíða lengi eftir viðtali hjá félagsráðgjafa. Ef skuldari er metinn hafa greiðslugetu er skuldin send í innheimtu þar sem hún margfaldast fljótt sem gerir foreldri enn erfiðara fyrir að greiða skuldina. Sé greiðslugeta neikvæð er beðið eftir greinargerð og stimpill frá afskriftarnefnd sem fundar tvisvar á ári. Á meðan skal skuldari greiða áfallandi gjöld. Af hverju er fólk sem þarf aðstoð látið ganga slíkar þrautargöngur? Bak við hvert mál eru börn sem oft fara ekki varhluta af fjárhagsáhyggjum foreldra sinna og hér eru verið að tala um frístund fyrir börnin á meðan foreldrið vinnur.
Lögð fram svohljóðandi gagnbókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:
Gjaldskrár í Reykjavík eru með því lægsta á öllu landinu hvort sem litið er til leikskóla eða frístundaheimila, þá eru systkinaafslættir ríflegir. Ef foreldrar eiga erfitt með að greiða fyrir þá þjónustu er leitast við að leysa þau mál með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Verklag skóla- og frístundasviðs í þessu tilliti er því til mikillar fyrirmyndar.
Lögð fram svohljóðandi gagnbókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill árétta hér að enginn var að tala um gjaldskrá í þessu sambandi þ.e. að hún væri of há eða verið væri að bera gjaldskrá borgarinnar saman við önnur sveitarfélög. Ef fólk á erfitt með að greiða skuld sína fyrir þjónustu svo sem frístund bíður þeirra langur og tyrfinn vegur sbr. verklagsreglur um þriggja mánaða skuldaskjól. Ef meirihlutinn efast um þetta ætti hann bara að ræða við þennan hóp foreldra og heyra það beint frá þeim hver þeirra reynsla er.
Fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 21. ágúst 2019 – til samþykktar að hluta.
Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins við tillögum Flokks fólksins er varða umferðarmál í miðbænum.
Um er að ræað eftirfarandi liði í fundargerð Skipulags- og samgönguráðs 21. ágúst:
Bókanir meirihlutans í skipulags- og samgönguráði við liði 18, 20, 21, 23, 24, 25, 26 og 27, allt umferðartillögur Flokks fólksins, lýsa talsverðum hroka, andúð gegn bílanotkun og forræðishyggju meirihlutans í ráðinu. Allar tillögur Flokks fólksins í umferðarmálum voru felldar. Meirihlutinn í skipulagsráði getur ekki sett sig í spor t.d. eldri borgara sem finnst mörgum bílastæðahúsin ógnvænleg. Hvað varðar Lækjargötuna (liður 20) skapar ástandið þar núna slysahættu bæði fyrir gangandi, hjólandi og akandi. Þarna er óreiða og hefur verið lengi. Með þessu einstrengingslega viðhorfi sem meirihlutinn sýnir í bókunum græða þau fátt annað en að vekja reiði borgarbúa. Nú er ástandið á Laugavegi þannig að fólk er sífellt að ruglast. Fyrir þessum breytingum voru engin rök og lokanir gatna eru eins og margstaðfest er í óþökk meirihluta hagsmunaaðila. Reynt er að fegra alla hluti og hausnum stungið í sandinn þegar blasir við að bærinn er að tæmast af Íslendingum. Það er langur vegur í að almenningssamgöngur verði fýsilegur kostur. Ótal atriði þarf að bæta eins og fjöldi kvartana hefur sýnt. Tíðni þarf að vera mun meiri ef þetta á að vera alvöru kostur. Borgarlína er enn bara mynd á blaði og einhver ár í að hún verði alvöru kostur ef hún verður það einhvern tímann.
Lögð fram svohljóðandi gagnbókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram tíu tillögur um umferðarmál í skipulags- og samgönguráði sem allar miðuðu að því að gera borgina að meiri bílaborg en hún er nú þegar. Bílaeign á Íslandi er ein sú mesta í heiminum og mikilvægt að gera öðrum samgöngumátum hátt undir höfði með því að leggja nýja hjólastíga, auka forgang strætó og gera gangandi vegfarendum auðveldara um vik að komast á milli staða. Hamfarahlýnun krefst þess að brugðist sé við með róttækum hætti til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Ekki fæst séð hvernig rétturinn til að menga skipti meira máli en rétturinn á hreinu lofti og framtíðar jarðarinnar.
Lögð fram svohljóðandi gagnbókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Hér er um hreina útúrsnúninga meirihlutans að ræða og reynt er að slá ryki í augu fólks sem kunna að lesa þessar bókanir. Ekkert af þessum umferðartillögum miða að því sérstaklega að gera borgina að meiri bílaborg en hún er. Þær miða hins vegar að því að skipulagsyfirvöld í borginni noti heilbrigða skynsemi, sanngirni og virðingu gagnvart fólki í borginni og þeim sem koma lengra að og þeim lífstíl í ferðamáta sem það kýs sér. Andúð gagnavart bílaeigendum sem meirihlutinn í skipulagsráði og borgarstjórn sýnir er komin út yfir öll velsæmismörk. Það er mat Flokks fólksins að allt á að gera til að minnka tafir, alls konar tafir og auðvelda öllum aðgengi að miðbænum okkar án tillits til hvernig þeir ferðast.
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. ágúst 2019, þar sem óskað er staðfestingar borgarráðs varðandi leiðréttingu skipulags- og samgönguráðs frá 14. ágúst 2019
Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar athugasemdir við orðalag í umræddu bréfi:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill gera athugasemdir við orðalag í bréfi frá umhverfis- og skipulagssviði. Á bls. 8 er talað um „lifandi jarðhæð“. Þetta er afar sérkennilega orðað og leggur borgarfulltrúi til að sviðið leggist yfir eitthvað skárra til að lýsa því sem verið er að reyna að lýsa sem er sennilega að á jarðhæð sé einhvers konar starfsemi. Á bls. 9 er talað um „Takmarka ónæði og umferð vegna lestunar og losunar ferðamanna“. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst skrýtið að nota lestun og losun þegar vísað er til fólks, að lesta og losa fólk? Á sömu blaðsíðu er talað um „Húsnæði fyrir alla og er það þá ekki orðalag sem er gagnrýnt heldur mætti bæta við setninguna „Leitast verði við að tryggja fjölbreytt framboð húsagerða og búsetukosts fyrir alla félagshópa“ og svo mætti bæta við: sem gert yrði með fjárhagslegum aðgerðum, svo sem styrkjum, kvóta eða miðstýringu. Að tryggja fjölbreytt framboð húsagerða og búsetukosta á dýrasta svæði borgarinnar verður nefnilega ekki gert nema með handstýringu en ekki markaðsöflum.
Lagt fram minnisblað skóla- og frístundasviðs, dags. 21. ágúst 2019, um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði 19. ágúst 2019.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fram kemur í minnisblaði sviðsstjóra um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði að enn á eftir að ráða í 60.8 grunnstöðugildi í leikskólum, 40 stöðugildi í grunnskólum og 102,5 stöðugildi í frístundaheimilum/sértækum félagsmiðstöðvum. Enn er óljóst hvort staða ráðningarmála seinki áætlun um inntöku barna í leikskóla. Það má sjálfsagt deila um hvort þetta sé slæmt eða viðunandi í ljósi þess að það taki tíma að ná inn fólki. Staðreyndin er sú hvernig sem litið er á málið að það er langt í land með að fullmanna þessar stöður. Borgarmeirihlutinn getur gert betur í þessum málum. Það að sé biðlisti í leikskóla yfir höfuð er óverjandi. Hægt er að fara ýmsar leiðir til að gera þessi störf aðlaðandi og eftirsótt og strax að vori þarf að fara af krafti í að ná í fólk með öllum ráðum. Ef horft er á málið í víðara samhengi t.d. í tengslum við kjaramálin þá er það borgin sem setur stefnuna og getur falið samninganefnd sinni að koma með tillögur í samningaviðræður sem stuðla að því að störfin verði eftirsóttari t.d. stytta vinnuviku til að létta á álagi. Ofan á þetta bætast viðgerðir á skólabyggingum vegna viðhaldsleysis og myglu. Þá eru ótalin veikindatilfelli sem rekja má beint til myglu í skólabyggingum.
Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um lækkun framkvæmdagjalds við Lindagötu:
Er ákvörðun sem tekin var um lækkun framkvæmdargjalds á Lindargötu komin til framkvæmda? Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill spyrja hvort búið sé að lækka framkvæmdargjald á Lindargötu 57-66 eins meirihluti fundarmanna ákvað að gera skyldi á félagsfundi dags 4. júlí 2018?
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.
Tillaga Flokks fólksins að börn foreldra sem eru með fjárhagsaðstoð frá borginni fá sérstakan styrk til að standa straum af gjaldi frístundarheimilis
Þessi tillaga er lögð fram til þess að börn fátækra foreldra þurfi EKKI að nota frístundarkortið til að greiða upp í gjald frístundarheimilis enda er það ekki markmið né tilgangur frístundarkorts heldur er það eftirfarandi:„Að öll börn og unglingar í Reykjavík 6 – 18 ára geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Frístundakortinu er ætlað að auka jöfnuð í samfélaginu og fjölbreytileika í iðkun íþrótta-, lista- og tómstundastarfsemi.“
Kostnaður vegna tillögunnar verði mætt með auknum fjárheimildum sem komi af kostnaðarliðnum ófyrirséð 09205.
Það er mikilvægt að öll börn sitji við sama borð þegar kemur að tækifærum til að upplifa reynslu og nám. Frístundarkortið er hugsað til þess að auka jöfnuð í samfélaginu og fjölbreytileika í iðkun íþrótta-, lista- og tómstundariðju. Það er því mjög mikilvægt að frístundarkortið sé notað til þess einvörðungu en að foreldrar sem eru fjárhagslega aðþrengdir séu ekki þvingaði til að nota kortið til að greiða upp í gjald frístundarheimilis. Til að foreldrar geti unnið úti þarf barnið að hafa gæslu a.m.k þar til það nær 9-10 ára aldri. Dvöl barns á frístundarheimili er því nauðsynleg til að foreldrar geti unnið út. Það er því ekki sanngjarnt að þessi foreldrar verði að nota frístundarkort sem hugsað er til að auka jöfnuð til að greiða upp í gjald frístundarheimilis.
Greinargerð
Eins og staðan er núna er það því afar ósanngjarn að í reglum standi að kortið megi nota til að greiða gjald frístundarheimilis og er þar með tekið af barninu mögulegt tækifæri á nýta það í annað nám og námskeið eins og tónlistarskóla, dansskóla, myndlistarskóla, ljósmyndanám eða annað sambærilegt. Gengið er svo langt að gera það að skilyrði að ekki sé hægt að sæka um þriggja mánaða skuldaskjóla nema umsækjandi hafi fyrst notað frístundarkortið upp í skuldina. Hér er verið að brjóta á réttindum barna með grófum hætti að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins.
Það gefur auga leið að ef foreldri verður að nota frístundarkort barns síns til að greiða frístundarheimili er það ekki á meðan nota það fyrir barnið samkvæmt markmiðum frístundarkortsins en í reglum um frístundarkort stendur. Börn eru á frístundarheimili til þess að foreldrar þeirra geti stundað vinnu og verið á meðan örugg um börn sín eftir að skóla líkur á daginn. Hér er því um nauðsyn að ræða á meðan frístundarkortið er hugsað í allt öðrum tilgangi þ.e. að veita barni tækifæri til að taka þátt í uppbyggilegu frístundarstarfi sem iðulega er mjög kostnaðarsamt og ekki allra foreldra að geta greitt fyrir. Hér er því verið að mismuna börnum fátækra og efnaminni foreldra á grundvelli fjárhagsstöðu.
Tillaga Flokks fólksins að borgarráð samþykki að tekjur foreldra/forsjármanna hafi bein áhrif á gjaldskrá frístundaheimila.
Foreldrar með 350 þ.kr. tekjur á mánuði og borga þar af leigu geta varla haft mikið aukreitis. Flokkur fólksins hefur lagt til að þeir foreldrar sem eru undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytis fái gjaldfrjáls frístundaheimili en þeirri tillögu hefur verið hafnað. Á árinu 2017 fengu 466 foreldrar, 777 barna fjárhagsaðstoð til framfærslu. Margir þessara foreldra getað ekki greitt frístundargjaldið og lenda í vanskilum. Þá hefst afar tyrfin vegferð þeirra til að reyna að fá skuld sína afskrifaða. Flókið ferli er aldrei ódýrt. Ferli sem er á mörgum stigum og kemur inn á borð margra starfsmanna kostar peninga. Ferlið er auk þess óþarflega snúið því skóla- og frístundarsvið hefur ekki heildarmyndina hjá sér, starfsmenn hafa engar upplýsingar um tekjur foreldra. Árið 2017 fengu 466 foreldrar, 777 barna í Reykjavík fjárhagsaðstoð til framfærslu. Það sem verra er að enn fleiri þyrftu aðstoð en fá ekki. Matsreglur og umsóknarferlið er flókið og kemur inn á borð margra. Skuldir þeirra sem fá synjun á aðstoð hvort heldur til skamms eða langs tíma eru sendar í innheimtu hjá lögfræðingum.
Greinargerð
Til að fá þriggja mánaða skuldaskjól þarf foreldri að bíða stundum óratíma eftir viðtali hjá félagsráðgjafa. Ef skuldari er metin hafa greiðslugetu er skuldin send í innheimtu þar sem hún margfaldast fljótt. Foreldri sem ekki hefur getað greitt skuldina getur það varla eitthvað frekar þegar hún er komin með dráttarvexti. Sé greiðslugeta neikvæð er beðið eftir greinargerð og stimpil frá afskriftarnefnd sem fundar tvisvar á ári. Á meðan skal skuldari greiða l áfallandi gjöld. Af hverju er fólk sem þarf aðstoð látið ganga slíkar þrautargöngur? Bak við hvert mál eru börn sem oft fara ekki varhluta af fjárhagsáhyggjum foreldra sinna og hér eru verið að tala um frístund fyrir börnin á meðan foreldrið vinnur. Hversu bættari er borgin ef barnið er ekki í frístund og foreldrið kemst ekki til vinnu? Flokkur fólksins leggur þess vegna til að gripið verði til sértækra aðgerðar fyrir þann skilgreinda hópur sem hér er rætt um og að tekjur foreldra hafi bein áhrif á gjald frístundaheimilis.