Borgarstjórn 15. október 2019

Tillaga Flokks fólksins að Skóla- og frístundarsvið eigi samtal við skólasamfélagið í Reykjavík með það að markmiði að leita að fleiri skólum sem eru tilbúnir að seinka skólabyrjun og hefja kennslu kl. 9:00

Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að fela SFS (skóla- og frístundarsviði) að eiga samtal við skólasamfélagið í Reykjavík með það að markmiði að kanna hvort fleiri skólar eru tilbúnir til að seinka skólabyrjun og hefja kennslu kl. 9:00 í stað 8:00. Borgarfulltrúi gerir sér grein fyrir ákveðnum vanda sem gæti skapast hjá einhverjum foreldrum yngri barna sem þurfa sjálfir að mæta í vinnu kl. 8:00.  Hann væri þó hægt að leysa með því að bjóða upp á morgungæslu milli kl. 8:00 og 9:00 fyrir þau börn sem þess þurfa.  Einhverjir skólar hafa nú þegar seinkað skólabyrjun t.d. um 30 mínútur. Sumir skólar hafa einnig breytt lengd kennslustunda frá 40 mínútum yfir í 60 mínútur.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur rætt við skólastjórnendur um reynslu þeirra á seinkun skólabyrjunar og segja þeir hana góða. Börnin komi hressari í skólann og  séu virkari. Það sé rólegra yfirbragð á nemendum og minna álag á kennurum. Breytingin er  talin hafa verið til  góðs fyrir alla.

Með því að hefja skólastarf kl. 9:00 gefst kennurum tækifæri áður en kennsla hefst til að sinna t.d. undirbúningsvinnu eða foreldrasamskiptum sem þeir ella þyrftu að sinna í lok dags. Seinkun/breyting á upphafi vinnutíma kennara gæti einnig dregið úr umferðarálagi í borginni á háannatíma.

Greinargerð

Mikilvægt er að skoða heildarmyndina ef seinka á byrjun skóladags. Hvað varðar börnin þá eiga mörg börn erfitt með að vakna snemma sérstaklega þegar myrkur er úti. Alkunna er að flestum unglingum þykir gott að sofa á morgnana. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að unglingar á Íslandi fara seinna að sofa en unglingar þjóða sem við berum okkur saman við. Þeir unglingar sem fara mjög seint að sofa finnst eðli málsins samkvæmt erfitt að vakna á morgnana. Svefntími barna og sérstaklega unglinga er efni í aðra umræðu og sú umræða þyrfti að snúast um hvernig hægt er að styrkja foreldra í að taka á svefnmálum barna sinna. Það er umræða sem tengist ekki hvað síst snjalltækjanotkun barna og unglinga. Vitað er að snjalltækjanotkun barna að kvöldlagi og fram á nótt er að koma í veg fyrir að þau fari tímalega að sofa. Það er mikilvægt að skólarnir bjóði þeim foreldrum sem telja sig þurfa upp á leiðsögn um snjallsíma/samfélagsmiðlanotkun barna sinna að kvöldlagi.

Ávinningur af seinkun á upphafi skóladags er minni ef barn fer of seint að sofa og fær þar að leiðandi ekki nægjan svefn. Í þeim skólum sem kennsla hefst kl. 8.30 er nokkuð um það að börn komi engu að síður of seint sem gæti verið merki þess að betra er að byrja síðar eða kl. 9:00.
Hvað sem þessu líður er æskilegt að svefn unglinga í tengslum við  byrjun skóladags verði rannsakaður nánar. Áhugavert væri að skoða hvaða áhrif, ef einhver, seinkun upphafs skóladags hefur á lífsstíl barnanna og þar með talið svefnvenjur þeirra.

Það var mat eins skólastjórnanda sem borgarfulltrúi ræddi við sem hefur góða reynslu af seinkun skólabyrjunar að miklu máli skiptir hvernig heimilislíf og almenn rútína fjölskyldunnar er. Svefn er einn stærsti þáttur í lýðheilsu nemenda. Einhver kynni að óttast að ef skólabyrjun er seinkað að þá munu börnin fara seinna að sofa sem því nemur. Í samtali við skólastjórnendur töldu flestir að það yrði ekki raunin. Dæmi, ef barn fer að sofa kl. 2:00  fari það ekki endilega að sofa kl.  3:00 af því að það á að mæta klukkutíma seinna í skólann. Börn eins og fullorðnir hafa ákveðin „norm“ bæði sem börn, unglingar og síðar sem fullorðnir einstaklingar.  Útivistartíminn er enn ein breytan sem áhugavert væri að skoða í tengslum við svefn unglinga.
Niðurstaða samtal við þá sem hafa reynslu af því að hefja skóladaginn seinna er sú að almennt muni það  lengja svefntíma barnanna.

Ef hefja á kennslu kl. 9:00 í stað 8:00 eða 8.30 þarf að finna lausnir á ýmsu öðru. Áður hefur verið talað um að bjóða þarf upp á gæslu milli 8:00 og 9:00. Skoða þarf einnig hvort hægt væri að þjappa skóladagskránni meira saman til þess að nemendur séu ekki búnir seinna að degi til og komist þá seinna á íþróttaæfingar eða í annað tómstundanám.  Einnig þarf að finna leiðir til að stytta vinnutíma kennara að lokinni kennslu.  Mikilvægt er að kanna afstöðu og viðhorf foreldra til seinkunar skólabyrjunar t.d. hvort það myndi henta þeim verr að vita af barninu/unglingum heima eftir að foreldrar eru farnir til vinnu?

Mikilvægt er að heyra raddir kennara og hvernig þeir sjá þennan tíma að morgni til?  Ef hann á ekki að vera vinnutími (t.d. vegna sveigjanleika í starfi og mögulega styttri vinnuviku sem nú er til umræðu),  hvernig eiga þá kennarar að ná að ljúka vinnu sinni fyrir hefðbundinn fjölskyldutíma?

Eins og hér hefur verið rakið er að mörgu að huga í sambandi við að seinka byrjun skóladags. Nú þegar eru fordæmi fyrir að hefja kennslu ýmist kl. 8:30 eða 9:00 með góðum árangri. Sú tillaga sem hér er lögð fram er að skólabyrjun hefjist kl. 9:00. Það er mat flestra þeirra sem starfa í skólum sem hefja kennslu seinna að seinkunin hafi leitt til byltingar á skólastarfinu. Það er því full ástæða til að skóla og frístundarsvið kanni með markvissum hætti hvort fleiri skólar sýna áhuga á að hefja skóladaginn kl. 9:00.

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.
Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins var að vonast til að þessi tillaga yrði samþykkt enda aðeins verið að leggja til að skóla- og frístundasvið eigi samtal við skólasamfélagið í Reykjavík með það að markmiði að leita að fleiri skólum sem eru tilbúnir að seinka skólabyrjun. Tillagan kostar ekkert og er aðeins hvatning um samtal. En því var ekki að skipta og leggur borgarstjóri til að tillögunni verði vísað til hans skrifstofu og að unnið verði að henni þar í samráði við skóla- og frístundarsvið. Borgarfulltrúi hefur ekki annan kost en að una því enda valdalaus hér í borgarstjórn. Þess er vænst að eitthvað gott komi engu að síður út úr þessari tillögu í þágu skólasamfélagsins.

Bókun Flokks fólksins við seinni umræðu um samkomulag ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu til 2033:

Flokkur fólksins vill setja grunnþarfir fólks í forgang. Fólkið fyrst. Víða þarf að bæta grunnþjónustu. Rétt er að byrja á því áður en farið er í 120 ma.kr. fjárfestingu. Fólkið á auk þess að fá að kjósa um borgarlínu. Fámennur hópur keyrir nú málið í gegn og skuldsetur borgara enn frekar. Flokkur fólksins vill bæta almenningssamgöngur (Strætó bs.) sem eru ekki alvöru valkostur sem stendur. Borgarlína á að vera tilbúin eftir 10 til 15 ár. Á þessum tímapunkti liggja takmarkaðar upplýsingar fyrir um þessa risaframkvæmd. Lítið er vitað um hönnun, útfærslu eða fjármögnun. Sagt er að „það fari nú eftir aðstæðum“ eða „taka á ákvarðanir þegar líður á ferlið“. Þetta eru ekki traustvekjandi svör. Efasemdir um að borgarlína slái í gegn má sjá víða m.a. á vefsíðu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Fjármögnun er ekki endanleg en frekari skattur verður lagður á borgarbúa. Mjólka á bíleigendur með vegskatti sem dekka á allt að 60 ma.kr. Vegskattur kemur verst niður á þeim sem minnst hafa. Ef stjórnun borgarinnar hefði verið í lagi síðustu ár væri almenningssamgöngur a.m.k. viðunandi og búið að losa um helstu umferðarhnútana í borginni. En engin áhugi virðist vera á því hjá þessum meirihluta frekar en var hjá þeim síðasta.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 25, 26. og 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. október um erindi Félagsbústaða að borgin ábyrgist lántöku og beiðni um einfalda ábyrg vegna útgáfu skuldabréfa 

Í tvígang hefur komið inn á borð borgarráðs ósk um að borgarstjórn veiti veð í útsvarstekjum Reykjavíkurborgar, í Lánasjóði sveitarfélaga til tryggingar á ábyrgð á lántöku Félagsbústaða 2018 og nú 2019 að veitt verði sérstök hlutafjárframlög í gegnum Íbúðalánasjóð sem og beiðni um einfalda ábyrgð borgarinnar vegna útgáfu skuldabréfa Félagsbústaða. Ljóst er að félagið á erfitt með að fjármagna sig á skuldabréfamarkaði. Fjárþörfin er mikil sem verið er að plástra. Spurningar vakna um rekstrarform Félagsbústaða sem er hlutafélag í eigu borgarinnar, hver er rót vandans, rekstrarformið eða stjórnunin nema hvort tveggja sé. Félagsbústaðir skulda nú 41 ma.kr og fara skuldir vaxandi. Mörg verkefni hafa farið fram úr kostnaðaráætlun. Flokkur fólksins telur að skoða eigi að færa fyrirtækið aftur undir A-hlutann þar sem borgarráð hefði betri aðkomu, yfirsýn og eftirlit með starfseminni. Annar vandi er ástand eigna og hvernig beiðnum fólks sem er orðið veikt af myglu og raka hafa árum saman verið hunsaðar. Félagsbústaðir eru þess utan að glíma við ímyndarvanda. Fólki finnst oft sem fátt minni á að Félagsbústaðir eru í eigu borgarinnar og þjónustar fólk sem upp til hópa hefur lítið milli handanna. Félagsbústaðir eru komnir í öngstræti. Endurskoða þyrfti allan grundvöll rekstursins í stað þess að vera með eilífar reddingar.

Bókun Flokks fólksins undir lið 13 í fundargerð Skóla- og frístundarráðs er varða svör vegna málefni Kelduskóla

Borgarfulltrúi Flokks fólksins finnst sérkennilegt að málefni Kelduskóla skuli enn vera í lausu lofti og hvetur til þess að gengið sé í að taka þá einu ákvörðun sem er rétt í þessu máli, þ.e. að færa unglingadeildina aftur heim í hverfið eins og alltaf hefur staðið til. Á sínum tíma flutti hún burt vegna myglu í færanlegum stofum. Nú getur skólinn hins vegar tekið við börnunum aftur. Sú ógn sem vofað hefur yfir í langan tíma hefur valdið foreldrum og börnunum í hverfinu áhyggjum. Nóg er komið af óöryggi. Þau rök að einingin sé of lítil til að hagkvæmt sé að reka hana er ekki byggð á réttum forsendum. Forsendur fyrir að reka hagkvæma skólaeiningu er að bjóða öllum þeim börnum um 130 talsins, sem eiga lögheimili í hverfinu, skólasetu þar. Málið er þess utan að taka á sig aðrar neikvæðar myndir eins og að rútan sem sækja á börnin komi ekki og hefur það gerst ítrekað. Hvernig er þetta dæmi eiginlega hugsað í vetur. Fram undan er hávetur og er börnunum ætlað að hanga úti og bíða eftir rútu sem ekki kemur? Hér er um alvarlegan öryggisbrest að ræða varðandi aðgengi að þeim skóla sem börnum er ætlað að stunda nám í.