Borgarráð 3. desember 2020

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. nóvember 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs á tillögu að deiliskipulagi fyrir borgargarðinn í Elliðaárdal:

Elliðaárdalurinn er mörgum afar kær jafnvel þótt varla sé hægt að tala um hann sem ósnortna náttúru lengur. Hann er manngerð náttúra. Þar með er þó ekki sagt að gildi hans sé ekki mikið, þvert á móti. En náttúruleg þróun hans mun taka mið af þeim gróðri sem þar hefur verið plantað. Furur og greni munu sá sér út og barrskógur verður líklega ríkjandi ef ekkert verður að gert. Útsýni niðri í dalnum verður þá takmarkað við næstu metra. Mikil umræða hefur verið um lónið. Um það vilja margir standa vörð. Stíflan er friðlýst og ekki verður átt við hana án leyfis. Stíflan rýfur sjónlínu milli efri og neðri hluta dalsins. Hún liggur yfir ána, bakka á milli og klýfur dalinn – farveginn – í tvennt sjónrænt séð. Tilgangi þessa mannvirkis er lokið. Með því að rífa hana er farið í átt að upprunalegu ástandi Elliðaárdals sem hlýtur að vera jákvætt.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. nóvember 2020, sbr. samþykkt umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 25. nóvember 2020 á endurskoðuðum reglum um styrki vegna hleðslubúnaðar fyrir rafbíla við fjöleignarhús

Lagðar eru fram til afgreiðslu endurskoðaðar úthlutunarreglur styrktarsjóðs fyrir fjöleignarhús til uppsetningar á hleðslubúnaði fyrir rafbíla, dags. 20. nóvember 2020. Það er sumt sem kemur á óvart í þessum reglum, t.d. hvers vegna er styrkurinn bundinn við að alla vega séu fimm íbúðir í fjölbýlishúsi? Þá er styrkurinn allt að 67% af kostnaði að hámarki 1,5 milljónir. Ekkert fæst ef bara fjórar íbúðir eru í fjölbýlishúsinu. Hér er um mismunun að ræða að mati fulltrúa Flokks fólksins.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs skóla- og frístundasviðs, dags. 25. nóvember 2020, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 24. nóvember 2020 á tillögu um inntöku ungbarna í leikskóla frá 12 mánaða aldri:

Skóla- og frístundaráð leggur til að sett verði á fót þróunarverkefni um inntöku ungbarna í leikskóla borgarinnar. Þróunarverkefni? Er ekki verið að flækja málið óþarflega hér og tefja að hægt sé að fara að taka 12 mánaða börn inn í leikskóla? Það hefur orðið alveg nógu mikil töf á brúum bilið verkefninu. Þetta hefur dregist von úr viti. Athuga skal að sigið er á seinni hluta kjörtímabilsins og þetta loforð var sett fram í meirihlutasáttmálanum. Ekki kom fram að það ætti að líta dagsins ljós á lokametrum kjörtímabilsins. Þetta á „komandi árum“ sem segir í greinargerð með tillögunni „að Brúum bilið feli í sér að opna 700 leikskólarými á komandi árum“ er ekki mjög uppbyggjandi. Er verið að tala um 10 ár eða 20 ár? Staðan er slæm nú. Alls voru 73 börn, 18 mánaða og eldri á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík í byrjun mánaðar. Alls eru 510 börn, tólf mánaða og eldri, á biðlista eftir leikskólaplássi. Loforð hafa verið svikin.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð fjölmenningarráðs frá 23. nóvember 2020:

Nýlega var samþykktur viðauki um að fjárheimildir velferðarsviðs hækki um 20.300 þ.kr. vegna tilraunaverkefnis um frístundir í Breiðholti. Aðgerðirnar felast í því að hækka frístundakortið úr 50.000 í 80.000 kr. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að hér ætti ekki að vera um neitt tilraunaverkefni að ræða heldur ætti þetta verkefni að vera varanlegt og ná til allra hverfa. Að öðrum kosti er verið að mismuna börnum. Enda þótt mesta fátæktin sé vissulega í hverfi 111 eru líka fátæk börn í öðrum hverfum og það eru líka börn af erlendum uppruna í öðrum hverfum. Þess utan þarf enn að liðka um reglur frístundakortsins. Því miður gengu tillögur stýrihóps um endurskoðun frístundakorts of skammt. Skilyrðin fyrir lengd námskeiðs fór úr 10 vikum í 8 vikur. Þarna hefði átt að ganga lengra. T.d. hefði mátt miða við 4 vikur og opna síðan fyrir notkun frístundakortsins fyrir sumarnámskeið. Það eru ekki öll börn sem komast á sumarnámskeið vegna þess að foreldrar hafa einfaldlega ekki efni á að greiða gjaldið sérstaklega ef um er að ræða systkini. Vikan á sumarnámskeið á vegum Reykjavíkurborgar kostar um 20.000 kr.

 

Bókun Flokks fólksins Lögð fram fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 19. nóvember 2020, undir 7. lið fundargerðarinnar:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar nýjum bæklingi Íþróttabandalags Reykjavíkur sem ber heitið Kynferðislegt ofbeldi og kynferðisleg áreitni í íþróttum. Fyrir var til bæklingur um sama efni sem ber heitið „Kynferðislegt ofbeldi í íþróttum“, gefinn út af Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands fyrir nokkrum árum. Sá bæklingur hefur staðist vel tímans tönn. Fræðsla er alltaf besta forvörnin. Það er afar mikilvægt að íþróttafélag eigi góðar siðareglur og verklagsreglur ef upp koma mál/kvörtun um kynferðislegt ofbeldi. Flokkur fólksins mun leggja til að útgáfu leiðbeiningarritsins verði fylgt eftir með námskeiði um þessi mál. Mikilvægt er að auka meðvitund íþróttaþjálfara á hvaða samskipti teljast viðeigandi og hvaða teljast óviðeigandi. Hvar mörkin liggja þegar kemur að íþróttum sem kallar á nálægð og snertingu. Íþróttaþjálfarar sem sótt hafa fræðslunámskeið í samskiptum á vettvangi íþróttanna eru betur í stakk búnir til að stunda sjálfskoðun og greina aðstæður. Vegna þess hversu krefjandi starf íþróttaþjálfarans er skipta skýrar og raunhæfar reglur höfuðmáli.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 2. desember, undir 7. lið fundargerðarinnar:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst ástæða til að styðja skoðun íbúasamtakanna Íbúasamtök Miðborgar sem standa gegn því að þessi bygging rísi. Samkvæmt rissteikningu skemmir þessi bygging útsýni. Ályktum Íbúasamtaka Miðborgar um deiliskipulagsbreytingu vegna nýbyggingar á Frakkastíg 1 á rétt á sér en stjórn Íbúasamtaka Miðborgar leggst gegn því að reist verði sjö hæða bygging á horni Frakkastígs og Skúlagötu þar sem nú, samkvæmt gildandi deiliskipulagi frá 1986 er gert ráð fyrir opnu svæði og „hugsanlegri dagvistun“. Stjórnin telur að halda eigi opna svæðinu við norðurenda Frakkastígs sem einskonar „öndunaropi“ en þar er eini staðurinn í röð hárra bygginga við Skúlagötu þar sem enn eru tengsl milli eldri byggðar og sjávar.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að íþrótta- og tómstundasvið standi fyrir námskeiði fyrir íþróttaþjálfara í kjölfar útgáfu bæklings Íþróttabandalags Reykjavíkur um kynferðisofbeldi í íþróttum:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að íþrótta- og tómstundasvið standi fyrir námskeiði fyrir íþróttaþjálfara í kjölfar útgáfu bæklings Íþróttabandalags Reykjavíkur um kynferðisofbeldi í íþróttum. Íþróttaþjálfarar sem sótt hafa fræðslunámskeið í samskiptum eru betur í stakk búnir að stunda sjálfsskoðun og greina aðstæður. Vegna þess hversu krefjandi starf íþróttaþjálfarans er skipta skýrar og raunhæfar reglur höfuðmáli og þjálfun í samskiptum. Fræðsla er besta forvörnin. Það er mikilvægt að íþróttafélag eigi góðar siðareglur og verklagsreglur ef upp koma mál/kvörtun um kynferðislegt ofbeldi. Ekki dugar að hafa góðar leiðbeiningar aðeins á blaði heldur er mikilvægt að þjálfarar fái tækifæri til að ræða og fræðast um þessi mál með leiðbeinanda. Mikilvægt er að auka meðvitund íþróttaþjálfara um hvaða samskipti teljast viðeigandi og hvaða teljast óviðeigandi. Hvar liggja mörkin þegar kemur að íþróttum sem kalla á nálægð og snertingu? Börn upplifa samskipti með ólíkum hætti. Sú umræða er einkum mikilvæg sökum þess að börn og unglingar hafa ekki alltaf náð þeim tilfinninga- og félagsþroska sem þarf til að leggja raunhæft mat á atferli og aðstæður. Þeim er þar af leiðandi hættara við að misskilja tjáningu í samanburði við fullþroska einstaklinga. R20120011

Visað til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs.