Borgarráð 3. september 2020

Bókun Flokks fólksins við 1. lið fundargerðar endurskoðunarnefndar frá 24. ágúst 2020:

Afkoma hefur versnað vegna COVID eins og nýafgreiddur sex mánaða árshlutareikningur sýnir. Tekjur hafa dregist saman og útgjöld aukist. Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 3.111 m.kr. aðallega vegna lægri skatttekna af sölu byggingarréttar en áætlanir gerðu ráð fyrir. Rekstur ýmissa málaflokka hefur heldur ekki gengið nógu vel, m.a. sem snýr að grunnþjónustu í samfélaginu. Borgin er illa undirbúin til að mæta áfalli sem þessu, alla vega þegar horft er til skuldastöðunnar. Velferðarsviði er ætlað að skera niður, hagræða, sem er í mótsögn við bréf borgarstjóra þar sem hann segir að varhugavert sé við þessar aðstæður að fara í niðurskurð. Fulltrúi Flokks fólksins vill minna á loforðin í meirihlutasáttmálanum og það lögbundna hlutverk að gæta að velferð borgarbúa ávallt og ekki síst við þær aðstæður sem uppi eru. Hlutverk borgarinnar er að þjónusta alla þá sem þurfa á félagslegri aðstoð að halda. Einnig á að hækka gjaldskrár þrátt fyrir að Samband íslenskra sveitarfélaga mælist til að haldið sé aftur að gjaldskrárhækkunum. Afkoma dótturfyrirtækja hefur þess utan versnað til muna. Auknar lántökur eru um 11 milljarðar og hafa skuldir aukist um 33 milljarða á sl. sex mánuðum. Í stað þess að greiða niður skuldir í góðæri hefur borgin aukið skuldir.

 

Bókun Flokks fólksins við 2. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 2. september 2020:

Umsögn um tillögu að matsáætlun fyrsta áfanga borgarlínu, Ártúnsholt–Hamraborg var lögð fyrir skipulagsfund 2. september sl. Fulltrúi Flokks fólksins finnst vera óvissa um samgöngur til og frá borgarlínu. Hér er átt við tengsl við aðrar samgönguleiðir og hverjar þær eiga helst að vera. Hver verður fjöldi bílastæða við borgarlínu? Búast má við að margir munu koma akandi að borgarlínu og geyma bíl sinn við stöðina yfir daginn. Koma þarf sem fyrst með áætlun um hvernig orkugjafar eiga að vera. Metanvagnar, rafmagnsvagnar á rafhlöðum eða sítengdir vagnar við rafmagnslínu. Allt slíkt hefur áhrif á hávaða frá borgarlínunni svo og útblástur og svifryk. Eftir því sem næst er komist liggur þó fyrir að orkugjafinn á að vera vistvænn, innlendur orkugjafi enda væri ekki annað boðlegt nú þegar krafa er um orkuskipti hið fyrsta. Fulltrúi Flokks fólksins myndi ætla að orkugjafinn ætti að vera metan þar sem ofgnótt er til af því á söfnunarstað og verður meira þegar gas- og jarðgerðarstöðin, GAJA, verður orðin virk. Það væri ánægjulegt ef lagst yrði á eitt um að nýta metan, þennan vistvæna, innlenda orkugjafa sem SORPA, fyrirtæki í eigu Reykvíkinga af stærstum hluta, framleiðir. Metan er nú brennt á báli, sóað þar sem ekki hefur tekist að koma því á markað.

 

Bókun Flokks fólksins við 5. lið Embættisafgreiðslna:

Fulltrúi Flokks fólksins er ánægður með að tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 27. ágúst 2020, um að gjald fyrir skólamáltíðir verði lækkað hafi verið vísað til skoðunar við gerð fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar 2021. Það er afar mikilvægt að þessi tillaga verði skoðuð með opnum huga. Reykjavíkurborg er stærsta sveitarfélagið og ætti að vera leiðandi í ákvörðunum sem lúta að bættum hag barna. Tryggasta leiðin til að fullvissa liggi fyrir að ekkert barn sé svangt í skólanum er auðvitað að matur í skóla sé gjaldfrjáls. Flokkur fólksins hefur tvisvar lagt fram þá tillögu en hafði ekki erindi sem erfiði. En nú liggur fyrir tillaga um lækkun gjaldsins og vonast fulltrúi Flokks fólksins að hún komist inn fyrir dyragætt fjárhagsáætlunar og leiði til þess að skólamáltíðir verði lækkaðar. Gjald skólamáltíða í Reykjavík er í dýrari kantinum ef samanborið við sum önnur sveitarfélög. Í Reykjavík greiða foreldrar jafnaðargjald 10.050 krónur sem þýðir að hver máltíð kostar 528 krónur en verð á hverri máltíð rokkar milli mánaða. Skólamáltíðir eru umtalsvert ódýrari á landsbyggðinni. Á Akranesi kosta þær 379 krónur, 315 á Hornafirði og aðeins 150 krónur í Fjarðabyggð. Sums staðar eru þær algerlega gjaldfrjálsar, til dæmis í Rangárþingi ytra.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 25. júní 2020, um reglur um strætókort til nemenda í grunnskólum Reykjavíkurborgar:

Lögð er fyrir borgarráð tillaga skóla- og frístundasviðs um að afhenda börnum í grunnskólum borgarinnar kort frekar en strætómiða. Staðfest er að ekki verði gerðar neinar frekari breytingar á reglum um skólahverfi, umsókn og innritun í grunnskóla Reykjavíkurborgar. Áfram verður því skólaakstur aðeins frá skráðu lögheimili. Hvað með börnin sem búa á tveimur heimilum en geta aðeins átt eitt lögheimili þar sem löggjafanum hefur ekki borið gæfa til að gera breytingar í samræmi við þann veruleika sem margir búa við núna. Þetta eru börn sem eru t.d. viku hjá föður og viku hjá móður en eru aðeins með lögheimili á einum stað. Með þennan hóp hefði þurft að gera undantekningu ef vegalengd frá heimili/lögheimili til skóla er meiri en 1,5 km til að gæta að jafnræði.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu borgarstjóra, dags. 31. ágúst 2020, ásamt kynningu stýrihóps um forgangsröðun íþróttamannvirkja í tengslum við stefnu í íþróttamálum:

Lagðar eru fram í borgarráði niðurstöður stýrihóps um forgangsröðun mannvirkja vegna stefnu í íþróttamálum til 2030. Á listanum eru framtíðarmannvirki röðuð eftir félags- og fjármálaskorum. Fulltrúi Flokks fólksins ætlar nú ekkert að fjölyrða um áreiðanleika þessarar aðferðarfræði sem hér er notuð. En ef reisa á fimleikahús á hiklaust að reisa það í hverfi 111 í Breiðholti, hús sem rúmar flestar íþróttagreinar og mikilvægt er að það verði í nafni Leiknis. Þar með er Leiknir orðið hverfisfélag fyrir hverfi 111 og sannarlega kominn tími til að svo verði. Yfirvöld í borginni verða að styðja betur við Leikni og það frábæra starf sem unnið er í hverfinu. Í þessu hverfi býr hæsta hlutfall fátæks fólks og hæsta hlutfall erlendra borgara. Nú er verið að ljúka við knatthús í Suður-Mjódd sem nýtist hverfi 111 lítið sem ekkert. Spurning er einnig með að ljúka tengibyggingu fyrir keiludeild ÍR sem er öflug deild. Borgin greiðir 32 milljónir á ári í brautarleigu í Egilshöll í staðinn fyrir að klára bygginguna með salnum fyrir rúmar 100 milljónir (held að það séu 120), sem mun borga sig upp á nokkrum árum. Þá er einnig möguleiki á að styrkja starfið og auglýsa það betur innan hverfis (Breiðholtið).

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að skóla- og frístundaráð í samvinnu við mannréttinda, lýðræðis- og nýsköpunarráð, mannréttindaskrifstofu og velferðarráð beiti sér sérstaklega fyrir hagsmunum erlendra barna í leik- og grunnskólum Reykjavíkur:

Lagt er til að skóla- og frístundaráð í samvinnu við mannréttinda, lýðræðis- og nýsköpunarráð, mannréttindaskrifstofu og velferðarráð beiti sér sérstaklega fyrir hagsmunum erlendra barna í leik- og grunnskólum Reykjavíkur. Huga þarf að þessum hópi út frá stöðu þeirra í skóla- og frístundakerfinu, félagslega og ekki síst námslega s.s. námsgreinar sem snúa að lestrar- og íslenskukennslu. Skortur er á almennum úrræðum og fjölbreyttari bjargráðum fyrir tvítyngd börn í leik- og grunnskólum. Staða margra þessara barna er slæm og hætta er á að þau einangrist. Árið 2014 var settur af stað hópur af skóla- og frístundaráði sem hafði það hlutverk að móta stefnu um fjölmenningarlegt skóla- og frístundastarf. Í stefnu um fjölmenningarlegt skóla- og frístundastarf eru ýmsar tillögur og ábendingar en óljóst er hvað af þessum tillögum/ábendingum hafa komist í framkvæmd. Lagt er því til að fagráð borgarinnar sameinist um að beita sér í málaflokknum til að bæta líðan, aðstöðu og utanumhald erlendra barna í leik- og grunnskólum borgarinnar. R20090033

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.