Borgarráð 31. janúar 2019

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Drög að nýjum samningsmarkmiðum Reykjavíkurborgar um uppbyggingu á nýjum uppbyggingarsvæðum

Áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins finnst margt í þessum markmiðum í ágætum farvegi en veltir því þó upp hvort hægt sé að breyta hlutföllum meira í hverfum, t.d. auka vægi félagslegra íbúða eða minnka ef svo ber undir. Einnig mætti auka fjölbreytileika í hverfum. Nú eru smáheimili af öllum gerðum mikið í umræðunni sem og krafa um rými fyrir hjólhýsabyggð. Þegar verið er að ræða um uppbyggingu á nýjum svæðum þarf að horfa til allra átta og taka tillit til þess að þarfir og óskir sem og greiðslugeta borgarbúa er afar misjöfn. Sem dæmi í Vogabyggð er einungis talað um að 5 % íbúða séu félagslegar. Þetta er afar lítil prósenta í svo stóru hverfi og þarna hefði prósentan alveg mátt vera hærri.

Fylgigögn: Bréf borgarstjóra undir liðnum:Drög að nýjum samningsmarkmiðum

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Fyrirspurn Flokks fólksins um jólaskreytingar, sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. nóvember 2018

Enda þótt jólaskreytingar séu ávallt skemmtilegt viðfangsefni og sannarlega ekki gaman að vera að agnúast út í þær er hér engu að síður um háa upphæð að ræða. Í þessu sambandi vill áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins minna á að ætíð skal gæta hófs, hagkvæmni og útsjónarsemi þegar verið er að sýsla með fé borgarbúa. Það stingur einnig nokkuð í augu í þessu svari hversu stórt hlutfall það er sem fer í skreytingar í miðbænum. Í borginni eru fleiri hverfi.

Fylgigögn: Svar umhverfis- og skipulagssviðs

Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins undir liðnum: Tækifærisleyfi til lengri opnunartíma til kl. 02.00 vegna árshátíðar Verzlunarskóla Íslands

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins hafði samband við skólastjóra Verzlunarskólans til að kanna hvort fyrir liggi umsögn foreldrafélagsins vegna beiðni um að árshátíðin megi standa til 02:00 enda helmingur nemenda væntanlega undir 18 ára. Fram kemur í svari hans að ekki liggi fyrir formleg umsögn en ekki hafi borist neinar athugasemdir frá foreldrafélaginu. Enn fremur segir í svari frá skólastjóra að það sé góð samvinna milli skólans og foreldrafélagsins, t.a.m. kemur alltaf hópur foreldra (ca. 10 manns) sem aðstoða við vakt fyrir utan ballstaðinn við að halda röð og reglu og hjálpa til við að láta allt fara vel fram.

Fylgigögn:
Tækifærisleyfi – lengra leyfi vegna nemendamótsballs nemendafélags Verzlunarskóla Íslands – Hlíðarenda – Origo höllinni

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur  fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Yfirlit yfir fundi borgarstjóra með fulltrúum stjórnvalda í nóvember 2018.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins vill í þessu sambandi ítreka mikilvægi þess að oddvitar minnihlutans fari með borgarstjóra á fundi  með stjórnvöldum eftir atvikum. Í yfirliti sem hér er lagt fram undir þessum lið eru t.d. fundir með mennta- og menningarmálaráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra, lögreglustjóranum og forsætisráðherra. Með því að bjóða oddvitum minnihlutans að taka þátt í þessum fundum má leiða líkum að breiðari sýn á þau mál sem eru til umræðu hverju sinni svo ekki sé minnst á breiðari sátt í borgarstjórn.

Fylgigögn: Yfirlit yfir fundi borgarstjóra með stjórnvöldum

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Tímabundið áfengisveitingaleyfi til kl. 04:30 aðfaranótt 4. febrúar nk. fyrir American Bar, Austurstræti 8-10, vegna Superbowl

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill bóka mótmæli sem honum hefur borist vegna tímabundinna áfengisleyfa í tengslum við Superbowl á American Bar í Austurstræti, aðfararnótt mánudagsins 4. febrúar 2019.
Í þessu sambandi er vísað í 4. grein lögreglusamþykktar frá 19. nóvember 2008: „Bannað er að hafast nokkuð að sem veldur ónæði eða raskar næturró manna. Lögreglustjóri getur bannað notkun hátalara, hljómflutningstækja, hljóðfæra eða annars þess háttar á eða við almannafæri ef ástæða er til að ætla að hún valdi verulegu ónæði eða truflun. Borgarstjórn getur bannað neyslu áfengis á almannafæri á tilteknum tíma á tilteknum svæðum í þéttbýli. Slíka samþykkt skal tilkynna lögreglustjóra og birta almenningi.

Fylgigögn: Tímabundið áfengisleyfi

Tillaga Flokks fólksins um að Félagsbústaðir setji sér þjónustustefnu

BORGARRÁÐ 8. nóvember 2018: Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að
Félagsbústaðir setji sér þjónustustefnu – R18110061
Lagt er til að borgarráð samþykki að leggja það til við stjórn Félagsbústaða að fyrirtækið setji
sér þjónustustefnu með áherslu á notendamiðaða hönnun. Notendamiðuð hönnun felst í því að
þjónustu skal hanna og skipuleggja út frá þörfum og sjónarhorni notenda hennar.

Greinargerð:

Allar stofnanir og fyrirtæki borgarinnar sem og þau sem eru í eigu borgarinnar eiga að hafa
skýra þjónustustefnu. Félagsbústaðir eru engin undantekning. Félagsbústaðir eiga að hafa
skýra þjónustustefnu þar sem finna má upplýsingar um þjónustuna og hvers þjónustuþegar
geta vænst hjá og af fyrirtækinu. Stefnan nýtist einnig starfsfólki við dagleg störf um leið og
hún setur viðmið og mælikvarða um þjónustu Félagsbústaða almennt.
Markmið þjónustustefnu er að uppfylla hlutverk sitt og veita þjónustuþegum góða þjónustu
Til þess að fylgja þessari stefnu eftir eiga stjórnendur og starfsmenn að leggja áherslu á að:
1. Sýna þjónustuþegum jákvætt viðmót, virðingu og kurteislega framkomu
2. Vera vingjarnleg og hjálpfús gagnvart þjónustuþegum Félagsbústaða
3. Þekkja hlutverk, stefnu og gildi Félagsbústaða
4. Sýna drifkraft í störfum sínum með frumkvæði, kjark og þor að leiðarljósi
5. Vinna saman að hagsmunum og framtíðarsýn og mynda þannig sterka liðsheild
5. Skapa traust þjónustuþega Félagsbústaða og sýna áreiðanleika og ábyrgð í verki.
7. Veita þjónustuþegum nauðsynlegar upplýsingar eftir atvikum
Árlega skal taka saman yfirlit yfir stöðu og framvindu þjónustumála.

Tillögunni er vísað frá: Umsögn Félagsbústaða

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins fagnar því að hafinn sé undirbúningur við mótun þjónustustefnu Félagsbústaða. Segir í svari að stefnan muni m.a. taka mið af þjónustustefnu Reykjavíkurborgar og ábendingum áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem koma fram í tillögunni. Áheyrnarfulltrúa finnst að greina megi vísbendingar í framlögðu svari nýs framkvæmdarstjóra Félagsbústaða að hún sé vel meðvituð um mikilvægi þess að taka þetta skref og gera það af alvöru. Eins og flestir vita sem fylgst hafa með Félagsbústöðum í hinni almennu umræðu hafa kvartanir af ýmsu tagi borist m.a. vegna óásættanlegrar framkomu, neikvæðs viðmóts og fleira sem varðar samskipti fyrirtækisins við notendur þjónustu Félagsbústaða. Það er von borgarfulltrúa að nú verði gerðar grundvallar breytingar á Félagsbústöðum hvað þetta varðar enda er krafan einfaldlega sú að þjónustan verði framúrskarandi og að notendur hennar mæti aldrei öðru en virðingu, hlýju og skilningi í samskiptum sínum við Félagsbústaði.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að Félagsbústaðir setji sér siðareglur

Tillögunni er vísað frá: Umsögn Félagsbústaða

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins fagnar jákvæðum viðbrögðum sem lesa má í svari frá framkvæmdarstjóra Félagsbústaða við tillögu Flokks fólksins að gerðar verði siðareglur í samskiptum Félagsbústaða við leigutaka. Tillaga var lögð fram að gefnu tilefni en fjölmargar kvartanir af ýmsu tagi hafa borist áheyrnarfulltrúa sem gefa sterkar vísbendinga um að slíkra reglna er þörf. Árið 2017 var samþykkt leiðarljós í 6 liðum fyrir Félagsbústaði þar sem m.a. er kveðið á um starfsskyldur sem og má finna þar siðferðislegar leiðbeiningar. Í ljósi fjölmargra sumra alvarlegra kvartanna virðist sem umrætt „leiðarljós“ væri ekki að lýsa sem best alla vega ekki í öllum tilfellum. Í svari kemur fram að vinna standi yfir við mótun mannauðsstefnu og siðareglna sem vænta má að verði lagðar fyrir stjórn Félagsbústaða í mars. Þetta eru góð tíðindi. Eitt af því sem einkennir allar siðareglur er heiðarleiki. Félagsbústaðir væru ekki til nema vegna allra þeirra sem þarfnast þjónustu þeirra, þ.e. leiguhúsnæðis til að hafa þak yfir höfuðið. Önnur grundvallarlögmál siðareglna eru að starfsfólk forðist alla hagsmunaárekstra og misnoti ekki aðstöðu sína á nein hátt. Upplýsa skal um spillingu sem og ólögmæta eða ótilhlýðilega háttsemi verði hennar vart er meðal fjölmargra atriða sem ávarpa þarf í siðareglum.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar reglur um styrki:

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram fyrirspurn um hvaða reglur borgin styðst við  hvað varðar eftirfylgni verkefna sem hún styrkir og til hvaða ráða er gripið ef styrkþegar standa ekki við samninga?

Tillaga Flokks fólksins að reglur um styrkveitingar, sérstaklega skil verkefna séu samræmdar þeim sem gilda sem dæmi hjá vísindasamfélaginu og víðar.

Þar er m.a. almenna reglan að lokagreiðsla kemur ekki fyrr en skýrslu um framvindu verksins hefur verið skilað. Algengt er að við upphaf verkefnis fái  umsækjandi greitt 40% af heildarvilyrði fyrirfram. Lokagreiðsla fer fram þegar borist hefur staðfesting á að verkefni er að fullu lokið. R19010422

Frestað.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um börn geti nýtt frístundakort borgarinnar til kaupa á sundkorti.

Mikilvægt er að víkka út notkunarmöguleika frístundarkortsins þar sem aðeins 70% til 80% barna er að nýta frístundarkortin sín, þó eitthvað misjafnt eftir hverfum. Áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins finnst að kortið eigi ekki einungis að dekka frístund heldur tómstundir og hreyfingu eins og t.d. almennar sundferðir. Markmið borgarinnar ætti að vera að öll börn í Reykjavík nýti frístundarkortið sitt til að iðka íþróttir, tómstundir eða til að sinna almennri hreyfingu í frítíma sínum. Til að þetta megi verða er mikilvægt að víkka út notendaskilyrðin og taka allt sem vitað er að geri börnum gott andlega og líkamlega inn í notkunarskilgreininguna. Þessi tillaga er liður í því.

Frestað.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar innkaup á jólaskreytingum:

Óskað er eftir upplýsingum um hvort jólaskreytingar hafi verið boðnar út.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins varða listaverkaeign í geymslum:

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um listaverkaeign borgarinnar sem eru ekki í notkun (eru geymd í geymslum). Óskað er eftir lýsingu á þeim og sundurliðun annars vegar á innanhúslistaverkum og hins vegar verkum sem ætluð eru til skreytinga utanhúss.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að lýsing við gangbrautir verði stóraukin og að líftími ljósa á ljósastaurum verði lengdur.

Til að auka öryggi gangandi vegfarenda þarf að stórauka lýsingu við gangbrautir, t.d. með því að auka ljósmagn á ljósastaurum, beina ljósi að gangbrautum sem liggja að brautum yfir vegi og/eða fjölga ljósastaurum. Einnig þarf að lengja líftíma ljósa sem þjóna gangandi vegfarendum.

Frestað.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna framkvæmda við Kringlumýrabraut:

Óskað er eftir upplýsingum um kostnað vegna framkvæmda við Kringlumýrarbraut, veggi og stíga. Óskað er eftir upplýsingum um kostnað við hlaðna veggi í járngrindarbúrum á milli Miklubrautar og Tunguvegar. Sjá má hluta veggjanna frá horni Tunguvegar og Ásenda, vinna við þetta hefur staðið mánuðum saman. Líkur eru á að lagt hafi verið í óþarfa kostnað við framkvæmdir tengdar gangandi vegfarendum við Miklubraut. Hlaðnir veggir í járngrindarbúrum eru líklega dýrari en veggir úr jarðvegi og steinsteypu. Það þarf að réttlæta það sérstaklega ef farið er í dýrari framkvæmd en nauðsynleg er. Óskað er eftir viðbrögðum við þeirri fullyrðingu að ódýrara og fljótlegra hefði verið að steypa veggina.