Velferðarráð 15. janúar 2020

Tillaga Flokks fólksins að sett verði á laggirnar teymi sem bregst við ef upp kemur erfitt ástand/tilvik meðal leigjenda Félagsbústaða utan hefðbundins opnunartíma þjónustumiðstöðva.

Flokkur fólksins leggur til að sett verði á laggirnar teymi sem bregst við ef upp kemur erfitt ástand/tilvik meðal leigjenda Félagsbústaða utan hefðbundins opnunartíma þjónustumiðstöðva. Mörg dæmi, m.a. nú um jól og áramót, koma upp utan opnunartíma þjónustumiðstöðva sem leigjendur vita ekki hvernig bregðast á við. Hér getur verið um erfið tilvik í stigagöngum, erjur milli leigjenda og jafnvel alvarlegar uppákomur sem tengjast einum eða fleiri leigjendum. Um er að ræða stigaganga/hús þar sem Félagsbústaðir eiga íbúðir að stórum hluta eða öllu leyti. Sambærilegar kringumstæður komu upp um síðustu jól. Í þessum aðstæðum sem eiga sér stað utan hefðbundins opnunartíma eiga leigjendur enga möguleika á að fá aðstoð. Það dugar ekki að segja við fólk að það verði bara að bíða þar til þjónustumiðstöð opni. Sum þessara mála eru að koma upp ítrekað og sem þjónustumiðstöð hefur ekki getað leyst jafnvel þótt hún hafi unnið að því. Stundum eru aðstæður þannig að mál þola ekki neina bið og því ekki viðeigandi að segja viðkomandi að leita til síns ráðgjafa þegar stofnun opnar næst. Ef mörg vandamál koma upp af því tagi sem hér er vísað í er alveg ljóst að verkferlar, virka ekki sem skyldi. Eitthvað annað þarf því að koma til.

Greinargerð

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þessum málum og finnst sem meirihlutinn í borginni sé ekki að taka þau nógu alvarlega. Finna þarf nýjar leiðir til að mæta vanda af þessu tagi. Vissulega mun það kosta aukafjármagn nema hægt sé að hagræða og skipuleggja með þeim hætti að sparnaður hljótist af án þess að skerða skilvirkni og þjónustu. Hér er um að ræða tillögu um teymi e.t.v. þriggja aðila sem taka það að sér að svara kalli leigjenda utan opnunartíma þjónustumiðstöðva. Þetta mætti að minnsta kosti prófa til reynslu í ákveðinn tíma. Gert er ráð fyrir að teymið mæti á staðinn og reyni að milda aðstæður, róa aðila, ræða við leigjendur eða annað sem þarf að gera eftir því hvernig málum er háttað. Þurfi aðstoð lögreglu muni umrætt teymi hafa milligöngu um það ef óskað er. Eins og staðan er í dag geta leigjendur hvergi leitað ráðgjafar eða stuðnings ef upp koma mál sem varða aðra leigjendur og þurfa þeir þá að bíða jafnvel dögum saman eins og um hátíðir við óviðunandi aðstæður þar til þjónustumiðstöð opnar. Allur gangur er þá á hvort þeir þá fái lausn mála sinna yfir höfuð. Í mörgum tilfellum myndi nægja að veita ráðgjöf og róa leigjendur t.d. ef hræðsla hefur gripið um sig. Í sumum tilfellum þarf að ganga lengra. Flokkur Fólksins telur að þetta sé eitt af þeim hlutverkum sem rekstraraðili leiguhúsnæðis eins og Félagsbústaðir þurfa að sinna. Margir leigjendur eru eldra fólk og öryrkjar og til þess verður að taka tillit.

Fyrirspurn Flokks fólksins  um leigubílanotkun starfsmanna sviðsins og ráðsins sundurliðað eftir erindum, deildum og starfstitli á árunum 2019 og 2018.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um leigubílanotkun starfsmanna sviðsins og ráðsins sundurliðað eftir erindum, deildum og starfstitli á árunum 2019 og 2018. Einnig er óskað eftir upplýsingum um hvort einhverjar starfsreglur eða einhver viðmið gildi um leigubílanotkun á vegum borgarinnar sem veiti leiðsögn um hvenær eigi að kaupa leigubifreiðaakstur og hvenær ekki. Leigubílar eru nýttir í miklum mæli af starfssviðum Reykjavíkurborgar og allra mest af velferðarsviði. Það er því mikilvægt að borgarbúar geti treyst því að ekki sé verið að bruðla með almannafé og að leigubílar séu aðeins nýttir sem úrræði þegar önnur ódýrari úrræði koma ekki til greina. Því biður fulltrúi Flokks Fólksins um aðgang að upplýsingum um leigubílanotkun velferðarsviðs.

Bókun Flokks fólksins vegna samþykkis að vísa drögum að þjónustulýsingu um akstursþjónustu fatlaðra í umsögn  helstu hagsmunaaðila og fulltrúum notenda:

Fulltrúi Flokks fólksins í velferðarráði samþykkir að drög að þjónustulýsingu um akstursþjónustu fatlaðra fari í umsögn. Fulltrúi Flokks fólksins vill í þessu sambandi leggja áherslu á að jafnræði verði ávallt haft að leiðarljósi. Einnig er mikilvægt að boðið verði upp á sem mesta valið í þessu sambandi. Það er fólkið sjálft sem segir til um hverjar þarfir þeirra eru og óskir enda ekki stjórnavalda að segja til hvernig lífsstíll annarra á að vera. Muna þarf að enginn ákveður upplifun annarra eða getur sagt til hvað öðrum hentar.

Bókun Flokks fólksins ram umsókn um styrk úr jöfnunarsjóði til að gera könnun á framlagi sjóðsins til Reykjavíkurborgar til málaflokks fatlaðs fólks:

Flokkur fólksins vill nota tækifærið hér til að vekja athygli á því hve lítið Reykvíkingar fá úr sjóðnum miðað við framlög. Sjóðurinn var í rauninni stofnaður til þess að nýta stærðarhagkvæmni höfuðborgarsvæðisins til að greiða niður þjónustu á svæðum þar sem smæð samfélaga leiðir til minni tekna + dýrari þjónustu. Það er náttúrulega gagnrýnisvert hversu oft hefur verið staðið illa að framkvæmd sjóðsins og reglugerðum og lagagrundvelli að baki honum, en flest dómsmálin hafa snúið að því að sjóðurinn væri ekki að greiða nógu mikið til smærri sveitarfélaga. Í rauninni þyrfti að breyta lögunum til að jafna hlut Reykjavíkur. Reykjavík getur náttúrulega ályktað að sjóðurinn styðji ekki nóg höfuðborgina og að það þurfi að breyta lögum til.