Borgarráð 8. júní 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. maí 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 24. maí 2023 á auglýsingu á tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir Holtsgötu 10 og 12 og Brekkustíg 16:

Hér er um erfitt pólitískt mál að ræða að mati fulltrúa Flokks fólksins. Rífa á gömul hús í stað þess að varðveita þau. Mál af þessu tagi eru ávallt umdeild enda tilfinningamál fyrir marga. Um er að ræða gróinn reit í Vesturbænum. Markmiðið er vissulega að fjölga íbúðum sem verða 15 talsins en hér finnst sumum að gengið sé of langt í þéttingaráformum. Niðurrif húsa er vissulega endanleg aðgerð. Sum gömul hús eru orðin það skemmd að ekkert annað en niðurrif kemur til greina.Þetta þarf að vega og meta hverju sinni út frá öllum hliðum. Í þessu tilfelli má vísa í álit Borgarsögusafns á þessum reit en þar er nefnd Holtsgata 10 og segir að húsið sé metið hátt út frá menningarsögulegu gildi og varðveislugildi.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra  um stöðu tilraunaverkefnisins frístundir í Breiðholti. 

Svo virðist sem fjölmargar tillögur Flokks fólksins um frístundakortið hafi skilað árangri. Nýting hefur aukist. Einnig hefur meiri áhersla verið lögð á íslenskunám. Tillögur um framlagðar úrbætur eru jafnframt góðar. Í þessu sambandi vill Flokkur fólksins nefna Leikni sem er lítið félag sem berst í bökkum í hverfi sem er mannmargt og þar sem býr einn mesti fjölbreytileiki mannlífsins í borginni. Í þessu hverfi eru innflytjendur hlutfallslega flestir og í þessu hverfi var frístundakortið lengst af minnst nýtt og er jafnvel enn. Leiknir er að takast á við áskoranir umfram önnur félög vegna þess að í hverfinu er fátækt mest í borginni. Leiknir þarf meiri stuðning. Stuðningur borgarinnar beinist að mestu leyti að frístundamiðstöðinni sem er vel mönnuð og það er vissulega hið besta mál. Ef Leiknir á að geta þróast og geta byggt upp sterkara íþróttasamfélag þá þarf að hlúa að því. Leiknir er nú með körfubolta, blak og badminton. Aðeins fleiri nýta sér frístundakortið en Leiknir þarf að vera með lág iðkendagjöld því margir foreldrar hafa ekki efni á að greiða mismuninn. Annað sem er sérkennilegt er að Leiknir er ekki skilgreint sem hverfisfélag. Leiknir er í augum margra einskonar olnbogabarn borgarinnar og er það miður.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi tillögur áhættustýringar Reykjavíkurborgar um uppfærðan verkferil (útgáfa 3) vegna rakaskemmda eða myglu í húsnæði sem hýsir starfsemi Reykjavíkurborgar.

Meirihlutinn leggur til uppfærslu á verkferli (útgáfa 3) vegna rakaskemmda eða myglu í húsnæði sem hýsir starfsemi Reykjavíkurborgar. Þetta þýðir að ákveðin reynsla hefur sýnt að gera þarf breytingar. Svona ferill þarf að vera í stöðugri endurskoðun og taka breytingum eftir atvikum. Nýi verkferillinn vaknar til lífs þegar „grunur um léleg loftgæði og rakaskemmdir kviknar og endar með því að eðlileg starfsemi hefst á ný, þverslaufugreiningar sem varpa m.a. ljósi á helstu orsakir lélegra loftgæða og rakaskemmda eins og segir í gögnum. Verkferillinn hefur verið staðfestur og endar þegar framkvæmdum er lokið og húsnæði er afhent á ný“. Hvað sem þverslaufugreining er nú, þá hljómar þetta vel.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt til að upphaf skólagöngu verði seinkað og að skóla- frístundasviði verði falið að leggja grunn að breiðu samráði um áhugaverðar og bestu leiðir til að seinka upphafi skóladags í grunnskólum Reykjavíkur.

Fulltrúa Flokks fólksins líst vel á að seinka upphafi skóladags í grunnskólum Reykjavíkur og var með tillögu þess efnis á síðasta kjörtímabili. Tillagan fékk engan hljómgrunn þá hjá þáverandi meirihluta. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að þetta skref verði tekið hið fyrsta hvort sem það er í færri eða fleiri skólum. Það mætti hugsa þetta sem tilraunaverkefni í ákveðinn tíma til að byrja með. Óþarfi er að flækja málið um of. Ágæti seinkunar, m.a. góð áhrif á heilsu barnanna, er margrannsakað. Mikilvægt er að standa vel að móttöku þeirra barna sem búa við aðstæður eða kjósa að koma fyrir upphaf skóladagsins. Að mörgu er að huga en nú er bara að einhenda sér í verkið.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 6. júní 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki tillögu um tilraunaverkefni um dvöl barna á frístundaheimili í ágúst fyrir börn sem eru að ljúka leikskóla:

Um aðlögun elstu barna leikskóla í sumarfrístund og grunnskóla.
Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta mjög gott mál. Um er að ræða að hefja tilraunaverkefni um dvöl á frístundaheimili frá því að sumarlokun leikskóla lýkur fram að skólasetningu grunnskóla fyrir börn sem eru að ljúka leikskóla og hefja grunnskólagöngu. Gaman hefði þó verið að heyra frá foreldrum um þetta, hver upplifun þeirra er? Eins hefði mátt fara þá leið að í stað þess að starfsstöðvar voru „valdar“ að kallað hefði verið eftir hvaða starfsstöðvar hefðu sýnt þessu áhuga og í framhaldi að aðlaga útfærslu nánar miðað við sumarlokun leikskóla og frístundaheimila.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð samþykki að skipa Magneu Gná Jóhannsdóttur í stýrihóp um heildstæða matarstefnu Reykjavíkurborgar, í stað Guðnýjar Maju Riba. Hjálögð eru drög að uppfærðu erindisbréfi:

Hér er svo sem aðeins verið að leggja til breytta skipan í stýrihópi um heildstæða matarstefnu en engu að síður er ástæða til að ítreka fyrri bókun. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að setja eigi á laggirnar þennan hóp og væntir þess að hann skili einhverju bitastæðu af sér. Umfram allt þarf að leggja áherslu á stefnu sem felur í sér að fæða sé framleidd í sátt við umhverfi og náttúru og með dýraverndarsjónarmið að leiðarljósi. Sérstök áhersla ætti að vera lögð á dýraverndunarsjónarmið og að dregið verði úr matariðnaði sem skilur eftir sig flestu kolefnissporin. Einnig verður að draga úr sóun matar sem er alltof mikil. Reykjavík er í lykilstöðu enda eru þar framleiddar milljónir máltíða á ári hverju og ber borgin mikla ábyrgð á næringarástandi þeirra sem reiða sig að hluta eða nær eingöngu á máltíðir frá borginni. Reykjavíkurborg er því í áhrifastöðu á þróun matvælaframboðs. Það hlýtur að þurfa að draga úr framboði (ruslfæði) og ávallt að bjóða upp á val og að fólk skammti sér sjálft, þar með talið börnin.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar Strætó bs., dags. 26. maí 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um málefni Strætó, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. mars 2023.

Fulltrúi Flokks fólksins hafði fengið ábendingu um að ekki væri samræmi í skiptimiðaafhendingu, að ekki hafi verið hægt að treysta því að fá skiptimiða og að stundum sé því einfaldlega hafnað. Segir í svari að þeir sem greiða með peningum geti fengið skiptimiða sem gildir í 75 mínútur en hjá þeim sem greiða með klapp-tíu korti eða stökum miða úr klapp-appi gildir miðinn sjálfkrafa í 75 mínútur. Þetta er sannarlega skýrt svar og vonandi vel sýnilegt á vefsíðunni. Einnig var spurt um af hverju safna þarf persónuupplýsingum notenda við kaup á fargjaldi. Við því segir að þegar upplýsinga er aflað frá skóla- og menntastofnunum í þeim tilfellum sem sótt er um námsmannaafslátt sé það að beiðni einstaklingsins og háð samþykki hans. Upplýsingar eru sóttar í gegnum hlutaðeigandi námsumsjónarkerfi. Vissulega þarf að staðfesta að viðkomandi er í námi ef hann á að fá námsmannaafslátt en ekkert umfram það myndi maður halda.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 34 mál:

Það eru vonbrigði að í framlagðri umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkur skuli vera stuðningur við frumvarp til laga um breytingu á kosningalögum. Um er að ræða lækkun kosningaaldurs niður í 16 ár. Vísað er í 12. grein barnasáttmálans sem segir að tryggja skuli barni sem getur myndað sér eigin skoðanir rétt á að láta þær frjálslega í ljós. Segir einnig í barnasáttmálanum að aðildarríki skuli taka tillit til skoðana barna í samræmi við aldur og þroska barns. Við í Flokki fólksins teljum að nóg sé á ungmenni lagt án þess að þau séu ekki líka krafin um pólitíska afstöðu og trúnað við stjórnmálaafl. Vissulega eru rök með og á móti í svona máli en Flokki fólksins hryllir við ef þetta verður samþykkt að horfa upp á stjórnmálaflokka berjast um hylli 16 ára barna og bjóða þeim alls konar gylliboð komi þeir til liðs við sig. Börn á þessu aldursbili er mislangt komin í þroska til að verja sig gegn kappsfullum tilraunum stjórnmálaflokka að ná atkvæðum þeirra. Hér er enginn að segja að börn geti ekki haft skoðun á þessum málum ekki síst ef þau eru alin upp í umhverfi þar sem pólitík er mikið skeggrædd. Fögnum sannarlega áhuga ungs fólks á öllum jákvæðum samfélagsmálum en halda á kosningaaldrinum í 18 árum.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um stöðu mála varðandi uppbyggingu Loftkastalans í Gufunesi og eftir yfirliti um framgang málsins hjá Reykjavíkurborg:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um stöðu mála varðandi uppbyggingu Loftkastalans í Gufunesi og eftir yfirliti um framgang málsins hjá Reykjavíkurborg. Samkvæmt upplýsingum frá lóðarhafa hefur Reykjavíkurborg ekki enn afhent eigendum Loftkastalans gögn um mælingar í Gufunesi. Lóðarhafar segjast ekki hafa enn fengið réttan hæðarkóta né nauðsynlegar innkeyrslur fyrir starfsemi sína í rúm fimm ár frá kaupum og hefur uppbygging Loftkastalans, sem var að fullu fjármögnuð árið 2019 á 23 íbúðum og leikmyndaverkstæðis tafist vegna þessa. Fulltrúi Flokks fólksins hefur fylgst með framvindu málsins og m.a. sótt fund með eigendum hjá innri endurskoðun sem lofaði að þoka málum áfram til sáttar. MSS23060042

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um nýráðningar hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Hvað hafa margir starfsmenn verið ráðnir á þessu ári?:

 

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um nýráðningar hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Hvað hafa margir starfsmenn verið ráðnir á þessu ári? Má rekja einhverjar nýráðningar til breyttra aðstæðna vegna styttingar vinnuvikunnar og ef svo er, hversu margar? Hafa einhverjir sumarstarfsmenn verið ráðnir og ef svo er, hversu margir? Einnig er óskað upplýsinga um kostnað vegna nýráðninga á árinu og hvort stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hefur verið upplýst um þær.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um gildi fyrirkomulag lóðaúthlutana hjá Reykjavíkurborg:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um gildandi reglur og fyrirkomulag lóðaúthlutana hjá Reykjavíkurborg. Óskað er eftir því að í svarinu komi fram allar þær leiðir sem unnt er að fara til að fá lóð úthlutaðri hjá borginni, hvaða skilyrði lögaðilar og einstaklingar þurfa að uppfylla til að geta fengið lóð. Jafnframt er óskað eftir upplýsingum um fjölda lóða sem hefur verið úthlutað á tímabilinu 2018 til dagsins í dag og hversu mörgum hefur verið úthlutað til einstaklinga og hversu mörgum til lögaðila.

Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. MSS23060044

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um öryggi upplýsingatækni innviða:

Vísað er til 3. liðar fundargerðar stafræns ráðs frá 10. maí þar sem fram fór kynning á öryggi upplýsingatækni innviða. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um ástæður þess að Reykjavíkurborg er svo skammt á veg komin með innleiðingu skýjaþjónustu eins og Microsoft 365 miðað við bæði ríkið og mörg fyrirtæki á einkamarkaði. Einnig er óskað upplýsinga um hvernig öryggi upplýsingatækniinnviða er nú háttað í Reykjavíkurborg eftir að staða öryggisfulltrúa sviðsins var lögð niður árið 2020. Hver ber nú ábyrgð á úttekt og eftirliti ISO27001 eins og er í ljósi þess að enn er verið að kynna „forgangsröðun og flokkun kerfa eftir mikilvægi“? Hver er staðan á allri þessari flokkun og greiningu kerfa Reykjavíkurborgar sem búið er að minnast á í öðrum kynningum sviðsins undanfarin ár og hvenær er áætlað að þeirri vinnu ljúki?

Vísað til meðferðar stafræns ráðs. MSS23060045

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn að fá upplýsingar um nýtingu frístundakortsins og hvernig sú þróun hefur verið frá því fyrir og eftir COVID.:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um nýtingu frístundakortsins og hvernig sú þróun hefur verið frá því fyrir og eftir COVID. Óskað er upplýsinga um nýtingarhlutfall eftir hverfum, hlutfall barna sem eru skráð í skipulagt tómstundastarf eftir aldri og kynjum og þátttöku eftir póstnúmerum og ráðstöfun frístundakorts eftir póstnúmerum.

Vísað til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. MSS23060046