Borgarstjórn 7. maí 2019

Tillaga Flokks fólksins um stækkun Brúarskóla

Flokkur fólksins leggur til að byggt verði við Brúarskóla til þess að hann geti stækkað og tekið við fleiri nemendum. Staðsetning Brúarskóla sem er í Vesturhlíð er afar hentug staðsetning fyrir skóla eins og Brúarskóla þar sem staðsetningin er ótengd m.a. íbúðarhverfi og verslunum. Mikil friðsæld er í hverfinu, gott næði til að vinna með börnin en samt stutt í allar áttir. Mikilvægt er að skólinn sé og verði staðsettur á þeim stað sem hann er. Í dag eru 24 börn í skólanum en lagt er til að skólinn verði stækkaður til að geta að minnsta kosti bætt við 6-8 nemendum í viðbót. Núna eru 19 börn á biðlista. Brúarskóli er einn sinnar tegundar. Í honum stunda nám börn sem eiga við djúpstæðan hegðunarvanda að stríða sem rekja má til ólíkra orsaka og raskana. Skólinn er tímabundið úrræði og ávallt er markmiðið að vinna börnin aftur út í heimaskólann. Meðallengd skólavistar er 15-18 mánuðir. Brúarskóli sinnir fleiri hlutverkum og eitt þeirra er ráðgjafahlutverk við aðra skóla. Sérhæft ráðgjafarteymi fer á vettvang í skóla sé þess óskað. Í Brúarskóla eru tveir þátttökubekkir í tengslum við skólann, annar í Húsaskóla og hinn í Ingunnarskóla, og eru samtals 10 börn í þessum bekkjum. Brúarskóli sinnir auk þess kennslu á Stuðlum og BUGL. Skólinn er rekinn af Reykjavíkurborg með stuðningi úr jöfnunarsjóði.

Greinargerð

Mikilvægt er að hægt verði að fjölga börnum upp í alla vega 30 nemendur. Það sárvantar pláss. Frekari dreifing eins og annar þátttökubekkur er ekki lausn. Mikilvægt að nemendur séu í stærri heild til að geta fengið þá félagslegu þjálfun sem þau þarfnast. Eins og staðan er núna er skólinn í þremur húsum. Borgarfulltrúi leggur mikla áherslu á að Skóla- og frístundarráð setji sig í stellingar þegar kemur að Brúarskóla og hafi beint samband og samstarf við starfsfólkið til að heyra frá fyrstu hendi, frá fólkinu á gólfinu hverjar þarfirnar eru og hvernig er best að mæta þeim. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst að sérskólar í Reykjavík hafi orðið útundan, jafnvel einhvers konar afgangsstærðir og hafa þar að leiðandi ekki fengið nærri nóga athygli. Eins og áður segir er Brúarskóli  sérskóli, tímabundið úrræði fyrir börn sem eiga í alvarlegum geðrænum-, hegðunar eða félagslegum erfiðleikum. Kennslan fer fram í litlum bekkjum þar sem venjulega eru tveir kennarar saman með lítinn bekk. Brúarskóli hefur fimm starfstöðvar í Reykjavík en engu að síður dugir það ekki til að anna eftirspurn. Fram kemur á heimasíðu að foreldrar geta sótt um skólavist í Brúarskóla fyrir barn sitt, telji þeir, skólastjórnendur, kennarar og aðrir sérfræðingar að barnið fái ekki notið kennslu við sitt hæfi í almennum grunnskóla. Skólastjóri tekur ákvörðun um samþykki eða synjun umsókna á grundvelli tillagna inntökuteymis enda hafi inntökuteymi tekið mið af fyrirliggjandi greiningum, aðstæðum og fjölmörgu öðru.

Borgarfulltrúi þekkir til mála þar sem foreldrar og kennarar eru ráðþrota þar sem ýmislegt hefur verið reynt til að barni þeirra geti liðið vel í skólakerfinu sem ekki getur sinnt öllum börnum. Enda þótt skólastefna Reykjavíkurborgar kallist „skóli án aðgreininga“ vantar mikið af þeirri þjónustu í almenna skólann sem þarf til að sinna börnum með ákveðnar sérþarfir. Sum börn passa heldur ekki í þær sérdeildir sem reknar eru í skólunum. Sérskóli eins og Klettaskóli er yfirfullur. Lagt hefur verið til af Flokki fólksins að stækka úrræði eins og Klettaskóla en sú tillaga var felld. Nú vill borgarfulltrúi leggja til að úrræði eins og Brúarskóli verði stækkað í ljósi þeirra aðsóknar sem er í skólann. Mikilvægt er að skólinn sé og verði staðsettur á þeim stað sem hann er.

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi er ánægður að heyra að tillögunni er tekið vel og að það virðist vera skilningur á þessum málaflokki í það minnsta í orði en síðan á eftir að koma í ljós hvað verður raunverulega gert með þessa tillögu. Það reynir núna á meirihlutann að sýna hvar hann vill forgangsraða þessum viðkvæma málaflokki. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst að sérskólar í Reykjavík hafi orðið útundan, jafnvel einhvers konar afgangsstærðir í gegnum árin og hafa þar af leiðandi ekki fengið nærri nóga athygli borgaryfirvalda. Þess vegna er vandinn nú svona stór. Borgarfulltrúi þekkir til mála þar sem foreldrar og kennarar eru ráðþrota og fullir örvæntingar þar sem ýmislegt hefur verið reynt til að barni þeirra geti liðið vel í skólakerfinu sem ekki getur sinnt öllum börnum. Enda þótt skólastefna Reykjavíkurborgar kallist „skóli án aðgreiningar“ vantar mikið af þeirri þjónustu í almenna skólann sem þarf til að sinna börnum með ákveðnar sérþarfir. Sum börn passa heldur ekki í þær sérdeildir sem reknar eru í skólunum. Sérskóli eins og Klettaskóli er yfirfullur. Borgarfulltrúi vill ítreka að börn eiga aldrei að þurfa að bíða eftir þjónustu við hæfi. Gleymum ekki að nýlega voru fréttir af barni sem hafði ekkert skólaúrræði hér í borg.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018

Flokki fólksins finnst sárt að sjá hvað þjónusta við börn, eldri borgara og öryrkja hefur verið sett aftarlega í forgangsröðunina undanfarin ár. Vandinn er uppsafnaður og víða rótgróinn. Ekki dugar að státa af góðum hagnaði í borginni þegar hópi barna líður illa. Ekki hefur verið sett nægt fé í skólakerfið til að hægt sé að mæta þörfum allra barna. Nýlegt dæmi er úr fréttum þar sem barni með djúpstæðan vanda var úthýst úr skólakerfinu. Hvar var hinn svokallaði „skóli án aðgreiningar“ í því máli? Eins má minnast á eldri borgara sem fastir eru á Landspítala vegna þess að þeir ýmist komast ekki heim vegna biðlista í heimaþjónustu eða vegna þess að ekkert hjúkrunarrými er laust. Er Landspítalinn að verða stærsta og dýrasta hjúkrunarheimili í borginni? Við yfirferð skýrslu endurskoðenda nú eru sömu ábendingar nefndar og árið 2015 og 2018. Hefði þessum ábendingum verið fylgt hefði braggamálið sem dæmi aldrei orðið. Það hefur verið staðfest af innri endurskoðanda. Kallað er eftir að valdhafar taki hér ábyrgð. Við fyrstu umræðu ársreiknings hafa hlutir verið ansi mikið fegraðir af hálfu meirihlutans. Vissulega er margt gott í borginni en Flokkur fólksins gerir kröfu um að borgarbúum sé sýnd sú virðing að ræða málefni borgarinnar út frá þeim raunveruleika sem við blasir.

Bókun Flokks fólksins við tillögu stýrihóps um framtíðarskipulag hverfisráða

Flokki fólksins finnst sú vinna sem þarna hefur átt sér stað góð en telur það ekki standast að upp sé komin þreyta hjá fólki um hverfakosningar. Bein kosning íbúa er lýðræðisleg aðferð og fólk sem gæfi kost á sér hefur brennandi áhuga á málinu og er tilbúið að taka verkefnið að sér. Beint lýðræði á að vera meginreglan alls staðar og í hvívetna. Flokkur fólksins telur slembival gott og gilt en myndi einnig vilja sjá beinar kosningar um meira en einn fulltrúa, í það minnsta mætti kannski hafa hvorutveggja. Fækka mætti pólitískt völdum fulltrúum í hverfisráðin á móti. Að öðru leyti styður Flokkur fólksins tillögu stýrihópsins.

Bókun við fundargerð borgarráðs 4. apríl þar sem meirihlutinn fullyrðir að almenn ánægja ríki með lokun göngugatna

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill mótmæla því sem fram kemur í bókun meirihlutans að kannanir hafi staðfest ánægju Reykvíkinga með göngugötur í miðborginni. Það kann að vera að ánægja sé með lokanir gatna fyrir bílaumferð yfir sumartímann en engar kannanir hafa sýnt að meirihluti Reykvíkinga sé ánægður með varanlega lokun þessara umræddu gatna fyrir allri umferð bíla. Þetta er einmitt dæmi um hvernig meirihluti þessarar borgarstjórnar reynir að slá ryki í augu fólks og sannfæra almenning um eitthvað sem er ekki rétt. Þær skoðanakannanir sem auk þess er verið að vísa í eru mjög takmarkandi og styðst meirihlutinn einungis við hluta úr þeim könnunum í málflutningi sínum. Spurningar í þeim könnunum eru villandi og gefa því heldur ekki raunhæfa mynd af vilja og afstöðu borgarbúa.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 24. apríl vegna tillögu um forgang í leikskóla ef forsjárlaust foreldri tekur ekki fæðingarorlof

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill ítreka mikilvægi þessarar tillögu enda mikið réttlætismál. Þessi tillaga hefur ekkert að gera með stofnun ungbarnadeilda sem ekki verða komnar í gagnið fyrr en eftir fáein ár. Þessi tillaga hefur heldur ekki bara að gera með það að „vera einstætt foreldri“ Þessi tillaga hefur að gera með það að vera einstætt foreldri þar sem hitt foreldrið hið forsjárlausa nýtir ekki þriggja mánaða fæðingarorlof sitt. Það veldur því að mun meira álag er á forsjárforeldrinu fyrstu mánuðina sem í sumum tilfellum leiðir til þess að það foreldri þarf að fara fyrr út á vinnumarkaðinn. Hér er ekki endilega um stóran hóp að ræða en mjög vel skilgreindan. Rökin fyrir að hafna þessari tillögu eru hvorki réttlát né skiljanleg

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 24. apríl er varðar verkefnið Vináttu

Borgarfulltrúi Flokks fólksins veit til þess að það eru ekki allir leikskólar ánægðir með hvernig borgin hefur staðið að málum er varða Vináttuverkefnið. Hér hefði borgarmeirihlutinn geta gert miklu betur og sýnt í verki með því að styrkja þá leikskóla sérstaklega sem eftir því sækjast að taka þetta verkefni í stað þess að leikskólar þurfi að klípa þessa upphæð af því litla fjármagni sem þeim er veitt. Deila má um svigrúmið sem er innan þess faglega fjármagns sem vísað er til í svari skóla- og frístundarráðs. Aðeins 23 leikskólar af 62 leikskólum borgarinnar og einn grunnskóli af þeim 33 grunnskólum sem eru með 1.-3. bekk taka þátt í verkefninu Vinátta. Þetta er skelfilega lágt hlutfall og langt í frá að ná helming hvað varðar leikskólana. Þetta verkefni á að styrkja sérstaklega og sá styrkur að vera algerlega utan við það fjármagn sem skólunum er áskipað. Þetta er enn eitt dæmið um forgangsröðun þess meirihluta sem ríkti og þess núverandi þar sem mál sem snúa að börnum virðast sjaldnast sett í forgang.