Borgarstjórn 15. janúar 2019

Tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins við tillögu um að vísa
skýrslu um Nauthólsveg 100 til þar til bærra yfirvalda

Greinargerð:

Borgarstjórn samþykkir að fela embætti borgarlögmanns að vísa skýrslu innri endurskoðunar
Reykjavíkur sem ber heitið Nauthólsvegur 100 til þar til bærra yfirvalda til yfirferðar og
rannsóknar. Jafnframt verði sama embætti falið að senda niðurstöður Borgarskjalasafns á
skjalamálum í sama máli áfram þegar að þær liggja fyrir.

Tillagan var felld af meirihlutanum

RÆÐA BORGARFULLTÚRA FLOKKS FÓLKSINS V. TILLÖGU UM AÐ VÍSA SKÝRSLU IE TIL ÞAR TIL BÆRRA YFIRVALDA

Bókun Flokks fólksins og Miðflokksins í málinu:

Tillögu um að vísa skýrslu Innri endurskoðunar um braggann til þar til bærra yfirvalda hefur verið felld af meirihlutanum. Það er ill-skiljanlegt því það er hagur okkar allra að þetta mál verði hafið yfir allan vafa þegar kemur að meintu misferli. Borgarbúar eiga rétt á að þetta mál verði rannsakað til hlítar og að engir lausir endar verði skildir eftir. Við berum ábyrgð sem kjörnir fulltrúar og eftirlitshlutverk okkar með fjárreiðum borgarinnar er ríkt. Þessu eftirlitshlutverki erum við að sinna með tillögu þessari.  Þetta mál hefur misboðið fjölmörgum Reykvíkingum og  landsmönnum einnig. Meirihlutinn hefði átt að taka þessari tillögu fagnandi og sterkast hefði verið ef hann sjálfur hefði átt frumkvæðið af tillögu sem þessari. Þess í stað er brugðist illa við eins og birst hefur á fundi borgarstjórnar og í fjölmiðlum. Viðbrögðin lýsa ótta og vanmætti. Það er mat okkar að eina leiðin til að ljúka þessu máli fyrir alvöru er að fá úrskurð þar til bærra yfirvalda á hvort misferli kunni að hafa átt sér stað. Hvað sem öllu þessu líður stendur eftir að svara því hver ætlar að taka hina pólitísku ábyrgð í þessu máli.

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna um mótun íþróttastefnu til ársins 2030

Þessi tillaga um íþróttastefnu til ársins 2030 er góð. Borgarfulltrúi Flokks fólksins saknar þó ákveðinna þátta og telur að taka eigi inn í stefnu þessa einnig tómstundastarfið þannig að talað sé um íþrótta- og tómstundastarf samhliða. Í þessu sambandi má nefna að víða um borgina er aðstaða fyrir tómstundir sem ekki er fullnýtt. Hér má nefna smíðastofur eða aðstöðu til að smíða, tálga og renna. Hvað varðar börnin þarf að gæta þess að raddir þeirra fái ávallt að heyrast þegar talað er um þætti í þeirra lífi og að í stýrihópnum verði fullgildir fulltrúar barna og unglinga. Loks má ekki gleyma að ávarpa brottfall unglinga úr íþróttum en það er vandamál sem kannski fer ekki alltaf hátt. Hvaða leiðir hefur borgin upp á að bjóða til að hjálpa börnum og sérstaklega unglingum að haldast í íþrótta- og tómstundastarfi? Og meira um börnin. Það er afar mikilvægt að börn fái tækifæri, óski þau þess að spreyta sig í ólíkum íþróttagreinum því eins og við vitum þá getur ein íþróttagrein hentað barni á einum tíma en önnur á öðrum tíma. Því fyrr sem barn kynnist ólíkum íþróttagreinum því minni líkur eru á brottfalli að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins. Þetta hafa einnig fjölmargar rannsóknir sýnt.

Bókun Flokks fólksins við tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokks um mikilvægar úrbætur sem lúta að stjórnsýslu

Flokkur fólksins tekur heilshugar undir þessa tillögu Sjálfstæðisflokksins um mikilvægar úrbætur sem lúta m.a. að stjórnsýslu borgarinnar og aukna stjórnendaábyrgð. Í dag, í umræðu um braggamálið hefur það ítarlega verið rakið hvernig æðstu stjórnendur hafa sofið á vakt sinni  eins og komið hefur skýrt fram í skýrslu Innri endurskoðunar um Nauthólsveg 100. Miklar brotalamir hafa verið í stjórnsýslu borgarinnar eins og það mál ber sannarlega vitni um. Það virðist þurfa að stórbæta stjórnun æðstu yfirmanna í það minnsta og allir yfirmenn verða að taka fulla ábyrgð í störfum sínum. Minna má á hvað einkennir góðan stjórnanda. Góður stjórnandi fylgist grant  með stöðu verkefna og hann gætir þess að farið sé í hvívetna vel með fé borgarbúa. Þessa tillögu hefði því átt að samþykkja strax á fundi borgarstjórnar í stað þess að vísa henni áfram.

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sósíallista um að Reykjavíkurborg gangi að kröfum
Starfsgreinasambandsins vegna kjarasamningaviðræða

Eins og fram kemur í tillögunni beinast þessar kröfur að almenna vinnumarkaðinum og finnst borgarfulltrúa þess vegna erfitt að samþykkja hana þrátt fyrir góðan vilja. Borgarfulltrúi vonast til að kröfur verkalýðsfélaga verði teknar af mótaðilum með opnum huga. Úrbætur á vinnustöðum er víða svo sannarlega þörf. Það er einnig tekið undir það að Reykjavíkurborg getur gert ýmislegt svo sem bætt aðbúnað og menningu á vinnustöðum þar sem þess er þörf.