Borgarstjórn 19. nóvember 2019

Bókun meirihlutans vegna rangfærslu á titil tillögu Flokks fólksins. Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 15. nóvember:

Rangur titill var settur á tillögu Flokks fólksins á fundum forsætisnefndar 11. október og 15. nóvember. Réttur titill er: “Tillaga Flokks fólksins um að fengið verði mat hjá ráðuneyti um ýmis álitaefni tengd siðareglum og skyldu borgarfulltrúa til að fara eftir þeim”. Ekkert í tillögu Flokks fólksins var um “afnám á skyldu til að fylgja siðareglum“ eins og tillagan var óvart titluð.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðar mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs er varðar kyngreiningu salerna í Borgartúni:

Í tilefni þess að í dag, 19. nóvember er alþjóðlegi klósettdagurinn vill borgarfulltrúi Flokks fólksins bóka við fundargerð mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs  14. nóvember undir lið 8 sem er framlagning skoðunarskýrslu Vinnueftirlitsins á salernum í Borgartúni 12 -14. Bókun Flokks fólksins er eftirfarandi: Flokkur fólksins telur það nauðsynlegt að áður en kyngreining salerna hjá Reykjavikurborg sé framkvæmd verði lögum og reglum breytt hvað þetta varðar. Vænlegast er að fylgja fyrirmælum Vinnueftirlitsins þar til Alþingi hefur tekið á málinu. Kyngreining salerna hefur fengið mikla athygli meirihlutans í borginni sem lagt hefur sérstaka áherslu á málið. Í þessu sambandi má nefna í tilefni þess að klósettdagurinn er í dag að það eru minnst fjórir og hálfur milljarður manna í heiminum sem hafi ekki aðgang að salerni sem tengt er við öruggt fráveitukerfi.

 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun undir 8. lið fundargerðar mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs:

Kyngreining salerna myndi þýða að setja aftur upp merkingar þar sem að salernin eru nú ókyngreind. Því er örlítið óljóst hvort borgarfulltrúinn vill setja aftur upp merkingar eða ekki því báðar hugmyndir koma fram í bókun fulltrúa Flokks fólksins. Mikilvægt er að það sé yfir allan vafa hafið hvernig aðhafast skuli í málinu til að koma í veg fyrir óþægindi fyrir viðkvæma hópa eins og transfólk og fólk sem skilgreinir sig ekki byggt á hinu hefðbunda tvíhyggjukynjakerfi. Okkur hefur bæði borist sú athugasemd frá Vinnueftirlitinu að það sé í lagi að hafa salernin ókyngreind og svo að okkur beri að hengja aftur upp merkingar. Mikilvægt er að fá úr því skorið hvort álitið skuli standa. Þess ber að merkja að reglurnar sem um ræðir eru frá árinu 1995 og því nærri 25 ára gamlar – og því er spurning hvort það væri ekki vænlegast að uppfæra þær byggt á nýjum lögum um kynrænt sjálfræði eins og ráðuneytið hefur sagt að það sé að skoða. Reykjavík er mannréttindaborg og leggur metnað sinn í að tryggja aðgengi allra að samfélaginu.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun undir 8. lið fundargerðar mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs:

Þessi kyngreiningarmál salerna er  áherslumál meirihlutans í borginni sem sett hefur þetta mál á oddinn. Flokkur fólksins er flokkur sem styður jafnrétti í einu og öllu og leggur mikla áherslu á að öllum líði vel í samfélaginu. Varðandi salernismálin og kyngreiningu þeirra þá hafa heyrst raddir þeirra sem vilja gjarnan halda aðskildum klósettum, annars vegar fyrir þá sem setjast á klósettsetuna til að pissa og hins vegar fyrir þá sem pissa standandi. Skoðanir allra þarf að virða gagnvart  þessu sem öðru og hlusta þarf á raddir allra hópa. Flokkur fólksins skilur að málið getur verið flókið og vonandi finnst viðundandi lausn sem flestir geta sætt sig við. En fyrst er að fá lögin á hreint.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans í borgarstjórn um breytingu á skóla- og frístundastarfi í norðanverðum Grafarvogi, sbr. 15. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. nóvember 2019

Flokkur fólksins er ósáttur við hvernig staðið hefur verið að málum um breytingu á skóla- og frístundastarfi í norðanverðum Grafarvogi. Þessi  ákvörðun er ekki tekin í sátt við samfélagið. Skólaráð, kennarar, íbúar og nemendur hafa mótmælt þessum breytingum harðlega. Í ferlinu hefur verið rætt um að útfæra breytingar í samráði við hagsmunaaðila en það hefur ekki verið gert. Stærstu hagsmunaðilarnir eru henni mótfallnir og því varla hægt að tala um samráð í þeim efnum. Það stingur sérstaklega þegar í meirihluta borgarstjórnar sitja flokkar sem hafa lagt mikla áherslu á aukið íbúalýðræði. Ýmislegt hefði mátt útfæra betur í þessum breytingum á skólaskipulagi. Lokun skóla er stór breyting fyrir hverfi og er sá þáttur í breytingunum sem veldur mestu vonbrigðunum. Aðrar leiðir voru í boði sem hefðu verið í meiri sátt við samfélagið. Ekki vantar börn í hverfið í það minnsta. Þessu hefði verið hægt að fresta til að skoða betur, til að geta rætt betur saman.  Í svona máli er betra að fara sér hægt en að ana áfram þegar svo mikill mótbyr er. Það er alveg sama hvernig á málið er litið, hverju er lofað, hvað mynd er dregin upp, það er hæpið að þegar farið er gegn svo mörgum að gott hljótist af.

Tillaga Flokks fólksins að borgarstjórn samþykki að skóla- og frístundaráð og velferðarráð sameinist um að stofnsetja sérstaka stuðningsþjónustu á vegum Reykjavíkurborgar fyrir börn alkóhólista.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að velferðarráð og skóla- og frístundaráð sameinist í að setja á stofn stuðningsþjónustu eyrnamerkta börnum alkóhólista. Stuðningurinn sé í formi sálfræðiþjónustu, persónulegrar ráðgjafar, hópastarfs og fræðslu. Úrræðið standi öllum börnum alkóhólista til boða án tillits til hvort barn búi hjá foreldrinu sem glímir við sjúkdóminn eða hefur umgengni við það og án tillits til þess hvort börnin sjálf séu metin í áhættuhópi eða ekki. Stuðningsúrræðið er hugsað sem styrking og til að hjálpa börnum alkóhólista að hlúa að eigin sjálfsmynd, rækta félagslega færni og fræðast. Börn alkóhólista lifa oft við óvissu og óöryggi vegna neyslu foreldris. Mikilvægt er að aðgengi sé gott að úrræðinu og að ekki sé þörf á tilvísun. Láta á nægja að forsjáraðili óski eftir stuðningi fyrir barnið og að hjálpin sé veitt eins lengi og barnið þarf og vill. Stuðningsþjónustunni er ætlað að veita börnunum viðurkenningu á stöðu sinni og aðstæðum í fjölskyldum þar sem áfengi- og vímuefnavandi er til staðar. Meðal markmiða er að hjálpa börnum alkóhólista að skilja aðstæður sínar m.a. að greina á milli fíknisjúkdómsins og persónunnar sem glímir við hann. Stuðningsþjónustunni yrði jafnframt ætlað að styðja við foreldrana með ráðgjöf og fræðslu eftir atvikum.

Greinargerð

Börn alkóhólista er hópur barna sem hvorki heyrist hátt í né mikið er rætt um. Ótal margar breytur skjóta upp kollinum þegar kemur að þessum hópi. Hvað er þetta stór hópur? Hversu stór er vandinn? Hver er þörfin? Hvernig gengur að ná til þessa hóps? Hver eru helstu einkennin og hverjir sjá þessi einkenni?

Hvað er alkóhólismi?

Alkóhólismi er þrískiptur sjúkdómur sem hefur áhrif á líkamann, hugann og andann. Eitt af einkennum sjúkdómsins er stjórnlaus löngun í áfengi. Læknavísindin segja alkóhólisma vera sjúkdóm sem hægt er að halda í skefjum en ekki lækna. Alkóhólismi er stigvaxandi sjúkdómur. Eina leiðin til að halda alkóhólisma í skefjum er algert bindindi. Flestir eru sammála um að jafnvel eftir margra ára bindindi geti alkóhólisti aldrei drukkið aftur vegna þess að alkóhólismi er ólæknandi sjúkdómur. Það bjóðast mörg úrræði fyrir alkóhólista í dag.  Alkóhólismi er ekki lengur vonlaust ástand ef sjúkdómurinn er viðurkenndur og meðhöndlaður.

Áhrif og afleiðingar þess að alast upp við alkóhólisma.

Börn foreldra með vímuefnavanda búa við aðstæður óöryggis, óvissu, ófyrirsjáanleika, ótta, mikið og langvarandi álag og ábyrgð umfram aldur og þroska. Afleiðingarnar fyrir þennan hóp barna geta verið meðvirkni, sárar tilfinningar, brostnar vonir og sködduð sjálfsmynd. Afleiðingar geta m.a. leitt til þess að barnið á í erfiðleikum með að meta ýmsar mikilvægar aðstæður og hefur færri bjargráð til að grípa í. Tilfinningalegt læsi og stjórnun er oft lakara en hjá börnum sem ekki búa við slíkar aðstæður.

Enda þótt mikið vatn hafi runnið til sjávar í málaflokknum sem hér um ræðir undanfarinn áratug ríkir enn þöggun og fordómar um alkóhólisma og neyslu vímuefna foreldris. Börn sem búa við vandann og eru hluti hans  halda honum oft leyndum, vilja ekki tala um hann og vilja afneita honum. Börn foreldra sem glíma við neyslusjúkdóm er þess vegna oft falinn hópur. Börn alkóhólista hafa mörg hver upplifað óvissu og álag árum saman í tengslum við áfengis- eða vímuefnaneyslu foreldra, sum frá því þau muna eftir sér.

Meðvirkni er sjúkdómur sem herjar á aðstandendur alkóhólista og eru börn þar engin undantekning. Dæmi um meðvirkni í fjölskyldu alkóhólistans er þörfin að láta allt líta vel út á yfirborðinu og þegja yfir hinum raunverulega vanda. Að al­ast upp í aðstæðum sem ein­kenn­ast af meðvirkni getur haft skaðleg áhrif á börnin ekki síður en fullorðinna aðstandenda. Meðvirkni getur leitt til þess að barn á í erfiðleikum með að greina og meta aðstæður og get­ur ekki brugðist við áreiti sam­kvæmt innstu sann­fær­ingu. Stuðningsnet barns skiptir miklu máli og getur skipt sköpum þegar kemur að neikvæðum áhrifum og afleiðingum. Börnum alkóhólista hættir til að þróa eigin áfengisvanda og önnur vímuefnavandamál.

Af hverju sérhæft úrræði?

Sérhæft stuðningsúrræði fyrir börn alkóhólista skilar sér margfalt. Barn sem fær tækifæri við öruggar aðstæður til að tjá sig um neysluvandamál foreldris getur losað um djúpstæða vanlíðan og áhyggjur. Í stuðningnum felst ekki síst að hjálpa barninu að styrkja sjálfsmynd sína og efla félagsfærni. Börn sem alast upp við alkóhólisma trúa því stundum að þau beri ábyrgð á neyslu foreldris með einhverjum hætti. Fræðslan skiptir barn miklu máli og sú vitneskja að neysluvandi foreldrisins sé ekki á ábyrgð þess að neinu leyti.

Fræðsla og samtal um málefni alkóhólisma og vímuefnaneyslu getur stuðlað að því að barn geti hafnað tilfinningum á borð við skömm og sektarkenndar. Slík leiðrétting á íþyngjandi tilfinningum og hugsunum er börnum mikill léttir og markar jafnvel nýtt upphafi í lífi þeirra.

Borgarfulltrúi Flokks fólks vill að Reykjavíkurborg veiti meiri aðstoð við þennan hóp barna en gert hefur verið. Hér er ekki verið að segja að börn alkóhólista fái enga þjónustu eða stuðning hjá Reykjavíkurborg en með tillögunni er verið að kalla eftir að stuðningurinn verði markvissari, skilvirkari og  fjölbreyttari.

Sambærileg þjónusta sem hér er lögð til er veitt af SÁÁ, samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavanda. Reykjavíkurborg styrkir SÁÁ um 19 m.kr. á ári. Hluti af þeim styrk er varið í þjónustu barna áfengis- og vímuefnaneytenda. SÁÁ hefur unnið gott starf með börnunum en árangursmat liggur þó ekki fyrir.  Vinna SÁÁ fríar hins vegar ekki borgina frá skyldum sínum gagnvart börnum alkóhólista. Útvíkka þarf þessa þjónustu til muna og opna hana fyrir öllum börnum sem hennar þarfnast. Reykjavíkurborg hefur alla burði til að stofna eigið úrræði fyrir börn alkóhólista og skipuleggja metnaðarfullt stuðningsúrræði þeim til hjálpar.

Með stofnun sérhæfðs stuðningsúrræðis eyrnamerktum börnum alkóhólista er verið að viðurkenna að börn alkóhólista sé skilgreindur hópur sem þarfnast fjölþættrar íhlutunar stundum til langs tíma til að draga úr tilfinninga- og félagslegri einangrun og til að rjúfa þann þagnarmúr sem einkennir börn í þessum aðstæðum.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill  skora á borgarstjórn að taka þessari tillögu með opnum huga. Vissulega hefur börnum alkóhólista verið hjálpað í Reykjavík. Það hefur samt ekki komið fram hvað hefur verið gert og hversu mikið. Hér er kallað eftir stofnun formlegs úrræðis sem skilgreint er fyrir börn sem eiga foreldri sem glíma við neysluvanda.

Stuðningsþjónustan skal veitt án skilyrða, hvort sem barn er metið sjálft í áhættuhópi og hvort sem barnið býr hjá foreldrinu eða er í umgengni við það. Stuðningurinn skal veittur eins lengi og þörf þykir og er í formi sálfræðiviðtala, ráðgjafar, hópavinnu og fræðslu. Ýmis atriði sem tengjast tillögunni eru sett í hendur velferðarsviðsins sem ætti að vera fullfært um að útfæra tillöguna. Þættir sem þarf sérstaklega að skoða er sérfræðimenntun og þjálfun starfsmanna. Finna þarf út hvar taka skal fjármagn en gera má ráð fyrir einu stöðugildi alla vega til að byrja með sem kallar á um 20 m.kr. á ári. Að lokum er hér bent á ACE rannsóknina, til frekari glöggvunar, The Adverse Childhood Experiences Study.

Tillögunni vísað frá.

Bókun Flokks fólksins vegna frávísunar:

Lagt var til að borgin setji á laggirnar sértækt úrræði fyrir börn alkóhólista og auðvitað öll börn sem eiga foreldra sem glíma við neysluvanda. Eina sérhæfða úrræðið sambærilegt þessu sem lagt er til hér býðst hjá SÁÁ. Vissulega hefur þessum börnum verið hjálpað í Reykjavík þótt ekki sé vitað í hvað miklum mæli né hversu markviss vinnan er. Reykjavíkurborg hefur alla burði til að stofna sérhæft metnaðarfullt úrræði fyrir börn alkóhólista þeim til hjálpar. Tillögunni um sérhæft úrræði fyrir þennan hóp var ekki vel tekið sem slíkri af formanni velferðarráðs sem lagði til að henni yrði vísað frá.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins þykir þetta miður og vill í þessu sambandi nefna að í vikunni skrifaði barnamálaráðherra og framkvæmdarstjóri UNICEF á Íslandi, undir samning um stuðning félagsmálaráðuneytisins við innleiðingu á verkefninu Barnvæn sveitarfélög. Með samningnum er stefnt að því að íslensk stjórnvöld og öll sveitarfélög á Íslandi hafi á næsta áratug hafið markvissa innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og tileinki sér barnaréttindanálgun í verkefnum, stefnumótum og ákvörðunum. Þessi tillaga um að borgin setji á laggirnar sérstakt úrræði fyrir börn alkóhólista samrýmist vel verkefninu um Barnvæn sveitarfélög. Hér væri um að ræða eitt verkfæri í verkfærakistu innleiðingar Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélaga. Borgarmeirihlutinn þarf nauðsynlega að fara að setja börn og þarfir þeirra, þ.á.m. þessara barna í enn meiri forgang en gert hefur verið.

Bókun Flokks fólksins við sameiginlega breytingatillögu minnihlutans að deiliskipulag við Stekkjarbakka fari í íbúðakosningu. Tillagan var felld.

Þetta er stórmál sem varðar fjölmarga. Þess vegna er bæði sjálfsagt og eðlilegt að það verði íbúakosning um þetta nýja deiliskipulag fyrir nýtt þróunarsvæði á Stekkjarbakka. Elliðaárdalurinn skiptir fjölmarga máli, tilfinningamáli. Þetta er eitt stærsta græna svæðið í Reykjavík. Um þetta verður aldrei friður nema að haft verði fullt samráð við áhugahópa, hagsmunahópa og aðra sem óska eftir að hafa skoðun á málinu. Borgarráð hefur samþykkt að veita félaginu Spor í sandinn vilyrði fyrir lóð í Stekkjarbakka í Breiðholti til að byggja þar gróðurhvelfingu fyrir Aldin BioDome. Þetta er umdeilt enda stórt og mikið mannvirki í miðri náttúrunni og eru t.d. áhyggjur af ljósmengun af því. En aðalatriðið er þó að eiga samtal við fólkið. Þetta er enn eitt stórmálið þar sem kallað er eftir samtali og samráði og þar sem fólki finnst það vera hundsað. Borgarfulltrúi vill minna hér á tilmæli umboðsmanns borgarbúa. Þau eiga vel við í þessu máli og þess vegna er lagt til að íbúakosning eigi sér stað. Nóg er komið af samráðsleysi. Hvert málið hefur rekið annað þar sem farið er í framkvæmdir þrátt fyrir hávær mótmæli og ákall um hlustun. Snúa umkvörtunarefnin að skorti á árangursríku samráði og skort á upplýsingaflæði í aðdraganda framkvæmda og á verktíma eins og segir í tilmælum umboðsmanns borgarbúa.

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sósíalista að Reykjavíkurborg setji á laggirnar óhagnaðardrifið leigufélag:

Það er kominn tími til að Reykjavíkurborg stofni óhagnaðardrifið íbúðafélag ætlað tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum sem uppfylla ekki skilyrði Félagsbústaða um félagslegt leiguhúsnæði. Flokkur fólksins styður þessa tillögu. Skilyrði fyrir félagslegt húsnæði eru ströng og fjöldi manns uppfylla ekki skilyrðin. Á biðlista fyrir félagslegt húsnæði eru um 750 manns. Nauðsynlegt er að annar valmöguleiki komi hér til. Félagsbústaðir er hlutafélag um eignarhald og rekstur félagslegs leiguhúsnæðis á vegum borgarinnar. Félagsbústaðir eru í talsverðri þenslu núna en á sama tíma liggja margar eignir félagsins undir skemmdum því Félagsbústaðir hafa ekki ráðið við að halda þeim við.