Borgarstjórn 3. maí 2022, seinni umræða um ársreikning 2021

Fram fer seinni umræða um ársreikning 2021 í borgarstjórn 3. maí 2022

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um umræðu um húsnæðismarkaðinn við SSH.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að Reykjavíkurborg eigi frumkvæði að umræðu um stöðuna á húsnæðismarkaði á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við gildandi svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040.
Höfuðborgarsvæðið 2040 er sameiginleg stefna sveitarfélaganna Garðabæjar, Hafnarfjarðarkaupstaðar, Kjósarhrepps, Kópavogsbæjar, Mosfellsbæjar, Reykjavíkurborgar og Seltjarnarnesbæjar um náið samstarf, skipulagsmál og hagkvæman vöxt svæðisins næstu 25 árin. Höfuðborgarsvæðið er eitt búsetusvæði, einn atvinnu- og húsnæðismarkaður með sameiginleg grunnkerfi, útivistarsvæði, auðlindir og náttúru. Þetta er réttur vettvangur til að ræða þá alvarlegu stöðu sem nú er á húsnæðismarkaði. Nú er við hæfi að fulltrúar Reykjavíkurborgar setjist niður með nágrannasveitarfélögunum og ræði húsnæðisvandann, uppbyggingaráætlun og framtíð húsnæðismála í hinu stóra samhengi. Hraða þarf samráðsferli til að byggja megi hratt. Í viðræðum við nágrannasveitarfélög um hvernig staðið verði að uppbyggingu íbúða næstu árin er mikilvægt að ræða einnig hvernig sveitarfélögin hyggjast deila ábyrgðinni á uppbyggingu félagslegs húsnæðis og hagkvæms húsnæðis fyrir fyrstu kaupendur, námsfólk og efnalítið fólk. Fram til þessa hefur Reykjavík borið hitann og þungann af uppbyggingu félagslegs húsnæðiskerfis meðan önnur nágrannasveitarfélög sitja hjá.

Greinargerð

Talið er að þörf sé á 3-4.000 íbúðum og að byggja þurfi allt að 30.000 íbúðir um land allt næstu 10 árin ef mæta á eftirspurn. Fólksfjölgun er meiri en reiknað var með og má jafnvel ætla að til landsins komi þúsundir erlendra einstaklinga til að vinna að uppbyggingu, m.a. í ferðamannaþjónustu þegar losað hefur verið um höft og hindranir vegna COVID. Skortur á nýjum íbúðum á hagstæðu verði er eitt stærsta vandamálið á höfuðborgarsvæðinu og því mikilvægt að búa til vettvang allra nágrannasveitarfélaganna til að leggja á ráðin um lausnir til framtíðar.

Almennt vantar meira af nýjum íbúðum og þess vegna hefur verðbólga vaxið. Verðhækkanir eru m.a. til komnar vegna lóðaskorts. Húsnæðisvandinn er heimagerður vandi. Sjálfsagt er að þétta byggð og styður Flokkur fólksins þéttingarstefnu upp að skynsamlegu marki en brýna nauðsyn ber til að byggja ódýrara húsnæði fjær borgarmiðjunni. En eins og framkvæmdin hefur verið á þéttingarstefnunni er ljóst að hún hefur leitt til spennu á fasteignamarkaði, mikið til vegna þess að ekki hefur verið léð máls á að gera annað en að þétta.

Hátt verð þýðir að framboð er ekki nægjanlegt. Auka þarf lóðaframboð. Litlar íbúðir á þéttingarsvæðum eru dýrar. Á þeim hafa hvorki námsmenn, fyrstu kaupendur né þeir sem minna hafa milli handanna efni. Meirihlutinn í borginni hefur brugðist við þessari staðreynd með varnarræðum. Reynt hefur verið að kenna bönkunum og verktökum um. Leiga hækkar í takti við fasteignaverð. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir með þeim sem segja að brjóta þurfi nýtt land undir byggð. Hér er enginn að tala um að borgin eigi að þenjast mikið út. Horfa má til stækkunar á núverandi hverfum víða um borgina. Alls staðar þar sem fækkað hefur í úthverfum má bæta við og endurnýta innviði jafnharðan eða auka þá. Stefna á að því að gera öll hverfi sjálfbær með blandaðri byggð og atvinnutækifærum. Þar til Reykjavík sameinast nágrannasveitarfélögunum er nauðsynlegt að skipuleggja byggð í einhverju lágmarkssamkomulagi og að reyna að ná fram ávinningi með skipulagi samgangna og nýrra byggingarreita, þvert á sveitarfélagamörk.

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarstjóra með tuttugu og tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Flokks fólksins, Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Miðflokksins.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði til að Reykjavíkurborg ætti  frumkvæði að samtali um stöðuna á húsnæðismarkaði á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við gildandi svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040.
Vonandi verður þessi tillaga til þess að þetta samtal verði og skili tilætluðum árangri.  Borgarstjóri hefur kvartað yfir því í sal borgarstjórnar að nágrannasveitarfélögin axli ekki ábyrgð þegar kemur að því að bjóða þeim verst settu félagslegt leiguhúsnæði. Öllu sé vísað til Reykjavíkur. Sérstakur pirringur hefur verið sýndur gagnvart tillögum minnihlutans um að fjölga úrræðum svo mörg hundruð manns sem eru á biðlistanum fái félagslegt leiguhúsnæði.
Í þessari tillögu er lagt til að borgarstjóri eigi frumkvæði að samræðum við nágrannasveitarfélögin og ræði þessi mál tæpitungulaust við viðkomandi bæjarstjóra. Höfuðborgarsvæðið er eitt búsetusvæði og er Samband sveitarfélaga réttur vettvangur til að ræða þá alvarlegu stöðu sem nú er á húsnæðismarkaði. Hraða þarf samráðsferli til að byggja megi hratt og kalla þarf eftir sameiginlegri ábyrgð á vaxandi fátækt fólks sem margt hvert á ekki höfði sínu að halla á nema tímabundið hjá vinum og ættingjum vegna þess að það á ekkert heimili.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagðan ársreikning síðari umræðu:

Meirihlutinn leggur sig í líma við að slá ryki í augu borgarbúa og sannfæra þá um að fjárhagsstaða borgarinnar sé sterk. En ekki er allt sem sýnist. Stór hluti er vegna hækkunar á verðmæti félagsíbúða sem er ekki söluvara eða fjárhagsleg innistæða. Matsvirði þeirra er þáttur sem villir sýn. Grundvallaratriði í reikningsskilum er að gefin sé sönn mynd af borgarsjóði. Ástæða er til að hafa áhyggjur af fjármálastjórnun og rekstrarstöðu A-hluta borgarsjóðs. Veltufé frá rekstri til greiðslu afborgana og til nýfjárfestinga er einungis rúmlega 300 milljónir króna en þyrfti að vera milli 12 og 13 milljarðar króna. Afborganir lána og leiguskulda hafa hækkað um 35% milli ára. Heildarskuldir og skuldbindingar hafa hækkað um 17% milli ára. Taka þarf lán fyrir öllu sem þrengir fjárhagsstöðu borgarinnar þegar sívaxandi fjármunir fari í að greiða afborganir af lánum og leiguskuldbindingu. Fyrir liggur gríðarlegt viðhald á lykilmannvirkjum s.s. skóla fyrir utan aðrar fjárfestingar. Hvernig verða áætlaðar fjárfestingar í borgarlínu fjármagnaðar? Mun þessi staða þýða að það verði að draga saman í útgjöldum til félagslegra þátta? Flokkur fólksins vill að staldrað sé við hér og forgangsraðað með öðru hætti í rekstri borgarinnar. Á meðan öllu þessu fram vindur er þrengt að fólki á ýmsum sviðum. Biðlistar lengjast og fátækt fer vaxandi með tilheyrandi vanlíðan.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu að almennri eigendastefnu Reykjavíkurborgar, sbr. 6. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. apríl:

Tími var sannarlega kominn til að skilgreina eigendastefnu borgarinnar. Ekki er verra að viðhafa virka, gegnsæja og góða stjórnarhætti og gæta að áhrif minnihluta séu virt með lýðræðislegu jafnræði þannig að ekki sé unnt að ganga á rétt þeirra sem kunna að vera í minnihluta í borgarráði og borgarstjórn en hlutfall óháðra stjórnarmanna má vera hátt. Ein megináherslan á að vera á upplýsingagjöf og að hún nái til kjörinna fulltrúa og þá einnig þeirra fulltrúa sem skipa minnihlutann. Allt of oft hafa fulltrúar ekki verið upplýstir sérstaklega um B-hlutann. Fundargerðir eru þess utan afar rýrar og segja sjaldnast til um hvaða ákvarðanir eru teknar á fundum. Hér er tekið skref í rétta átt en vakta þarf þessi mál vel áfram.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna að forgangsröðun viðbygginga fyrir skóla- og frístundastarf sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. apríl:

Fyrir liggur skýrsla um forgangsröðun skóla sem þarfnast ýmist viðgerða eða viðbyggingar. Af þeim sex skólum sem eru nefndir í forgangi eru fjórir úr Laugarneshverfi og Háaleitis- og Bústaðahverfi. Í Laugardal er mikil uppsöfnuð þörf samkvæmt skýrslunni. Réttarholtsskóli er einnig mjög ofarlega í forgangsröðun skóla sem skipt er í fyrsta og annan forgang. Breiðagerðisskóli er skóli sem tekinn er með í forgangsröðunarlíkanið. Mikill vandi er einnig til staðar í Réttarholtsskóla og Langholtsskóla. Hér er um að ræða hverfi þar sem til stendur að þétta byggð svo um munar sem mun sprengja innviði hverfisins. Sumar þessar skólabyggingar eru þess utan illa farna vegna áralangs viðhaldsleysis. Viðhaldsskuld Reykjavíkurborgar er orðin stór. Staða íþróttaaðstöðu er óljós og telur Flokkur fólksins að bregðast verði við bráðavanda vegna skorts á íþróttaaðstöðu t.d. í Laugarnes- og Laugalækjarskóla og íþróttafélaganna í hverfinu. Þann veruleika sem hér hefur verið dreginn upp má finna í fleiri hverfum. Nemendum fjölgar hratt og óttast Flokkur fólksins að áætlaður fjöldi nemenda til framtíðar sé vanmetin. Líkur eru á að komið verði að þolmörkum árið 2030. Í skýrslunni er ekki fjallað um mismunandi aðstöðu til kennslu í íþróttum eða verklegum greinum og getur það haft áhrif í þessum samanburði.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Miðflokksins að hafa gjaldfrjálst í strætó:

Fulltrúi Flokks fólksins styður þessa tillögu þess efnis að setja á laggirnar tilraunaverkefni um gjaldfrjálsan strætó. Tilraunaverkefni sem þetta í stuttan tíma gæti veitt okkur mikilvægar upplýsingar. Strætó er í miklum fjárhagsvandræðum sem stendur m.a. vegna afleiðinga COVID en einnig hefur bs. fyrirtækið Strætó sem er í meirihlutaeigu Reykjavíkur ráðist á sama tíma í að endurnýja flotann, keypt rafmagnsvagna í stað þess að fjárfesta í metanvögnum þar sem nóg er til af metani. Flokkur fólksins vill efla almenningssamgöngur enda eina leiðin til að ferðast fyrir þá sem nota ekki bíl eða hjól. Borgarlína er ekki í nánustu framtíð. Auka þarf fjárframlög frá eigendum til fyrirtækisins ef strætó á að virka fyrir fleiri. Nú hefur verið dregið úr þjónustu og nýja greiðslukerfið Klapp hefur valdið því að færri treysta sér í strætó. Fulltrúi Flokks fólksins berst fyrir því að frítt verði í strætó fyrir 67 ára og eldri og öryrkja. Helst ætti að vera frítt fyrir alla og er það markmið sem stefna ætti að. Öryrkjar og aldraðir eru minni hluti notanda strætó ef þessi hlutföll eru sett í samhengi við fjölda sem nota strætó. Eldra fólk fær nú helmingsafslátt ef keypt er árskort sem nýlega var hækkað um 60%.

 

Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 28. apríl.

29. liður fundargerðarinnar, tillaga að aðgengisstefnu Reykjavíkurborgar til 2030 er samþykktur. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 29. lið fundargerðarinnar:

Aðgengisstefnan er ágæt eins langt og hún nær. Samgöngumálin eru þó ansi fyrirferðarlítil í stefnunni. Fjölga þarf P-merktum bílastæðum í borgarlandinu en ekki fækka eins og gert hefur verið að undanförnu. Skýra þarf einnig og skilgreina betur hlutverk aðgengis- og samráðsnefndar Reykjavíkurborgar og tryggja það, að eðlilegt og reglulegt samráð sé haft við nefndina um málefni fatlaðra. Alveg gleymist að skoða og ræða um fjárhagslegt aðgengi en fram hefur komið að það var ekki hluti af erindisbréfinu. Til dæmis er verðskrá og þjónustan ekki sambærileg hjá Strætó og hjá akstursþjónustunni sem er hugsuð sem ígildi strætó fyrir þau sem geta sjaldan eða aldrei notað hann. Ferð með akstursþjónustunni er dýrari. Fötluðu fólki á ekki að refsa fyrir fötlun sína með því að láta það borga meira fyrir sérhæfða þjónustu sem það þarf nauðsynlega. Þessi hópur er auk þess sá verst setti í samfélaginu og er skemmst að vitna í skýrslu um fátækt og bága stöðu öryrkja sem kom út 2021. Þar kom fram að 80 prósent fatlaðs fólks á erfitt með að ná endum saman og jafnhátt hlutfall þeirra þarf að neita sér um heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar. Skipa þyrfti yfiraðgengisfulltrúa hið fyrsta og í kjölfarið ráða fleiri aðgengisfulltrúa.

Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 29. apríl, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 25. apríl, skipulags- og samgönguráðs frá 27. apríl, skóla- og frístundaráðs frá 26. apríl og velferðarráðs frá 6. apríl.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs og 9. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs:

Hér er lagt til að gera breytingu á deiliskipulagi sem myndi veita heimild til þess að bæta við fjórðu hæð ofan á helming þakflatar þriggja hæða fjölbýlishúss sem nú er í byggingu. Upphaflegum teikningum var mótmælt og nú á enn að bæta við byggingarmagni. Þessu hefur verið harðlega mótmælt og vill fulltrúi Flokks fólksins að hlustað sé á íbúa Athugasemdir lúta m.a. að skorti á samráði. Áhyggjur eru af skuggavarpi og bílastæðamálum. Fyrir liggur skýrsla um forgangsröðun skóla sem þarfnast ýmist viðgerða eða viðbyggingar. Flokkur fólksins telur að upplýsingagjöf til foreldra í tengslum við framtíðarskipulag skólamála og viðhaldsmál hafi verið ófullnægjandi og úr því þarf að bæta. Lítið er að frétta af kostnaðargreiningu vegna hugmynda sem kynntar voru í skýrslu starfshópsins um skóla- og frístundastarf í Laugarnes- og Langholtshverfi. Tímalína fyrir lausnir er ekki til. Hægagangur er mikill og stundum fá skólastjórnendur engan fyrirvara þegar skyndibreytingar standa fyrir dyrum. Skólastjórnendur eru undir miklu álagi og þurfa oft frá einum degi til annars að púsla saman hvar börnin eiga að stunda nám hverju sinni. Bæta þarf tengsl og samskipti borgaryfirvalda við yfirstjórnendur. Í skólunum í hverfinu er gegnumgangandi þrengsl, mörg börn í litlu rými sem er ólíðandi.