Skóla og frístundarráð 22. janúar 2019

Tillaga um skilaboða- og ábendingakassa í skólum.

Flokkur fólksins leggur til að kössum verði komið upp í miðrými skóla í Reykjavík, þar sem börn, foreldrar/forsjáraðilar og aðrir sem tengjast skólastarfinu geti komið óskum sínum, tillögum, skilaboðum eða ábendingum á framfæri með einföldum hætti er varða skólastarfið. Tillaga þessi er hugsuð til að auðvelda börnum og forráðamönnum að hafa áhrif á skólastarfið og velferð barnanna í skólanum.

Greinargerð
Með tillögunni er ætlunin að benda á leið sem auðveldar börnum og aðstandendum þeirra að koma skoðunum sínum og ábendingum er varðar skólann, skólastarfið og nemendunum til skólayfirvalda á auðveldan og fljótlegan máta. Slíkur skilaboða- og ábendingakassi í almannarými skóla ætti að auðvelda starfsfólkinu að átta sig á hjartslætti og menningu skólans á hverjum tíma og gera starfsfólkinu um leið auðveldar fyrir að lagfæra ýmis vandamál sem kunna að vera í skólastarfsins en er e.t.v. ekki öllum ljós eða kunn.

Skólinn myndi skoða og meta allar ábendingar og tillögur sem kæmu í kassann. Skilaboð/ábendingar geta verið undir nafni eða nafnlaus. Berist fáar eða enga ábendingar eða tillögur geta skólayfirvöld leitt líkum að því að almenn ánægja ríki innan skólans og með skólann. Berist neikvæðar ábendingar gefur það tækifæri til uppbyggilegra breytinga. Ef að mörgum ábendingum er skilað vegna sama máls eru það sterkar vísbendingar um að eitthvað ákveðið þarfnist lagfæringar. Til þess að fullnýta kassann yrði mikilvægt að benda börnunum (þeim sem hafa aldur og þroska til) á þessa leið og tilganginn með henni.

Barni sem líður illa félagslega eða sem veit um annan nemanda sem á um sárt að binda getur þótt erfitt að tjá sig um málið munnlega. Enda þótt kassanum yrði ekki ætlað að koma í stað samtals að neinu leyti gæti börnum þótt auðveldara  sem fyrsta skref að tjá sig með því að setja miða í kassa þar sem þau benda á eitthvað atriði sem þarf að bæta eða laga. Í framhaldinu myndi þeim e.t.v. reynast auðveldara að ræða málið við viðeigandi starfsmann innan skólans.  Til að kanna menningu og viðhorf myndi aðferð sem þessi vissulega aldrei koma í staðinn fyrir vandaða viðhorfskönnun og áfram eru foreldrar og forráðamenn ávallt hvattir til að hafa persónulega samband við skólann, símleiðis, bréfleiðis eða óska eftir viðtali eftir ástæðum og þörfum hvers og eins.  Hér er einungis verið að leggja til viðbót við þær upplýsinga- og samskiptarásir sem fyrir eru.