Borgarstjórn 5. september 2023

Borgarstjórn Reykjavíkur
5. september 2023
Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um skaðabætur vegna myglu í skólahúsnæði

Nú er það staðfest að fjölmargir hafa orðið illa úti vegna myglu og raka í skólabyggingum borgarinnar. Starfsfólk hefur hrökklast úr starfi vegna veikinda tengdum myglu og dæmi eru um að börn séu orðin langveik. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur af þeim sökum til að þeim sem veikst hafa vegna myglu og raka í skólabyggingum Reykjavíkurborgar verði veittar skaðabætur t.d. í formi greiðslna á lækniskostnaði og vinnutapi. Nefna má í þessu sambandi þrautagöngu Laugarnesskóla. Í mörg ár hafa nemendur og starfsfólk Laugarnesskóla unnið í heilsuspillandi starfsumhverfi vegna myglu, rakaskemmda og leka. Nemendur og starfsfólks hafa veikst, sum alvarlega. Hér er ekki um einsdæmi að ræða. Hávær hróp hafa borist lengi frá skólasamfélaginu vegna myglu og rakavanda í fjölmörgum skólum borgarinnar. Frá árinu 2018 hefur greinst mygla í yfir 30 skólahúsum sem tilheyra borgarreknum leik- og grunnskólum samkvæmt samantekt fréttastofu RÚV frá því í fyrra haust. Þá voru yfir 1.200 grunn- og leikskólabörn í húsnæði utan skólalóðar heimaskóla vegna mygluvandamála, 860 grunnskólabörn og 350 leikskólabörn. Síðan þá hafa líklega bæst við hátt í hundrað börn. Mörg þúsund börn verða fyrir raski á skólastarfi vegna myglu og raka. Skaðsemi og önnur áhrif af þessum vágesti sem mygla er hefur ekki verið rannsakað af borginni.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskaði nýlega eftir upplýsingum um skilvirkni og viðbrögð við tilkynningum um myglu í skólabyggingum. Í svari er rakið ferlið sem fer af stað þegar grunur er um léleg loftgæði og slæma innivist. Það kerfi sýnist ágætt. Margir koma að og þá er vissulega alltaf spurning um skilvirkni. Talað er um teymi með ýmsum aðilum, mannauðsráðgjafa og Heilbrigðiseftirliti. Í svo alvarlegum málum hlýtur að þurfa að hafa yfirsýn og heildarmynd og að einhver einn haldi utan um verkið ef ekki á að enda í endalausum fundum sem jafnvel fátt kemur út úr.
Spurt var um hvort sérstaklega væri hlúð að börnum og starfsfólki vegna heilsufars og mats á heilsu vegna myglunnar. Því er svarað til að öllum starfsmönnum Reykjavíkurborgar í húsnæðinu stendur til boða að leita til trúnaðarlæknis. Flokkur fólksins vill sjá hér að hugað sé að þolendum þessara aðstæðna. Skólar eru fjölmennir vinnustaðir og börnin eru skólaskyld. Lækniskostnað og kostnað vegna vinnutaps og aðrar afleiðingar þarf að meta og bæta upp með einhverjum hætti.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu málsins:

Tillögunni er vísað frá m.a. með þeim rökum að ef hlúð væri að þessum hópi væri verið að mismuna starfsfólki. Veikindi sem rekja má til myglu og raka eru ekki eins og almenn veikindi. Þau börn og þeir starfsmenn sem hér um ræðir áttu ekkert val. Þeim var gert að vera í heilsuspillandi húsnæði í langan tíma. Skólaganga er skylda og fólk sem hefur ráðið sig í vinnu vill gjarnan geta stundað hana.
Fulltrúi Flokks fólksins finnst meirihlutinn hræddur við þessa tillögu. Meirihlutinn óttast að verið sé að opna fyrir peningakrana. Málið er að meirihlutinn virðist ekki vita mikið um þennan hóp. Engar rannsóknir eða kannanir hafa verið gerðar á honum og ekkert er utanumhaldið. Það er skylda borgaryfirvalda að ná til þessa hóps og bjóða þeim sem hér um ræðir upp á samtal og spyrja hvað því vantar og hvernig því finnst borgin geta stutt við það. Borgarstjórn má ekki láta eins þeim komi þessi mál ekki við. Flokkur fólksins vill setja fólkið sjálft og þjónustu við það í forgang.