Borgarstjórn, seinni umræða Fjárhagsáætlanir 5. desember 2023 Bókanir Flokks fólksins

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2024:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur framws svohljóðandi bókun: Rekstur A-hluta Reykjavíkurborgar hefur verið í járnum. Árlega hefur hluti rekstrarútgjalda borgarsjóðs, fjárfestingar og afborganir lána verið fjármagnaðar með lántökum. Langt er enn í land með að fjárhagsstaða borgarinnar verði ásættanleg. Nánast allri skuldinni er skellt á málefni fatlaðs fólks. Rétt er að batamerki eru í bókhaldi borgarinnar en ástæðan fyrir því eru auknar tekjur sem m.a. má rekja til gjaldskrárhækkana. Hver einasta gjaldskrá hefur hækkað auk skatttekna. Allt fer þetta beint út í verðlagið og eykur verðbólgu. Tugi tillagna voru lagðar fram af meirihlutanum í fyrra, sumar sem skertu þjónustu við börn og viðkvæma hópa. Áfram er þensla, áfram er haldið með fjárfrek verkefni sem ekkert hafa að gera með þjónustu við borgarbúa. Áfram er verið að fjölga stöðugildum á sumum sviðum og stórar fjárhæðir fara í að greiða fyrir mistök af ýmsu tagi, útboðsmistök. Microsoft leyfi – kostaði sem dæmi 27 milljónum meira milli ára. Hækka þarf fjárheimildir um 27.672 þ.kr. vegna breytinga leyfanna. Þessu fylgja engar skýringar. Flokkur fólksins leggur fram 19 breytingartillögur og hefur áður lagt fram 4 gjalda breytingartillögur. Meðal þeirra er tillaga um hækkun grunnfjárhæða fjárhagsaðstoðar og skal uppfærslan miða við prósentuhækkun matarkörfunnar. Sárafátækt hefur aukist í Reykjavík og einnig almennur ójöfnuður.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2023 til 2028:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur framws svohljóðandi bókun: Ef horft er til fimm ára áætlunar Reykjavíkurborgar eru þess vænst að batahorfur aukist enn frekar. Stærsta áskorunin hlýtur að vera að byggja húsnæði fyrir fólk, ekki fyrir ferðamenn. Einnig að spyrna fótum við vaxandi fátækt og ójöfnuði og aukinni vanlíðan barna sem bíða hundruðum saman eftir sálfræðilegri aðstoð. Meirihlutinn verður að axla ábyrgð en ekki varpa sökinni annað s.s. erfiðleika við að ná samningum við ríkið. Batahorfur rétt lafa, ekki þarf mikið til að allt fari á heljarþröm. Það sést t.d. á því að veltufjárhlutfall A-hluta borgarsjóðs fer lækkandi á tímabilinu og er komið niður undir 0,8. Það er varhugaverð þróun sem nauðsynlegt er að bregðast við tímanlega. Mikil lækkun Veltufjárhlutfall undir einum eykur líkur á að kostnaður vegna dráttarvaxta fari vaxandi. Það mun þó taka lengstan tíma að koma mikilvægasta atriðinu í fjármálastefnu borgarinnar í ásættanlegt horf, veltufé frá rekstri. Það þarf að styrkja þróun veltufjár frá rekstri í A-hluta borgarsjóðs. Aukin hagræðing í rekstri og meiri skilvirkni er aðalatriðið. Auk húsnæðisvanda eru samgöngumál erfið. Þjónusta hefur verið skert hjá strætó en strætó er eini valkostur almenningssamgangna næstu árin og áfram er spáð mikilli fólksfjölgun.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fundargerðir

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. og 14. lið fundargerðar borgarráðs frá 30 nóvember:

Deiliskipulagsbreyting Fossvogsbrúar hefur verið samþykkt af meirihlutanum. Þessu máli hefði átt að fresta og fjalla um ábendingar með málefnalegum hætti. Það var ekki fyrr en í ágúst 2023 að opnað var fyrir athugasemdir frá almenningi með formlegum hætti. Örskömmu síðar er deiliskipulagsbreytingin samþykkt og nú er ekki aftur snúið. Þegar fólki var boðið að senda inn athugasemdir var hönnunar brúarinnar að mestu lokið og það í trássi við gildandi deiliskipulag. Ef um alvöru samráð hefði verið að ræða hefði átt að auglýsa eftir athugasemdum strax og farið var að hanna vinningstillöguna. Bent hefur verið á að galli sé í hönnun. Gönguleiðin ætti að vera vestanmegin og hjólaleðin austanmegin. Venjulega eru göngustígar sjávarsíðumegin. Brúin býður upp á áningu. Þegar sólin fer að skína á vesturhlið brúarinnar milli kl. 13:00 og 14:00 myndast skuggar frá handriðum inn á brúna, göngustíga megin og skerðir útsýni og upplifun. Það er miður að ekki eigi að leiðrétta þetta í svo fjárfreku mannvirki.


14. liður. Flokkur fólksins benti á að greinargerð ÞON með Fjárhagsáætlun var byggð á úreltum upplýsingum. Það sætir furðu að rangar upplýsingar voru lagðar fyrir kjörna fulltrúa með samþykki fjármálasviðs og endurskoðenda. Hvernig má það vera að slík vinnubrögð eru viðhöfð?

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fundargerðir

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. og 9. lið fundargerðar menningar- og ferðamálaráðs frá 24. nóvember:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til breytingar á reglum um Frístundakort þannig að Kortið yrði ekki nýtt til að greiða frístundaheimili heldur biðust foreldrum að fá sérstakan styrk og þannig gæti barnið nýtt Kortið í tómstundir að eigin vali. Hér er ekki aðeins verið að tala um foreldra sem eru á fjárhagsaðstoð. Tillagan var felld með eftirfarandi skýringu “Hugmyndin með kortinu er að efla frístundaþátttöku barna”. Þetta svar er útúrsnúningur. Börn eiga ekki að þurfa að líða fyrir fátækt foreldra sína. Það á að geta verið bæði á frístundaheimili og nýtt kortið í tómstund.

Liður 9. Flokkur fólksins óskaði eftir að fá samanburð á fjármögnunarsamningum íþróttahúsa borgarinnar og sérstaklega um aðgengi félaga sem nota Laugardalshöllina. Í svari er skautað yfir heildarmyndina og aðalatriðum sleppt. Körfuknattleiksdeild Ármanns hefur ekki boðlega aðstöðu til æfinga nema í Laugardalshöll. Takmarkað aðgengi að Laugardalshöll kemur að sama skapi niður á blak- og handboltadeildum Þróttar. Ef horft er yfir skólaárið verða börnin í hverfinu af 40-45% af æfingum vegna forgangs sérsbanda og ISH. Þau íþróttahús sem eiga að nýtast í staðin eru annað hvort allt of lítil eða utan hverfis. Jafnræðis er því engan veginn gætt.