Forsætisnefnd 13. september 2019

Undirbúningur dagskrár borgarstjórnarfundar 17. september

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki  að aðild Reykjavíkur að byggðasamlögum verði skoðuð með tilliti til þess að auka lýðræðislega aðkomu reykvíkinga að þeim.

Byggðasamlög eins og þau starfa nú, eru fjarlæg hinum almenna borgara. Þau eru stofnun sem setur sér eigin starfsreglur og eigin stefnu. Innan þeirra fer ekki saman fjárhagsleg ábyrgð og ákvarðanataka. Í núverandi kerfi mun byggðasamlögum fjölga frekar en fækka. Lýðræðishallinn vex.  Ef þörf er á fjölda byggðasamlaga er ástæða til að huga að sameiningu þeirra sveitarfélaga sem þau mynda.
Reykjavík getur ekki í núverandi byggðasamlögum tekið  ákvarðanir um mikilvæg atriði sem kunna að skipta borgarbúa miklu án þess að njóta stuðnings a.m.k. tveggja annarra sveitarfélaga og það þótt Reykjavík beri lang mestu fjárhagslegu ábyrgðina. Nýverið barst Reykjavíkurborg þungur bakreikningur vegna mistaka í fjárhagsáætlanagerð Sorpu. Þótt Sorpa sé í eigu allra sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins þarf Reykjavík að bera þungann af fjármögnun hennar vegna íbúafjölda. Ef fjárhagsleg ábyrgð Reykjavíkur á rekstri byggðasamlaga á að vera meiri en ábyrgð annarra sveitarfélaga þá á Reykjavík jafnframt að hafa stjórnunarheimildir í samræmi við þá auknu ábyrgð.

Greinargerð
Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar gerði árið 2011 stjórnsýsluúttekt á byggðasamlögum borgarinnar nánar tiltekið Strætó, Sorpu og Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Þar kom fram að sambandsleysi virtist vera milli eigenda byggðasamlaganna og stjórna þeirra. Stjórnir félaganna hefðu stundum farið út fyrir verksvið sitt og jafnvel tekið veigamiklar ákvarðanir sem féllu ekki að væntingum eigendanna. Reykjavíkurborg hefur jafnvel gert málamiðlanir á kostnað eigin hagsmuna.

Innri endurskoðun benti á í sinni stjórnsýsluúttekt á byggðasamlögum borgarinnar að byggðasamlagsformið kæmi sér best þegar samstarf fæli í sér lögbundin verkefni en betra væri að nota annað félagsform þegar starfsemi fæli í sér starfsemi sem ber einkenni almenns einkareksturs á samkeppnisgrundvelli, eins og ætti við um Sorpu og Strætó.

Stjórn Sorpu er skipuð einum stjórnarmanni frá hverju sveitarfélagið höfuðborgarsvæðisins. Atkvæðavægi þeirra er hlutfallslegt og miðar við íbúafjölda sveitarfélaga. Reykjavík hefur því mest atkvæðavægi af sveitarfélögunum. Samþykki ¾ hluta atkvæðavægis eða a.m.k. 3 sveitarfélaga þarf fyrir ákvörðunum um gjaldskrár, fjárfestingar, ólögbundin útgjöld og meiri háttar skuldbindingar. Reykjavík getur því ekki í krafti atkvæða sinna tekið ákvarðanir um framangreinda hluti án þess að njóta stuðnings a.m.k. tveggja annarra sveitarfélaga.

Samkvæmt starfsreglum stjórnar Strætó er atkvæðavægi stjórnarmanna í hlutfalli við íbúatölu en samþykki ¾ hluta atkvæðisvægis í stjórn, þó aldrei færri atkvæði en þriggja aðildarsveitarfélaga, þarf til að þær ákvarðanir öðlist gildi sem varðar rekstrarkostnaðarskiptingu, meiriháttar fjárfestingar, stofnun eða þátttöku í dótturfélögum, breytingar á gjaldskrá eða breytingar á þjónustustigi. Sama gildir um upptöku nýs leiðakerfis, að hluta eða í heild. Því getur Reykjavík ekki tekið ákvarðanir um þau málefni í krafti atkvæðavægis nema með stuðningi a.m.k. 2 annarra sveitarfélaga og a.m.k. ¾ hluta atkvæðavægis. Þá er í starfsreglum stjórnar Strætó ákveðið að sveitarfélögin skuli skipta með sér formennsku á 2 ára fresti.

Nú stendur til að nýtt byggðasamlag verði stofnað í kringum hina umdeildu Borgarlínu og því er eðlilegt að borgarbúar spyrji sig hvort Reykjavík muni þar einnig bera skertan hlut frá borði. Þegar byggðasamlög eru í meirihlutaeigu Reykjavíkurborgar verður að tryggja að Reykjavíkurborg fái viðhlítandi stjórn og yfirsýn með rekstri þeirra. Ákvarðanataka verður  að vera gegnsæ. Hætta er á að þar verði misbrestur hjá byggðasamlögum

Bókun Flokks fólksins við málsmeðferðartillögu meirihlutans:
Að tillögu Flokks fólksins verði vísað til umsagnar Félags heyrnarlausra og aðgengis- og samráðsnefndar fatlaðs fólks. Jafnframt er samþykkt að óska eftir kostnaðarmati fjármála- og
áhættustýringarsviðs á tillögunni að umsögnunum fengnum. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur mikla áherslu á að tillagan fari til umsagnar til aðila utan borgarstjórnar og fagnar því þess vegna að hún fari til umsagnar til Félags heyrnarlausra.  Einnig er mikilvægt að kostnaðarmat verði  gert af utanaðkomandi aðila, þ.e. öðrum en fjármála- og áhættustýringarsviði. Gott væri að fá tvenns konar kostnaðarmat á tillögunni þar af annað framkvæmt af aðila ótengdum borgarstjórn.

Bókun meirihlutans:

Það er hlutverk sviðs Fjármála- og áhættustýringar að gera kostnaðaráætlanir. Það getur ekki talist annað en undarlegt að lýsa með þessum hætti vantrausti á starfsfólk þeirrar skrifstofu sem ráðið er sérstaklega til að sinna þessari vinnu, og töluverður aukakostnaður myndi hljótast af þyrfti að gera slíkt mat af utanaðkomandi stofnun í hvert skipti, án þess að sérstök ástæða sé tilgreind

Gagnbókun Flokks fólksins:

Flokkur fólksins er ekki að lýsa vantrausti á neinn í sinni bókun og því óþarfi hjá meirihlutanum í forsætisnefnd að draga þá ályktun. Hins vegar er það rétt að Flokki fólksins finnst það jákvætt að tillagan fari til umsagnar utan borgarstjórnar í  ljósi frekar neikvæðra viðbragða meirihlutans við tillögunni á fundi borgarstjórnar. Þess utan yrði góður bragur að því að fá kostnaðarmat frá tveimur aðilum, öðrum utan borgarstjórnar.