Forsætisnefnd  14. júní 2019

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill spyrja af hverju ekki er í siðareglum kveðið á um að borgaryfirvöld skuli ávallt hafa í heiðri heiðarleika, rækja störf sín af ábyrgð og forðast að aðhafast nokkuð sem falið getur í sér misnotkun á almannafé. Það ákvæði var í fyrri siðareglum.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Við ákvörðun um opinbera móttöku segir í reglum að horfa skal til þess að tilefnið þjóni hagsmunum Reykjavíkurborgar og Reykvíkinga og/eða sé í samræmi við hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar og í samræmi við samþykkta stefnumörkun, áherslur og forgangsröðun borgaryfirvalda. Þá skal horft til sjónarmiða um mannréttindi og samfélagslega ábyrgð við ákvörðun um opinbera móttöku. 3. gr.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um áætlaðan kostnað þessara viðburða/móttöku sem hér eru lögð fram og með hvaða hætti þær þjóna hagsmunum Reykjavíkur sem höfuðborgar sbr. reglur um móttökur.
Um er að ræða:
Höfða friðarsetur í samstarfi við Davis Center við Harvard háskóla; stjórnendur menningarhúsa í Skandinavíu og Kvennasmiðju. Eins er óskað eftir að betur sé gerð grein fyrir tilefninu. Í öllum tilfellum tekur Reykjavíkurborg á sig allan kostnað. Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Borgarfulltrúa Flokks fólksins fýsir að vita nánar um hvenær og hvort fulltrúa borgarinnar á Velferðarvaktinni hafi nú þegar verið falið að koma þessari tillögu inn á borð Vaktarinnar til að hún verði rædd. Málið er brýnt og vill borgarfulltrúi Flokks fólksins sjá þessi mál komin í viðunandi farveg hjá ríkinu áður en skólar byrja í haust. Hér er um sanngirnismál að ræða eins og borgin og ríkisstjórnin vita. Börn eru börn til 18 ára aldur og ekki er verjandi að mismuna þeim með þessum hætti milli skólastiga.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu velferðarráðs þann 24. apríl 2019 á tillögu fulltrúa í ungmennaráði Kjalarness um gjaldfrjáls námsgögn í framhaldsskólum.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins er sammála því að námsgögn ungmenna í framhaldsskólum á aldrinum 16-18 eru á forræði ríkisins. Í bókun meirihlutans og Flokks fólksins kemur fram að fulltrúar skora á ríkið til að fara að fordæmi margra sveitarfélaga og hafa námsgögn í framhaldsskólum gjaldfrjáls. Fulltrúar fela einnig fulltrúa sínum á Velferðarvaktinni að koma þessari tillögu inn á borð þar til umræðu.  Mikilvægt er að það verði gert eins fljótt og unnt er.

Bókun Flokks fólksins vegna bréfs íþrótta- og tómstundasviðs vegna kynningu á frístundakorti á erlendum tungumálum:

Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að auka meðvitund meðal Reykvíkinga með annað móðurmál en íslensku um hvernig nýta megi alla þjónustu Reykjavíkurborgar, þ.m.t. frístundakortið. Gallinn er hins vegar sá að reglur um frístundakort eru alltof strangar og ósveigjanlegar sem veldur því að það er ekki nægjanlega vel nýtt, sem dæmi í Breiðholti þar sem mesta fjölmenningin er. Varla
er það markmið borgarinnar að kortið sé ekki betur nýtt en raun bera vitni. Nýting er allt niður í 65%. Nú hefur verið samþykkt að verja miklum fjármunum í að kynna kortið á fleiri tungumálum. Hér er byrjað á öfugum enda. Þýða á reglur um frístundakort sem eru allsendis óboðlegar. Reglur eru hreinlega ósanngjarnar gagnvart sumum börnum. Sem dæmi er með að öllu er óraunhæft að skilyrða kortið við 10 vikna námskeið hið minnsta. Mörg börn treysta sér ekki til að skuldbinda sig í svo langan tíma en myndu gjarnan taka þátt í styttri námskeiðum. Að skilyrða húsnæði með rekstrarleyfi er að sama skapi óþarfa skilyrði. Væri ekki nær að laga til þessar reglur áður en sett er fjármagn í auglýsingaátak á fleiri tungumálum?

Bókun Flokks fólksins við tillögu um að minnka kostnað vegna funda borgarstjóra. Tillagan er felld.

Það kemur á óvart að meirihlutinn vill ekki minnka kostnað funda borgarstjóra. Þar er í gangi mikið bruðl sér í lagi er varðar kostnað við hljóðkerfi, myndbandsupptökur og streymi frá opnum fundum í lágmarki. Til dæmis er sífellt samið um einn fund í einu í stað þess að fá tilboð í pakka af fundum. En með því að semja aðeins um einn fund í einu er ólíklegt að gott tilboð fáist. Þess utan er ekkert í innkaupareglum sem meinar að spurt sé um verð eða boðið út þótt áætluð fjárhæð innkaupa með virðisaukaskatti sé undir 7 m.kr. Borgin þarf að fara að hugsa eins og „hagsýn húsmóðir/faðir“ og hætta að kaupa alltaf eina litla einingu í einu og fara að kalla þess í stað eftir tilboðum í „magn“. Það eru engin geimvísindi að sekkur af hrísgrjónum er hlutfallslega ódýrari en lítill pakki af hrísgrjónum. Ef
fyrirsjáanleg er fundarröð 5-10 funda þá skal gera verðfyrirspurn og/eða óska tilboða í þá alla í einu.

Bókun Flokks fólksins vegna kostnaðar fundaherferðar borgarstjóra, sbr. 9.
lið fundargerðar forsætisnefndar frá 15. mars 2019:

Þessi svör/umsögn eru engan vegin viðunandi hvað þá fullnægjandi. Sífellt er klifað á því að reynt sé að halda kostnaði við hljóðkerfi, myndbandsupptökur og streymi frá opnum fundum í lágmarki. En með því að semja aðeins um einn fund í einu er ólíklegt að gott tilboð fáist. Þess utan er ekkert í innkaupareglum sem meinar að spurt sé um verð eða boðið út þótt áætluð fjárhæð innkaupa með virðisaukaskatti sé undir 7 m.kr. Stærsta meinið er að sífellt er miðað við einn fund í einu í stað þess
að gera verðfyrirspurn í röð funda „pakka“ eða leita tilboða í „pakka“ af fundum. Borgin þarf að fara að hugsa eins og „hagsýn húsmóðir/-faðir“ og hætta að kaupa alltaf eina litla einingu í einu og fara að kalla þess í stað eftir tilboðum í „magn“. Það eru engin geimvísindi að sekkur af hrísgrjónum er hlutfallslega ódýrari en lítill pakki af hrísgrjónum. Ef fyrirsjáanleg er fundarröð 5-10 funda þá skal gera verðfyrirspurn og /eða óska tilboða í þá alla í einu.

Bókun Flokks fólksins við nýjum reglum um móttökur Reykjavíkurborgar:

Það skiptir miklu máli að þarna ríki fullkomið gegnsæi og að birtur sé sundurliðaður kostnaður eftir hverja móttöku á vef borgarinnar. Eins er mikilvægt að útboð verði samkvæmt innkaupareglum jafnvel þótt áætluð upphæð sé undir viðmiði innkaupareglna. Ekkert meinar borginni að kanna verð fyrirfram eða leita tilboða þótt lágmarksviðmiði innkaupareglna sé ekki náð vegna kaupa á þjónustu. Hvað varðar beiðni um móttöku þá getur hver og einn lagt fram beiðni um móttöku samkvæmt reglum. Móttökur eru margar í Reykjavíkurborg, stundum allt að þrjár jafnvel fjórar í viku þegar mest lætur. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill ítreka mikilvægi þess að ALLAR beiðnir um móttökur séu sýnilegar, rökin fyrir þeim og hvernig tilefnið samræmist hagsmunum borgarinnar samanber það sem segir í reglum. Til að borgarbúar geti áttað sig á af hverju sumar beiðnir um móttökur eru
samþykktar en aðrar ekki þurfa að fylgja með rök.

Bókun Flokks fólksins varðandi nýjar siðareglur:

Siðareglur snúa að mörgu í mannlegum samskiptum. Valdhroki og valdníðsla hefur
oft ríkt á fundum ráða og nefnda í borginni t.d. í formi banns við að bregðast við/tjá
sig, beiðni um að ljúka bókun verið hunsuð, fundi slitið til að kæfa umræðu og skort
á samvinnu um frestun mála. „Verkferli“ sem meirihlutinn samþykkti einhliða til
að opna leið fyrir starfsmenn sem vilja kvarta yfir borgarfulltrúum er engan veginn
í samræmi við siðareglur. Hvað þá óhróður sem borgarritari dreifði, með samþykki
borgarstjóra, um fulltrúa minnihlutans og þeir sagðir „tuddar“ á sameiginlegu
vinnusvæði með þeim orðum að „þeir sem bregðast við eru þeir seku“. Einn fulltrúi
meirihlutans kynti undir óhróðurinn á sama vefsvæði með því að nafngreina
„hrekkjusvínin“ eins og fulltrúinn orðaði það. Loks má nefna ábyrgðarleysi og brot
valdhafa á siðareglum í braggamálinu en í siðareglum er kveðið á um að „hafa í
heiðri heiðarleika, rækja störf sín af ábyrgð og forðast að aðhafast nokkuð sem falið
getur í sér misnotkun á almannafé“. Á meðan valdhafar í borginni koma fram af
ábyrgðarleysi, hörku og óbilgirni finnst borgarfulltrúa Flokks fólksins varla vera
mikil alvara að baki. Siðareglur geta ekki einungis verið falleg orð á blaði.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu á bréfi skrifstofu borgarstjórnar, dags. 12. júní 2019, um endurskoðun á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar ásamt viðaukum.

Borgarstjórn er fjölskipað stjórnvald, eða á að vera það. Þannig er það ekki í praksís. Hér er verið að leggja fram breytingar á samþykktum til samþykktar. Hér hefur minnihlutinn ekki átt neina aðkomu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Leiðin til að koma að breytingu á samþykktum er að leggja fram tillögur. Tillögur um breytingar á samþykktum lagðar fram af minnihlutanum hafa flestar ef ekki allar verið felldar.
Minnihlutinn hefur þannig enga aðkomu að neinu er varðar samþykktir borgarinnar. Dæmi um tillögu minnihlutans er að áheyrnafulltrúar minnihlutans fái að sitja í öllum ráðum og nefndum nema barnaverndarnefnd og að borgarstjórnarfundir hefjist fyrr en báðar þessar tillögur voru felldar. Þetta er einungis brot af tilraunum
minnihlutans til að hafa einhver áhrif á stjórnsýslu borgarinnar sem finna má í hinum ýmsu samþykktum.