Velferðarráð 15. september 2021

Bókun Flokks fólksins við bréfi heilbrigðisráðuneytisins, dags. 1. september 2021, varðandi  sveigjanlega dagþjálfun:

Eldri bókun birt hér undir þessum lið:

Sterkar vísbendingar eru um að sveigjanleg dagþjálfun stytti dvalartíma einstaklinga í hjúkrunarrýmum og haldi biðlistanum eftir varanlegri vistun stöðugum. Fulltrúi Flokks fólksins finnst mikilvægt að horfa  til fleiri úrræða og fjölbreyttari t.d. sveigjanlegrar dagdvalar sem millilið. Það er ekki aðeins vilji flestra að vera sem lengst heima heldur er það einnig hagstæðast fyrir þjóðfélagið. Tryggja þarf samhliða að þeir sem ekki geta dvalið heima lengur þrátt fyrir víðtæka heimaþjónustu og heimahjúkrun fái pláss á hjúkrunarheimilum. Það er forgangsatriði. En  einnig  er mikilvægt að efla heimastuðning því ef þjónustuþáttum væri fjölgað og aðrir dýpkaðir myndu fleiri geta búið lengur heima.  Umfram allt má ekki setja öll eggin í eina körfu. Fleiri tegundir úrræða eins og sveigjanleg dagþjálfun þarf því að vera til staðar í samræmi við aldursþróun þjóðarinnar.

Bókun Flokks fólksins við minnisblaði, dags. 15. september 2021, um stöðu íþrótta- og tómstundastyrks fyrir börn á tekjulágum heimilum:

Framhald er á íþrótta- og tómstundastyrknum frá ríkinu, 25.000 kr. til tekjulágra heimila þannig að öll börn geti óháð efnahag stundað íþróttir og aðrar tómstundir. Sett var í hendur sveitarfélaga að útfæra umsókn um styrkinn á grundvelli leiðbeininga frá félagsmálaráðuneytinu en bann var sett við að styrkurinn myndi notaður til að greiða gjald frístundaheimilis eða aðrar skuldir. Enn er frístundakortinu haldið í gíslingu hjá borgarmeirihlutanum og hópur foreldra hefur ekki annan kost en að nota það til að greiða frístundaheimili barns síns og börnin því ekki að nota það í tómstundir. Það var napurlegt að  fá niðurstöður eins og þær sem birtar eru í skýrslu UNICEF sem gerði samanburð á efnislegum skorti barna í Evrópu. Staðan hér er verst hvað varðar þátttöku í tómstundum en 17% íslenskra barna mælast með skort á því sviði og Ísland er þar í 19. sæti af 31 Evrópulandi. Börn hafa ekki setið í mörg ár við sama borð þegar kemur að jöfnum tækifærum til tómstunda í Reykjavík. Þetta má sjá í niðurstöðum rannsókna frá 2009, 2014 og 2018. Námskeið eru mörg kostnaðarsöm auk þess sem þau þurfa að vara í 8 vikur til að hægt sé að fá frístundastyrkinn. Því lengri sem frístundanámskeið eru því dýrari eru þau.

Bókun Flokks fólksins við tillögu fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, sbr. 6. lið fundargerðar velferðarráðs 9. janúar 2019, um breytingu á útreikningi sérstaks húsnæðisstuðnings, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 15. september 2021.

Þessi tillaga er byggð á sömu sjónarmiðum og Flokkur fólksins hefur barist fyrir í borgarstjórn. Lagt er til að ekki eigi að skerða sérstakan húsnæðisstuðning ef húsnæðiskostnaður er yfir 25% af ráðstöfunartekjum viðkomandi. Þetta myndi sennilega leiða til þess að flestir myndu fá stuðninginn óskertan, enda þyrfti einstaklingur með 150.000 kr. húsnæðiskostnað að hafa 600.000 kr. í ráðstöfunartekjur svo skerða mætti sérstaka húsnæðisstuðninginn. Í umsögn segir að ef þessi breyting yrði gerð myndi það kosta tæpar 70 milljónir á mánuði. Gott væri að fá kynningu á þessu flókna kerfi.

Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra, dags. 15. september 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um fækkun stöðugilda í þjónustuveri Pant akstursþjónustu, sbr. 15. lið fundargerðar velferðarráðs frá 1. september 2021.

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að fá svör við því af hverju fækkað hafi verið um 2,5 stöðugildi í þjónustuveri. Fram kemur í svari að Strætó Bs. var gert að hagræða. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta ekki gott. Víða er verið að skerða þjónustu hjá Reykjavíkurborg. Fólk þarf að geta náð sambandi og sér í lagi þeir sem eru ekki að nota tölvur og net. Enn er til hópur sem notar aðeins síma og er ekki með rafræn auðkenni og nýtir sér þar af leiðandi ekki netspjallið.

Um árskort fyrir notendur akstursþjónustu fatlaðs fólks líkt og á við um öryrkja og eldri borgara í Strætó bs.

Ekki liggur fyrir hvað það  myndi  kosta fyrir Reykjavíkurborg að bjóða upp á árskort fyrir notendur akstursþjónustu fatlaðs fólk líkt og á við um fyrir öryrkja og eldri borgara í Strætó bs. þar sem árskort kostar 25.000 kr?
Fyrirkomulag varðandi akstursþjónustu fyrir fatlað fólk er þannig að greitt er fyrir hverja ferð 245 kr. og einungis notendur í framhaldsnámi (framhaldsskólum og háskólum) geta keypt ungmenna – eða nemakort Strætó sem er áskriftarkort og gildir í eitt ár.

En hvað kostar að  tryggja að notendur geti keypt árskort og hvað það myndi kosta að bjóða upp á slíkt svo að árskortið gildi líka í ferðir með Strætó bs.?
Hver væri kostnaðurinn ef einnig væri boðið upp á 6 mánaða kort með sömu valmöguleikum sem nefndir eru hér að ofan, svo að einstaklingar hafi val um það hvort þeir kaupi árskort eða heilsárskort?

 

Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra, dags. 15. september 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um gjaldskrár Strætó og Pant akstursþjónustu, sbr. 13. lið fundargerðar velferðarráðs frá 1. september 2021.

Fulltrúi Flokks fólksins spurði af hverju verðskráin og þjónustan sé ekki sambærileg hjá Strætó og hjá Akstursþjónustunni sem hugsuð er sem ígildi strætó fyrir þau sem geta sjaldan eða aldrei notað hann. Ferð með Akstursþjónustunni er dýrari. Í svari er höfðað til þess að þjónustan sé sérhæfð. Vissulega er hún það enda akstursþjónusta fatlaðs fólks. En af hverju ætti hún að vera dýrari? Fötluðu fólki á ekki að refsa fyrir fötlun sína með því að borga meira af því þau þurfa sérhæfða þjónustu vegna fötlunar sinnar. Dýrt er að vera fatlaður í Reykjavík og á landinu öllu. Þessi hópur er auk þess sá verst setti í samfélaginu og er skemmst að vitna í nýútkomna skýrslu um fátækt og bága stöðu öryrkja sem birt var í vikunni.
80 prósent fatlaðs fólks á erfitt með að ná endum saman og jafnhátt hlutfall þeirra þarf að neita sér um heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar. 60 prósent geta ekki mætt óvæntum útgjöldum og meira en einn af hverjum tíu þiggur mataraðstoð frá hjálparsamtökum. Um hverja krónu munar hjá þessum hópi.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn að fá fá upplýsingar um aldur og aðstæður þeirra sem bíða eftir sértæku húsnæði.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um aldur og aðstæður þeirra sem bíða eftir sértæku húsnæði. Staðan í Reykjavík er svona: Þann 1. september s.l. var fjöldi umsækjenda sem bíða eftir fyrsta húsnæði 136 og fjöldi sem bíður eftir milliflutningi 32. Samtals sem sagt 168. Margir bíða fram á fullorðinsár eftir  búsetuúrræði.  Það er mikið lagt á fatlað fólk sem orðið er rígfullorðið og fær ekki búsetuúrræði. Margir hafa beðið árum saman. Biðlistar eru ekki eiginlegir biðlistar heldur „haugur“ af því, sem virðist, sem hirt er úr eftir hendinni eða hvað? Alla vegar hefur komið fram ítrekað að sagt sé við einstakling að hann sé næstur en síðan er hann það ekki og annar tekinn fram fyrir og sá sem átti að vera næstur bíður jafnvel í ár eða meira í viðbót. Þetta reynir á foreldrana en margir búa hjá foreldrum meðan þeir bíða og mest reynir þetta á umsækjendur sjálfa.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um leiguverð í samhengi við stærð íbúðar hjá Félagsbústöðum:  

Fulltrúa Flokks fólksins barst til eyrna að 50 fm. íbúð,  væri leigð á um 160 þúsund á mánuði hjá Félagsbústöðum. Óskað er skýringa í ljósi þess að miðað við þessi viðmið nákvæmlega var 60 fm. íbúð á 130.000 kr. árið 2017. Minnt er á að leigjendur Félagsbústaða er hópur sem býr ekki við góðan efnahag og margir berjast í bökkum. Það er áhyggjuefni að leigan hjá Félagsbústöðum skuli vera orðin svo há sem raun ber vitni. Leiguverðið er farið að nálgast leiguverð á almennum markaði. Félagsbústaðir hefur það hlutverk að tryggja þeim húsnæði sem ekki geta eignast eða leigt húsnæði á almennum markaði.

Vísað til Félagsbústaða.