Mannréttinda- og ofbeldisvarnaráð 8. júní 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram að nýju bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 5. júní 2023, um aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í jafnréttis- og mannréttindamálum 2023-2026. MSS23010102, sbr. 1. lið fundargerðar ráðsins frá 11. maí 2023:.

Aðgerðaráætlunin er góð eins langt og hún nær en vandinn er að það er ekki verið að fara eftir henni. Brotið er á börnum og viðkvæmum hópum daglega í Reykjavík. Nefna má dæmi um launaójöfnuð og að börnum sé mismunað. Starfsfók á að fá greidd jöfn laun og njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Einnig má nefna að laun ungmenna í Vinnuskólanum hafa ekki fylgt almennum launahækkunum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram nýju bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 23. mars 2023, sbr. samþykkt borgarráðs frá 21. mars 2023 á samkomulagi um forgangsröðun og uppsetningu öryggismyndavéla, sbr. 6 lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 13. apríl 2023. Einnig er lögð fram umsögn persónuverndarfulltrúa Reykjavíkurborgar, dags. 11. maí 2023, og  umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 22. maí 2023:

Flokkur fólksins er hlynntur notkun öryggismyndavéla til að tryggja öryggi borgaranna. Flokkur fólksins hefur viljað sjá slíkar myndavélar þar sem börn stunda nám og leik, t.d. á skilgreindum leiksvæðum barna. Vissulega koma myndavélar ekki í veg fyrir að glæpur sé framinn en myndavélar hafa ákveðinn fælingarmátt. Öryggismyndavélar auka almennt öryggistilfinningu fólks. Í umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu um samkomulag er lýtur að öryggismyndavélum í borginni segir: „Það er mat mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu að samkomulagið um öryggismyndavélar samræmist mannréttindastefnunni en einungis ef að vel útfærðar og nákvæmar verklagsreglur fylgja því“. Flokki fólksins líst vel á þær verklagsreglur sem mannréttinda- og lýðræðisskrifstofan hefur sett og treystir því að farið verði eftir þessu verklagi.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram minnisblað velferðarsviðs, dags. 12. maí 2023, ásamt minnisblaði skóla- og frístundasviðs, dags. 5. júní 2023, um viðbrögð og aðgerðir vegna aukins ofbeldis meðal ungmenna:

Um að ræða kynningu á aðgerðum skóla-og frístundasviðs og velferðarsviðs vegna aukins ofbeldis ungmenna. Allt frá því að mannréttinda og ofbeldisvarnarráð tók til starfa hefur fulltrúi Flokks fólksins kallað eftir aðgerðum til að vinna gegn ofbeldi meðal unglinga. Það er því ánægjulegt að sjá að það er byrjuð margs konar forvarnarvinna hjá ráðunum. Flokkur fólksins hefur lagt ríka áherslu á samráð allra aðila sem umgangast ungmenni. Það er greinilegt að  kominn  er vísir að samvinnu sveitarfélaga, félagsmiðstöðva, lögreglu og Miðstöðva borgarinnar. Á vorönn var hafið samstarf við Heimili og skóla og haldnir 5 fundir með foreldrum skólabarna. Flokki fólksins finnst afar brýnt að halda fleiri fundi með foreldrum því þeir skipa ríkan sess í lífi barna sinna og ábyrgð þeirra er mikil. Ánægjulegt er að sjá að það er til umræðu að hefja foreldrarölt að nýju. Flokkur fólksins fagnar stofnun samfélagslögreglu og vonar að það verði gott framfaraskref fyrir allt samfélagið. Samkvæmt minnisblaði frá skóla-og frístundasviði þá virðast félagsmiðstöðvarnar bera hitann og þungann af forvarnarstarfinu og baráttunni gegn ofbeldi ungmenna. Fulltrúi Flokks fólksins finnst miður að hvergi er minnst á kennara því við vitum að öll börn ganga í skóla og það eru ekki öll börn sem sækja miðstöðvarnar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stofnun stýrihóps sem kortleggur aukinn vopnaburð eggvopna á meðal ungmenna, sbr. 4 lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 12. janúar 2023: MSS22100160

Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Sjálfstæðisflokks gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu.

Snemma á haustönn lagði Flokkur fólksins til að stofnaður yrði stýrihópur sem kortlegði aukinn vopnaburð meðal ungmenna í Reykjavík. Hópurinn átti að koma með hugmyndir að forvörnum til að sporna við auknu ofbeldi unglinga sem greinilega hafði aukist. Ein birtingamyndin var að vopnaburður m.a. með eggvopnum hafði aukist. Fulltrúi Flokks fólksins hafði gríðarlegar áhyggjur af þessari þróun og fannst mikilvægt að grípa strax inn í þessa þróun og stofna þennan stýrihóp. Kosturinn við þessa tillögu er að hún er alvöru tillaga og byrjun á hóp sem á að koma með hugmyndir um hvað borg sem stjórnvald getur gert þegar ekki aðeins eru teikn á lofti um aukið ofbeldi ungmenna með eggvopnum heldur skýr merki þess. Það er talsverður tími liðinn frá þvi þessi tillaga var borinn fram og finnst fulltrúa Flokks fólksins það miður hvað málin hafa þokast hægt. Þó að þessi tillaga Flokks fólksins fái ekki brautargengi þá vill fulltrúi Flokks fólksins trúa því að tillagan hafi haft áhrif  því að nú hefur meirihlutinn komið með nýja en svipaða tillögu um samráðsvettvang um börn og ofbeldi. Flokkur fólksins fagnar því auðvitað að nú eigi loksins að gera eitthvað.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks Fólksins um samvinnu vegna aukins ofbeldis ungmenna þar sem eggvopn koma við sögu, sbr. 5 lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 12. janúar 2023. MSS22090060

Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Sjálfstæðisflokks gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu.

Flokkur fólksins leggur ríka áherslu á að svið/ráð vinni saman að málum sem  þau eiga sameiginlega snertifleti við. Það má með sanni segja að ofbeldis varnarmál tengist þremur ráðum þ.e. við skóla- og frístundasvið, velferðarsvið og mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð.  Hér er til afgreiðslu tillaga Flokks fólksins þar sem flokkurinn  leggur til að þessi ráð vinni saman að því að sporna gegn auknu ofbeldi meðal ungmenna. Tillagan var lögð fram í  september haustið 2022 og það er því langt síðan að hún var lögð fram. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað minnt á mikilvægi samvinnu í þessum málaflokki.  Loksins þegar brugðist er við ákalli tillögunnar þá kemst tillagan á dagskrá. Það er athyglisvert og lýsir kannski mikilvægi tillögu Flokks fólksins. Þó tillögunni sé hafnað vísað frá eða hafnað á einhvern hátt hér þá má segja að við henni hafi veri brugðist eins og fram kemur í þriðja dagskrá lið þessa fundar  en þar koma  fram aðgerðir velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs vegna ofbeldis ungmenna. Flokkur fólksins fagnar því framgangi þessarar tillögu þó að henni  verði líklega hafnað því tillagan hefur sannarlega sannað gildi sitt. Það er auk þess staðreynd að tekju- og eignaójöfnuður, misskipting í samfélaginu, er stór þáttur í aukningu glæpa og ofbeldis og á það jafnt við um ofbeldi meðal ungmenna sem heilla samfélaga. Börn lifa við sívaxandi streitu og öfgar í sínu lífi. Hlutfall barna sem býr við fátækt eða skort er hærra en það hlutfall meðal almennings alls. Þetta er sjónarmið sem þarf að fá umfjöllun þegar ofbeldi meðal barna og ungmenna er rætt.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn fulltrúi Flokks fólksins um innleiðingu Barnasáttmálans í Reykjavík:

Á þremur fundum hefur mannréttinda-og ofbeldisvarnarráð rætt um innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Fyrsti fundur um þetta málefni var 25. ágúst 2022. Á öðrum fundi 22. september fer fram kynning á verkefninu Barnvæn sveitarfélög og innleiðing Barnasáttmálans. Á þeim fundi var samþykkt að fela  mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu að kanna hvað starfsfólk innan skrifstofunnar gætu tekið  að sér að vera tengiliður við UNICEF og verið umsjónaraðili vegna verkefnisins. Ráðið óskar eftir tillögum eigi síðar en 27. október 2022. Fulltrúi Flokks óskar upplýsinga um hver sé þessi umsjónaraðili og hvað sé að frétta af innleiðingarferlinu? MSS23060047