Reykjavík og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna

Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var lögfestur með lögum nr. 19/2013 og hefur hann lagagildi hér á landi og bein réttaráhrif. Reykjavíkurborg ber því að fara að ákvæðum sáttmálans við ákvörðunartökur og í athöfnum sínum.

Á fundi borgarstjórnar 18. janúar 2022 lagði borgarfulltrúi Flokks fólksins fram tillögu um að skipaður verði stýrihópur sem greini og leggi mat á hvað vanti upp á til að hægt sé að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Reykjavík. Allar götur síðan hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins margsinnis hvatt meirihlutann til dáða, að hefja ferlið til að komast í hóp Barnvænna sveitarfélaga. Hugmyndafræði þeirra byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF. Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna og UNICEF á Íslandi styður sveitarfélögin í innleiðingu sinni á Barnasáttmálanum. Verkefnið er samstarfsverkefni UNICEF og félagsmálaráðuneytisins.

Daglega brotið á börnum í Reykjavík

Halda mætti að Barnasáttmálinn hafi meira vægi í þeim löndum sem hafa lögfest sáttmálann. En svo er hins vegar ekki endilega í raun. Það er brýnt að hefja ítarlega greiningarvinnu á högum og aðstæðum barna í Reykjavík eigi síðar en í gær. Nokkur brýn mál þarfnast úrbóta. Þau snúa m.a. að aðbúnaði barna og öryggi í leik- og grunnskólum, rétt þeirra til sálfræði- og talmeinaþjónustu og þátttöku þeirra í ákvörðunum er varða þau sjálf þar sem þess er kostur. Innleiðing Reykjavíkur á Barnasáttmálanum skiptir ekki síst miklu máli nú þegar fátækt og ójöfnuður hefur farið vaxandi. Hver könnunin af annarri sýnir auk þess vaxandi vanlíðan barna og tilkynningum til barnaverndaryfirvalda hefur fjölgað jafnt og þétt síðustu misseri.

 

Biðlistar

Þegar talað er um að brotið sé á börnum er helst að minnast á langa biðlista barna eftir nauðsynlegri þjónustu. Löng bið barna eftir mikilvægri og nauðsynlegri þjónustu eins og sálfræði- eða talmeinaþjónustu getur skaðað þau til skemmri og lengri tíma.

Hinn 1. nóvember 2021 voru 400 börn á biðlista eftir fagaðila skólanna, sálfræðingum, talmeinafræðingum, kennsluráðgjöfum, hegðunarsérfræðingum og félagsfræðingum. Heildarbiðlisti telur nú 1806 börn sem bíða ýmist eftir fyrstu eða frekari þjónustu. Börn eiga rétt á sálfræðiþjónustu á vegum skólaþjónustu en þar hefur gengið illa að grynnka á biðlistanum. Nú bíða 1076 börn eftir sálfræðiþjónustu. Eftir talmeinafræðingi bíða yfir 567 börn. Eftir hegðunarráðgjafa bíða 102 börn. Restin bíður eftir ýmist sérkennsluráðgjafa eða kennsluráðgjafa.

Ef horft er til talmeinaþjónustu þá er ábyrgð borgarinnar mikil og byggir m.a. á samkomulagi ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um skiptingu ábyrgðar vegna talmeinaþjónustu við börn frá árinu 2014. Reykjavíkurborg á samkvæmt samkomulaginu að veita börnum með vægari frávik þjónustu innan leik- og grunnskóla sveitarfélaga enda telst það hluti af þeirra menntun. Börn með stærri frávik er vísað í þjálfun hjá talmeinafræðingum sem eru hluti af rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands.

Tillaga Flokks fólksins um að skipaður verði stýrihópur sem greini og leggi mat á hvað þurfi til til að Reykjavík geti farið í innleiðingaferli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna náði ekki eyrum meirihlutans. Önnur meginregla Barnasáttmálans gerir kröfu um að öll börn njóti réttinda Barnasáttmálans, án mismununar af nokkru tagi eða tillits til félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna þeirra eða stöðu foreldra þeirra.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir

Oddviti Flokks fólksins

Birt í Morgunblaðinu 25. júní 2024