Skipulag- og samgönguráð 21. ágúst 2019

Flokkur fólksins gerir athugasemd við fyrirkomulag undirbúnings Skipulagsfundar:

Flokkur fólksins vill enn og aftur gera athugasemd varðandi dagskrá Skipulags- og umhverfisráðs sem snýr að upplýsingum um afgreiðslu mála sem birta ætti í dagskrá fyrir fundinn. Fram kemur að mál eigi að koma til afgreiðslu en engar umsagnir fylgja með sem gerir undirbúning erfiðan. Til að geta samið efnislega bókun byggða á rökum fyrir af hverju mál er fellt eða vísað frá verðum við að sjá rökin fyrir því fyrir fundinn. Eins og þetta er núna virkar þetta eins og teknar séu einhverjar skyndi geðþóttaákvarðanir um málin, þau ýmis felld eða vísað frá á kerfisbundin hátt. Í því felst engin fagmennska. Málin okkar hljóta að hafa verið til umræðu einhvers staðar hjá Ráðinu/sviðinu og úr þeirri umræðu hlýtur að hafa komið eitthvað mat/umsögn sem verður að fylgja með í dagskrá til að Flokkur fólksins geti samið efnislega bókun fyrir fundinn.  Í borgarráði er þessu oftast þannig  farið. Þá fylgja umsagnir sem gefa tóninn og í framhaldi er hægt að undirbúa bókun í málinu fyrir fundinn sjálfan.

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, varðandi samráð við hagsmunaaðila við Laugarveginn vegna göngugatna

Á fundi skipulags- og samgönguráðs 20. mars 2019 var lögð fram fyrirspurn áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins sem spyr hvers vegna var ekki haft samráð við hagsmunaaðila við Laugaveginn þegar ákveðið var að gera hann að göngugötu. Á blaðamannafundi Laugavegsamtakanna í 19.3.2019 kom fram að ekkert samráð var haft við verslunar og fyrirtækjaeigendur við götuna, hvað þá íbúa. Laugarvegurinn og nærliggjandi götur sem eru með verslunar og veitingarými eru aðal aðdráttarafl miðborgarinnar. Þangað hafa íbúar borgarinnar sótt sérnauðsynjar, skemmtun og mannlíf. Flokkur fólksins vill benda á að Reykjavík er staðsett á Íslandi sem liggur við 66° gráðu, eða á norðurhveli jarðar. Á þessu blessaða landi eru ýmis konar veðrabrigði, þá sérstaklega á vetrum. Því miður hvernig sem viðhorf fólks er, er íbúum borgarinnar nauðsynlegt að nýta sér bílinn til að komast auðveldlega um í erfiðum veðrum, sérstaklega. Verslunaraðilar við Laugaveginn og nærliggjandi götum fullyrða að verslun við Laugaveginn minnki um allt að 30% við lokun hinna ýmsu hluta gatnanna, hingað til í tilraunaskyni. Sigurborg Ósk Haraldsdóttir fullyrti í fréttatíma RÚV sama dag og fundurinn var haldinn að borgarstjórn hafi samþykkt samhljóða að gera Laugaveginn að göngugötu. Borgarfulltrúi Flokk fólksins kannast ekki við það.

Fulltrúi Pírata, fulltrúi Viðreisnar og fulltrúar Samfylkingarinnar bóka:

Til eru margar tegundir af rökvillum og er svokölluð „Leiðandi spurning“ ein af þeim þar sem svaranda er einungis gert kleift að játa eða neita spurningunni, þótt hvorugt svarið eigi í raun við. Spurt er af hverju var ekki haft samráð við verslunareigendur þegar ákveðið var að breyta Laugavegi í göngugötu. Svarið er að það var haft samráð við verslunareigendur. Við undirbúning varanlegra göngugatna í Reykjavík er víðtækt samráð mikilvægt leiðarstef, þannig hefur það verið hingað til og verður áfram. Sem dæmi má nefna opið samráð í Ráðhúsi Reykjavíkur dagana 28. janúar til 3. febrúar og opinn samráðsfund með veitingafólki, verslunarrekendum, ferðaþjónustu- og vöruflutningaaðilum. Þá á borgin í reglulegu og góðu samtali við Öryrkjabandalag Íslands og fleiri hagsmunafélög auk þess sem á vegum borgarinnar starfar öflug aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks. Núna er í gangi deiliskipulagsferli fyrir Laugaveg sem göngugötu og felur það í sér lögbundið samráðsferli við hagsmunaaðila.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins gagnbókar:

Í svari er enn og aftur rætt um mikið og gott samstarf og samráð sem allir vita að er hvorki satt né rétt. Ástandið í miðbænum er slæmt og fer versnandi. Varla líður sá dagur að ekki eru upphróp óánægjuradda, fólk sem finnst að hafi verið valtað yfir sig með yfirgangi og hroka. Flokkur fólksins vill vísa leiðara í Fréttablaðinu um daginn þar sem ástandinu er ítarlega lýst. Safnað hefur verið 247 mótmælaundirskriftum og segja þar allir að enginn hafi haft samband frá borginni og viðkomandi ekki spurður álits. Það telst varla til samráðs að vera boðið að mæta í 90 mínútur í Ráðhúsið aðeins til að fá að heyra hvað borgarmeirihlutinn hefur ákveðið að gera. Formaðurinn bauð fólki að koma með hugmyndir um hvar ætti að setja niður bekki og blómapotta. Það er því marg staðfest að formaðurinn fer ekki rétt með þegar hún segir að víðtækt samráð hafi verið haft með veitingafólki, verslunarrekendum, Öryrkjabandalagi Íslands og öðrum félagasamtökum um lokun gatna og aðgengismál að Miðborginni. Eins og vitað er hefur miðbærinn svo gott sem tæmst af íslendingum og er nú fátt að finna þar nema ferðamenn og þá sem búa á svæðinu auk gesta sem sækja skemmtanalífið. Fækkun verslana er. Samkvæmt talningu 18. ágúst voru 38 laus verslunarrými á Laugavegi. Skólavörðustíg og Hverfisgötu.

Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál/Aðgengi að bílastæðahúsum verði bætt

Einfalda aðkomu og aðgengi að bílastæðahúsum. Margir eldri borgarar og ungir ökumenn treysta sér ekki í þau, aðkoma virkar flókin og fólk óttast að lokast inni með bíl sinn t.d. þar sem enginn umsjón er á svæðinu.

Meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs leggur til að tillagan verði felld.

Tillaga felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókar:

Það liggur orðið í augum uppi að einkabíllinn er ekki velkominn lengur í miðbæinn og allt virðist gert til að hindra aðgengi fólks sem kemur á bílnum sínum í bæinn. Á meðal þess er að gera aðkomu og aðgengi að bílstæðahúsum eins erfitt og óaðlaðandi og hægt er. Fjölmargir forðast bílastæðahúsin og má þar nefna hreyfihamlaða og eldri borgarra. Eins og vitað er hefur miðbærinn svo gott sem tæmst af íslendingum og er nú fátt að finna þar nema ferðamenn og þá sem búa á svæðinu auk gesta sem sækja skemmtanalífið. Könnun Zenter rannsókna sýna að æ færri íslendingar leggja leið sína í miðbæinn enda margt það sem fólk sótti þar er horfið þaðan. Til að sporna við mætti sem dæmi heimila að leggja frítt í bílastæðahúsin í 120 mínútur á dag. Það yrði í það minnsta smávegis hvatning fyrir íslendinga að skjótast í Miðbæinn. Auka mætti sýnileika þessara bílastæðahúsa, t.d. með því að auglýsa þau betur með myndrænum hætti. Annað mál er síðan hvernig ástatt er um bílastæðahúsin að innan en mörg þeirra eru því miður afar óaðlaðandi og þau þar að leiðandi fælingarmátt.

Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál/Bifreiðastæðaklukkur komi í stað stöðumæla

Skoða að leggja af stöðumæla og setja þess í stað bílastæðaklukkur. Í því myndi vera mikill sparnaður og hagræðing. Klukkur og nemar er það sem reynst hefur best annars staðar.

Vísað til umsagnar Umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu Samgöngustjóra og borgarhönnunar.

Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál/Óþarfi að loka Lækjargötu

Það er óþarfi að loka Lækjargötunni með þeim hætti sem nú er gert vegna framkvæmda, vinnusvæði þar gæti verið mun minna. Aðstæður þar núna skapa slysahættu.

Meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs leggur til að tillöguninni verði felld.

Tillaga felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókar:

Hér er bílastæði fyrir byggingarkrana verktaka og því væri hægt að loka Vonarstrætinu og hafa byggingarkranann þar og nota götuna sem vinnusvæði og halda þannig Lækjargötunni opinni. Hafa mætti gönguleið öðru megin við götuna og síðan aftur yfir við Tjörnina hjá Miðbæjarskólanum.

Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál/Breyta hraðahindrunum og setja radar og myndavélar í stað sumra

Breyta hraðahindrunum þannig að á 50 km götu sé radar og myndavélar í staðin fyrir hraðahindrun nema fyrir framan skóla, þar sem börn fara yfir.

Meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs leggur til að tillöguninni verði felld.

Tillaga felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókar:

Tillaga um að breyta hraðahindrun í samræmi við eins og gengur og gerist hjá þjóðum sem við berum okkur saman við er fleygt af meirihlutanum. Svo ótal margt er varðar umferð er gamaldags í Reykjavík og úrelt og þetta er eitt af því. Margar þjóðir eru að hætta að nota hraðahindranir, nota heldur myndavélar, hraðaskilti og síðan almennilega löggæslu. Bílar í dag eru ekki smíðaðir fyrir annað en sléttar götur og því mikið um tjón og óþarfa slit með því að vera með hraðahindranir. Í Reykjavík eru hraðahindranir settar á 30 km. götur en minna í 50 km. götur. Það gerir enginn annarsstaðar og er bara til að auka enn meira á tjón, mengun og eyðslu. Til eru mælingar um að 50 km gata með hraðahindrunum eykur eyðslum 47%, meðan sambærileg gata með hringtorgum eykur eyðslu um 15% í samanburði við götur með fríu flæði. Þetta þýðir sömu aukningu CO2 útblásturs, algjörlega að óþörfu. Engin ástæða er að hafa hraðahindrun á 50 km götu nema fyrir framan skóla, þar sem börn fara yfir.

Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál/Auka umferðarflæði með nýrri tækni

Nota tækni til að auka flæði. Skipta út stýrikerfi á umferðarljósum í borginni. Umferðarstýringakerfi á að vera þannig að það snýst um að lágmarka tafatíma hver og eins. Flæðistýring umferðarljósa er eitt aðaltækið til að bæta umferðina.

Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókar:

Markmiðið á að vera að minnka tafir fyrir alla, ekki reyna að stýra og stjórna fólki og vali þess á samgöngum eins og borgarmeirihlutinn vill gera. Af hverju vill þessi meirihluti ekki nútímavæðast og skipta t.d. út stýrikerfi á umferðarljósum á höfuðborginni með umferðarstýringakerfi sem snýst um að lágmarka tafatíma hvers og eins? Það yrði mikill tímasparnaður, sparnaður myndi aukast mikið og auka flæði almenningssamgangna einnig. Ef það ekki dugar verður að huga að mislægum gatnamótum þar sem 130 þús. bílar geta farið í gegn. Ef umferð á einhvern tímann á að verða í lagi verður að hafa umferðarmódel, nota tölvukerfi til að mæla hverfin og flæðið, hindranir og tafir. Hólfa borgina niður í litla ferninga og mæla hvar fólk eyðir deginum. Hvar fólk vinnur, hvar er fólkið yfir daginn. Á þessu hefur borgarmeirihlutinn að því er virðist engan áhuga.

Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál/Meirihlutinn láti af forræðishyggju

Láta af því sem stjórnvald að vilja velja samgöngumáta fyrir fólk.

Meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs leggur til að tillöguninni verði felld. Tillaga felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókar:

Það er gríðarleg forræðishyggja í gangi hjá borgarmeirihlutanum. Þau vilja stjórna ótrúlegustu hlutum í lífi fólks þar á meðal samgöngumáta. Þetta er sérkennilegt því þeir flokkar sem skipa meirihlutann hafa orðið tíðrætt um lýðræðið, val og frelsi. Hér finnst Flokki fólksins skorta mikla virðingu gagnvart borgarbúum. Nú er allt kapp lagt á að taka einkabílinn af fólki og það fólk sem gefur sig ekki með það er ekki velkomið í bæinn. Vistvænir bílar hafa ekki einu sinni hlotið náð fyrir augum meirihlutans. Það er óskiljanlegt af hverju ekki má gera þeim sem velja að aka vistvænum bíl eða rafbíl hátt undir höfði. Sú var tíðin að þeir sem vildu skipta yfir í vistvæna bíla fengu ákveðna umbun. Sú umbun var tekin af. Það hefur komið skýrt fram að þessi meirihluti ætlar ekki að gera neinn greinarmun á hvort bíll er bensínbíll eða rafbíll. Einu sinni fengu vistvænir bílar ókeypis stæði í miðborginni. Þá var talað um að það skref væri eitt af hinum 10 grænu skrefum. Það sérkennilega er að í meirihlutanum sitja VG sem nú virðast ekki hafa áhuga á „grænu“ alla vega ekki hvað varðar umferðarmál og mengun í því sambandi.

Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál/Meirihlutinn innleiði nýja hugsun

Innleiða nýja hugsun sem gengur út á að minnka tafir fyrir alla. Að hugsa eða halda að það sé í lagi að tefja þá sem eru á bíl er röng hugsun og stríðir gegn jafnræðisreglunni

Meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs leggur til að tillöguninni verði felld.

Tillaga felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókar:

Ný hugsun er sú hugsun að minnka tafir fyrir alla, ekki bara suma. Flokki fólksins hefur fundist meirihlutinn nánast vilja tefja umferð kannski til að styðja þeirra hugmynd um að miðbærinn eigi að vera bíllaus. Þetta er mjög ósanngjarn og stríðir gegn jafnræðisreglunni. Bera þarf virðingu fyrir vali fólks á samgöngumáta og reyna allt til að auka flæði og minnka tafir allra hvernig svo sem þeir kjósa að ferðast.

Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál/Að opina aftur Hverfisgötu, uppleið

Að hægt sé að aka upp Hverfisgötuna og til að auðvelda flæðið þarf að breyta Hafnarstræti úr einstefnugötu þannig að hægt sé að beygja út af Mýrargötu inn á Hafnarstræti og komast þannig annað hvort upp Hverfisgötuna eða suður Lækjargötuna. Við það myndi umferðarhnúturinn við Geirsgötu örugglega minnka mikið. Á háannatíma eru margir farnir að þræða sig í gegnum Þingholtin til að komast án vandræða til vinnu. Ef ein leið lokast þá reynir fólk að finna aðra. Kannski þróast mál nú þannig að aðalumferðaræðin verður í gegnum Þingholtin?

Meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs leggur til að tillöguninni verði felld. Tillaga felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókar:

Flokkur fólksins vill beina athygli meirihlutans í Reykjavík að Hafnarstræti og Tryggvagata gætu opnast yfir ljósin og inn á Hverfisgötu.

Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál/Að hægt verði aftur að aka niður Laugaveg

Opna aftur fyrir að hægt sé að aka niður Laugaveginn og fjölga bílastæðum með því að fjarlægja eitthvað af þeim hindrunum sem settar hafa verið til að takmarka aðgengi þeirra sem koma í miðbæinn á bíl (fólk sem kemur oft langan veg, jafnvel úr öðrum bæjarfélögum eða utan af landi). Bílaumferð á Laugavegi hefur alltaf verið hæg og ekki valdið slysum.

Meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs leggur til að tillöguninni verði felld. Tillaga felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókar:

Flokkur fólksins leggur enn og aftur áherslu á að hægt væri að aka niður Laugaveginn og fjölga bílastæðum með því að fjarlægja eitthvað af þeim hindrunum sem settar hafa verið til að takmarka aðgengi þeirra sem í í miðbæinn á bíl. Bílaumferð hefur alltaf verið hæg og ekki valdið slysum.

Tillögur Flokks fólksins, umferðarmál/Gera almenningssamgöngur að alvöru kosti

Byrja á að auðvelda almenningssamgöngur og gera þær fýsilegan kost en ekki einblína á að hindra og tefja fyrir umferð. Eins og staðan er núna eru almenningsamgöngur ekki alvöru kostur. Tíðni þyrfti að vera meiri og það er dýrt að taka strætó. Þess utan er langt fyrir suma að næstu stoppustöð. Að komast frá A til B með strætó getur tekið að allt að 2 tíma ef skipta þarf um vagn. Í veðrum sem hér eru oft á vetrum er fráleitt að leggja til við fólk, fjölskyldur með börn sem dæmi að „taka bara strætó“.  Áður en rætt er um að fækka bílaflota borgarinnar þarf að byrja á réttum enda og bjóða fólki upp á almenningssamgöngur sem virka.

Meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs leggur til að tillöguninni verði felld. Tillaga felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Athugasemd við dagskrá skipulags- og samgönguráðs, frá áheyrnarfulltrúa Flokki fólksins

Flokkur fólksins vill enn og aftur gera athugasemd varðandi dagskrá Skipulags- og umhverfisráðs sem snýr að upplýsingum um afgreiðslu mála sem birta ætti í dagskrá fyrir fundinn. Fram kemur að mál eigi að koma til afgreiðslu en engar umsagnir fylgja með sem gerir undirbúning erfiðan. Til að geta samið efnislega bókun byggða á rökum fyrir af hverju mál er fellt eða vísað frá verðum við að sjá rökin fyrir því fyrir fundinn. Eins og þetta er núna virkar þetta eins og teknar séu einhverjar skyndi geðþóttaákvarðanir um málin, þau ýmis felld eða vísað frá á kerfisbundin hátt. Í því felst engin fagmennska. Málin okkar hljóta að hafa verið til umræðu einhvers staðar hjá Ráðinu/sviðinu og úr þeirri umræðu hlýtur að hafa komið eitthvað mat/umsögn sem verður að fylgja með í dagskrá til að Flokkur fólksins geti samið efnislega bókun fyrir fundinn. Í borgarráði er þessu oftast þannig farið. Þá fylgja umsagnir sem gefa tóninn og í framhaldi er hægt að undirbúa bókun í málinu fyrir fundinn sjálfan.

Fyrirspurn frá Flokki fólksins, hvenær laga á aðgengi að Breiðholtsbrúnni vinstra megin við Brautina þegar komið er frá Mjódd  

Að komast upp á brúna yfir Breiðholtsbrautina ef komið er frá Mjódd, vinstra megin við Brautina er aðeins fyrir þá fótafimustu. Það er hrikalegt að sjá þennan frágang og ekki nokkur leið fyrir eldri borgara, hreyfiskerta eða aðra sem eiga erfitt með gang

Þennan spöl þarf nánast að fara upp á fjórum fótum og á vetrum yrði þetta bara eins og rennibraut. Myndir fylgja fyrirspurninni, sem ekki voru teknar með

Spurt er hvort þetta sé lokafrágangur ? Ef ekki hvenær á að laga þetta og ganga frá þessu með sómasamlegum hætti þannig að aðgengi þarna megin við brúna verði fyrir alla?

Frestað.

Fyrirspurn frá Flokki fólksins, er varðar orð formanns Skipulags- og samgönguráðs í bókun hennar við lið 16 á dagskrá fundar 21. 8.           

Fyrirspurn frá Flokki fólksins er varðar orð formanns Skipulags- og samgönguráðs í bókun hennar við lið 16 á dagskrá fundar 21. 8. Þar segir hún í svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, varðandi samráð við hagsmunaaðila við Laugarveginn vegna göngugatna.

„Núna er í gangi deiliskipulagsferli fyrir Laugaveg sem göngugötu og felur það í sér lögbundið samráðsferli við hagsmunaaðila.“

Flokkur fólksins óskar eftir ítarlegum upplýsingum um hvernig þetta lögbundna samráðsferli við hagsmunaaðila eigi að fara fram. Þegar talar er um að fá ítarlegar upplýsingar er átt við:
Hvernig skal það samráð fara fram, hvar og hvenær?
Felst í þessu „samráði“ að hagsmunaaðilar muni fá tækifæri til að taka fullan þátt í ákvörðunum byggðan á þeirra forsendum?

Nú hafa hagsmunaaðilar mótmælt harðlega lokun þar sem verslun þeirra hefur í kjölfarið hrunið. Spurt er, verður tekið tillit til þess?

Fram til þessa hefur ekkert samráð verið en hagsmunaaðilum boðið á einn fund og fengið að merkja inn á svæðið hvar hafa á bekki og blómapotta. Hvað varðar Sjálfsbjörg og ÖBÍ hefur borgin vissulega sent umboðslausa embættismenn til viðræðu við samtökin. Mörgum spurninga þeirra hefur ekki verið svarað. Hagsmunaaðilar hafa aldrei verið spurðir um afstöðu varðandi lokun gatna hvað þá að tekið hafi verið tillit til þeirra vilja og skoðana. Reiði hefur verið mikil í þessum hópi sem finnst Skipulagsráð og meirihluti borgarstjórnar hafa valtað yfir sig með frekju, valdníðslu og yfirgangi.

Frestað.