Skipulags- og samgönguráð 27. maí 2020

Tillaga Flokks fólksins um tilraunaverkefni að rekstraraðilar stýri sjálfir hvort götu sé lokað fyrir umferð eða ekki.

Flokkur fólksins leggur til  sem tilraunaverkefni að rekstraraðilar við þær götur sem nú hafa verið gerðar að göngugötum varanlega eða tímabundið fá að ráða sjálfir hvort götu sé lokað fyrir umferð eða ekki.  Skiptar skoðanir eru á þessum lokunum og fjöldinn allur er alfarið á móti þeim. Það hafa kannanir sýnt svo ekki verði um villst. Til að ná lendingu til bráðabirgðar í það minnsta, væri hægt að prófa leið eins og þessa. Á sólardegi geta rekstraraðilar ákveðið að hafa opið að hluta til eða allan daginn og á öðrum dögum geta bílar ekið göturnar.

Vísað frá með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu málsins:

Tillaga Flokks fólksins að rekstraraðilar við þær götur sem nú hafa verið gerðar að göngugötum varanlega eða tímabundið, fái að ráða sjálfir hvort götu sé lokað fyrir umferð eða ekki hefur verið vísað frá af skipulagsyfirvöldum. Sjálfstæðismenn sátu hjá. Þetta eru kaldar kveðjur frá meirihlutanum til rekstraraðila Er þeim ekki treyst til að fá í skamman tíma að stjórna því sjálfir hvort hentar að hafa götur opnar eða lokaðar? Málið er alvarlegt, hér er valtað yfir fólk, fólk sem á hagsmuna að gæta og fram hefur margs sinnis komið fram í könnunum að hér er gengið gegn vilja meirihluta borgarbúa og rekstraraðila. Verslun hefur hrunið í kjölfar lokana nema veitingastaðir og minjagripaverslanir þ.e. þegar ferðamenn voru til staðar.

 

Gagnbókun Flokks fólksins við sumargötur 2020:

Það eru ekki góðir stjórnsýsluhættir að senda út bréf og ætlast til að svar berist fáeinum dögum síðar. Vel má skilja ef rekstraraðilum finnist þetta vanvirðing.  Gera hefði átt stuttar tilraunir með ýmis konar útfærslu. Enn á eftir að gera  mælingar á hvort mannlíf og verslun hafi aukist með fleiri göngugötum eins og haldið er fram af meirihlutanum svo hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir. Skoðanakannanir er hægt að hártoga og meirihlutinn túlkar  niðurstöður, sama hvernig þær eru í sína þágu. Vel kann að vera að veitingamenn telji að  göngugötur henti. Komi sól, þá er hægt að sitja úti og leiða má líkum að því að fólk sem ætlar einungis á bari komi jafnvel ekki á bíl eða sé tilbúið að leggja bíl sínum fjær bar/veitingastaðnum sem þeir ætla að dvelja kannski næstu 2 tíma.  Þeir sem fara í verslanir dvelja þar ekki endilega lengi og vilja þ.a.l. ekki þurfa að leggja bíl sínum langt frá verslun. Minjagripaverslanir hafa það vissulega ágætt þegar ferðamenn eru til staðar. Best fer á því að setja það í hendur  rekstraraðila að stýra því hvenær gata er opin eða lokuð . Spurt er aftur  um heimild nýrra umferðalaga en þar segir að fatlað fólk geti ekið  göngugötur og lagt þar. Ætlar meirihlutinn að hunsa þetta og að brjóta þar með á fötluðu fólki?

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við framlagningu bréfs Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 12. maí 2020, tillaga um sumargötur þ.e. tímabundnar göngugötur í miðborginni frá 5. júní til 1. október.:

Nú hefur meirihlutinn samþykkt að stækka göngugötusvæðið. Bréf var sent til rekstraraðila þann 18.5. og þeir beðnir að svara fyrir 22.5 hvort þeir væru jákvæðir eða neikvæðir að loka Laugavegi frá Frakkastíg og niður að Lækjargötu. Þetta kallar meirihlutinn að hafa samráð.  Þetta eru óásættanleg vinnubrögð og ekki í samræmi við góða stjórnsýslu. Þetta heita sýndarvinnubrögð.  Hér er tekin ákvörðun sem ekki er byggð á upplýsingum. Mikilvægt er að gera  einhverja lágmarks rannsóknarvinnu t.d. mæla umferð, kanna hvaða áhrif lokun Laugavegarins hefur haft á  umferð um íbúagöturnar í kring. Gera þarf alvöru mælingar á hvort mannlíf og verslun hafi aukist með fleiri göngugötum eins og haldið er fram. Rekstraraðilar hafa sent margar athugasemdir. Þeir eru uggandi yfir að vegfarendum muni fækka enn meira við þessa breytingu. Bent hefur verið á að bæta megi ástandið með því að hafa t.d. frítt í bílastæðahús um helgar eins og Flokkur fólksins hefur lagt til. Ekki verður ferðamönnum fyrir að fara á árinu að heitið geti svo nægt er nú plássið. Göngugötur laða ekki að fólk nema úti sé sól og blíða. Niðurstöður rannsókna eru afgerandi. Meirihluti svarenda eru ekki hlynntur göngugötum og munu forðast miðborginni verði um frekari göngugötur að ræða. Miðbær Reykjavíkur er orðinn að hálfgerðum draugabæ.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um að hvaða marki kostnaðaráætlanir hafi staðist á þessu kjörtímabili og hvaða þættir valda mestum frávikum?

Nýlega hafa götur verið endurnýjaðar og þörf er víða á slíkum framkvæmdum. Áætlanir hafa oft alls ekki staðist. Tímamörk hafa heldur ekki staðist og óvæntir og kostnaðarliðir bæst við.  Svo virðist að það tengist oft gömlu lagnakerfi. Flokkur fólksins vill spyrja  að hvaða marki kostnaðaráætlanir hafi staðist á þessu kjörtímabili og hvaða þættir valda mestum frávikum?
Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram fyrirspurn um hvort mælingar hafi verið gerð rannsókn á því hvaða áhrif lokun Laugavegarins hefur á  umferð um íbúagöturnar í kring, hvort umferð um þessar götur hafi verið mæld og hvort liggi fyrir töluleg gögn sem styðja þá fullyrðingu um að mannlíf og verslun aukist með fleiri göngugötum?

Það hefur verið mikil óánægja með hvernig meirihlutinn hefur gengið fram í að loka ákveðnum götum fyrir umferð í miðbænum. Nú er liðið á annað ár frá því að það kom í ljós að lokun umferðar hafði verulega slæm áhrif á verslun í miðbænum. Heimsóknum Íslendinga sem búa annars staðar í miðbænum hefur snarfækkað. Framkvæmdir og breytingar á aksturstefnu Laugavegar settu strik í reikninginn. Á meðan ferðamannastraumur var mikill þrifust barir, veitingastaðir og minjagripi vel en verslanir sem höfðuðu meira til landans fundu áþreifanlega fyrir vaxandi áhugaleysi á komum í miðbæinn. Einar þrjár kannanir hafa verið gerðar og allar sýna þær sama mynstur. Spurningar voru m.a. hvort viðkomandi var hlynntur göngugötum og hvort hann væri minna eða meira líklegur að heimsækja miðbæinn eftir að loka væri fyrir umferð.  Niðurstöður eru skýrara. Fólki líkar ekki þessar breytingar. Í framhaldinu vill fulltrúi Flokks fólksins leggja fram fyrirspurnir: 1. Hefur verið gerð rannsókn á því hvaða áhrif lokun Laugavegarins hefur á  umferð um íbúagöturnar í kring, Grettisgötu, Njálsgötu og Bergþórugötu? 2. Hefur umferð um þessar götur verið mæld? 3. Liggja fyrir einhver töluleg gögn sem styðja þá fullyrðingu um að mannlíf og verslun aukist með fleiri göngugötum?

Frestað.

 

Tillaga Flokks fólksins að meirihlutinn endurskoði þéttingarstefnu sína með það í huga að hlífa grænum svæðum,  skólalóðum og útivistarsvæðum.

Fulltrúi Flokks fólks leggur til að meirihlutinn endurskoði þéttingarstefnu sína með það í huga að hlífa grænum svæðum,  skólalóðum og útivistarsvæðum. Hér er aftur staðfest, og nú í ályktun íbúasamtaka í vesturhluta Reykjavíkur,   hvernig samráð er hunsað. Fólki er boðið upp á að koma með tillögur og athugasemdir sem síðan er varla litið á. Í ályktuninni  er lýst áhyggjum af hvernig þéttingastefna meirihlutans er farin að ganga á græn svæði borgarinnar. Segir í ályktuninni að  „íbúar hafi ítrekað bent á þessa þróun í gegnum athugasemdir sínar við deiliskipulagsvinnu borgarinnar. Málsmeðferð deiliskipulagsbreytinga ber þess merkis að vera eingöngu formlegs eðlis þar sem íbúum gefst í reynd ekki tækifæri til að hafa raunveruleg áhrif. Réttur til athugasemda er lítils virði ef einungis er tekið mark á athugasemdum frá opinberum aðilum en látið hjá líða að taka mark á athugasemdum íbúa. Samráðsleysið við borgarbúa sem ítrekað benda á hvernig auka megi gæði almenningsrýma er áberandi.“ Svo virðist sem engin takmörk séu þegar þétta á byggð. Ofuráhersla á þéttingu byggðar má aldrei vera gerð á kostnað grænna svæða í borginni.

Frestað.