Skipulags- og samgönguráð 3. júlí 2019

 1. Tillögur frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál

Byrja á að auðvelda almenningssamgöngur og gera þær fýsilegan kost en ekki einblína á að hindra og tefja fyrir umferð.
Frestað.

 1. Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál

Opna aftur fyrir að hægt sé að aka niður Laugaveginn og fjölga bílastæðum með því að fjarlægja eitthvað af þeim hindrunum sem settar hafa verið til að takmarka aðgengi þeirra sem koma í miðbæinn á bíl (fólk sem kemur oft langan veg, jafnvel úr öðrum bæjarfélögum eða utan af landi). Bílaumferð á Laugavegi hefur alltaf verið hæg og ekki valdið slysum.
Frestað.

 1. Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál

Að hægt sé að aka upp Hverfisgötuna og til að auðvelda flæðið þarf að breyta Hafnarstræti úr einstefnugötu þannig að hægt sé að beygja út af Mýrargötu inn á Hafnarstræti og komast þannig annað hvort upp Hverfisgötuna eða suður Lækjargötuna. Við það myndi umferðarhnúturinn við Geirsgötu örugglega minnka mikið. Á háannatíma eru margir farnir að þræða sig í gegnum Þingholtin til að komast án vandræða til vinnu. Ef ein leið lokast þá reynir fólk að finna aðra. Kannski þróast mál nú þannig að aðalumferðaræðin verður í gegnum Þingholtin?
Frestað.

 1. Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál

Innleiða nýja hugsun sem gengur út á að minnka tafir fyrir alla. Að hugsa eða halda að það sé í lagi að tefja þá sem eru á bíl er röng hugsun og stríðir gegn jafnræðisreglunni.
Frestað.

 1. Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál
  Láta af því sem stjórnvald að vilja velja samgöngumáta fyrir fólk.
  Frestað.
 2. Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál

Nota tækni til að auka flæði. Skipta út stýrikerfi á umferðarljósum í borginni. Umferðarstýringakerfi á að vera þannig að það snýst um að lágmarka tafatíma hver og eins. Flæðistýring umferðarljósa er eitt aðaltækið til að bæta umferðina.
Frestað.

 1. Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál

Breyta hraðahindrunum þannig að á 50 km götu sé radar og myndavélar í staðin fyrir hraðahindrun nema fyrir framan skóla, þar sem börn fara yfir.
Frestað.

 1. Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál

Það er óþarfi að loka Lækjargötunni með þeim hætti sem nú er gert vegna framkvæmda, vinnusvæði þar gæti verið mun minna. Aðstæður þar núna skapa slysahættu.
Frestað.

 1. Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál

Skoða að leggja af stöðumæla og setja þess í stað bílastæðaklukkur. Í því myndi vera mikill sparnaður og hagræðing. Klukkur og nemar er það sem reynst hefur best annars staðar.
Frestað.

 1. Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál

Einfalda aðkomu og aðgengi að bílastæðahúsum. Margir eldri borgarar og ungir ökumenn treysta sér ekki í þau, aðkoma virkar flókin og fólk óttast að lokast inni með bíl sinn t.d. þar sem enginn umsjón er á svæðinu.
Frestað.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu sviðsstjóra.

Bókun Flokks fólksins við svari Fyrirspurnar áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, varðandi deiliskipulag fyrir nýjan Skerjafjörð

Svar má sjá hér í lið 32

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókar eftirfarandi. Það er almennt afar hvimleitt að áfallt skuli vera ráðist á fjörurnar til að búa til land. Af hverju mega fjörur ekki fá að vera í friði? Á það skal minnst að það er óumdeilanlegt að sjávaryfirborð á eftir að hækka og varað hefur verið við að byggja á lágum svæðum. Ætlar borgin að hunsa álit sérfræðinga hér og fara gegn viðvörunum?. Af hverju hafa vísindamenn ekki verið spurðir en vitað er að margir eru uggandi. Flokkur fólksins álítur það mikið og alvarlegt ábyrgðarleysi hjá meirihlutanum í Reykjavík að hefja framkvæmdir á Skerjafjarðarsvæðinu án vitundar um hækkunnar sjávarmáls á svæðinu. Þeir sem taka í nútímanum ákvarðanir varðandi uppbyggingu á Skerjafjarðarsvæðinu munu ekki verða til staðar þegar og ef til hamfara komi á umræddu svæði. Þá liggur ekki ljóst fyrir atriði er varða mengun, hávaðamengun, byggingamagn og umferðaþungi. Flokkur fólksins hefur áhyggjur af umferðarþunga ekki síst meðan á framkvæmdum stendur. Hafa skal í huga að borgarlína kemur ekki á næstunni enda mörgum spurningum enn ósvarað með hana og ekki er heldur fyrirsjáanlegt að flugvöllurinn fari næstu árin. Þá liggur ekki ljóst fyrir atriði er varða mengun, hávaðamengun, byggingamagn og umferðaþungi.

Bókun við fyrirspurnum frá áheyrnarfulltrúa Flokki fólksins, samráð við hagsmunaaðila Laugaveg og Skólavörðustígs:

Svar meirihlutans, liður 31

Flokkur fólksins þakkar hið staðlaða embættismannasvar.Í fyrirspurnunum var áhersla á að haft sé samráð við hagsmunaaðila þessa svæðis enda þarna um lífsstarf margra að ræða. Nú hefur það verið staðfest að ekkert samráð hefur verið haft við einn einasta rekstraraðila af þessum 247 sem hafa andmælt lokunum með undirskrift sinni. Það er óásættanlegt að borgarmeirihlutinn telji sig geta sópað öllum þessum fyrirtækjum í burtu með varanlegum breytingum á aðkomu og aðgengi að þessum fyrirtækjum án þess að ræða við kóng né prest. Minna má þennan meirihluta á að við búum í lýðræðisríki. Að bera fyrir sig í þessu máli samþykktir, lög og reglugerðir eru bara útúrsnúningar enda er það borgin sem semur samþykktirnar og setur reglur. Hvergi í lögum segir að hægt sé með aðgerð sem þessari án samráðs að valda slíku tjóni sem hér hefur verið gert. Á bak við eitt fyrirtæki er heil fjölskylda og af þessu svari að dæma virðist vera afar lítill skilningur á því hjá meirihlutanum. Nú liggur fyrir í glænýrri könnun að þessi aðgerð með varanlega lokun stríðir gegn meirihluta rekstraraðila og borgarbúa nema þeirra sem búa á svæðinu og yngra fólki sem sækja skemmtanalífið. Væri einhver skynsemi til, ætti meirihlutinn umsvifalaust að endurskoða stefnu sína er varðar þetta mál.

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Fiskislóð, nýjar gönguþveranir merktar með gangbrautarmerkjum:

Fagnað er lagfæringum á vegakerfi borgarinnar með öryggi íbúanna að leiðarljósi. Það er ánægjulegt að óskin komi frá Faxaflóahöfnum sem leggja til að tvær gönguþveranir þvert á Fiskislóð sitt hvoru megin við gatnamótin við Flokkur fólksins vill aftur vekja athygli á að fulltrúi hans lagði fram mál er varða umferðarmál á grandasvæðinu 7. nóvember 2018 og segir þar að komið hefur fram í síðustu könnun sem framkvæmd var fyrir Faxaflóahafnir og unnin af Árna Steini Viggóssyni að megn og vaxandi óánægja er með umferðaröryggi á svæðinu hjá þeim sem stunda þar atvinnurekstur, gangandi og hjólandi og akandi vegfarendur og hinum mikla fjölda ferðamanna sem fara um svæðið. Það kemur fram í síðustu könnun að einungis 15 manns eða 11.8% viðmælanda af þeim 127 sem höfðu skoðun á málinu þótti aðstæður vera í lagi. Sýna þessar niðurstöður hversu stór hluti viðmælenda er óánægður með umferðarmálin á umræddu svæði. Mikil slysahætta er á svæðinu vegna umferðar bifreiða sem bruna í gegnum svæðið þar á meðal olíubílar. Höfnin var einu sinni höfn , nú eru aðstæður allt aðrar. Viðmælendur telja hættulegt að keyra um svæðið. Það er verið að bíða eftir stóra slysinu að mati þeirra sem eiga erindi á svæðið.

Bókun Flokks fólksins við tillögu um stæði fyrir hreyfihamlaða á Laugavegi 30:

Það vekur athygli að einungis á að bjóða upp á tvö bílastæði fyrir hreyfihamlaða að Laugavegi 30. Fyrir var eitt merkt stæði fyrir hreyfihamlaða en nú er lagt til að tvö stæði við Laugaveg 30 verði merkt sérstaklega fyrir hreyfihamlaða. Bæta á einu stæði við. Stæðin séu merkt með D01.21 og viðeigandi yfirborðsmerkingu. Um er að ræða tvö stæði. þetta eru allt of fá stæði ætluðum hreyfihömluðum að Laugavegi 30 að mati Flokki fólksins.

Bókun Flokks fólksins við tillögur stýrihóps um stýringu bílastæða, Skýrsla stýrihóps um stefnumörkun í bíla- og hjólastæðamálum:

Flokkur fólksins vill bóka um þessar niðurstöður stýrihópsins sem mikið ganga út á að stýra því hvaða samgöngumáta fólk velur. Reynt er með þessum aðgerðum að gera bílafólki eins erfitt fyrir og hægt er, að koma á bílnum sínum inn á viss svæði. Á meðan ekki er boðið uppá strætó sem fýsilegan kost er svona aðgerðir afar ósanngjarnar. Verklagsreglur varða ný gjaldsvæði og verðbreytingar gjaldsvæða. Flokkur fólksins vill ítreka að borgin er fyrir alla og hugsunin verður að vera sú að minnka tafir fyrir alla og finna öllum farartækjum stað í borginni með sanngjörnum hætti. Eins og þetta lítur út er sífellt verið að finna leiðir til að koma höggi á bílaeigendur og gera þeim æ erfiðara fyrir að koma á bíl sínu á ákveðið svæði. Nú á að stækka gjaldskyldusvæði, lengja tíma og bæta við gjaldskyldu á sunnudegi. Rökin fyrir þessu eru all sérstök þ.e. að með hækkun bílastæðagjalds þá skapist fleiri auð stæði. Hér á einn ökumaður að líða á kostnað hins? Bílastæðahúsin eru mjög erfið mörgum. Það þarf að huga að því að einfalda aðkomu og aðgengi að bílastæðahúsum. Margir eldri borgarar og ungir ökumenn treysta sér ekki í þau, aðkoma virkar flókin og fólk óttast að lokast inni með bíl sinn t.d. þar sem enginn umsjón er á svæðinu.

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Laugavegur sem göngugata, skipulagslýsing, skipulagslýsing:

Það er alveg ljóst að verulegur meirihluti rekstraraðila er á móti lokunum samkv. könnun sem Zenter og Miðborgin okkar lét gera og Samtök verslunar og þjónustu fjármagnaði. Sú niðurstaða er áfall fyrir Miðborgina Okkar og meirihlutann í borgarstjórn. Það verður fróðlegt að sjá viðbrögð þeirra. Ætlar Miðborgin Okkar að standa með rekstraraðilum og berjast gegn lokunum eða vera fjarðstýrð strengjabrúða sem er stjórnað frá Ráðhúsinu sem fjármagnar félagið að mestu leiti gegnum styrki? Þá liggja frammi undirskriftir 247 rekstraraðila á Laugavegi, Skólavörðustíg, Bankastræti og allra næsta nágrenni þar sem yfir 90% rekstraraðila mótmæla lokunum. Flokkur fólksins veit til þess að ekkert samráð hefur verið haft við einn einasta af þessum 247 andmælendum. Þannig að allar lokanir eru gerðar í mikilli andstöðu við rekstraraðila og á þá ekki hlustað enda eru engar rekstralegar forsendur fyrir lokunum. Lokanir hafa skaðað flesta samkvæmt því sem þessir aðilar segja. Samkvæmt könnun Zenter mun viðskiptavinum miðborgarinnar fækka um að minnsta kost 25% ef lokað verður allt árið. Verslunin má ekki við því að missa þá.

Bókun Flokks fólksins við breytingu á deiliskipulagi Sjómannaskólareitsins:

Flokkur fólksins vill vekja athygli á óskum nemenda í Háteigsskóla og draga fram þeirra framtíðarsýn á svæðinu. Ungviðið í hverfinu vill ekki ný hús hjá Vatnshólnum. Vatnshóllinn er uppáhalds hóllinn og þeim finnst svo gott útsýni og gaman að leika sér á honum. Þau fara oft í leiki á hólnum með vinum sínum. Hóllinn er líka svo fallegur og skemmtilegur. Við ímyndum okkur stundum að hurðarnar á hólnum séu verndar risar. Vatnshóllinn er ævintýraheimur fyrir okkur. Hann er líka besta sleðabrekkan og við værum frekar til í að fá almennilegar tröppur til að komast upp á hólinn og rennibraut niður og útsýnisskífu til að kenna okkur hvað öll fjöllin heita sem við sjáum þegar við stöndum upp á hólnum. Á að hunsa óskir og skoðanir unga fólksins hér.

Bókun Flokks fólksins við Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, Sjómannaskólareitur:

Eins og segir á forsíðu Skipulagsstofnunar er mikilvægt að sjónarmið almennings komi fram þegar teknar eru ákvarðanir sem varða hagsmuni almennings og geta haft í för með sér miklar breytingar á umhverfinu. Í þessu máli hafa komið óvenju mikið af alvarlegum athugasemdum frá fólki á öllum aldri og þar með börnum sem er annt um umhverfi sitt. Þetta svæði er afar mikilvægt í borgarlandinu enda einstakt. Flokkur fólksins vill hvetja meirihlutann til að staldra við og ana ekki að neinu sem ekki verður aftur tekið. Hér er auðvelt að gera alvarleg mistök svo stórslys verði. Meirihlutinn í borgarstjórn verður að fara rækilega ofan í saumana á umsögnum og athugasemdum og kynna sér vandlega þau málefni er varða sjálfsprottnu grænu svæðin á Sjómannaskólareitnum í Reykjavík. Sérkenni þeirra og þýðingu fyrir Háteigshverfið og Reykjavíkurborg. Hefur meirihlutinn heimsótt Vatnshólinn sjálfan sem dæmi? sem er kennileiti hverfisins og griðarstaður íbúa. Umhverfi hans er uppspretta ævintýra, útivistar og samveru hverfisbúa. Útivist og leikur í náttúrunni er það sem hefur mótað Íslendinga frá örófi alda, á tímum tölvuleikja og nútímatækni er mikilvægt að börnin hafi eitthvað í sínu nær umhverfi sem hvetur þau til útiveru og ævintýrasköpunnar á þann hátt sem Sjómannakólareiturinn í heild sinni gerir.