Bókun Flokks fólksins við framlagningu skýrslu um Lesskimun 2019:
Lesskimun sýnir að árið 2019 er marktækt síðra en síðasta ár. Tæp 61% nemenda les sér til gagns en rúm 39% geta það ekki. Árið 2018 gátu 65% stúlkna lesið sér til gagns og 64% drengja og munar um 4 prósentustigum milli ára. Hlutfallið 2019 er það næstlægsta í sögu skimunar. Fram kemur að allir skólar noti hljóðaaðferðina. Aðrar aðferðir eru notaðar með í bland og allar sagðar gagnreyndar? Það er fullyrt af sumum fræðingum að Byrjendalæsi sem slík eigi sér ekki stoð í ritrýndum rannsóknum. Stutt er í næstu PISA könnun. Bregðast verður við versnandi árangri barna í lestri. Á vakt þessa og síðasta meirihluta hefur ekki tekist að greina nákvæmlega þessa þróun. Um 2-4% barna eiga í vandamálum með lestur út frá lífeðlisfræðilegum ástæðum. Um 20-30% af börnum fá ekki hjálp heima og verða því að fá hjálp í skólanum. Styðja þarf skólanna og styrkja til að sinna þessu hlutverki í meiri mæli. Ekki er hægt að sætta sig við neitt minna en 80-90% barna séu læs eftir 2 ár í skóla. Í sérkennslumálin vantar heildstæða stefnu og betri yfirsýn. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til að Innri endurskoðun geri úttekt á sérkennslumálum.
Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um breytta aðferðafræði við ráðningu kennara:
Tillaga Flokks fólksins um að skoða breytta og þá fjölbreyttari aðferðarfræði við ráðningu kennara hefur verið vísað frá en hún er einmitt lögð fram til að hvetja skóla- og frístundasvið í samvinnu við skólanna til að hugsa málið upp á nýtt. Róðurinn er þyngstur í leikskólum og vandinn er til staðar á hverju hausti. Hvað er það sem er mögulega er að fæla frá annað en lág laun og álag? Hugmyndin um afleysingastofu er mjög góð en ekki liggur fyrir hver árangur hennar er. Þrír hópar skoðuðu starfsumhverfi kennara og settu fram tillögur til úrbóta. Sumar eru komnar í framkvæmd aðrar ekki. Ekki liggur fyrir mælanlegur árangur af þeim aðgerðum enn. Nú er atvinnuleysi mikið og vaxandi svo gera má ráð fyrir að mannekluvandi ætti að vera úr sögunni. Ef það verður ekki raunin næsta haust þá má ætla að einhverjar aðrar skýringar séu þarna að baki, óþekktar eða í það minsta sem ekki liggja ljósar fyrir.
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins.
Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að skóla- og frístundarráð setjist niður með skólastjórnendum og matráðum skóla í því skyni að finna leiðir til að draga úr matarsóun:
Tillagan var um að skóla- og frístundaráð setjist niður með skólastjórnendum og matráðum skóla í því skyni að finna fleiri leiðir til að draga úr matarsóun. Matarsóun er málaflokkur sem varðar okkur öll. Ef marka má kannanir eru matarsóun meira vandamál hér en í nágrannalöndum. Það er vont til þess að vita. Hvað myndi maður sjá ef skoðað yrði í stampana eftir hádegismat í skólum? Er verið að mæla það sem er leift? Er verið að leyfa börnunum að taka þátt í að sporna við matarsóun sem spennandi verkefni? Hvar er Grænfánahugmyndafræðin stödd í skólum Reykjavíkur?
Tillaga Flokks fólksins um að hvetja alla skóla til að vera Grænfánaskóla og styrkja þá til þess var felld í borgarstjórn. Fulltrúi Flokks fólksins vil ítreka enn og aftur að það skiptir máli að börn skammti sér sjálf og vigti og skrái síðan það sem þau leifa. Einnig þarf maturinn að vera fjölbreyttur og af góðum gæðum. Það dregur úr matarsóun eins og rannsóknir hafa sýnt. Ekki gengur að bjóða börnum upp á það sem þau ekki vilja. Það fer bara lóðbeint í ruslið. Tillögunni er vísað í vinnuhóp og fagnar fulltrúi Flokks fólksins því.
Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurnum Flokks fólksins um m.a. um í hversu miklum mæli gagnreyndar kennsluaðferðir í lestri eru notaðar í skólum Reykjavíkur:
Fulltrúi Flokks fólksins spurði m.a. um í hversu miklum mæli gagnreyndar kennsluaðferðir í lestri og í hversu miklum mæli og hvaða aðgerðir eru í gangi til að þjálfa tvítyngd börn í lestri, málkunnáttu og lesskilningi?
Enda þótt ekki sé verið að miðstýra aðferðum er varla í boði að nota aðrar aðferði en sannreyndar. Byrjendalæsi er ekki gagnreynd aðferð að sama skapi og hljóðaaðferðin enda svo sem ólíkar aðferðarfræðilegar nálganir. Engu að síður nota sumir skólar Byrjendalæsi meira en hljóðaaðferðina sem aðal lestrarkennsluaðferð. Segir í svari að fjöldi skóla sem nota Byrjendalæsi sveiflast vegna þess „að stjórnendur senda ekki alltaf nýja kennara í þjálfun heldur treysta á að þeir sem fyrir eru taki að sér þjálfunina“. Þetta er nokkuð sérkennilegt. Enda þótt þetta sé ekki spurning um annað hvort eða þá er ekki hægt að horfa fram hjá versnandi árangri barna í lestri. Enginn efast um að kennarar séu ekki að nýta þekkingu sína. Ábyrgðin er hjá borgaryfirvöldum og menntamálaráðherra. Rannsóknir sýna að börn innflytjenda eru að koma verr út á Íslandi en nágrannalöndum sem er mikið áhyggjuefni. Kallað er eftir sérstöku og sértæku átaki fyrir þann hóp, börn sem eru fædd hér og einnig börnin sem koma stálpaðri til landsins.
Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn Flokks fólksins um lestrarkennsluaðferðir í grunnskólum:
Í svari kemur aftur fram að allur gangur er á hvaða lestrarkennsluaðferðir eru notaðar. Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar sjálfstæði skólanna í þessum efnum en pólitíkin þarf að hafa yfirsýn og hennar er ábyrgðin. Vinnubrögð eru markviss og sama þarf að gilda um notkun aðferða, hún þarf einnig að vera markviss. Hin svokallaða hljóðaðferð er best rannsökuð af lestrarkennsluaðferðum og er sögð notuð í öllum skólum kannski í mismiklum mæli. Börn með lesblindu eru oft sterk í sjónrænni úrvinnslu og læra því betur með sjónrænum kennsluaðferðum. Hvað sem öllu líður er árangur barna í lestri versnandi. Hvað nákvæmlega veldur því er ekki vitað. Vitað er að heilmikil áhersla er á hraðamælingar í lestri. Hraðamælingar í lestri koma illa við sum börn sér í lagi þau sem eru hæglæs eða með lesblindu. Fulltrúi Flokks fólksins hefur velt upp þeirri spurningu hvort áherslan á leshraða hefur verið á kostnað lesskilnings? Áherslan hlýtur að þurfa vera á lesskilning númer eitt um leið og lestrartækninni er náð. Þessi mál væru ekki í umræðunni nema vegna þess að íslensk börn eru að koma ítrekað illa út úr PISA. Þetta er dapurt því á Íslandi státum við af stórkostlegu kennaraliði auk þess sem við eigum gagnreynt kennsluefni.
Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn Flokks fólksins um mæliaðferðir til að meta lesskilning barna:
Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að fá upplýsingar um hvaða sérstöku aðferðir/mælingar hafa verið notaðar til að mæla lesskilning nemenda?
Í svari kemur fram að áhersla á fjölbreyttar lesskilningsaðferðir hafa aukist og er það mjög jákvætt. En til að vita hvort við erum á réttri leið í þessum málum þarf að mæla árangur. Markmiðið hlýtur að vera að 80-90% af börnum séu fulllæs eftir 2 bekk. Þegar talað er um mælingar má ætla að mæla eigi í 1-2 bekk stöðu barna í bókstafa-hljóðaprófi, kanna hvort börnin hafi brotið lestrarkóðann. Síðan eru það mælingar með lesskilningsprófum fyrir þá sem hafa brotið lestrarkóðann. Þetta er sennilega allt í gangi í flestum skólum.
Þegar talað er um aðferðir við mælingar, innan skóla og milli skóla þá hlýtur að vera spurt um samanburðarhæfi þ.m.t. aðferðarfræðilega séð.
Fulltrúa Flokks fólksins finnst sumt óljóst sem Menntamálastofnun gerir. Flokkur fólksins spurði um mælingar sem hafa verið notaðar til að mæla lesskilning nemenda. Í því sambandi má spyrja hvort ekki hafi staðið til að þýða fleiri lesskilningsprófin hjá Menntamálastofnun? En gott er að vita að nóg er af námskeiðum um lestrarkennslu á vegum Miðju máls og læsis. Vonandi skilar þetta sér síðan í betri niðurstöðum í næstu PISA könnun.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það skal tekið fram að samkvæmt PISA fer árangur barna í Reykjavík batnandi í öllum greinum milli 2015 og 2018.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið að ræða um árangur barna í lestri og lesskilningi en ekki í öðrum fögum/greinum. Ekki er hægt að líta fram hjá mælingum PISA þar sem ítrekað hefur komið fram að íslenskir nemendur standa sig marktækt verr í lestri og eru slakari í lesskilningi í samanburði við nágrannaþjóðir. Staða barna í lestri og lesskilningi fer versnandi eins og sjá má af síðustu niðustöðum PISA könnunar og Lesskimun síðustu ára. Samkv. PISA 2018 lesa um 34% drengja 14/15 ára sér ekki til gagns og 19% stúlkna.
Ef litið er lengra til baka þá hefur frammistaða íslenskra nemenda í lesskilningi samkvæmt niðurstöðum PISA ekki breyst marktækt frá könnun PISA árið 2015 en þó hefur nemendum sem ekki ná grunnhæfniviðmiðum lesskilnings fjölgað hlutfallslega. Þriðji hver drengur og fimmta hver stúlka mælast ekki vera með grunnhæfni í lesskilningi. Áleitinar spurningar hafa þess vegna vaknað um hvort læsisstefna stjórnvalda, ríkis og sveitarfélaga og metnaðarfullar áætlanir séu byggðar á réttum forsendum og áherslum?
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort þurft hefur að loka á áskriftir að skólamáltíðum veturinn 2019-2020 vegna ógreiddra reikninga:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvort þurft hefur að loka á áskriftir að skólamáltíðum veturinn 2019-2020 vegna ógreiddra reikninga?
Ef svo er hvað eru þær margar?
Einnig er spurt hvað margar fjölskyldur hafa ekki getað greitt reikninga vegna áskrifta að skólamáltíðum á þessum tíma og hvað margar að þeim fjölskyldum eru komnar með reikninga í vanskil eða eru á leið með þá í vanskil?
Hvað margar fjölskyldur hafa sótt um sérstakan styrk hjá Reykjavíkurborg til að greiða reikninga fyrir skólamáltíðir barna sinna?
Hvað margar fjölskyldur hafa fengið slíkan styrk í vetur?
Hvað eru margir nemendur í áskrift að skólamáltíðum í Reykjavík?
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir um árangur af ráðningu Afleysingastofu:
Afleysingastofa er verkefni á vegum Reykjavíkurborgar þar sem einstaklingum gefst tækifæri til þess að skilgreina sjálfir sinn vinnutíma og vinna á þeim tíma sem þeir óska eftir. Í fyrsta fasa verkefnisins var um störf á leikskólum Reykjavíkurborgar að ræða en nú hefur fleiri starfsstöðum verið bætt við á skóla- og frístundarsviði og á velferðarsviði. Afleysingastofa er nýjung hjá Reykjavíkurborg en byggir á erlendri fyrirmynd og er fyrirkomulagið til dæmis þekkt í Skandinavíu. Hver hefur árangur verið af þessu verkefni þegar kemur að mönnun starfa í skóla- og frístundastarfi? Hvað margir hafa verið ráðnir til starfa í gegnum Afleysingastofuna?