Bókun Flokks fólksins við kynningu um tillögur starfshóps um Virknihús og verkefnastjórn virkniúrræða ásamt fylgigögnum:
Talað er um „hús“, virknihús, sem er villandi ef þetta er hvorki „hús“ né deild eða eining. Þetta er samt meira en teymi? Ef þessar tillögur draga úr flækjustigi kerfisins, hagræða, einfalda og flýta fyrir afgreiðslu þá er það gott. Eins og þetta er kynnt virkar þetta ekki mjög skýrt. Gott væri að með fylgdi dæmi um t.d. hvernig þessi útfærsla snýr að einstaklingnum. Ráða á teymisstjóra og fleiri í kjölfarið. Fulltrúi Flokks fólksins óttast kostnað vegna yfirbyggingar sem oft á það til að ofvaxa.
Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort komið sé enn eitt kerfið, við hlið Keðjunnar? Hvernig á þetta að spila saman því ekki á „virknihúsið“ að heyra undir Keðjuna heldur skrifstofu ráðgjafarþjónustu alla vega í fyrstu en ekki er ljóst í framhaldinu hvað það verður í skipuriti. Hefði ekki verið einfaldara að fela einhverjum tveimur starfsmönnum velferðarsviðs að sinna þessari samþættingu frekar en að setja á laggirnar enn eina nýja yfirbyggingu? En það er fulltrúa Flokks fólksins að meinalausu að styðja þessa tillögu í þeirri von að hún leiði til gagns og einföldunar fyrir notendur.
Bókun Flokks fólksins við kynning á greiningarvinnu um skólaþjónustu.
Ekkert er út á tölfræðina að setja en hún má þó ekki verða þannig að ekki sé hægt að sjá skóginn fyrir trjám. Hinn langi biðlisti barna er ólíðandi. Samkvæmt nýjum vef sem sýna lykiltölur eru tæp 800 börn á bið, um helmingur eftir fyrstu þjónustu. Tvennt sem slær utan langs biðlista er hversu mikill munur er eftir hverfum. Það kæmi ekki á óvart að foreldrar leiti sér að húsnæði þar sem staðan er góð í skóla hverfsins hvað varðar aðgengi að skólasálfræðingi. Fulltrúi Flokks fólksins hefur reynslu úr starfi hvað felst í svokallaðri fyrstu þjónustu. Oft er það aðeins eitt stutt viðtal og svo fer barn aftur á langan biðlista eftir „meiri“ þjónustu. Málum er forgangsraðað eftir alvarleika. Mál sem eru ekki flokkuð sem bráðamál getur orðið það á sekúndubroti sérstaklega ef barn hefur beðið lengi eftir aðstoð. Flestar tilvísanir eru vegna málþroskavanda og einbeitingarvanda sem er vísbending um ADHD. Það sárvantar fleiri fagaðila til að mæta þessum kúfi. Tillögur um fjölgun stöðugilda fagaðila hefur verið felld. Bíða á eftir frumvarpi sem á að samþætta þjónustuna. Kosningar eru á næsta ári og því fátt fast í hendi þegar kemur að metnaðarfullu frumvarpi ráðherra. Eiga börnin bara að bíða þangað til?
Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 15. lið fundargerðar velferðarráðs þann 2. desember 2020, um að brúa bilið milli kynslóða með reglulegum og markvissum hætti:
Tillagan hljóðaði svona:
Flokkur fólksins leggur til að fundnar verði leiðir til að brúa bilið milli kynslóða, eldri borgara og barna. Við getum lært svo mikið hvert af öðru, fullorðnir af börnum og börn af fullorðnum. Hægt er að finna alls konar flöt á samskiptum og samveru eldri og yngri kynslóðarinnar. Tala saman, fara eitthvað saman eða gera eitthvað saman. Lagt er til að leitað verði leiða til að auka samskipti yngri og eldri, barna og eldri borgara til að efla gagnkvæman skilning og virðingu og umfram allt eiga ánægjulegar stundir. Nota má leik- og grunnskólana og félagsmiðstöðvarnar í þessum tilgangi.
Vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá.
Bókunin:
Tillaga Flokks fólksins um að brúa bil milli kynslóða með reglulegum og markvissum hætti hefur verið vísað frá með þeim rökum að þetta sé verið að gera. En það liggur einfaldlega ekki ljóst fyrir. Það er ein setning um þetta í Stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum eldri borgara 2018-2022 svohljóðandi „starf á félagsmiðstöðvum stuðli að tengingu milli kynslóða“ . Fulltrúi Flokks fólksins langar að sjá nánar hvernig þetta er að virka í reynd. Í framhaldinu mun fulltrúi Flokks fólksins fram spurningar um hvað margar félagsmiðstöðvar eru með starf sem stuðla að tengingu milli kynslóða og í hverju felst það starf nákvæmlega?
Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 24. lið fundargerðar velferðarráðs þann 18. nóvember, um svör þjónustumiðstöðva við erindum borgarbúa.
Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hvað er velferðarsvið að gera til að tryggja að þjónustumiðstöðvar svari erindum borgarbúa? Ástæða spurningarinnar var að borist hafði ábending frá þjónustuþega sem ítrekað hefur reynt að ná til einnar þjónustumiðstöðvar vegna mála er varðar heimaþjónustu og heimahjúkrun. Fólk á auðvitað ekki í neyð sinni að þurfa að hafa samband við borgarfulltrúa til að fá áheyrn velferðarkerfis borgarinnar. Í svari kemur fram að ýmsar leiðir séu til, til að ná eyrum þjónustumiðstöðva. Skiljanlega þykja stjórnendum ekki skemmtilegt að frétta að fólki er ekki sinnt sem skyldi og erindum ekki svarað. Það mál sem vísað er í hér að ofan er enn óleyst þrátt fyrir frekari ítrekun. Það er að mati fulltrúa Flokks fólksins komin rík ástæða fyrir stjórnendur velferðarsviðs að heimsækja allar þjónustumiðstöðvar og fara yfir þjónustuleiðir og umfram allt ítreka að afgreiða á erindi svo fljótt sem unnt er og ef tafir verða að upplýsa notandann með gildum rökum.
Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra velferðarsviðs, dags 16. desember, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 20. lið fundargerðar velferðarráðs þann 18. nóvember, um biðlista í heimaþjónustu:
Fulltrúi Flokks fólksins spurði um biðlista í heimaþjónustu sökum manneklu í ljósi þess að atvinnuleysi er nú 10% og fer vaxandi vegna í COVID. Vegna stöðu á atvinnumarkaði eru umsækjendur um hvert starf mun fleiri nú en áður og auðveldara hefur verið að manna laus störf á velferðarsviði samanborið við síðustu ár.
Veirufaraldurinn hefur gjörbreytt mörgu í lífi okkar, flest í neikvæðum skilningi en einstaka þættir fá nú meiri andrými. Vegna atvinnuleysis er nú frekar hægt að manna stöður. Það kemur því ekki á óvart að færri eru á biðlista en ella. Talað er um 22 sem er þó tuttugu og tveimur of mikið.
Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra velferðarsviðs, dags 16. desember, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 22. lið fundargerðar velferðarráðs þann 18. nóvember, um sundurliðun á málum (tilvísunum):
Svar hefur loksins borist við fyrirspurn Flokks fólksins um sundurliðun á málum sem vísað hefur verið til skólaþjónustu. Af 1.562 börnum er þjónustu aðeins lokið hjá 327 börnum. Ekki fylgja neinar upplýsingar um hversu lengi börnin bíða og hvað biðu þau börn lengi sem nú hafa fengið einhverjar þjónustu. Flokkur fólksins óskaði eftir að fá einfalda sundurliðun á þeim hundruð tilvísana í þrjá einfalda flokka. 1. þyngri mál, 2. mál sem skólinn getur greint og leyst og 3. tilvísanir þar sem óskað er eftir ráðgjöf og stuðningi. Í svari segir að mál séu ekki flokkuð með þessum hætti heldur er þeim forgangsraðað eftir alvarleika.
Athuga þarf að mál sem ekki er flokkað sem bráðamál getur orðið það á sekúndubroti sérstaklega ef barn hefur beðið lengi eftir aðstoð. Börn með væga erfiðleika er raðað aftast á listann og eru þar kannski föst fleiri mánuði.
Flestar tilvísanir eru vegna málþroskavanda og einbeitingarvanda. Það þarf að fá fleiri sálfræðinga til að mæta þessum kúfi. Tillaga Flokks fólksins um fjölgun stöðugilda sálfræðinga um þrjá og talmeinafræðinga um tvo var felld á fundi borgarstjórnar 15.12 og þykir fulltrúa Flokks fólksins það mjög miður. Með því að grípa ekki til aðgerða hér er verið að leika sér að eldi.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að átak verði gert í að auglýsa sérstakan tilkynningarhnapp ætlaðan börnum til að tilkynna ef þeim finnst eitthvað að hjá sér, heima hjá sér eða hjá vinum sínum. Hnappurinn er á vef Reykjavíkurborgar.
Tillaga Flokks fólksins um að átak verði gert í að auglýsa sérstakan tilkynningarhnapp ætlaðan börnum til að tilkynna ef þeim finnst eitthvað að hjá sér, heima hjá sér eða hjá vinum sínum. Hnappurinn er á vef Reykjavíkurborgar.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að velferðarsvið og Reykjavíkurborg fari í sérstakt átak við að auglýsa tilkynningarhnappinn ætlaðan börnum sem er á vef Reykjavíkurborgar. Átakið feli í sér fjölbreyttar aðferðir til að ná til sem flestra barna. Tilkynningum um aukið ofbeldi gagnvart börnum hefur fjölgað með komu COVID-19. Um er að ræða aukningu tilkynninga þar sem börn eru vitni að eða sjálf beitt líkamlegu og andlegu ofbeldi á heimili sínu. Börnin sjálf eru oft ekki að ræða um þessi erfiðu mál út á við. Það er mikilvægt að hnappurinn sem ætlaður er fyrir börn til að tilkynna mál höfði til þeirra og sé á nokkrum tungumálum. Umfram allt þurfa börn að vita af tilkynningarhnappnum.
Frestað.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvað margar félagsmiðstöðvar hafa skipulega samveru eldri borgara og barna, eldri borgara og hunda/gæludýra?
Í Stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum eldri borgara 2018-2022 er ein setning sem segir „starf á félagsmiðstöðvum stuðli að tengingu milli kynslóða.“ Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um hversu margar félagsmiðstöðvar eru með starf sem stuðlar að tengingu milli kynslóða, hvernig er því starfi háttað og í hverju felst það?
Hvað margar félagsmiðstöðvar hafa skipulega samveru eldri borgara og barna, eldri borgara og hunda/gæludýra?
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort fundin sé lausn á ef aðstoð við baðdaga lendir á rauðum degi.
Fulltrúi Flokks fólksins hefur viðhaft fyrirspurnir m.a. óundirbúna fyrirspurn til borgarstjóra vegna fyrirkomulags ef baðdagar eldri borgara í heimahúsi lenda á rauðum degi. Fram til þessa hefur þessi þjónusta ekki verið veitt á svokölluðum rauðum dögum. Í svari borgarstjóra var nánast lofað að fundin verði lausn á þessu vandamáli þannig að fólk fái aðstoð við böðun á „sínum“ dögum. Nú líður að jólum og hafa þeir sem eru í þessari stöðu áhyggjur hvort þeir fari án baðs inn í jólin. Fulltrúi Flokks fólksins vill spyrja hvort ekki hafi verið fundin lending á þessu máli þegar vika er til jóla? Fulltrúanum er kunnugt um tilfelli þar sem enn hafa ekki borist viðbrögð frá þjónustumiðstöð við erindi eldri borgara vegna máls af þessu tagi. Hér er um mál að ræða sem velferðarsvið verður að skoða hjá öllum þjónustumiðstöðvum. Þetta mál er ekki aðeins mikilvægt á jólum eða páskum heldur verður að leysa þessi mál með varanlegum hætti.
Fyrirspurninni svarað munnlega á fundinum.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fyrirspurn frá Flokki fólksins vegna þjónustu við böðun er svarað á sama fundi og hún er lögð fram. Sagt er að á rauðum dögum eru færri að vinna. Samt er reynt að fjölga fólki. Sagt er að allt sé gert til að hægt sé að aðstoða líka á rauðum dögum. Í byrjun desember er reynt að finna þessa einstaklinga sem svo hittir á en ekki er hægt að koma á móts við alla. En það er undantekning.
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því og vonast til að tryggt sé að allir eldri borgarar í heimahúsi fái þessa og aðra mikilvæga þjónustu fyrir jólin sem ávallt.