Velferðarráð 18. nóvember 2020

Bókun Flokks fólksins við tillögu að undirbúa samráðsfund um geðheilbrigðismál í byrjun janúar:

Sjálfsagt er að skoða hlut borgarinnar í að gera  úttekt á stöðu geðheilbrigðismála til að sjá hvað þarf að gera betur eða öðruvísi. Mestar áhyggjur eru af þeim sem eru veikir fyrir, andlega og líkamlega og þá sem hafa tapað lífsviðurværi sínu. Hvað tekur meira á andlegu hliðina en að missa vinnuna, vera skyndilega komin á bætur?
Mörg börn eru einnig kvíðin og huga þarf að þeim sérstaklega.
Fulltrúi Flokks fólksins vill líka að velferðarráð og svið sendi frá sér jákvæð skilaboð og hvatningu til fólksins. Það er vissa í óvissunni. Vissan er sú að ef við fylgjum leiðbeiningum sérfræðinga  munum við ná yfirhöndinni og að það kemur bóluefni.  Sem stjórnvald ber okkur að blása von í fólk á öllum tímum, sama hvað gengur á.  Rafrænar lausnir bjarga miklu þótt þær komi ekki í staðinn fyrir nærveru. Tækifæri til hreyfingar hefur takmarkast en ekki skerst að fullu. Hvetjum fólk til að halda í vonina og hika ekki við að leita hjálpar. Þeir sem leita hjálpar, ráðgjafar mega alls ekki finna að erfitt er að ná í gegn, síma ekki svarað, erindum ekki svarað o.s.frv. Það mun verða aukin þörf á ráðgjöf og stuðningi vegna vaxandi atvinnuleysis.

Bókun Flokks fólksins við kynningu  um stöðuna vegna Covid-19 og næstu skref. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra um stöðuna á velferðarsviði vegna Covid-19 og áskoranir í þriðju bylgju, ásamt fylgigögnum:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur að börnum sem eru í vanlíðan sem rekja má beint eða óbeint til COVID ástandsins. Hvernig erum við að finna þessi börn? Hvaða aðferðir eru notaðar. Sum börn leyna vanlíðan sinni.  Hér er ekki endilega verið að tala um alvarlegustu málin, barnaverndarmál heldur börnin sem af einhverjum ástæðum vilja ekki eða eru hrædd við að bera áhyggjur sínar á borð. Fulltrúi flokks fólksins ítrekar enn og aftur mikilvægi þess að fagfólk sé út í skólunum, þar sem þeir eru til staðar fyrir börnin. Það þarf einmitt að vera meiri vinna á vettvangi og tryggt samstarf við heilsugæslu og aðra aðila sem sinna sambærilegum málum. Sálfræðingar verða að fara að hafa vinnuaðstæður sínar alfarið í skólunum þar sem þeir eru aðgengilegir börnum, foreldrum og kennurum og geta sinnt handleiðslu og fræðslu eftir þörfum. Eins og vitað er eru biðlistar eftir þjónustu sálfræðinga langir í Reykjavík. Um 800 börn bíða eftir þjónustu. Það er því ekki á það bætandi að sálfræðingar skulu ekki hafa aðsetur í skólum heldur á þjónustumiðstöðvum. Þessu hefði átt að vera búið að breyta fyrir löngu.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu erindis borgarstjóra, dags. 30. október 2020, um neyslurými:

Fulltrúi Flokks fólksins bókaði um þessa tillögu meirihlutans í borgarstjórn ekki síst vegna undrunar þar sem þessi sama tillaga var lögð fram í borgarstjórn 20. nóvember 2018 sem meirihlutinn felldi þá. Þá var ekki mikill vottur af stuðningi við þetta mál og tók steinninn úr í bókun þeirra þar sem borgin hafnar alfarið að taka ábyrgð á málinu með orðunum „að það sé verið skýr afstaða borgarinnar frá upphafi að um heilbrigðisþjónustu væri að ræða sem er á ábyrgð ríkisins en Reykjavíkurborg veitir notendum þjónustunnar félagslega þjónustu og ýmsan stuðning“.

Fulltrúi Flokks fólksins harmar hversu illa var tekið í þessa tillögu Flokks fólksins árið 2018.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði áherslu í tillögu sinni árið 2018  að mjög brýnt væri að opna rými í Reykjavík þar sem vímuefnanotendur geta komið í hreint og öruggt athvarf, haft aðgang að heilbrigðisþjónustu og jafnframt fengið faglega aðhlynningu. Þá hefði verið lag og upplagt að Reykjavíkurborg hefði frumkvæði að viðræðum við ríkið umm málið.
 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 18. lið fundargerðar velferðarráðs þann 24. júní 2020, ásamt umsögn Velferðarsviðs, dags. 18. nóvember 2020, um úthringingar til eldri borgara:

Sú tillaga sem hér er til afgreiðslu og er vísað frá var lögð fram 24. júní þegar fyrri bylgju COVID hafði létt. Þetta er auðvitað forkastanleg vinnubrögð. Tillagan hefur verið í kerfinu í fimm mánuði og er svo bara vísað frá loksins þegar hún kemur aftur á dagskrá. Eigi verkefnið að verða viðvarandi er sjálfsagt að samþykkja tillöguna, ekki satt!
Tillagan var að úthringingarverkefni sem gengið hafði vel myndi halda áfram og það útvíkkað enn frekar og þróað frekar. Í svari virðist sem því hafi verið hætt en síðan byrjað aftur í þriðju bylgju. Það sem fulltrúi Flokks fólksins er að segja með þessu öllu er að þetta verkefni byrji ekki og hætti í takt við COVID bylgjur heldur verði gert að viðvarandi verkefni, það útvíkkað og þróa áfram. Þeir sem ekki  vilja símavin nú gætu viljað hann seinna o.s.frv.  Hugsa má einnig um þá sem eru ekki á málaskrá borgarinnar og svo mætti lengi telja. Fyrir þá sem hringja er þetta einnig dýrmæt reynsla og í henni felst mikill lærdómur. Þetta verkefni bíður upp á fjölmarga spennandi möguleika.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu fulltrúa Flokks fólksins um að taka upp gjaldfrjálsar matarheimsendingar til eldri borgara sem mælast undir framfærsluviðmiði ásamt umsögn velferðarsviðs.

Tillögu um gjaldfrjálsar matarheimsendingar eru vísað frá. Með tilkomu laga um félagslegan  viðbótarstuðning segir að þeir 54 einstaklingar sem eru undir  framfærsluviðmiði Tryggingastofnunar  og fengu fjárhagsaðstoð þurfi ekki lengur fjárhagsaðstoð hjá velferðarsviði. Það vita það allir að bætur eru lágar. Það  er sorglegt að fólk þurfi að hafa fjárhagsáhyggjur síðustu árin sín. Það er ein setning í svari sem fer fyrir brjóstið á fulltrúa Flokks fólksins og það er eftirfarandi:  “ Það væri æskilegt að hvetja þá sem ekki geta eldað sjálfir að fara út af heimilinu í hádeginu frekar en að fá matinn sendan heim því það getur komið í veg fyrir félagslega einangrun”. Er hér verið að tala niður til eldri borgara? Er með þessum orðum verið að reyna að hafa “vit” fyrir eldri borgurum, eins og þeir viti ekki hvað þeim er fyrir bestu? Og hver á að greiða þá ferð, leigubílinn? Að bóka sig í mat á félagsmiðstöð getur verið  streituvaldur fyrir fólk t.d. ef það verður veikt og kemst ekki út. Hver kemur þá með matinn til þeirra. Varðandi sjúkraþjálfunina þá getur verið erfitt að finna sjúkraþálfara t.d. ef sjúkraþjálfari fer í fæðingarorlof. Það er alvarlegt ef fullorðið fólk fær ekki þá þjálfun sem það þarf til að draga úr stirðnun.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu fulltrúa Flokks fólksins um að starfsfólk sem sinnir þjónustu við eldri borgara fái aukið svigrúm og sveigjanleika til að sinna þjónustunni:

Tillaga Flokks fólksins er um aukið svigrúm starfsfólks að sinna eldri borgurum í heimahúsi.  Í þessari umsögn segir að áður en þjónustan hefst er gert mat á þjónustuþörf. Ekki er talað um þörfina á endurmati á skjólstæðingum reglulega. Eldra fólki hrakar oft hratt og því nauðsynlegt að sú þjónusta við viðkomandi sé metin með reglulegu millibili og að heimahjúkrunin geti lesið úr aðstæðum. Fólkið er oft ekki sjálft að biðja um endurmat. Nauðsynlegt er að iðjuþjálfar komi líka að málum til að meta hvort hjálpartæki standist kröfur. Það skortir meira fjármagn í þennan þátt og umfram allt að starfsfólk fái nægt rými, svigrúm og sveigjanleika til að geta sinnt sinni vinnu með fullnægjandi hætti. Fólk sem þjónustar eldri borgara sem búa einir heima er oft einu aðilar sem þeir hitta stundum í nokkra daga. Það er til mikils að vinna til að fólk þurfi ekki að fara á stofnun heldur getur verið heima. Þjónustustörf sem þessi eru erfið störf, krefjandi og launin hafa ávallt lág, og í engum takti við kröfur sem starfið gerir.

Samþykkt að vísa inn í  starfshóp velferðarsviðs um endurskoðun reglna um stuðningsþjónustu í Reykjavík.


Bókun Flokks fólksins við tillögu
öldungaráðs um könnun á máltíðum fyrir eldri borgara, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 18. nóvember 2020.

Á fundi öldungaráðs þann 5. október 2020 var lögð fram tillaga fulltrúa Félags eldri borgara í Reykjavík  um að óviðkomandi, óvilhallur  aðili og til þess bær  geri könnun á máltíðum. Þetta er góð tillaga en engu að síður var henni breytt þannig að þetta með „óháður aðili“ var tekinn út og þess í stað sett að Reykjavíkurborg láti gera úttekt á máltíðum fyrir eldri borgara. Þessi breyting vekur upp margar spurningar. Af hverju má ekki leyfa óviðkomandi aðila að gera þessa úttekt. Hvernig á Reykjavíkurborg sífellt að gera könnun á sjálfri sér?. Síkar niðurstöður eru varla eins trúverðugar og væri það óháður, óvilhallur aðili. Vandi hefur verið í þessum geira ella væru ekki allar þessar gagnrýnisraddir sem ekki hefur verið nægjanlega hlustað á. Tillögum fulltrúa Flokks fólksins unnar með eldri borgurum og aðstandendum sem snúa að þessum málum var öllum hafnað. Lagt var m.a. til að farið yrði í endurskoðun á ýmsum þáttum, samsetningu, framleiðslu, afhendingu og möguleika á matarvali.

Bókun Flokks fólksins um samþykkt reglna velferðarsviðs um íþrótta- og tómstundastyrk fyrir börn á tekjulágum heimilum:

Tillaga er lögð fram í borgarráði að regluverki velferðarsviðs um íþrótta- og tómstundastyrki fyrir börn frá tekjulágum heimilum, sbr. tilmæli félagsmálaráðuneytisins. Tilmæli frá ríkinu eru að ekki skuli nota þennan styrk til að greiða frístundaheimili eins og gert er með Frístundakort Reykjavíkur. Þetta ættu að vera skýr skilaboð til borgaryfirvalda að hætta að taka réttinn af börnum til að nota Kortið til frístunda eingöngu eins og Frístundakortið var upphaflega hugsað. Frístundakortið er réttur barnsins og borgaryfirvöld eiga ekkert með að hrifsa þann rétt frá því. Að taka réttinn af barni til notkunar Frístundakorts til að borga nauðsynjar eins og frístundaheimili er óafsakanlegt. Rök meirihlutans eru: “Kostnaður við gjaldfrjálst frístundaheimili er mikill og ekki lagt til að fella niður aðild þeirra að Frístundakortinu að svo stöddu.”
Af þessu má sjá að allt er þetta spurning um kostnað og hér eru börnin ekki ofarlega á forgangslista víst þau fá ekki að hafa Frístundakortið sitt í friði. Slök nýting í sumum hverfum er ábyrgð meirihlutans. Stefna ætti að því að Kortið verði fullnýtt í öllum hverfum.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 14. lið fundargerðar velferðarráðs þann 16. september, um reglur um böðun í skammtímavistun:

Ástæða fyrirspurnar Flokks fólksins um böðun í skammtímavistun var að nýlega var starfsmaður dæmdur fyrir að brjóta kynferðislega á konu í skammtímavistun á vegum Reykjavíkurborgar þar sem hann misnotaði aðstöðu sína. Fulltrúa Flokks fólksins hrís hugur við þá tilhugsun að kona á ábyrgð borgarinnar sé sett í þær aðstæður að einstaklingur af öðru kyni skuli eiga að aðstoða hana við böðun. Ekki er víst að sú kona geti sagt “nei ég vil ekki” og fyrir því geta verið fjölmargar  ástæður eins og við vitum. Fulltrúi Flokks fólksins vill að engin kona verði sett í þessar aðstæður. Segir í svari að „ef upp koma aðstæður sem þessar gildi sú regla að biðja þarf starfsmann um að kíkja inn með reglulegu millibili“. Þessi regla tryggir ekki að aðstæður séu öruggar. Hér dugir fátt annað en afgerandi regla. Ekki er verið að tortryggja alla starfsmenn en því miður veldur tilvik sem þetta því að ekki er hægt að vera rólegur nema reglur séu skýrar, að aðstoð við böðun skuli aðeins veitt af aðila af sama kyni.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um stöðu manneklu nú þegar mikið atvinnuleysi ríkir:

Í heimaþjónustu sem dæmi er  biðlisti sökum manneklu. En nú þegar atvinnuleysi er mikið og þar af leiðandi ekki skortur á  mannafli mætti ætla að hægt væri að manna heimaþjónustu sem og aðra velferðarþjónustu að fullu. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort þetta tækifæri hafi verið nýtt og hvort biðlistar hafi þá ekki styðst verulega í velferðarkerfinu?

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort ekki sé hægt að finna leiðir til mæta þörfum þeirra eldri borgara sem þarfnast hár- og hand/fótsnyrtingar en sem ekki komast út vegna slappleika eða fötlunar:

Fram kom í bókun velferðaryfirvalda við fyrri tillögu Flokks fólksins að  bæta við nýjum þjónustuþætti eins og hár- og naglasnyrtingu fyrir eldri borgara sem búa heima, að það stríddi gegn samkeppnissjónarmiði. Að hafna tillögunni á grundvelli samkeppnissjónamiða eru ekki haldbær rök  þar sem allir snyrtifræðingar og hársnyrtar geta átt kost á að þjónusta fólk í heimahúsi.

Fulltrúi flokks fólksins spyr hvort ekki sé hægt að finna leiðir til mæta þörfum þeirra eldri borgara sem þarfnast hár- og hand/fótsnyrtingar en sem ekki komast út vegna slappleika eða fötlunar?

Hér er um lýðheilsumál að ræða og sjálfsögð mannréttindi.

Spurt er jafnframt eftirfarandi:

Í hvað miklum mæli er boðið upp á fyrrnefnda þjónustu í þjónustu- og félagsmálahúsnæði Reykjavíkurborgar sem ætlað er eldri borgurum og öryrkjum?

Hvernig er val á þjónustuveitendum háttað, umsóknarferlið?

Hver ber ábyrgð á þeirri þjónustu sem hér um ræðir, hver annast eftirlit?

Eru hárgreiðslu- og snyrtiaðstaða þar sem þær eru til staðar á  félagsmálamiðstöðum fyrir aldraða allar í notkun?

Á Reykjavíkurborg húsnæði allra félagsmiðstöða fyrir eldri borgara?

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn sundurliðun á málum (tilvísunum) sem vísað hefur verið til skólaþjónustu:  

Flokkur fólksins óskar eftir að fá sundurliðun á málum (tilvísunum) sem vísað hefur verið til skólaþjónustu. Óskað er sundurliðun mála í þrjá flokka: Í fyrsta flokki væru þyngri mál sem krefjast yfirgripsmikillar greiningar á vitsmunaþroska WISC (Wechsler vitsmunaþroskapróf) ADHD greiningar, skimunar á  Asperger-heilkenni, einhverfu og kvíða- og þunglyndiseinkennum. Hér er um að ræða mál sem fagfólk og foreldrar eru sammála um að nauðsynleg sé að framkvæma til að aðstoða barnið. Þetta er sá hópur sem séð er fyrir að þurfi jafnvel enn ítarlegri greiningu og meðferð á  Þroska- og hegðunarstöð, Greiningarstöð ríkisins eða Barna og unglingageðdeild.

Í öðrum flokki væri um að ræða mál sem eru þess eðlis að hægt er að leysa þau innan skólans með fagfólki. Hluti þeirra gætu þó þurft aðkomu barnalæknis til að hægt sé að setja þau í viðeigandi farveg. Gera þarf skimun með því að leggja fyrir kvarða og próf ( Kiddie-Sads, ADIS kvíðagreiningarviðtalið, ADHD skimunarlista).

Í þriðja flokki væru tilvísanir þar sem óskað er eftir ráðgjöf sálfræðinga (PMT) og stuðningi við kennara. Hér er um að ræða sálfræðivinnu sem unnin er í samráði við kennara og foreldra. Í þessum flokki er einnig beiðni um námskeið, hópavinnu og fræðslu.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvernig velferðarsvið er að bregðast við kröfu um aukna næringu til eldri borgara sem fá heimsendan mat nú þegar cóvið aðstæður hafa staðið vikum saman og fólk ekki að geta farið út eins og það er kannski vant:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar að vita hvernig velferðarsvið er að bregðast við kröfu um aukna næringu til eldri borgara sem fá heimsendan mat nú þegar cóvið aðstæður hafa staðið vikum saman og fólk ekki að geta farið út eins og það er kannski vant. Í umræðunni hefur verið hvort heimsendur matur til eldri borgara sé nógu næringarríkur. Dæmi eru um að eldri borgari sem fær heimsendan mat hefur þurft að fara á sjúkrahús vegna næringarskortar. Skoða þarf bæði samsetningu matarins og framleiðslu hans í þessu sambandi.  Einnig ætti að vera sjálfsagt að bjóða upp á næringardrykki með matnum og umfram allt á að vera val, t.d. á fólk að hafa val um hvort það vill meira eða minna grænmeti. Nú hefur ríkt einstakt ástand og eru jafnvel enn meiri líkur á að eldri borgarar þurfi sérstaklega mikinn og næringarríkan mat vegna færri ferða út úr húsi til að forðast COVID smit.


Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um svörun erinda en fólk kvartar yfir að fá ekki viðbrögð:

Fulltrúi Flokks fólksins fékk skeyti frá einstaklingi sem hefur þrisvar reynt að ná til einnar þjónustumiðstöðvar vegna mála er varðar heimaþjónustu og heimahjúkrun. Spurt er hvað er velferðarsvið að gera til að tryggja að þjónustumiðstöðvar svari erindum borgarbúa?

Þessi einstaklingur hefur ekki fengið nein viðbrögð og engin svör. Fulltrúi Flokks fólksins vill ítreka tillögu sína til velferðarsviðs um að svara erindum borgarbúa eða í það minnsta láta vita að skeyti er móttekið og málið í skoðun og að svarað verði innan skamms. Fólk á ekki í neyð sinni að þurfa að hafa samband við borgarfulltrúa til að fá áheyrn velferðarkerfis borgarinnar.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvað ætla velferðaryfirvöld að gera fyrir þennan dreng til að bæta honum upp biðina og bæta fjölskyldunni þann skaða sem biðin eftir valdið þeim:

Nýlega féll úrskurður í Úrskurðarnefnd Velferðarmála í máli fatlaðs ungs manns em beðið hefur árum saman á biðlista eftir húsnæði. Þetta er alvarlegt mál, ekki enn er tilbúið húsnæði fyrir þennan aðila og verður ekki á næstunni. Fram kemur hjá aðstandanda við borgarfulltrúa Flokks fólksin að upplýsingum frá borginni ber ekki alltaf saman og stundum er sagt að umsóknin hafi ekki tekið gildi fyrr en drengurinn  varð 18.

Spurt er hvað ætla velferðaryfirvöld að gera fyrir þennan dreng til að bæta honum upp biðina og bæta fjölskyldunni þann skaða sem biðin eftir valdið þeim?

Aðstandandi vill koma þeim skilaboðum til velferðarráðs að nnars konar þjónusta hefur ekki dugað fyrir þennan unga mann. Hann var  15 ára þegar honum var lofuð búseta í Skerjafirði ásamt 5 börnum úr Öskjuhlíðar/Klettaskóla. Þar stóð til að byggja samkvæmt óskum foreldra. Þáverandi skrifstofustjóri Skrifstofu eigna og atvinnuþróunnar fékk í  hendur bók með teikningum og texta þar sem foreldrar lýstum hugmyndum sínum. Fjöldi funda voru haldnir, símtöl og  póstsamskipti gengu á milli. En síðan ekki söguna meir. Kvíði drengsins hefur versnað móðir hans er veik og hennar veikindi hafa orðið æ alvarlegri.