Velferðarráð 19. febrúar 2020

Bókun Flokks fólksins við kynningu á  stöðumati aðgerðaráætlunar um atvinnumál fatlaðs fólks:

Staða uppbyggingaráætlunar húsnæðis fyrir fatlað fólk hefur gengið hægt.  Þessi málaflokkur hefur ekki verið í nægjanlega miklum forgangi árum saman en nú virðist sem hlutir gangi ögn hraðar. Fjöldi á biðlista Í febrúar 2020 er engu að síður 142 einstaklingar á bið eftir húsnæði fyrir fatlað fólk hjá velferðarsviði til samanburðar við 190 einstaklinga í desember 2017. Það er einfaldlega mjög erfitt ástand hjá mörgum þeim sem bíða eftir húsnæði, margir hafa beðið mjög lengi eftir húsnæði og eiga eftir að bíða jafnvel í mörg ár enn.  Þetta er óviðunandi ástand. Dæmi eru um að ekki er hlúð nægjanlega vel að þessum fjölskyldum á meðan beðið er eftir húsnæði fyrir fatlaðan fjölskyldumeðlim. Skoða ætti að veita þessum fjölskyldum sérstakan fjárhagsstuðning á meðan beðið er, vissulega að undangengnu mati á þörf.  Hafa ætti samband við alla reglulega og kanna stöðuna. Það er oft gríðarálag á þeim sem bíða eftir húsnæðinu og fjölskyldum þeirra ekki síst ef um flókna fötlun er að ræða. Hér er verið að tala um fullorðna einstaklinga sem eiga að fá húsnæði við sitt hæfi til að geta lifað sínu persónulega lífi. Álag á foreldra fullorðinna fatlaðra einstaklinga sem hafa beðið lengi er oft gríðarlegt.

Bókun Flokks fólksins við kynningu á stöðumati um atvinnumál fatlaðs fólks:

Flokkur fólksins bókar við stöðumat varðandi atvinnumál fatlaðs fólks. Aðgerðaráætlun er komin til aldurs og kannski úrelt að einhverju leyti? Margar tillögur eru góðar en ekki mjög útfærðar. Þetta hefur gengið hægt. Kannski ekki forgangsmál hjá þessum og síðasta meirihluta? Eða ástæðan er að boðleiðir borgarkerfisins eru flóknar? Hér er reyndar ekki verið að tala um launaða vinnu heldur frekar afþreyingu? Það vantar að tengja við atvinnulífið. Flokkur fólksins myndi vilja sjá borgina setja á laggirnar alvöru vinnustað fyrir fatlað fólk þar sem það getur komið saman og  sinnt fjölhæfum verkefnum fyrir mannsæmandi laun. Slíkir vinnustaðir eru e.t.v. mest nú á vegum ríkis eða eru sjálfseignarstofnanir. Það vantar staði, vinnustaði, vinnustofur þar sem fólk sem er með skerta starfsorku getur unnið á sínum forsendum. Farsælast er að vinnustaðir geti ráðið fjölbreyttan hóp með eða á örorku enda er eftirspurn eftir störfum mikil. Það hefur lengi loðað við okkar samfélag að skortur hefur verið á vinnustofu fyrir öryrkja, fólk sem hefur átt í erfiðleikum með að fá störf við hæfi t.d. eftir endurhæfingu. Langflestum langar til að komast út meðal fólk og sinna störfum við hæfi og fá fyrir það greitt. Fatlað fólk er ekkert öðruvísi en aðrir með hvað varðar að vilja leggja sitt af mörkum til samfélagsins

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu öldungaráðs á tillögu Flokks fólksins um aldursfordóma:

Afstaða öldungaráðs er að ekki eigi að styðja tillögu Flokks fólksins um að rýna í regluverk borgarinnar með gagnrýnisgleraugum til að skoða hvort textinn sé gildishlaðinn. Engu að síður vill öldungaráðið hafa tillöguna að leiðarljósi. Flokkur fólksins spyr af hverju má þá ekki bara samþykkja hana?  Hér er verið að  leggja til að skoða hvort borgin sjálf sé með gildishlaðinn texta í sínu regluverki og samþykktum sem fjalla um eldri borgara og  þjónustu við þá.  Borgin er fyrirmynd og þarf að hafa hlutina á hreinu hjá sér. Flokkur fólksins hefur séð bækling sem borgin lætur liggja frammi í félagsmiðstöð aldraðra sem var mjög gildishlaðin. Í svari um málið var sagt að ekki ætti að endurútgefa hann en hann hefði átt að fjarlæga að mati borgarfulltrúa.  Athuga ber að eldri borgarar hafa ekki beina aðkomu að samningu texta í reglum og samþykktum sem þeim ætti að vera boðið að gera. Tillögu um að gerð yrði könnun meðal eldri borgara um afstöðu þeirra til þessara hluta var líka hafnað. Mikilvægt er að spyrja eldri borgara hvernig það er að upplifa viðmót borgarkerfisins í sinn garð eins og kemur fram í reglum og samþykktum. Það hlýtur að vera metnaður hjá öldungaráðinu og mannréttindaskrifstofu að hafa svona hluti í lagi þ.e. að hvergi sé að finna gildishlaðinn texta neins staðar í regluverki borgarinnar eða upplýsingabæklingum.

Tillaga Flokks fólksins að Reykjavíkurborg endurskoði gjaldskrá fyrir ferðaþjónustu fatlaðra með það að markmiði að fólk geti keypt árskort fyrir aðgang að ferðaþjónustu fatlaðra og þurfi ekki að greiða fyrir hverja ferð.

Lagt er til að Reykjavíkurborg endurskoði gjaldskrá fyrir ferðaþjónustu fatlaðra með það að markmiði að fólk geti keypt árskort fyrir aðgang að ferðaþjónustu fatlaðra og þurfi ekki að greiða fyrir hverja ferð. Lagt er til að Reykjavík beiti sér fyrir því að árskort fyrir ferðaþjónustu fatlaðra gildi einnig til að ferðast með Strætó bs. á höfuðborgarsvæðinu. Ferðaþjónusta fatlaðra er á vegum Reykjavíkur, ekki Strætó og því gilda ólíkar verðskrár. Vegna þess gildir árskort fyrir öryrkja aðeins í strætó en ekki fyrir ferðaþjónustu fatlaðra, sem þó er á vegum Strætó bs. Verð fyrir stakar ferðir er það sama en gjaldskrá fyrir ferðaþjónustu fatlaðra bíður ekki uppá magnafslátt fyrir alla, svo sem með því að kaupa kort. Það er að vísu boðið upp á nemakort fyrir fatlaða nemendur í framhalds- og háskólum, en það kostar 22.600 á ári fyrir 16-17 ára og 52.900 á ári fyrir eldri.
Vísað til umsagnar Strætó bs.

Tillaga Flokks fólksins að Félagsbústaðir uppfæri heimasíðu sína hvað varðar leyfi til gæludýrahalds í samræmi við samþykkta tillögu Flokks fólksins um að leyfa hunda- og kattahald í félagslegum íbúðum í Reykjavík.

Flokkur fólksins leggur til að Félagsbústaðir uppfæri heimasíðu sína hvað varðar leyfi til gæludýrahalds í samræmi við samþykkta tillögu Flokks fólksins um að leyfa hunda- og kattahald í félagslegum íbúðum í Reykjavík. Á það hefur verið bent að þrátt fyrir að nú sé ár síðan tillagan var samþykkt hefur vefur Félagsbústaða ekki verið uppfærður í samræmi við hana og enn stendur þar að dýrahald sé bannað í íbúðum Félagsbústaða. Á þetta var sérstaklega bent á þingi Félags ábyrgra hundaeigenda s.l. laugardag. Til upprifjunar: 7. maí 2019 var samþykkt tillaga Flokks fólksins um heimild til dýrahalds í húsnæði Félagsbústaða. Flokkur fólksins lagði fram tillögu í borgarráði þann 16. september 2018 um að hunda- og kattahald í félagslegum leiguíbúðum yrði leyft. Tillögunni var vísað til stjórnar Félagsbústaða þar sem hún var tekin fyrir.  Óskað var álits og umsagnar stjórnar samtaka leigjenda á tillögunni. Stjórnin tók málið upp á félagsfundi og þar kom fram að eðlilegt þyki að fylgt sé ákvæðum laga um fjöleignarhús um m.a. að afla þurfi samþykkis annarra íbúa. Samþykkt var að leyfa hunda- og kattahald samkvæmt almennum reglum og samþykktum íbúa. Samþykktin hefur verið  kynnt íbúum í fjölbýlishúsum Félagsbústaða og henni framfylgt í samræmi við lög um fjöleignarhús og samþykktir Reykjavíkurborgar um katta- og hundahald.
Vísað til Félagbústaða.