Velferðarráð 20. maí 2020

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 20. maí, um reglur akstursþjónustu fatlaðs fólks:

Tillaga meirihlutans er að sameiginlegar reglur um akstursþjónustu fatlaðs fólks sem hafa verið samþykktar gildi áfram en núverandi reglur falli úr gildi. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort búið sé að reyna allt til að mæta þeim ábendingum sem fram eru settar á  minnisblaði starfshóps SSH. Enn má sjá að einhverjum atriðum er ólokið eða eru í bið. Í fyrri bókun Ff um þessi mál var lögð áhersla á samráð og jafnræði. Það er fólkið sjálft sem segir til um hverjar þarfir þeirra eru og óskir. Það á eftir að finna lausn á akstri utan höfuðborgarsvæðis. Það er einnig áhyggjuefni að fólk sem orðið hefur fyrir slysum eða eru í endurhæfingu fellur ekki endilega undir lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Hér er sagt  „ekki endilega“ sem þýðir án efa að sveitarfélag getur ráðið þessu ef það vill. Huga þarf áfram að þessum og fleiri atriðum þegar reglurnar verða endurskoðaðar. Flokkur fólksins leggur áherslu á sveigjanleika í öllu tilliti og að ávallt sé hægt að finna leiðir til að leysa sérþarfir fólks. Þriggja mínútna biðin má t.d. aldrei vera þannig að hún stressi fólk eða valdi álagi.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu velferðarráðs, dags. 20. maí, um nýtingu tæknilausna á velferðarsviði:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur samþykkt að vera með í tillögu um flýtingu á rafrænum lausnum en vill skerpa á mikilvægi þess að muna ávallt eftir að ekkert kemur í staðinn fyrir persónulega nálægð. Rafrænar lausnir eru sannarlega framtíðin og tekið var heljarstök í framþróun á snjalllausnum vegna Covid-19. Jákvæð reynsla er af nýtingu rafrænna lausna s.s. skjáheimsókna í heimahjúkrun og heimaþjónustu og víða. Innleiðing tæknilausna einfaldar margt en það sem fulltrúi  Flokks fólksins vill halda til haga er að það eru ekki allir sem nota snjalltækni til að hafa samskipti við umheiminn. Ástæður eru ótal margar. Þessum hópi fólks má ekki gleyma í allri snjalltæknigleðinni. Starfsfólk þarf að vera næmt á hvað hentar hverjum og einum og hvað hann þarf og vill. Notandi þjónustu á að stýra ferð enda er hann sá eini sem veit hvað hann þarf, vill og getur. Fulltrúi Flokks fólksins hefur nokkrar áhyggjur af því að persónuleg tengsl, nánd og snerting eigi eftir að dragast saman vegna allra þeirra rafrænu lausna sem nú eru í boði. Það má aldrei hverfa frá persónulegum tengslum þar sem fólk talar saman maður við mann. Einnig er mikilvægt að gera reglulega athuganir á rafrænum lausnum og hvernig þær eru að nýtast.

 

Bókun Flokks fólksins  við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um leigubílakostnað:

Lagt er fram svar við fyrirspurn Flokks fólksins um leigubílakostnað. Það sem hefur slegið fulltrúa Flokks fólksins er að þegar hann hefur mætt á viðburði á vegum velferðarsviðs má sjá eitthvað starfsfólk koma á leigubíl, stundum nokkrir saman í bíl en stundum einn í bíl. Þetta er ástæða þess að fulltrúi Flokks fólksins ákvað að leggja fram þessa fyrirspurn. Það er slæmt að geta ekki fengið nánari sundurliðun en hér er sett fram. Það er engin leið fyrir kjörna fulltrúa að hafa eftirlit með útgjöldum ef þau fást ekki sundurliðuð meira en svona. Í svari frá velferðarsviði er aðeins sundurliðað hve mikill heildarkostnaður var á hvert undirsvið velferðarsviðs og svo tekið dæmi um hvaða ástæður liggi að baki mestum hluta kostnaðarins, þ.e. „Önnur notkun á leigubílum er vegna vitjana á heimili, starfsstaði eða á fundi.“ Ekki orð er um það meir. Kjörnir fulltrúar verða að hafa nákvæmari upplýsingar til að geta sinnt sínu aðhaldshlutverki.  Það er hægt að láta trúnað gilda um þau gögn eftir atvikum. Það er alltaf hægt að réttlæta hvers konar útgjöld með vísan í að réttir aðilar hafi gefið grænt ljós vegna þeirra og að almennt séu góðar ástæður fyrir þeim.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu lykiltalna:

Flokkur fólksins fagnar því að sjá að margar tölur eru að lagast þegar kemur að biðlistum. Lækkun hefur orðið á fjölda þeirra sem bíða eftir félagslegu húsnæði sem dæmi. Minni lækkun er á öðru og hækkun á enn öðru. Sérstakar áhyggjur eru af biðlistatölum liðveislu en nú bíða 200 eftir slíkri þjónustu. Hér þarf að bretta upp ermar og finna leiðir.  Fjöldi þeirra sem bíða eftir frekari þjónustu skóla er 403 en var á sama tíma fyrir ári 236. Í þessu sambandi vill Flokkur fólksins minna á fyrirspurn um greiningu mála þeirra sem bíða eftir fyrstu og frekari skólaþjónustu.  Spurt var um hvaða þjónustu beðið er um fyrir þau 400 börn sem eiga tilvísun í kerfinu og bíða eftir fyrstu þjónustu skólasálfræðinga. Einnig er óskað eftir sundurliðun og nánari upplýsingum um hópinn sem bíður eftir „frekari“ þjónustu og hvernig þjónusta það er nákvæmlega sem verið er að vísa í þegar talað er um „frekari“ þjónustu. Fulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að vegna anna velferðarsviðs í tengslum við Covid-19 hefur ekki unnist tími til að svara þessum fyrirspurnum en vonandi fer nú að myndast meira svigrúm þegar faraldurinn er á undanhaldi.

Tillaga Flokks fólksins um að velferðarsvið skoði hvort nota megi farsóttahúsið, sem nú á að loka, fyrir mögulegt annars konar félagslegt úrræði

Flokkur fólksins leggur til að velferðarsvið skoði hvort nota megi farsóttahúsið, sem nú á að loka, fyrir mögulegt annars konar félagslegt úrræði. Nú hefur farsóttahúsinu verið lokað þar sem kórónuveiran er á undanhaldi. Flokkur fólksins leggur til að skoðað verði  hvort að hægt verði að nota þetta úrræði í öðrum félagslegum tilgangi. Það er alveg ljóst ef marka má skjót viðbrögð að skapa heimilisaðstæður fyrir fólk í neyð eins og þegar veirufaraldurinn skall á að enginn á að þurfa að vera heimilislaus í Reykjavík hvort sem faraldur geisar eða ekki. Það er fólk sem er í stökustu húsnæðisvandræðum þar sem það hefur ekki nægjanlegar tekjur til að greiða leigu. Enn bíða rúmlega 600 manns/fjölskyldur eftir félagslegu húsnæði. Það kann að vera að horfa megi sem dæmi á farsóttahúsið sem mögulegt úrræði til aðstoða fólk sem er í húsnæðiserfiðleikum af einhverjum ástæðum.

Frestað.