Velferðarráð 21. ágúst 2024

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á niðurstöðum notendakönnunar Pant akstursþjónustu maí – júní 2024.

Pant þjónustan hefur að mestu gengið ágætlega og búið er að sníða af ákveðna byrjunarhnökra. Þó hafa komið upp alvarleg tilvik sem eru mjög sláandi eins og þegar einstaklingur gleymist í bílnum eða er skilinn eftir. Það er reiðarslag og slíkt má einfaldlega aldrei gerast. Ekki liggur fyrir hvaða eða hvort gerð sé bakgrunnsathugun á bílstjórum áður en þeir byrja að keyra fyrir Pant, þjálfun þeirra og símenntun. Bent er á að stór hluti notenda þjónustunnar fer um í leigubílum, eitt með bílstjóra. Þetta er viðkvæmasti hópur samfélagsins. Þá verður utanumhaldið að vera gríðarlega öruggt. Vankantar snúa helst að biðtíma í símsvörun þjónustuvers Pant akstursþjónustu og hversu stuttur eða langur biðtími er í símsvörun þjónustuvers Pant akstursþjónustu. Einnig er umtalsverð óánægja með lengd opnunartíma hjá Pant akstursþjónustu. Einnig þarf að bæta stundvísi hjá Pant akstursþjónustu. Könnunin nær ekki til persónuverndarmála. Hvað finnst notendum um það að Persónuvernd hafi komist að þeirri niðurstöðu að Strætó bs., sem ábyrgðaraðili hafi ekki fullnægt kröfum persónuverndarlaga um viðeigandi öryggisráðstafanir við vinnslu persónuupplýsinga í kerfum Strætó bs. 2023? Einnig má nefna mikilvægi þess að kalla eftir hvernig upplýsingar um farþega/notenda eru skráðar, hvaða upplýsingar bílstjórar fá og hvaða verkferlum þeir eiga að vinna eftir.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram minnisblað um styrk til áfangaheimilisins Lítillar þúfu, dags. 19. ágúst 2024.

Nú er komin sú alvarlega staða að mygla hefur greinst í húsnæðinu við Snekkjuvog og því verður að finna nýtt heimili fyrir áfangaheimilið. Flokkur fólksins telur afar brýnt að áfangaheimilið Lítil þúfa geti haldið áfram rekstri en það er eina áfangaheimilið sem er rekið eingöngu fyrir konur, utan Njálu sem Reykjavíkurborg rekur. Þann 1. mars 2023 tók fasteignafélagið Lítil þúfa að sér rekstur Dyngjunnar og óskaði í kjölfarið eftir því að taka húsnæðið að Snekkjuvogi til leigu. Eignaskrifstofa Reykjavíkurborgar og almannahagsmunafélagið Lítil þúfa gerðu með sér húsaleigusamning í júní 2023 þar sem kveðið er á um styrk til innri leigu. Uppreiknaður kostnaður á innri leigu vegna Snekkjuvogs er um 6,7 m.kr. á ári. Nú óskar Lítil þúfa eftir því að Reykjavíkurborg auki styrkveitingu til innri leigu sem eykur möguleika félagsins á að finna annað húsnæði. Samkvæmt minnisblaði hefur Reykjavíkurborg hingað til ekki veitt styrki til húsaleigu áfangaheimila en Flokkur fólksins styður að það sé gert í þessu tilfelli. Hægt er að benda á að velferðarsviði ber skv. 2. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, að veita aðstoð og ráðgjöf til einstaklinga með fíknivanda.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á niðurstöðu dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli júlí 2024.

Reykjavíkurborg var dæmd til að greiða konu eina milljón króna í skaðabætur vegna tafa borgarinnar við afgreiðslu umsóknar konunnar um NPA þjónustu árið 2019. Hér er um fordæmisgefandi dóm að ræða og vænta má að fleiri sæki rétt sinn. Vegna tafa á meðferð kom konan ekki til greina við úthlutun NPA. Féllst dómur á það sjónarmið að vegið hafi verið að persónu konunnar og sé borgin ábyrg fyrir því. Um var að ræða 5 ára töf án haldbærra skýringa. Flokki fólksins finnst það blasa við að þessar afsakanir borgarinnar standast ekki skoðun. Enda þótt tafir hafi verið á setningu reglnanna hafi ekki þurft að tefja meðferð. Þessi dómur er fordæmisgefandi og munu fleiri án efa fylgja með tilheyrandi kostnaði fyrir Reykjavík. Í raun hefði mátt segja sér að ekki allir láta bjóða sér að fá ekki nauðsynlega þjónustu sem þeir eiga rétt á og síðan vera settir á bið í 5 ár.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram drög að erindisbréfi starfshóps um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA),beingreiðslusamninga og húsnæði fyrir fatlað fólk.

Starfshópurinn á að skila í október næstkomandi. Hlutverk hans er viðamikið og verkefni margslunginn. Þessi starfshópur er að að mati Flokks fólksins of fjölmennur. Nánast útilokað má telja að hópurinn nái að hittast nógu oft til að fjalla um öll þau verkefni sem honum er ætlað. Fjölmennir hópar eiga gjarnan erfitt með að finna tíma sem allir komast á fund og eru því lítið skilvirkir. Flokkur fólksins styður hins vegar að starfshópur verði stofnaður og öll þau verkefni sem starfshópurinn á að vinna að og óskar honum velfarnaðar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs, dags. 1. júlí 2024, ásamt drögum að umsögn velferðarráðs, dags. 19. ágúst 2024, um reglur um áfengisveitingar á íþróttaviðburðum.

Til kynningar eru drög að umsögn velferðarráðs um reglur um áfengisveitingar á íþróttaviðburðum. Flokkur fólksins getur tekið undir flest það sem segir í umsögn, einkum það að hagsmunir barna eigi að ráða för þegar tekin er ákvörðun um hvort leyfa eigi áfengi á íþróttaviðburðum. Flokkur fólksins telur mikilvægt að hafa lýðheilsusjónarmið að leiðarljósi í allri slíkri ákvarðanatöku. Flokkur fólksins styður stefnu stjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum þar sem fram kemur að ein mikilvægasta aðgerðin til að draga úr skaðlegum áhrifum áfengis og að vernda viðkvæma hópa eins og börn og ungmenni, sé að takmarka aðgengi. Ef tekin verður ákvörðun um að leyfa sölu áfengis á íþróttaviðburðum þá er brýnt að það verði ýmsum takmörkunum háð eins og að einungis væri hægt að kaupa og neyta áfengis á afmörkuðu svæði stúkunnar þar sem börnum er óheimill aðgangur. Leikihinn minnsti vafi á aldri kaupanda þarf hann að sýna viðurkennt skilríki, vegabréf eða ökuskírteini. Þá er líka mikilvægt að hafa í boði áfengislaus svæði fyrir börn og barnafjölskyldur.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram ársskýrsla vettvangsgeðteymis Reykjavíkurborgar 2023.

Í ársskýrslunni kemur fram að á síðasta ári var stutt netkönnun send á alla stjórnendur íbúðakjarna fyrir fólk með geðfötlun, deildarstjóra og ráðgjafa í málefnum fatlaðs fólks hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Markmið könnunarinnar var að kanna upplifun þeirra af stuðningi og ráðgjöf vettvangsgeðteymisins. Í þjónustukönnuninni kemur helst fram að 71% þátttakenda eru mjög ánægð með stuðning og ráðgjöf frá vettvangsgeðteyminu og 22% frekar ánægð. Um er að ræða viðunandi niðurstöður en fulltrúi Flokks fólksins bendir á að um 30 prósent eru ekki ánægð. Helsta umkvörtunarefnið var að það þyrfti fleiri stöðugildi til teymisins svo það nái að anna öllum málum. Það kemur þó fram að 100% þátttakenda telur að aðkoma frá teyminu hafi haft jákvæð áhrif á lífsgæði íbúa og 62% telja að aðkoma teymisins hafi nýst sínum starfsstað að mjög miklu leyti til að styðja betur við íbúa.


Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð samráðshóps SSH um velferðarmál 5. júní 2024.

Undir lið 1 í fundargerð samráðshóps SSH um velferðarmál frá 5. Júní 2024 er fjallað um hvort ráða eigi einn eða tvo verkefnastjóra og myndi fulltrúi Flokks fólksins telja að einn dugi í 100% starfshlutfall. Mikilvægt er að halda allri yfirbyggingu í lágmarki til að tryggja skilvirkni og sparnað. Undir lið 2, Jöfnunarsjóður, samtal vegna umsókna í sjóðinn er enga bókun frá Reykjavík að finna og er því ekki gott að vita hvernig borgin ávarpaði þennan lið. Undir lið 3, Samhjálp vetraropnun vill Flokkur fólksins koma því að hér að hann styður að auka mannskap komi til opnunar næsta vetur og að settur verði í forgang kostnaður vegna þátttöku í VoR teyminu við gerð næstu fjárhagsáætlunar. Undir lið 6, Félagslegt leiguhúsnæði, eignasafn sveitarfélaga hlakkar Flokkur fólksins til að sjá fjölda félagslegs leiguhúsnæðis í sveitarfélögum eins og Garðabæ og Seltjarnarnesbæ.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 19. ágúst 2024, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um niðurfellingu á hækkun fjárhagsaðstoðar vegna meðlagsgreiðslna.

Flokkur fólksins óskaði upplýsinga um hvaða áhrif niðurfelling á hækkun fjárhagsaðstoðar vegna meðlagsgreiðslna þýddi fyrir einstaklinga í þessari stöðu. Breytingin felur í sér að ekki er lengur veitt aukin fjárhagsaðstoð sem samsvarar fjárhæð meðlagsgreiðslna sem greidd var beint til Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Í svari kemur fram að enda þótt brottfall 13. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg hafi ekki haft áhrif á upphæð fjárhagsaðstoðar til framfærslu þá mun viðkomandi safna upp meðlagsskuld hjá Innheimtustofnun sem þarf að greiða á endanum nema að viðkomandi lýsi sig gjaldþrota. Það er ekki öllum ljóst sem eru í þessari stöðu að þeir stofni til skuldar við Innheimtustofnun sveitarfélaga sem nemur einu meðlagi á mánuði þann tíma sem viðkomandi fær fjárhagsaðstoð. Ef skuldir verða miklar er hugsanlega hægt að semja við ríkið um lækkun skuldar í gegnum umboðsmann skuldara. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þessum hópi og hvetur velferðarsvið að halda utan um hann og gefa þeim greinargóðar upplýsingar.