Bókun Flokks fólksins við Kynningu á verkefninu Karlar í skúrum
Þetta er flott verkefni, aðalatriði er að veita aðstöðuna og leggja áherslu á að þetta er fyrir alla karla sem hafa áhuga á að vinna að áhugamálum sínum, verkefnum eða list sinni með öðrum körlum í skúr af hvaða orsökum sem það eru án þess að það þurfi að draga það sérstaklega fram. Borgarfulltrúa finnst mikilvægt að karlarnir sjálfir ákveði sínar reglur fyrir sinn skúr þegar þeir hafa myndað félag í kringum hann. Sjálfbærni og sjálfstæði skiptir miklu máli fyrir einingar sem þessar.
Bókun Flokks fólksins við Kynning á skýrslu átakshóps í húsnæðismálum
Flokkur fólksins fagnar þeirri samstöðu sem náðist við vinnslu þessarar skýrslu um framboð í húsnæðismálum. Í mörg horn er að líta og margt jákvætt er í gangi. Áhyggjur eru engu að síður af þeim sem eru fjárhagslega illa settir og hafa hvorki ráð á að kaupa húsnæði né leigja. Miðborgin er sem dæmi að taka á sig sérkennilega mynd. Eins og staðan er núna eru sum hverfi borgarinnar býsna einsleit. Miðborgin og nágrenni hennar er að verða hverfi sem einungis stendur ríkara fólki eða ríkum til boða. Eignir miðsvæðis standa ekki láglaunafólki lengur til boða hvað þá fátæku fólki. Túristar njóta vissulega góðs af því lífi sem ríkir í miðbænum. Margt úthverfafólk kemur kannski helst í bæinn á tyllidögum og margir í úthverfum sækja alla þjónustu í hverfið sitt eða næstu verslunarmiðstöð. Fátæku fólki hefur verið úthýst úr miðborginni að áliti margra og einhverjir velta því sannarlega fyrir sér hvernig mál eiga eftir að þróast á þessu svæði í framtíðinni. Leggja þarf allt kapp á að byggja í sem flestum hverfum ólíkar tegundir af húsnæði á ólíku verðbili, allt frá dýrum eignum til eigna sem eru seldar eða leigðar á „viðráðanlegu“ verði. Ef íbúðir á viðráðanlegu/ódýrari íbúðir eru staðsettar með dýrum og dýrari eignum spyrnum við fótum við frekari stéttaskiptingu.