Borgarstjórn 17. september 2019

Á fundi borgarstjórnar í gær óskaði ég eftir umræðu um ábyrgð borgarinnar á þeim sem þiggja mataraðstoð frá frjálsum félagasamtökum, Í sumar myndaðist neyðarástand þegar 3600 manns sem ekki áttu peninga til að kaupa mat fékk ekki að borða vegna þess að frjáls félagasamtök sem eru með matargjafir lokuðu. Með umræðunni vildi ég kalla eftir ábyrgð borgarinnar á fólki sem vegna fjárhagserfiðleika hefur orðið að setja allt sitt traust á félagasamtök. Á sama tíma og staða hagkerfisins er góð og borgin státar af hagnaði er engu að síður á fjórða þúsund manns sem ekki fær grunnþörfum sínum mætt eins og að fá að borða og þarf að treysta á matargjafir

Eftirfarandi var bókað af Flokkis fólksins

Á sama tíma og meirihlutinn setur á dagskrá sjálfshrós fyrir að virða frelsi og fjölmenningu stóðu 3600 manns fyrir framan lokaðar dyr frjálsra félagasamtaka í sumar þar sem þeir treystu á að fá mat. Meirihlutinn í borginni virðist ekki hafa vitað af lokununum og ekki vitað um stöðu þessa stóra hóps fátæks fólks sem átti ekki til hnífs og skeiðar og höfðu engin ráð þegar frjáls félagasamtök gátu ekki veitt matargjafir. Flokkur fólksins minnir á að: „Sveitarfélag skal sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögum og tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Aðstoð og þjónusta skal jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf“.  Af hverju virðir meirihlutinn í borgarstjórn ekki þessi lög? Hér er kallað eftir ábyrgð borgarmeirihlutans og að borgin sinni lögbundnum skyldum sínum. Ekki liggur fyrir hvort velferðarkerfið hafi athugað með þennan stóra hóp nú þegar vetur gengur í garð. Enginn á að þurfa að eiga lífsviðurværi sitt undir frjálsum félagasamtökum. Hér þarf greinilega að endurreikna fjárhagsaðstoð, í það minnsta þannig að hún dugi fólki fyrir mat.

 

Bókun við liðnum: Ábyrgð á 1.6 milljarða króna láni til Sorpu vegna mistaka

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. september sem hefur að gera með ábyrgð á lántöku SORPU bs. hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Afgreiðsla: Samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Bókun Flokks fólksins v. láns til Sorpu

Framkvæmdastjóri Sorpu óskar eftir að Reykjavík veiti samþykki sitt fyrir lántöku vegna mistaka sem gerð voru hjá Sorpu. Sótt er um 990 milljóna króna lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Hér þarf að staldra við enda engar haldbærar skýringar á af hverju það vantar rúman 1.6 milljarð inn í rekstur Sorpu. Meirihlutinn í borginni spyr einskis, tilbúinn að samþykkja möglunarlaust að ganga í ábyrgð fyrir láni af þessari stærðargráðu. Bæjarráð Seltjarnarness segist ekki ætla að ganga í ábyrgð fyrir láninu. Reykjavík sem meirihlutaeigandi situr í súpunni þegar kemur að þessum byggðasamlögum. Borgin tekur mesta skellinn á meðan hin sveitarfélögin sigla lygnari sjó. Sum sleppa vel með margt annað líka t.d. að koma upp félagslegu húsnæði. Flokkur fólksins bar fram tillögu um að borgin skoði fyrirkomulag byggðasamlaga með tilliti til lýðræðislegra aðkomu borgarbúa að þeim. Hún var ekki samþykkt. Í þessu klúðri Sorpu kristallast þetta. Þótt Sorpa sé í eigu allra sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins þarf Reykjavík að bera þungann af fjármögnun hennar. Ef borgin ætlar að halda áfram að vera „mamman“ þarf fjárhagsleg ábyrgð Reykjavíkur á rekstri byggðasamlaga að vera meiri en ábyrgð annarra sveitarfélaga þá á Reykjavík jafnframt að hafa stjórnunarheimildir í samræmi við þá ábyrgð.

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins að borgarstjórn samþykki að aðild Reykjavíkur að byggðasamlögum verði skoðuð með tilliti til þess að auka lýðræðislega aðkomu reykvíkinga að þeim.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að aðild Reykjavíkur að byggðasamlögum verði skoðuð með tilliti til þess að auka lýðræðislega aðkomu reykvíkinga að þeim. Byggðasamlög eins og þau starfa nú, eru fjarlæg hinum almenna borgara. Þau eru stofnun sem setur sér eigin starfsreglur og eigin stefnu. Innan þeirra fer ekki saman fjárhagsleg ábyrgð og ákvarðanataka. Í núverandi kerfi mun byggðasamlögum fjölga frekar en fækka. Lýðræðishallinn vex. Ef þörf er á fjölda byggðasamlaga er ástæða til að huga að sameiningu þeirra sveitarfélaga sem þau mynda. Reykjavík getur ekki í núverandi byggðasamlögum tekið ákvarðanir um mikilvæg atriði sem kunna að skipta borgarbúa miklu án þess að njóta stuðnings a.m.k. tveggja annarra sveitarfélaga og það þótt Reykjavík beri lang mestu fjárhagslegu ábyrgðina.

Greinargerð
Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar gerði árið 2011 stjórnsýsluúttekt á byggðasamlögum borgarinnar nánar tiltekið Strætó, Sorpu og Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Þar kom fram að sambandsleysi virtist vera milli eigenda byggðasamlaganna og stjórna þeirra. Stjórnir félaganna hefðu stundum farið út fyrir verksvið sitt og jafnvel tekið veigamiklar ákvarðanir sem féllu ekki að væntingum eigendanna. Reykjavíkurborg hefur jafnvel gert málamiðlanir á kostnað eigin hagsmuna.

Innri endurskoðun benti á í sinni stjórnsýsluúttekt á byggðasamlögum borgarinnar að byggðasamlagsformið kæmi sér best þegar samstarf fæli í sér lögbundin verkefni en betra væri að nota annað félagsform þegar starfsemi fæli í sér starfsemi sem ber einkenni almenns einkareksturs á samkeppnisgrundvelli, eins og ætti við um Sorpu og Strætó.

Stjórn Sorpu er skipuð einum stjórnarmanni frá hverju sveitarfélagið höfuðborgarsvæðisins. Atkvæðavægi þeirra er hlutfallslegt og miðar við íbúafjölda sveitarfélaga. Reykjavík hefur því mest atkvæðavægi af sveitarfélögunum. Samþykki ¾ hluta atkvæðavægis eða a.m.k. 3 sveitarfélaga þarf fyrir ákvörðunum um gjaldskrár, fjárfestingar, ólögbundin útgjöld og meiri háttar skuldbindingar. Reykjavík getur því ekki í krafti atkvæða sinna tekið ákvarðanir um framangreinda hluti án þess að njóta stuðnings a.m.k. tveggja annarra sveitarfélaga.

Samkvæmt starfsreglum stjórnar Strætó er atkvæðavægi stjórnarmanna í hlutfalli við íbúatölu en samþykki ¾ hluta atkvæðisvægis í stjórn, þó aldrei færri atkvæði en þriggja aðildarsveitarfélaga, þarf til að þær ákvarðanir öðlist gildi sem varðar rekstrarkostnaðarskiptingu, meiriháttar fjárfestingar, stofnun eða þátttöku í dótturfélögum, breytingar á gjaldskrá eða breytingar á þjónustustigi. Sama gildir um upptöku nýs leiðakerfis, að hluta eða í heild. Því getur Reykjavík ekki tekið ákvarðanir um þau málefni í krafti atkvæðavægis nema með stuðningi a.m.k. 2 annarra sveitarfélaga og a.m.k. ¾ hluta atkvæðavægis. Þá er í starfsreglum stjórnar Strætó ákveðið að sveitarfélögin skuli skipta með sér formennsku á 2 ára fresti.

Nú stendur til að nýtt byggðasamlag verði stofnað í kringum hina umdeildu Borgarlínu og því er eðlilegt að borgarbúar spyrji sig hvort Reykjavík muni þar einnig bera skertan hlut frá borði. Þegar byggðasamlög eru í meirihlutaeigu Reykjavíkurborgar verður að tryggja að Reykjavíkurborg fái viðhlítandi stjórn og yfirsýn með rekstri þeirra. Ákvarðanataka verður  að vera gegnsæ. Hætta er á að þar verði misbrestur hjá byggðasamlögum.

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela borgarstjóra að taka upp viðræður um fyrirkomulag á rekstri og stjórnun sameiginlegra fyrirtækja sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu á vettvangi stjórnar og fulltrúaráðs SSH. SSH starfar á grundvelli ákvæða sveitarstjórnarlaga um landshlutasamtök sveitarfélaga og er markmið þeirra að vera vettvangur samráðs og samstarfs aðildarsveitarfélaga, vinna að sameiginlegum hagsmunamálum þeirra og vera sameiginlegur málsvari. SSH er jafnframt sameiginlegur vettvangur sveitarfélaganna til að fjalla um rekstur þeirra byggðasamlaga sem sveitarfélögin reka sameiginlega hverju sinni auk þess sem fulltrúaráð SSH hefur það skýra hlutverk að mynda samráðsvettvang vegna reksturs þeirra byggðasamlaga sem sveitarfélögin reka sameiginlega hverju sinni. R19090193

Breytingartillagan er samþykkt.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Tillagan svo breytt er samþykkt.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarmeirihlutinn virðist ætla sætta sig við að hafa alla þessa fjárhagslegu ábyrgð en hlutfallslega litlar stjórnunarheimildir. Það er blóðugt í ljósi bakreiknings frá Sorpu en nákvæmlega þar kristallast hin vonda staða Reykjavíkur í byggðasamlögum. Ef fjárhagsleg ábyrgð Reykjavíkur á rekstri byggðasamlaga á að vera meiri en ábyrgð annarra sveitarfélaga, verður Reykjavík að hafa stjórnunarheimildir í samræmi við þá ábyrgð. Stjórn Sorpu er skipuð einum stjórnarmanni frá hverju sveitarfélagi höfuðborgarsvæðisins. Samþykki ¾ hluta atkvæðavægis eða a.m.k. 3 sveitarfélaga þarf fyrir ákvörðunum um gjaldskrár, fjárfestingar, ólögbundin útgjöld og aðrar skuldbindingar. Horfa ætti til stjórnsýsluúttektar árið 2011 á byggðasamlögum borgarinnar þar sem staðfest er tengslaleysi milli eigenda byggðasamlaganna og stjórna þeirra. Dæmi eru um að stjórnir byggðasamlaga fóru út fyrir verksvið sitt og tóku veigamiklar ákvarðanir sem féllu ekki að væntingum eigendanna. Reykjavíkurborg hefur jafnvel gert málamiðlanir á kostnað eigin hagsmuna.. Þetta fyrirkomulag er ekki gott eins og kom í ljós þegar beiðni frá Sorpu um viðbótarframlag upp á 1.6 milljarð var sett fram vegna „mistaka“. Þetta er ekki borgarbúum bjóðandi. Meirihlutinn í Reykjavík á að ganga í verkið og fara fram á breytingar án þess að hengja sig á Samtök Sveitarfélaga eins og hann leggur til hér.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við yfirlýsingu meirihlutans um Fjölmenningarborgina Reykjavík í samræmi við þátttöku borgarinnar í verkefninu „Intercultural Cities“:

Margt gott hefur verið gert til að auka fjölmenningu, fjölbreytileika og styrkja minnihlutahópa.  Innan okkar samfélags vill Flokkur fólksins einnig minna á að það eru aðrir fjölbreytilegir minnihlutahópar sem ekki njóta nægjanlegs stuðnings. Hér er vísað til eldri borgara, öryrkja og barna sem þurfa sérþjónustu af ýmsu tagi. Grunnþjónusta við þessa hópa er ekki viðunandi, biðlistar eru nánast hvert sem litið er.  Varla eru þeir gleymdir sem bíða eftir hjúkrunarrými en lengd biðlista náði hámarki 2018 eftir stöðuga fjölgun frá 2014. Hvað varðar innflytjendur lagði Flokkur fólksins til að sett yrðu á laggirnar námskeið fyrir innflytjendur þar sem sérstaklega yrði miðað að því að kenna málið í tengslum við atvinnuumsóknir og atvinnuviðtöl. Hér er brýnt að túlkað sé á máli viðkomandi en á íslenskunámskeiðum eru margir þjóðfélagshópar, margar mállýskur og ólíkar þarfir.  Til að auðvelda aðlögun og draga úr einangrun er brýnt að komast út á vinnumarkað. Innflytjendur hafa einangrast, t.d. í Breiðholti, þar sem segja má að félagsleg blöndun hafi mistekist. Tillagan var felld. Börn af erlendu bergi sem eru fædd hér á landi eru mörg afar illa stödd í íslensku máli eins og kemur fram í skýrslu innri endurskoðunar um skólamálin. Hér þarf einnig að gera betur. Sem sagt minnihlutahópar eru alls konar.

Bókun borgarfulltrúa Flokks fólksins við umræð um skýrslu innri endurskoðunar um úthlutun fjárhagsramma og rekstur grunnskóla Reykjavíkur.

Einn stærsti veikleikinn sem skýrsla innri endurskoðunar fjallar um snýr að útdeilingu fjármagns til skólanna. Hvergi í þessu ferli hafa skólastjórnendur aðkomu en þeir geta sent óskalista um viðbótarfjármagn. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst skólastjórnendum ekki sýnd virðing hér.  Fjárveitingarvaldið hlustar ekki á fólkið á planinu. Hið margplástraða reiknilíkan sem lýst er hélt maður fyrst að væri bara eitthvað grín. Úrelt líkan sem lifir sjálfstæðu lífi er farið að stýra fjármagni til skólanna. Svelt skólakerfi sem á að vera skóli án aðgreiningar hefur dregið dilk á eftir sér. Ömurlegar afleiðingar var fyrirsögn í einu fréttablaðinu þar sem fjallað var um skóla án aðgreiningar. Menntun á að vera fyrir alla. Ef þetta á að heita skóli án aðgreiningar þarf að sjá til þess að hann sé það í raun og það kostar að hafa þann útbúnað, aðstæður og mannafla til að sinna fjölbreyttri flóru barna með fjölbreyttar þarfir. Í mörg ár hefur skóla- og frístundasviðinu verið naumt skammtað og getur því ekki deilt nauðsynlegu fé til skólanna. Skólarnir fara þess vegna fram úr áætlun og til að mæta fjárskorti er klipið af nemendatengdum stöðugildum. Skólarnir hafa einnig þurft að gera ráð fyrir mun minni yfirvinnu en er í raun, skera niður sérkennslu og stuðning við börnin svo fátt eitt sé nefnt.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við tillögu Sósialistaflokksins um að Reykjavíkurborg stofni tónlistarskóla með það að markmiði að halda kostnaði í lágmarki fyrir þau börn sem koma til með að sækja skólann og/eða skólana.

Á borgarstjórnarfundi nú er einnig lagt til að borgarstjórn samþykki viðauka vegna tónlistarskóla að upphæð 27.888 þ. kr. Um er að ræða frávik á framlagi Jöfnunarsjóðs í tengslum við tónlistarskóla sem kom í  ljós við rýningu og samanburð á greiðslum frá Jöfnunarsjóði til Reykjavíkurborgar vegna náms í söng og hljóðfæraleik. Flokki fólksins finnst hér komin ein ástæða þess að borgin ætti að skoða að reka sjálf tónlistarskóla.  Fimm tónlistarskólar kenna um 83% af kennslumagni í borginni á efri námsstigum. Safnast hafa upp frávik milli fjárheimilda hjá borginni og greiðslna Jöfnunarsjóðs inn í borgarsjóð fjögur undanfarin ár.  Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst að kominn sé tími til að endurskoða þetta með það í huga að taka tónlistarkennslu af fjölbreyttu tagi inn í skólakerfið. Ávinningurinn af því er sá að með því fyrirkomulagi er betur séð til þess að öll börn geti tekið þátt í tónlistarnámi óháð efnahag foreldra. Eins og vitað er dugar Frístundakortið engan veginn fyrir tónlistarnámi í einkareknum tónlistarskóla auk þess sem efnalitlir foreldrar eru stundum tilneyddir til að nota Frístundakortið sem gjaldmiðil fyrir frístundaheimili til að þeir komist út á vinnumarkað.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við tillögu meirihlutans um að minnka álagstoppa í umferð með því að auka sveigjanleika opnunartíma stofnana og fyrirtækja borgarinnar og stuðla jafnframt að því að aðrir atvinnurekendur geri slíkt hið sama.

Flokkur fólksins lagði fram í borgarráði sambærilega tillögu: „að fleytitími verði enn sveigjanlegri en hann er í þeim störfum sem upp á það bjóða með það að markmiði að  létta á umferðinni í og úr miðbænum á ákveðnum tíma árdegis og síðdegis“. Einnig var lögð fram tillaga um: „að  borgin beiti sér í ríkari mæli í að atvinnufyrirtæki rísi í úthverfum frekar en í miðborginni“. Til að létta enn meira á álagi í umferðinni inn og úr miðbænum á meðan almenningssamgöngur eru ekki raunhæfur valkostur, var lagt til að skoðað yrði gaumgæfilega hvaða fyrirtæki sem nú eru í miðbænum mætti hugsanlega færa í úthverfin. Formanni borgarráðs hugnaðist ekki þessi tillaga og var henni vísað frá á sama fundi án frekari orða. Nú hefur tillagan verið lögð fram að nýju en af öðrum flokki en Flokki fólksins og nú er annað upp á teningnum, sem betur fer. Í það minnsta á ekki að vísa henni frá. Vissulega er sama hvaðan gott kemur en engu að síður vekur þetta upp spurningar um hvort það skipti máli hvaða flokkur í minnihluta leggur fram tillögur og án efa skiptir máli hverjir eru í forsvari funda hverju sinni.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 28. ágúst.

Sameiginlegur fundur skipulags- og umhverfisráðs var haldinn í Viðey 28. ágúst. Um var að ræða einhvers konar samráðsfund að sagt var þar sem skrifstofa umhverfisgæða, samgöngustjóri og skipulagsfulltrúar sögðu frá megináherslum og breytingum á milli ári. Orkuskipti voru meðal umræðuefna. Flokkur fólksins hefur ítrekað spurt um metan sem nóg er framleitt af. Hjá SORPU er verið að auka nýtingu á lífrænum úrgangi. Meðal annars með sérsöfnun á lífrænum eldhúsúrgangi. Nýja stöð er verið að reisa í Álfsnesi. Það þýðir að meira metan verður til. Hvað á að gera við allt þetta metan? Ef það verður ekki nýtt sem orkugjafi, á þá að stækka metanbálið í Álfsnesi? Í komandi orkuskiptum spyr Flokkur fólksins hvort ekki þarf að leggja áherslu á að borgin nýti þetta metan eða selji það? Engin svör hafa borist og ekkert af sviðum og ráðum sem bera ábyrgð á orkuskiptum í borginni hafa brugðist við þessum fyrirspurnum. Í raun er ekkert sem bendir til þess að verið sé að vinna í þessu. Engin skýr svör hafa heldur borist hvað Strætó bs. hyggst gera  í þessum efnum. Ætlar Strætó að fjárfesta í fleiri metanvögnum?