Velferðarráð 6. mars 2019

Tillaga Flokk fólksins um að setja á laggirnar vinnuhóp um þróun félagsmiðstöðva aldraðra

Lagt er til að Reykjavíkurborg skoði aðrar og nýjar leiðir með því að beita nýsköpun við uppsetningu og þróun félagsmiðstöðva í þjónustu við aldraða. Flestar þær félagsmiðstöðvar sem nú eru starfræktar í borginni eru með svipuðu sniði og eflaust þjóna sínum tilgangi vel. Því hefur þó verið fleykt fram að karlmenn sæki þær síður en konur. Getur það verið vegna þess hvernig þær eru skipulagðar og uppbyggðar? Einnig ber að hafa í huga að þeir sem nú eru að hefja sín efri ár eru með annars konar reynslu en eldri borgarar fyrir 20-30 árum. Menntunarstig þeirra er hærra og lífstíll annars konar en var þegar flestar þeirra félagsmiðstöðva sem nú eru starfræktar voru opnaðar.

Flokkur fólksins leggur til að settur verði í gang vinnuhópur sem beiti aðferðum nýsköpunar til að þróa nýjar þjónustuleiðir og afþreyingu fyrir eldri borgara Reykjavíkur og leiti leiða til að veita notendum meiri lífsfyllingu og ánægju á efri árum.

Greinargerð
Það er mat í það minnsta sumra að tímabært sé að endurbæta starfsemi félagsmiðstöðva eldri borgara. Karlmenn sækja félagsmiðstöðvarnar og þeirra starf miklu minna en konur. Giska má á að hlutfallið sé  65/35 konum í vil, amk. er það tilfellið í sumum félagsmiðstöðvum. Starfsemin er með svipuðu sniði í flestum stöðvunum, eftir því sem hefur heyrst. Alls staðar er handavinna af ýmsu tagi, félagsvist, gömlu dansarnir, sums staðar leikfimi fyrir aldraða, kirkjustarf á vegum þjóðkirkjunnar, söngur, og víða gönguhópar. Hægt er að hugsa ýmislegt í þessu sambandi er varðar alls kyns virkni og tilboð á tómstundum og afþreyingu sem ekki hefur áður sést á félagsmiðstöðvum.

Aðalmálið er að hafa nægt framboð af áhugaverðum tilboðum þannig að fólki hafi ávallt val og eitthvað sé fyrir alla. Eldri borgarar eru eins og aðrir aldurshópar breiður hópur með ólíkar þarfir og áhugamál. Sums staðar er kínversk leikfimi, Boccia, Pútt, gönguhópur sem allt mætti vera víðar sem dæmi. Einnig mætti skoða að nota músik meira í starfinu til dæmis hlusta á gamlar grammófónplötur eða  hljómplötur frá bítlatímanum ofl.  Borgarfulltrúi Flokks fólksins ræddi við nokkra eldri borgara og eru margir ánægðir en aðrir ekki eins ánægðir. Nokkrir voru sammála um að fátt sé í starfi amk einstakra félagsmiðstöðva sem höfðar til þeirra sem fæddir eru eftir c.a 1943-1950. Fleiri hugmyndir sem Flokkur fólksins vill benda á er að vel kann að vera að einhverjir eldri borgara vildu taka meira þátt í sjálfboðaliðastarfsemi en nú er í boði. Að skapa aðstæður þar sem eldri borgarar og börn geti hist og átt stund saman myndi gagnast öllum. Eldri borgarar hafa svo margt fram að færa, mikla reynslu og sögur frá fyrri árum. Það gleður hjarta þeirra að hitta börn og umgangast gæludýr. Allt svona lagað mætti auka. Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg fari i skoðun á þessu með það í huga hvort hægt er að breyta, bæta og nútímafæra starfið.

Tillagan samþykkt á fundi velferðarráðs 24.4.