Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, um hækkun grunnfjárhæða fjárhagsaðstoðar til framfærslu
Meirihlutinn leggur til að fjárhæðir fjárhagsaðstoðar verði hækkaðar um 3,2%. Grunnfjárhæð fyrir einstakling sem rekur eigið heimili hækkar úr 239.895 kr. í 247.572 kr. á mánuði. Flokkur fólksins telur þetta vera smánarlega litla hækkun sérstaklega í ljósi mikillar dýrtíðar og hefur matarkarfan hækkað gríðarlega. Fulltrúi Flokks fólksins telur að við ákvörðun um árlega uppfærslu fjárhagsaðstoðar verði að hafa í huga að þeir sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda lifa við fátækt og jafnvel sárafátækt. Flokkur fólksins var stofnaður til að að berjast gegn fátækt en því miður hefur fátækt aukist í Reykjavík og einnig almennur ójöfnuður. Við fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 lagði Flokkur fólksins til hækkun á grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar og ætti hækkunin að miða við prósentuhækkun matarkörfunnar. Þá lagði Flokkur fólksins til að grunnfjárhæð fyrir einstakling hækki úr 228.689 kr. á mánuði í 257.046 kr. Það sorglega er að grunnfjárhæðin sem nú er lögð til er langt undir þeirri fjárhæð. Þá vill fulltrúi Flokks fólksins vekja athygli á því að upphæð fjárhagsaðstoðar í Reykjavík á árinu 2024 samanborið við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu var sú næst lægsta, eingöngu Mosfellsbær var með lægri upphæð. Þetta er auðvitað til skammar.