Skipulags- og samgönguráð 27. apríl 2022

Bókun Flokks fólksins við liðnum Rauðhólar, nýtt deiliskipulag:

Búið er að skemma flesta Rauðhóla. Heilu hólunum var mokað í burtu á sínum tíma, grafið í aðra og þeir skemmdir og nú stendur eftir alls konar form af „hólum“, allt skemmdir af mannanna völdum. Skemmdir vegna efnistöku eru skerandi og ættu að minna alla á að ganga vel um náttúruna. Helsta markmiðið ætti að vera núna að þeim hólum sem ekki hefur þegar verið spillt verði algjörlega látnir óáreittir. Þess vegna er gott að beina fólki ekki akkúrat að þeim hólum.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Húsverndarsjóður Reykjavíkur 2022, úthlutun styrkja 2022 sem er lögð fram í trúnaðarmálabók skipulags- og samgönguráðs tillaga umhverfis- og skipulagsviðs, dags. 11. apríl 2022 að úthlutun styrkja úr Húsverndarsjóði árið 2022. Trúnaði verður aflétt að úthlutun lokinni.

 

Bókun Flokks fólksins við við liðnum Starfshópur um varanlegan regnboga, drög að erindisbréfi:

Verið er að leita að staðsetningu fyrir regnbogann, aftur. Hér er greinilega um stór pólitískt mál að ræða? Borgarfulltrúi hefur ekkert á móti slíku ferli og því síður regnbogahugmyndinni en finnst þetta ekki vera einkamál umhverfis- og skipulagssviðs eða skipulags- og samgönguráðs. Þetta er sameiginlegt málefni borgarbúa og ekki er rétt að ráð og svið borgarinnar liggi á svona ákvörðun eins og ormur á gulli og telji þetta sitt einkamál.  Flokkur fólksins mælist til þess að meirihlutinn tali almennt séð meira við borgarbúa og leyfi þeim að taka þátt í framkvæmdum og ákvörðunum sem og hinum ýmsu skreytingum í borginni. Þetta ferli hefði átt að vera opnara. Spyrja á fólkið hvað því finnst og ekki síst þá sem búa við þær götur sem koma til álita.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um Gufunes, málefni Loftkastalans,  að beiðni áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Gerð hafa verið stór mistök. Einkavegur var gerður fyrir 1 aðila sem er nú staðfest með gögnum að hafi ruglað alla hæðarsetningu í Gufunesi.  Gögnum hefur verið haldið frá aðstandendum og reynt að þagga málið í þrjú ár. Ekki hefur einu sinni verið fylgt lögbundnu samráðsferli. Svo virðist sem Reykjavíkurborg hafi ekki útfært í deiliskipulagi það sem þó ber að gera skv. skipulagsreglugerð, afstöðu gatna og jarðvegs við gólfhæð 1. hæðar húsa, hæð landslags á lóðum. Þetta er ákveðið og gert án vitundar og athugasemda- og ábendingarmöguleika almennings eftir því sem Flokkur fólksins kemst næst. Haldinn var loks fundur 25. apríl þar sem boðið var lækkun á götu og seinkun á gjalddögum. Þetta er slakt tilboð eftir allt sem á undan er gengið. Tafir hafa verið miklar og skemmdir á starfssemi í rúm 3. ár. Eftir því sem næst er komist er búið að framkvæma alla gatnagerð þarna á rangan hátt og með því mögulega brjóta á aðstandendum Loftkastalans stjórnsýslulagabrot, eignarréttarbrot og hegningarlagabrot. Af hverju var ekki fenginn óháður aðili til að mæla? Fulltrúi Flokks fólksins ítrekar að lenda þarf þessu máli og það fyrir kosningar. Málinu hefur verið vísað til innri endurskoðunar sem hefur nú hlutverk „umboðsmanns borgarbúa.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu skipulags- og samgönguráðs, um að torgið á horni Garðastrætis og Túngötu verði kennt við Kænugarð/Kýiv              :

Hér er um mál að ræða sem sjálfsagt er að styðja. Bein og óbein tengsl við borgina Kænugarð hafa verið í um 1200 ár. Og nú viljum við styðja fólkið í Úkraínu.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnafulltrúa Flokks fólksins, vegna landsvæðis á Hólmsheiði og hvað eigi að gera á Heiðinni þar sem ekki á að leggja þar flugvöll:

Fyrirspurnin er frá ágúst 2019 og nú er loks að koma svar. Spurt var

„Hvaða framtíðar hugmyndir eru hjá Reykjavíkurborg um landsvæðið á Hólmheiði?“ Í svari segir að gert sé  ráð fyrir því að Hólmsheiði verði að megninu til útivistarsvæði Reykvíkinga en svæðið hefur þjónað fjölbreyttum hópi útivistar iðkenda um árabil.

Fulltrúi Flokks fólksins telur  að öll svæði sem ekki er byggt á séu nú eins konar útivistarsvæði. Svo það eru engin stórtíðindi. Var þetta svæði annars gert að útivistarsvæði með formlegum hætti? Um tíma var rætt um að þarna kæmi  flugvöllur. Þarna gæti komið allt mögulegt ef því er að skipa t.d. íbúðabyggð, hverfi með tilheyrandi atvinnutækifærum? Ætti  ekki að ræða þetta við borgarbúa?

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokks, vegna framkvæmda við Bústaðaveg, umsögn:

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði  fram  eftirfarandi  fyrirspurn 2021, um brú yfir Bústaðaveg/Kringlumýrarbraut:

Verið er að gera breytingar á aksturs-, hjóla og gönguleiðum við Kringlumýrarbraut/ Bústaðaveg m.a. er verið að lengja rampa, gera göngustíga, hjólastíga við hlið akreinar. Verkið skal að fullu lokið 1. október 2021. Áætlaður verktakakostnaður er 91.000.000. Vakin hafði verið athygli fulltrúa Flokks fólksins á þessum tíma að þarna stefndi í þrengsli, að jafnvel að óeðlilega þröngt verði milli bíla og hjóla. Spurt var um hvort  lögum og reglugerðum sem og stöðlum hafi verið fylgt þegar framkvæmdin var skipulögð. Fyrirspurninni var vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. Þar var málinu frestað. Aldrei kom svar við þessari fyrirspurn en núna, þremur árum seinna er verið að svara Sjálfstæðisflokknum með sambærilega fyrirspurn. Og þá er viðurkennt að þarna hafi verið gerð mistök, enn eitt embættismanna klúðrið.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn, um hæð byggingar á Ægissíðu:

Spurt var um  hvort skipulagsyfirvöld telji að  allt að 5 hæða fjölbýli í lágstemmdari byggð Ægissíðu falli undir samningsmarkmið Reykjavíkurborgar sem samþykkt hafa verið af borgarstjóra en í þeim er lögð áhersla á  gæði og gott umhverfi og varðveita staðaranda og yfirbragð byggðar. Í svari segir að málið sé allt í óvissu, svar sem segir ekkert. Kannski verður sett þarna stór hús og mun lóðarhafi þá græða vel.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um aðstæður hjólandi vegfarenda í Úlfarsárdal, umsögn:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um aðstæður hjólandi vegfarenda í Úlfarsárdal þar sem eru tröppur á göngustígum. Þarna fer fólk einnig um með barnakerrur. Víða eru tröppur og hafa börn sem hjóla í skólann þurft að bera hjól sín upp og niður tröppurnar. Auk þess sem hjólastígar eru víða með krappar beygjur.

Fulltrúi Flokks fólksins kallaði eftir endurskoðun á þessu en fékk þau viðbrögð að þetta væri í lagi við Urðarbrunn. Gerð var önnur tilraun til að ná til skipulagsyfirvalda með því að senda mynd að börnum sem reyna að redda sér með því að hjóla á grasbakka meðfram göngustígum. Í svari segir að svona verði þetta bara að vera þar sem lagning stígs samhliða tröppum í miklum halla tryggir ekki nægt öryggi vegfarenda um stíginn. Segir að aðrar leiðir séu færar um hverfið þar sem minni halli er til staðar. Gott og vel en það er alþekkt að flestir vilja fara sem stysta leið frá einum stað til annars. Vanda þarf til þeirra leiða, svo sem að hafa tröppur þannig að hægt sé að fara um þær með margs konar kerrur og hjól.  Með vettvangsskoðun má sjá hvað bjátar á.

 

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um viðgerð á göngustíg:

Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem

lögð var fram á fundi skipulags- og samgönguráðs 6. apríl sl.:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að farið verði í viðgerð á göngustíg sem liggur í gegnum Fellin frá Rjúpufelli að Yrsufelli. Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið ábendingar um að þarna þarf viðhald og almenna hreinsun. Reynt hefur verið að vekja athygli borgarinnar á þessu en ekki tekist. Um er að ræða stíg sem liggur í gegnum eitt þéttbyggðasta svæði í Reykjavík. Það nota mjög margir þennan göngustíg og þarfnast hann viðgerðar og hreinsunar þegar sú tíðin er. Oft hefur verið glerbrot á stígnum, rusl og lauf á haustin. Líklegt þykir að þessi stígur hafi hreinlega gleymst  hjá borginni því enginn kemur og sópar hann hvað þá lagfærir hann.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu reksturs- og umhirðu.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um brú yfir Bústaðaveg/Kringlumýrarbraut:

Aðdragandinn er sá að gerðar voru breytingar á aksturs-, hjóla og gönguleiðum við Kringlumýrarbraut/ Bústaðaveg m.a. er verið að lengja rampa, gera göngustíga, hjólastíga við hlið akreinar. Verkinu átti að ljúka 1. október 2021. Áætlaður verktakakostnaður var 91.000.000.

Vakin hafði verið athygli fulltrúa Flokks fólksins á þessum tíma að þarna stefndi í þrengsli, að jafnvel að óeðlilega þröngt verði milli bíla og hjóla og lagði fulltrúi Flokks fólksins fram fyrirspurn um málið í fyrra.

Nú er svo komið að búið er að viðurkenna að þarna hafi verið gerð mistök.

Spurt er um hvað kostuðu þessi mistök og á hvers ábyrgð eru þessi mistök?

Frestað.