Borgarráð 15. febrúar 2024

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 13. febrúar 2024: Lagt er til að borgarráð samþykki að næstu skref í þróun á Hringrásargarði á Álfsnesi verði samkvæmt hjálögðu minnisblaði:

Fulltrúi Flokks fólksins vill draga fram í bókun það sem fram kemur í framlögðum gögnum um veikleika Álfsness fyrir Hringrásargarð, t.d. þegar horft er til viðskiptatækifæra. Þá er fyrst að nefna óvissu um tímasetningu Sundabrautar. Einnig að fjármögnunarstaða Reykjavíkurborgar er veik til skemmri tíma. Svæðið er óaðlaðandi og svartasti bletturinn er skotæfingasvæðið sem er staðsett á ætluðu iðnaðarsvæði. Tekið er undir að það er knýjandi að sett verði af stað vinna við að finna nýjan stað undir skotæfingasvæði á höfuðborgarsvæðinu svo hægt verði að rýma svæðið fyrir hringrásargarð. Talað er um í gögnum að höfn verði gerð. Það er áhyggjuefni því að höfn fylgir mikil landfylling sem gengur á fjörur sem eru lífauðugustu svæðin í borgarlandinu. Væri ekki hægt að nýta höfn Björgunar sem er þar skammt frá? Ekki virðist vera hugsað um nýtingu glatvarma sem myndast við nærri alla iðnaðarstarfsemi en sá varmi er yfirleitt látinn fara út í umhverfið, heldur er talað um kælingu með sjó. Miklu eðlilegra væri að nota vatn sem hitnar við að kæla framleiðsluferla og væri hægt að setja inn á hitaveitukerfi. Nýting glatvarma hlýtur að verða hluti af hringrásargarði. Annars er hugmyndin um hringrásargarð góð og stuðlar að bættri nýtingu efna.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð samþykki að fela skrifstofu borgarstjóra og borgarritara að undirbúa markaðskönnun vegna nýrrar staðsetningar á almenningsmarkaði í miðborg Reykjavíkur:

Skoða á að undirbúa markaðskönnun vegna nýrrar staðsetningar á almenningsmarkaði í miðborg Reykjavíkur og á útfærslan að byggja m.a. á greiningu á þörfum og mögulegri staðsetningu nýs markaðar sem kynnt er. Fulltrúa Flokks fólksins finnst spurning hvort almenningsmarkaður þurfi að vera í miðborginni. Svæði stutt frá miðborginni gætu líka hentað. Gallinn við markað í miðborginni er að þangað skreppa menn ekki til að kaupa í matinn. Aðgengi að markaði í miðborginni er einnig erfitt nema fyrir ferðamenn og íbúa miðborgar. Ferskt er í minni slæmt aðgengi að Kolaportinu fyrir þá sem komu akandi. Umferð í miðbæinn er gríðarleg og þá ekki aðeins að morgni og seinnipartinn. Skoða mætti að setja upp tvo markaði, minni í sniðum en þar sem seld væri t.d. ferskvara s.s. óunninn fiskur en slík vara er enn eftirsótt af sumum en ekki lengur til í fiskbúðum. Ekkert er minnst á þennan þátt í framlögðum gögnum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram minnisblað mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 13. febrúar 2024, varðandi viðhorfskönnunina stofnun ársins 2023 sem lögð var fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar í október og nóvember 2023:

Þessi könnun náði til rúmlega 9.000 starfsmanna Reykjavíkurborgar en svörin sem bárust voru rúmlega 5.000 og er svarhlutfall 58%. Lægst er svarhlutfall á skóla- og frístundasviði eða 48% en hæst á mannauðs- og starfsumhverfissviði eða 94% sem kemur ekki á óvart. Lágt svarhlutfall er einnig á velferðarsviði eða 51%. Ef horft er til þeirra spurninga sem fengu lökustu stigin þá snúa þær að launum. Langlægstu útkomuna eða 2,93 stig fær spurningin „Telur þú vinnuveitanda þinn greiða þér betri, svipuð eða verri laun en þú gætir fengið á öðrum vinnustöðum fyrir sambærilegt starf og vinnutíma?“ Af þessu að dæma finnst mörgum sem þeir séu ekki metnir að verðleikum í starfi sínu hjá Reykjavíkurborg.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 13. febrúar 2024, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps um nýtingu stafrænna kennslulausna eru send borgarráði til kynningar. MSS24010179

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur með ýmsum hætti á liðnum árum lýst áhyggjum af umfangi og flækjustigi þeirrar vinnu sem sviðið stendur frammi fyrir varðandi persónuupplýsingar í stafrænum lausnum í þágu kennslu. Ekki er betur séð af fulltrúa Flokks fólksins en að skóla- og frístundasvið hafi verið sett aftast í forgangsröð stafrænnar umbreytingarvegferðar borgarinnar bæði um kennslu- og þjónustulausnir. Nú á að setja á fót þverfaglegan hóp til að leggja mat á kennslulausnir í skólastarfi, en hvað með þjónustulausnir? Í minnisblaði í gögnum frá skóla- og frístundasviði segir m.a. að ekki verði hjá því litið að þjónustu- og nýsköpunarsvið beri ábyrgð á upplýsingatækni og gagnastjórnun Reykjavíkurborgar, ásamt nýsköpun, tæknilegum umbótum og þjónustu á þeim sviðum. Flokkur fólksins telur að Reykjavíkurborg væri á mun betri stað í þessum málum hefði þjónustu- og nýsköpunarsvið farið strax í upphafi vegferðarinnar í samstarf við Samband íslenskra sveitarfélaga. Í bréfi teymisstjóra stafrænna mála hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem fylgir með gögnum kemur einmitt fram að borgin sé einangruð í stafrænni vegferð sinni og að Reykjavík og önnur sveitarfélög nái ekki að vinna nógu skilvirkt saman.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 12. febrúar 2024, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 7. febrúar 2024 á tillögu um breytingar á tekju- og eignamörkum vegna félagslegs leiguhúsnæðis:

Flokkur fólksins hefði viljað sjá hærri tekju- og eignamörk til að eiga rétt á félagslegu húsnæði og þannig hefðu fleiri rétt á félagslegu húsnæði. Verið er að hækka tekju- og eignamörk um 8,20%. Nú mega einstaklingar ekki hafa hærri árstekjur en 7.176.000 kr. til að eiga rétt á að leigja félagslegt húsnæði. Þetta eru ekki háar tekjur og almenni leigumarkaðurinn er hræðilegur fyrir tekjulágt fólk. Stigagjöf er notuð þegar forgangsraða þarf umsóknum um félagslegt leiguhúsnæði. Þessi stigagjöf er uppfærð í samræmi við hærri tekju og eignamörk. Það er auðvitað sjálfgefin aðgerð. Þess utan þá telur Fulltrúi Flokks fólksins að of fá stig séu gefin fyrir lágar tekjur.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 8. febrúar 2024, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna ISO staðals um sjálfbærni sveitarfélaga, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. janúar 2024:

Flokkur fólksins lagði fram spurningu um ávinning af innleiðingu mælingar samkvæmt ISO staðli 37120 um sjálfbærni sveitarfélaga og kostnaðinn við þetta. Við val á árangursviðmiðum og mælikvörðum er nauðsynlegt að spyrja hvernig er vitað hvort við erum á réttri leið og að aðgerðir leiði til tilætlaðra jákvæðra breytinga til batnaðar. Hvernig er samráði háttað? Í svari má sjá að hér er um 14 milljóna útgjöld að ræða vegna gagnasöfnunar á samningstímanum, sem er þrjú ár, en tímabilið hófst árið 2020. 14 milljónir eru talsverð útgjöld og fyrir þá upphæð má gera margt. Ekki er að sjá í svari að þessi kostnaður þyki hár en það er rík ástæða til að horfa á slík útgjöld með gagnrýnum hætti.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. febrúar 2024, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um samning við KLAK-Icelandic Startups, sbr. 51. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. janúar 2024:

Samningur við KLAK-Icelandic Startups var framlengdur á vettvangi borgarráðs 11. janúar sl. Í inngangi kemur fram að tilgangurinn sé að styrkja frumkvöðlastarf á Íslandi. Spurning frá fulltrúa Flokks fólksins var hvort útsvarsgreiðendur í Reykjavík eigi að bera ábyrgð á því að styrkja frumkvöðlastarf á landsvísu. Fram kemur í svari að þótt orðalagið „styrkja frumkvöðlastarf á landsvísu“ sé notað í samkomulaginu þá nýtist styrkur Reykjavíkurborgar fyrst og fremst við stuðning á frumkvöðlaverkefnum í Reykjavík. Fram kemur einnig að þetta var réttmæt ábending hjá fulltrúa Flokks fólksins og verður orðalag uppfært ef samningar verða endurnýjaðir. Fulltrúi Flokks fólksins er glaður með það, ella gæti þetta valdið misskilningi.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir heilbrigðisnefndar frá 11. janúar og 8. febrúar. MSS24010007. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðarinnar frá 8. febrúar:

Hljóðmæling hefur verið gerð sl. fimm ár þegar skautasvell hefur verið opið í aðdraganda jóla. Fjölmargar kvartanir bárust á þessum tíma og þá í tengslum við hávaða við Ingólfstorg eftir leyfilegan tíma. Nú er lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um hljóðmælingar á Ingólfstorgi. Niðurstöður eru þær að „hljóðmælingar Heilbrigðiseftirlitsins hafa sýnt fram á að hljóðstig hefur almennt verið lágstemmt á svellinu utan einhverra tilvika en þá var rætt við umsjónarmenn svellsins og var hljóðstig lækkað í kjölfar þess. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur leggst því ekki gegn frekari starfsemi á Ingólfstorgi. Heilbrigðiseftirlitið setur þau skilyrði að viðburðir og hátíðir sem þar verða, sérstaklega viðburðir sem standa yfir í lengri tíma, hafi lágstemmda tónlist til að lágmarka ónæði fyrir nálæga byggð.“ Fulltrúi Flokks fólksins spyr hér hvort ekkert hafi verið rætt við íbúa í nágrenninu í tengslum við þessa umsögn. Tekið er undir að starfsemi svellsins er vissulega skemmtileg en þegar verið er að skoða mál af þessu tagi ætti að hafa samráð við alla málsaðila.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 5. febrúar 2024. MSS24010012. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar:

Flokkur fólksins tekur undir bókun íbúaráðs Grafarvogs þar sem gerð er athugasemd við miklar lokanir Grafarvogslaugar um nýliðin jól og áramót. Flokkur fólksins hefur mótmælt harðlega þessum lokunum og rætt skerðingar á opnunartíma sundlauga í borgarstjórn. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur borgaryfirvöld til að endurskoða opnunartíma sundlauga á frídögum og stórhátíðum og hafa enn frekara samráð við sundlaugargesti og starfsfólk sundlauga. Undanfarin tvö ár hefur opnunartími sundlauga Reykjavíkurborgar verið skertur verulega og til stendur að skerða hann enn frekar. Gestir sundlauganna eru fjölbreyttur hópur, fjölskyldur, einstaklingar, fólk á öllum aldri og ferðamenn. Um 79% fullorðinna Íslendinga fara í sund og tæp 40% fara reglulega í sund allt árið. Sundlaugarnar eru þjóðargersemi okkar. Ekkert áhugamál eða tómstundagaman er jafn útbreitt og að fara í sund. Engin íþrótt eða heilsubót er jafn almenn. Um síðustu jól hafði opnunartími átta sundlauga Reykjavíkur verið styttur um 162 klukkustundir frá árinu 2021 eða úr 275 klukkustundum í 113 klukkustundir. Sundiðkun bjargar mörgum frá einmanaleika sem hrjáir svo marga í nútíma borgarsamfélagi. Ákveðinn hópur fólks hefur ekki gott aðgengi að baðaðstöðu og notar sundlaugar m.a. í þeim tilgangi.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 6. febrúar 2024. MSS24010027. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar:

Sérsöfnun á matarleifum. Fram kemur að frá áramótum hefur SORPA dreift um 300.000 pokum á endurvinnslustöðvar og í Góða hirðinn. Dreifing hefur gengið vel og eftirspurn eftir pokum verið í samræmi við væntingar. Ekkert kemur fram um að fólk sé að hamstra poka. Hér má minna á tillögu Flokks fólksins um að beina því til stjórnar SORPU og þeirra sem annast sorphirðu í borginni að huga sérstaklega að eldra fólki og hreyfihömluðum, sem ekki geta nálgast poka fyrir lífrænan úrgang á endurvinnslustöðvum. Tillagan var felld af meirihlutanum með mótatkvæðum allra atkvæðabærra minnihlutafulltrúa í borgarráði. Þessi skerðing á þjónustu getur haft slæmar afleiðingar fyrir marga eldri borgara, hreyfihamlaða og þau sem ekki aka bíl eða þau sem vilja lifa bíllausum lífstíl. Fulltrúi Flokks fólksins sér fyrir sér að þau sem ekki geti nálgast pokana á SORPU fái tækifæri til að panta pokana heim til sín eða að sorphirðufólk geti afhent þeim nýja poka, t.d. á sama tíma og sorphirða á sér stað. Þetta fyrirkomulag, þ.e. að sorphirðufólk afhendi pappírspoka með reglulegu millibili, er viðhaft í öðrum löndum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir stjórnar Strætó bs. frá 16. og 19. janúar 2024. MSS24010030. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 19. janúar:

Í ljósi aðstæðna vegna jarðhræringa á Reykjanesi ætlar stjórn Strætó að styðja við bakið á ungmennum frá Grindavík og samþykkti að frítt verði fyrir ungmenni 12 til 17 ára í strætó á höfuðborgarsvæðinu. Þessu ber vissulega að fagna. Flokkur fólksins lætur sig reyndar dreyma um þann dag þegar ákveðið verður að öll börn fái frítt í strætó en sá dagur er sennilega ekki í sjónmáli.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. febrúar 2024. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 17. lið fundargerðarinnar:

Flokkur fólksins lagði fram fyrirspurn um áhrif á fjárfesta nú þegar flugvöllurinn verður áfram í Vatnsmýrinni og er henni vísað frá. Það er sérstakt að vísa frá fyrirspurn. Óskað var upplýsinga um hvaða áhrif það er líklegt til að hafa á fjárfesta sem hyggjast byggja Nýja-Skerjafjörð nú þegar vitað er að flugvöllurinn verður áfram í Vatnsmýrinni. Flokki fólksins finnst þetta mikilvægt mál því það hlýtur að breyta öllu fyrir kaupendur og auðvitað eigendur eigna þarna í kring hvort þeir eigi eftir að þurfa að búa ofan í flugvelli til framtíðar. Nú liggur fyrir að Reykjavíkurflugvöllur mun verða áfram á sínum stað næstu áratugi samkvæmt orðum innviðaráðherra. Vegna eldsumbrota á Reykjanesskaga er mikil óvissa um hvort Hvassahraun verði nokkurn tíma örugg staðsetning fyrir nýjan flugvöll. Fulltrúa Flokks fólksins fannst það aldrei góð hugmynd að skipuleggja nýja byggð þarna ofan í flugvellinum þegar það var fullkomlega óljóst hvort flugvöllurinn færi nokkurn tímann úr Vatnsmýrinni.

 NÝ MÁL

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að bjóða nemendur vinnu í leikskólum eftir því sem þeim hentar.

Lagt er til borgarráð samþykki að fela mannauðs- og starfsumhverfissviði í samstarfi við skóla- og frístundasvið að vinna tillögu að fyrirkomulagi sem gerir Reykjavíkurborg kleift að bjóða nemendum sem hafa til þess aldur, vinnu hjá leikskólum Reykjavíkur á þeim tímum og dögum sem þeim hentar og sem fellur vel að námskrá þeirra. Miða skal við að unnt verði að gera skammtímasamninga við nemana allt niður í tvo mánuði.

Greinargerð

Eins og ljóst er öllum er gríðarleg mannekla í leikskólum sem hefur valdið því að foreldrar fá ekki pláss fyrir börn sín og sífellt er verið að hringja í foreldra og þeir beðnir að sækja börn sín því ekki tókst að manna daginn. Þessi tillaga er hugsuð þannig að opnaður verði auðveldur möguleiki fyrir nemendur í framhalds- og háskólum til að vinna í leikskólum á völdum tímum sem þeim hentar og fellur vel að námskrá þeirra. Vel kann að vera að einhverjir/fleiri nemendur séu tilbúnir að vinna á leikskólum ef þeim er gert það auðvelt að samlaga vinnuna að námi þeirra.

Frestað.

 

 Nýjar fyrirspurnir um stafræn mál

Fyrirspurnir nr. 1

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stafræna vegferð borgarinnar og annmarka hennar:

Hvers vegna notast Reykjavíkurborg við Workplace frá Meta þrátt fyrir að Office 365 innihaldi sambærilega virkni í gegnum Viva Engage? Hvers vegna notast skóla- og frístundasvið við Google Workspace í stað annarra sambærilegra lausna? Hvers vegna notast Reykjavíkurborg við Webex fjarfundarlausnir í stað sambærilegra lausna í gegnum Office 365? Hver er kostnaðurinn við Torgið og hvers vegna var ákveðið að notast við þá lausn í stað sambærilegrar lausnar í gegnum Office 365?

Nýlega fengum við borgarfulltrúar ábending undan frá um að borgin er að eyða of miklum fjármunum í að halda úti tölvukerfum sem veita sambærilega virkni, að það virðist vera skortur á áhuga eða þekkingu á að samhæfa og fækka þessum kerfum. Fulltrúi Flokks fólksins spyr út þetta og eftirfarandi atriði, og óskað er útskýringar. Samkvæmt ábendingum er borgin einnig að eyða 5-6 milljónum króna á mánuði í Workplace frá META, þrátt fyrir að Office 365 innihaldi sambærilega virkni í gegnum Viva Engage. Þetta kerfi virðist vera lítið notað, og sérstaklega ekki nýtt af SFS, þar sem meira en helmingur starfsfólks borgarinnar vinnur. https://reykjavik.is/sites/default/files/2023-12/15924-endurnyjun-a-workplace-leyfasamningi.-ees.pdf. 
Fulltrúi Flokks fólksins óskar skýringar á þessu atriði.

Greinargerð

Þá er borgin að fjárfesta í Google Workspace fyrir SFS, sem leiðir til þess að SFS notar Microsoft 365 minna, sérstaklega fyrir fjarfundi og skjalavinnslu. Google Workspace er ósamrýmanlegt við Hlöðuna, sem gefur til kynna að það hafi ekki framtíð í skjalavinnslu hjá SFS.  Óskað er skýringa á þessu frá þjónustu- og nýsköpunarsviði.

Borgin kaupir einnig Webex fyrir 5 milljónir á mánuði, en þetta kerfi býður upp á lítið umfram það sem þegar er innifalið í fjarfundalausnum Office 365. Óskað er skýringa á þessu af fulltrúa Flokks fólksins

Með því að hætta að nota Workplace og Webex gæti borgin sparað 10 milljónir króna í útgjöld á mánuði, sem ætti að vera hluti af áætlun fyrir innleiðingu Office 365 sem þegar er í gangi eftir þeim upplýsingum sem borgarfulltrúar hafa fengið til sín.

Webex er dýr í rekstri og krefst þjónustusamnings, og þegar ekki er hægt að endurnýja slíkan samning, enda tækin gjarnan sem úrgangur þrátt fyrir að vera í góðu ástandi. Aðrir framleiðendur bjóða upp á tæki sem ekki þurfa reglulegar uppfærslur, þar sem öryggið er tryggt í hugbúnaði tölvunnar sem tækin tengjast, sem er talið öruggara og dreifir álagi betur. https://reykjavik.is/sites/default/files/2023-08/15865-cisco-webex-samningur.-ees.pdf

Kostnaður við Torgið er ekki tilgreindur á vefsíðu, en sú fjárhæð hefði einnig verið hægt að spara ef áherslan væri á að einfalda tæknina í stað þess að flækja hana. Hver er kostnaður við Torgið? Nefnt hefur verið að betri lausn og hentugri lausn er innifalin í 365 https://learning.cloud.microsoft/home/providers

Borgin virðist ekki vera að nýta Office365 til fulls, heldur aðeins notkun á Word, Excel, PowerPoint, Teams, Planner og SharePoint. Innan Office 365 eru fjölmörg tól og möguleikar sem aðrar stofnanir og fyrirtæki eru að nýta sér til hins ítrasta, eins og Forms fyrir örugga gagnasöfnun, Sway fyrir fréttabréf og kynningar, Viva Engage sem samfélagsmiðill, Stream fyrir stjórnun á fræðslumyndböndum og fundaupptökum, Learning fyrir aðgang að þekkingu og fræðslu, Insights fyrir tímastjórnun og stafrænt heilbrigði, Loop fyrir hópavinnu og fundargerðir, og PowerApps fyrir sjálfvirkni. Þessir ónýttu möguleikar benda til að borgin gæti sparað verulega fjármuni og bætt þjónustu við borgarbúa með því að nýta betur þá tæknilausn sem þegar er verið að innleiða. Flokkur fólksins spyr hverju þetta sætir og hvort séfræðingar hjá ÞON hafi ekki hugsað þessa möguleika til að sýna hagkvæmni, sparnað og almenna skynsemi

 

Fyrirspurnir nr. 2

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem snúa að eyðslu fjármagns hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði:

Óskað er eftir nákvæmum upplýsingum um hversu margar fartölvur þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur keypt á undanförnum tveimur árum. Af hvaða tegund eða tegundum eru tölvurnar, hversu margar þeirra eru komnar í notkun og hversu margar eru enn ekki komnar í notkun? Spurt er um þetta vegna upplýsinga sem Flokki fólksins hefur borist um bruðl í upplýsingatækni hjá borginni. Fyrir um 2 árum keypi borgin um 5.000 tölvur fyrir um 500 milljónir. Áreiðanlegar heimildir segja að ennþá séu yfir 1.000 tölvur í geymslu og líklega runnar úr ábyrgð. 100 milljónir sem liggja bara í geymslum.

 

Fyrirspurnir nr. 3

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjölda starfa sem hafa verið lögð niður hjá ÞON:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um fjölda starfa sem hafa verið lögð niður á þjónustu- og nýsköpunarsviði að undanförnu og hvort og þá hvernig aðstoð hinir brottreknu starfsmenn af sviðinu eru að fá. Einnig er óskað upplýsinga um hvernig er unnið með andrúmsloftið á sviðinu í kjölfar svo umfangsmikilla starfsmannabreytinga. Hefur einhverjum starfsmönnum á sviðinu verið sagt upp á meðan viðkomandi var í veikindaleyfi? Hefur trúnaðarmanni tölvunarfræðinga verið sagt upp?

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins: um kaup í gegnum DPS?

Hvaða þjónusta hefur verið keypt í gegnum DPS þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Óskað er upplýsinga um innkaup sviðsins brotið niður á ár og ársfjórðung á gildistíma þeirra samninga sem gerðir hafa verið við þjónustu- og nýsköpunarsvið í gegnum DPS (gagnvirkt innkaupakerfi), heiti verkefnis, nafn seljanda, upphaflega kostnaðaráætlun, upphæð heildarinnkaupa og hvort þau hafi verið borin undir innkauparáð til samþykktar.

Jafnframt er óskað upplýsinga um hvaða verkefni eru í gangi sem ekki fóru í gegnum formlegt innkaupaferli.
Fór það í gegnum formlegt innkaupaferli þegar KPMG var fengið til að vinna gjaldskrá fyrir sviðið? Hvernig er gjaldskrá sviðsins í samanburði við sambærilegar gjaldskrár hjá hinu opinbera?
Hvernig eru þau verkefni fjármögnuð? Óskað er upplýsinga um ákvörðun á fjármögnunarleiðum þjónustu- og nýsköpunarsviðs.
Hver ber ábyrgð á langtíma hagkvæmni slíkra ákvarðana?
Óskað er upplýsinga um hvort önnur svið borgarinnar þurfa að bera aukna fjárhagslega byrði vegna þessara ákvarðana.