Í maí 2013 var ég kosin formaður Barnaheilla- Save the Children á Íslandi og hef gengt því hlutverki í 5 ár af 6 mögulegum samkvæmt lögum samtakanna.
Barnaheill á Íslandi
Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru frjáls félagasamtök sem eiga aðild að Save the Children International en að þeim standa 30 landsfélög sem starfa í yfir 120 löndum. Barnaheill – Save the Children voru stofnuð í Bretlandi árið 1919. Stofnandi þeirra, Eglantyne Jebb, var með þeim fyrstu til að benda á að það væri réttur barna að alast upp við öryggi og frið. Jebb ritaði fyrstu drög að réttindum barna árið 1923 sem voru samþykkt af Bandalagi þjóðanna (League of Nations) í Genf sama ár. Þann 20. nóvember árið 1959 innleiddu Sameinuðu þjóðirnar mun nákvæmari og ítarlegri sáttmála. Dagurinn hefur síðan verið tileinkaður málefninu ár hvert og er alþjóðlegur dagur barna.
SKOÐA LÍKA Myndir og ræður frá formennskutíð Kolbrúnar
Aðdragandi stofnunar Barnaheilla á Íslandi og verndari samtakanna
Það var á sumarmánuðum árið 1988 sem fagfólk á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans ákvað að tímabært væri að stofna til félagsskapar sem hefði það að megin markmiði að auka rétt barna í samfélaginu. „Rädda barnen“ í Svíþjóð var höfð til fyrirmyndar við skipulag samtakanna. Þann 24. október 1989 var stofnfundur samtakanna og var Vigdís meðal gesta. Að hennar ósk var hún skráð sem stofnfélagi númer eitt og síðar gerðist hún opinber verndari Barnaheilla – Save the Children á Íslandi. Nafnið Barnaheill er m.a. komið úr smiðju hennar, Höllu Þorbjörnsdóttur og Ernu Þorleifsdóttur.
Samtökin hafa Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í öllu sínu starfi og eru helstu áherslur á að standa vörð um réttindi barna, baráttu gegn ofbeldi á börnum, heilbrigðismál og að rödd barna heyrist betur í íslensku samfélagi. Barnasáttmálinn var undirritaður á Alþingi árið 1990 og staðfestur fyrir Íslands hönd 28. október 1992. Sáttmálinn var lögfestur á Alþingi 20. febrúar 2013. Í lögfestingu felst að hægt er að beita ákvæðum sáttmálans fyrir dómstólum sem settum lögum og er því um að ræða mikla réttarbót fyrir íslensk börn.
Allar aðildarþjóðir SÞ hafa staðfest sáttmálann, nema Bandaríkin og Suður-Súdan. Staðfestingin felur í sér að lög og reglur eigi að vera í samræmi við sáttmálann og aðildarríkin geri það sem í þeirra valdi stendur til að framfylgja lögunum.
Megin inntak barnasáttmálans er að tryggja börnum vernd gegn alls kyns ofbeldi, veita þeim tækifæri og áhrifamátt. Um er að ræða alþjóðlega viðurkenningu á því að börn þarfnist sérstakrar verndar umfram fullorðna, þeim séu tryggð full mannréttindi og eigi rétt á að alast upp við öryggi og í friði, burtséð frá búsetu, kynferði, kynþætti, trú eða félagslegum aðstæðum.
Formaður og stjórn
Stjórnmenn eru fimm auk varaformanns og formanns. Þrír eru til vara. Fastir starfsmenn eru tveir auk framkvæmdarstjóra og verkefnastjóra sem er jafnframt kynningarstjóri.
Helsta hlutverk formann er að leiða stjórn samtakanna samkvæmt lögum þeirra og stjórna mánaðarlegum stjórnarfundi. Formaður tekur jafnan þátt í helstu viðburðum samtakanna. Sem dæmi um hlutverk formanns heldur hann ávarp við opnun málþinga og ráðstefna á vegum samtakanna. Hann ávarpar samkomu og veitir Viðurkenningu samtakanna við hátíðlega athöfn á afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember ár hvert. Formaður hittir gjarnan erlenda gesti sem koma til landsins í heimsókn til samtakanna og kemur fram í fjölmiðlum þegar talið er að gefa þurfi t.d. málsvarahlutverkinu aukið vægi. Formaður sækir öllu jafnan árlegan fund alþjóðasamtakanna Save the Children (Members Meeting) en á þeim fundi koma formenn og framkvæmdarstjórar aðildarþjóðanna saman til að móta stefnu og ræða árangur og næstu skref. Framkvæmdarstjóri upplýsir formann reglulega um gengi og reksturs samtakanna og skrifstofu.
Myndir og ræður frá formennskutíð Kolbrúnar
2017 – 2018
- Lesa ávarp formanns í Blaði Barnaheilla 2017
2016 – 2017
- Lesa formála formanns í Blaði Barnaheilla 2016. Sjá einnig fleiri skrif og ræður formanns HÉR
2015 – 2016
- Lesa grein formanns, Mun einhver hlusta, í blaði Barnaheilla 2015. Sjá einnig fleiri skrif og ræður formanns HÉR
2014 – 2015
- Lesa opnunarræðu formanns á Afmælishátið Barnaheilla 2014. Sjá einnig fleiri skrif og ræður formanns HÉR
2013 – 2014
- Lesa formála formanns í Blaði Barnaheilla 2013. Sjá einnig fleiri skrif og ræður formanns HÉR
2012 – 2013
- Lesa ræðu formanns við veitingu Viðurkenningar Barnaheilla 2012