Borgarráð 8. febrúar 2024

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. janúar 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. janúar 2023 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Vallár á Kjalarnesi:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að stækka eigi svæðið fyrir hænsnin svo betur fari um þau. Hætta á notkun búra en á sama tíma. Nokkrar áhyggjur eru þó af því að tvöfalda á fjölda fugla. Þetta hlýtur að vera allt í samræmi við dýraverndunarlög og -sjónarmið. Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins sér í gögnum eru helstu athugasemdir um lyktarmengun vegna stækkunar Stjörnueggja. Í ljósi þess að óvissa er um áhrif stækkunarinnar á lyktarmengun telur Umhverfisstofnun rétt að tekið verði tillit til þess við gerð skilmála deiliskipulagsins. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir það og einnig að gerð verði skoðun á umhverfisáhrifum þegar fram líða stundir sbr. bókun íbúaráðs Kjalarness.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 6. febrúar 2024. Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagðan samning við mennta- og barnamálaráðuneytið um starfsemi PMTO miðstöðvar, dags. 18. janúar 2024:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessum samstarfssamningi mennta- og barnamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar um starfsemi PMTO miðstöðvar. Flokkur fólksins lagði til 5. desember 2023 að borgarstjórn samþykkti að auka framboð námskeiða í PMTO foreldrafærni (Parent Management Training) og fjölmargra annarra námskeiða sem staðfest hefur verið að eru að gagnast börnum og foreldrum með ómetanlegum hætti. Lagt var til að lagðar yrðu 14 m.kr. til verkefnisins. Tillagan var felld af meirihluta borgarstjórnar. Biðlistar eftir að komast á námskeið eins og þetta eru í sögulegu hámarki sem er miður því að PMTO foreldrafærninámskeiðin eru talin sérlega hjálpleg. Á þessum námskeiðum er farið í gegnum nauðsynlegar grunnreglur, t.d. reglur um skjátíma og hvíld og svefntíma barna. Það þarf að styðja betur við foreldra í uppeldishlutverkinu og hefur verið lengi brýnt að víkka út úrræðið PMTO sem hefur gefið góða raun. Það hefur verið erfitt að horfa upp á hve biðlistar á námskeiðið eru langir þegar fyrir liggur hversu gagnleg þau eru foreldrum og börnum

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 6. febrúar 2024. Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagðan samning við mennta- og barnamálaráðuneytið um skipulagt ungmennastarf í Breiðholti, dags. 18. janúar 2024. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2024 til 31. desember 2024.

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessum samningi mennta- og barnamálaráðuneytis borgarinnar um skipulagt ungmennastarf í Breiðholti. Meginmarkmið samningsins er að auka aðgengi barna og ungmenna á aldrinum 16-25 ára að skipulögðu frístunda- og félagsstarfi í Breiðholti m.a. til að stemma stigu við ofbeldi og áhættuhegðun ungmenna. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað reynt að vekja athygli meirihlutans á auknu ofbeldi meðal ungmenna og ekki síst þar sem hnífaburður kemur við sögu. Minnt er á tillögu Flokks fólksins frá 2023 um að Reykjavíkurborg sendi bréf til foreldra og forráðamanna vegna aukins hnífaburðar barna og ungmenna líkt og það sem menntasvið Kópavogsbæjar sendi foreldrum grunnskólabarna í upphafi skólaárs. Tillagan var felld af meirihlutanum. Dæmi um hnífaburð barna í skólum eru til í Reykjavík og því full ástæða til að upplýsa foreldra og forráðamenn um þær reglur sem eru í gildi um að bera hníf á sér í skóla- og félagsmiðstöðvastarfi borgarinnar. Í bréfinu myndu foreldrar vera hvattir til að eiga samtal við börnin um að það sé stranglega bannað að bera hníf á sér í skóla- og félagsmiðstöðvastarfi og öðrum stofnunum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á borgarstefnu í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036.

Þetta er þörf umræða og tengist á vissan hátt lið nr. 11, sameiginlegri þróunaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurnes, Suðurland og Vesturland.Þarft væri að sameina byggðir á svæðinu Hvalfjörður til Hellisheiðar og að sama skapi ætti að sameina byggðir við Eyjafjörð, byggðir við Skagafjörð og Húnaflóa, alla Vestfirði, vestur-, suður- og austurland. Miða þarf við að atvinna sé sameiginleg og þá er hægt að mynda öfluga byggðarkjarna sem geta verið eins sjálfstæðir og höfuðborgarsvæðið. Mælanleg markmið er það sem skiptir mestu og svo auðvitað að ákveða hvaða aðgerðir skuli fara í og hvernig skuli forgangsraða þeim.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 6. febrúar 2024: Lagt er til að borgarráð samþykki að beina því til Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að þau beiti sér fyrir samstarfi um að unnin verði þróunaráætlun fyrir suðvesturhorn Íslands, frá Hvítá til Hvítár, til ársins 2050.

Hér er í undirbúningi enn ein byggðasamlagsstofnunin. Um er að ræða þróunaráætlun fyrir suðvesturhorn Íslands, frá Hvítá til Hvítár, til ársins 2050. Fulltrúi Flokks fólksins hugsar hvort ekki komi til mála að vinna að sameiningu þeirra sveitarfélaga sem eru á suðvesturhorninu og stefna að því að verða sameiginlegt vinnu- og menningarsvæði. Rétt er þó að benda á að Hellisheiði er eðlilegri sem mörk sveitarfélaga frekar en Ölfusá sem er kölluð Hvítá í gögnum og Hvalfjörður er eðlilegri markalína en Hvítá í Borgarfirði. Nú á dögum eru ár ekki farartálmi eins og á fyrri öldum. Af fenginni reynslu af byggðasamlögum má búast við því að vægi Reykvíkinga verði lítið og í engu samræmi við fólksfjölda. Málið er vissulega þarft en langeinfaldast væri að sameina sveitarfélögin. Þá væru allir jafnir.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 1. febrúar 2024. MSS24010035:

Fulltrúi Flokks fólksins er glaður að sjá fyrirspurnir aðgengis- og samráðsnefndar um hvort Reykjavíkurborg hafi einhver viðmið á hönnun stólpa á milli gangstétta og gatna í borgarlandinu, með tilliti til sýnileika þeirra. Þessir lágu stólpar geta valdið sjónskertu og blindu fólki verulegum vandræðum og jafnvel meiðslum. Jafnframt er spurt um hvort útbúnar hafi verið leiðbeiningar fyrir blinda og sjónskerta varðandi notkun á nýju snertilausu skápakerfi, því sem búið er að setja upp í Dalslaug og verið er að setja upp í Sundhöll Reykjavíkur. Loks hvort Reykjavík sé með leiðbeiningar um rit- og táknmálstúlkun á opnum viðburðum á vegum borgarinnar og ef svo er, hverjar þær eru. Þetta eru góðar fyrirspurnir og til fyrirmyndar að aðgengis- og samráðsnefnd skuli leggja fram þessar fyrirspurnir.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. febrúar 2024. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðarinnar:

Í ársskýrslunni er það staðfest að ekki nóg hafi verið byggt síðustu ár. Mest var byggt 2018 þegar bygging hófst á 1.417 nýjum íbúðum. Verulegur samdráttur er í útgáfu byggingarleyfa síðustu ár. Fæst voru byggingarleyfin árið 2023 og hafa þau ekki verið færri síðan 2013. Þetta staðfestir að ekki hefur verið nægjanlega vel haldið á spilunum þegar kemur að byggingu nýrra íbúða. Þetta staðfestir einnig að mikill íbúðaskortur er fyrirsjáanlegur á næstunni. Fjölbýlishús eru ríkjandi og sýnt er að aðferðin, að fólk geti byggi sjálft yfir sig, er hverfandi. Þar með hverfur einn þáttur úr kerfinu sem gat haldið niðri fasteignaverði. Nú ráða verktakafyrirtæki verði á húsum. Mikilvægt er að lóðarhafar undirgangist skilyrði um að byggja á lóðum innan ákveðins tíma ella skili þeim. Því miður hafa einhverjir lóðaeigendur litið á lóðirnar sem fjárfestingu og eina takmark þeirra er að bíða þar til þeir fá hærra verð fyrir lóðina. Slíkt atferli gengur ekki nú þegar svo illa árar á húsnæðismarkaði auk þess að ekki gengur að líta á lóðir sem einhvers konar fjárfestingavöru því það fer beint út í verðlag íbúða og veldur miklum kostnaði í samfélaginu. Uppbyggingu húsnæðis verður að taka alvarlega í þessum mikla húsnæðisskorti sem nú ríkir í borginni.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 26. janúar 2024, sbr. samþykkt forsætisnefndar frá 19. janúar 2024 á verklagsreglum um fyrirspurnir og tillögur í ráðum og nefndum Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum. MSS23090170

Flokkur fólksins var með athugasemdir við tillöguna sem sneru að 3. gr. þar sem fram kom að ekki mætti lengur hafa formála að fyrirspurnum. Flokki fólksins finnst það ómögulegt enda er stundum nauðsynlegt að hafa nokkur orð um af hverju verið sé að leggja fram ákveðna fyrirspurn. Mikilvægt er að hafa sveigjanleika en ekki njörva niður hvert einasta atriði. Með því að loka fyrir möguleika á stuttum útskýringum með fyrirspurnum eða tillögum er ekki verið að einfalda neitt. Rök meirihlutans eru veikburða og er vísað til skýrleika. Stuttur formáli er einmitt liður í að gera fyrirspurn skýra og kallar varla á miklar tafir á afgreiðslu málsins eins og meirihlutinn fullyrðir. Ef horft er sérstaklega til umhverfis- og skipulagsráðs eru reglur um verklag mála ekki alltaf í samræmi við sambærilegar reglur í öðrum málum. Í umhverfis- og skipulagsráði er meiri ferköntun ef svo má að orði komast. Bókanir eru frekar ritskoðaðar og jafnvel er minnihlutafulltrúum meinað að bóka þar sem það er leyft í öðrum ráðum. Dæmi um þetta er að minnihlutafulltrúum er bannað að bóka við mál sem er framvísað en slíkt bann á ekki við í öðrum ráðum.

Fyrirspurnir sem lagðar verða fram á næsta fundi borgarráðs:

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins varðandi tölvukerfi:

Hvers vegna notast Reykjavíkurborg við Workplace frá META þrátt fyrir að Office 365 innihaldi sambærilega virkni í gegnum Viva Engage? Hvers vegna notast skóla- og frístundasvið við Google Workspace í stað annarra sambærilegra lausna? Hvers vegna notast Reykjavíkurborg við Webex fjarfundarlausnir í stað sambærilegra lausna í gegnum Office 365? Hver er kostnaðurinn við Torgið og hvers vegna var ákveðið að notast við þá lausn í stað sambærilegrar lausnar í gegnum Office 365?

Greinargerð:

Nýlega fengum við borgarfulltrúar ábending undan frá um að borgin er að eyða of miklum fjármunum í að halda úti tölvukerfum sem veita sambærilega virkni, að það virðist vera skortur á áhuga eða þekkingu á að samhæfa og fækka þessum kerfum. Fulltrúi Flokks fólksins spyr út þetta og eftirfarandi atriði, og óskað er útskýringar. Samkvæmt ábendingum er borgin einnig að eyða 5-6 milljónum króna á mánuði í Workplace frá META, þrátt fyrir að Office 365 innihaldi sambærilega virkni í gegnum Viva Engage. Þetta kerfi virðist vera lítið notað, og sérstaklega ekki nýtt af SFS, þar sem meira en helmingur starfsfólks borgarinnar vinnur. https://reykjavik.is/sites/default/files/2023-12/15924-endurnyjun-a-workplace-leyfasamningi.-ees.pdf

Fulltrúi Flokks fólksins óskar skýringar á þessu atriði.

Þá er borgin að fjárfesta í Google Workspace fyrir SFS, sem leiðir til þess að SFS notar Microsoft 365 minna, sérstaklega fyrir fjarfundi og skjalavinnslu. Google Workspace er ósamrýmanlegt við Hlöðuna, sem gefur til kynna að það hafi ekki framtíð í skjalavinnslu hjá SFS.  Óskað er skýringa á þessu frá þjónustu- og nýsköpunarsviði.

Borgin kaupir einnig Webex fyrir 5 milljónir á mánuði, en þetta kerfi býður upp á lítið umfram það sem þegar er innifalið í fjarfundalausnum Office 365. Óskað er skýringa á þessu af fulltrúa Flokks fólksins

Með því að hætta að nota Workplace og Webex gæti borgin sparað 10 milljónir króna í útgjöld á mánuði, sem ætti að vera hluti af áætlun fyrir innleiðingu Office 365 sem þegar er í gangi eftir þeim upplýsingum sem borgarfulltrúar hafa fengið til sín.

Webex er dýr í rekstri og krefst þjónustusamnings, og þegar ekki er hægt að endurnýja slíkan samning, enda tækin gjarnan sem úrgangur þrátt fyrir að vera í góðu ástandi. Aðrir framleiðendur bjóða upp á tæki sem ekki þurfa reglulegar uppfærslur, þar sem öryggið er tryggt í hugbúnaði tölvunnar sem tækin tengjast, sem er talið öruggara og dreifir álagi betur. https://reykjavik.is/sites/default/files/2023-08/15865-cisco-webex-samningur.-ees.pdf

Kostnaður við Torgið er ekki tilgreindur á vefsíðu, en sú fjárhæð hefði einnig verið hægt að spara ef áherslan væri á að einfalda tæknina í stað þess að flækja hana. Hver er kostnaður við Torgið? Nefnt hefur verið að betri lausn og hentugri lausn er innifalin í 365 https://learning.cloud.microsoft/home/providers

Borgin virðist ekki vera að nýta Office365 til fulls, heldur aðeins notkun á Word, Excel, PowerPoint, Teams, Planner og SharePoint. Innan Office 365 eru fjölmörg tól og möguleikar sem aðrar stofnanir og fyrirtæki eru að nýta sér til hins ítrasta, eins og Forms fyrir örugga gagnasöfnun, Sway fyrir fréttabréf og kynningar, Viva Engage sem samfélagsmiðill, Stream fyrir stjórnun á fræðslumyndböndum og fundaupptökum, Learning fyrir aðgang að þekkingu og fræðslu, Insights fyrir tímastjórnun og stafrænt heilbrigði, Loop fyrir hópavinnu og fundargerðir, og PowerApps fyrir sjálfvirkni. Þessir ónýttu möguleikar benda til að borgin gæti sparað verulega fjármuni og bætt þjónustu við borgarbúa með því að nýta betur þá tæknilausn sem þegar er verið að innleiða.
Flokkur fólksins spyr hverju þetta sætir og hvort séfræðingar hjá ÞON hafi ekki hugsað þessa möguleika til að sýna hagkvæmni, sparnað og almenna skynsemi.