Borgarstjórn 15. nóvember 2022

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um mælaborð vegna eineltis og annara ofbeldismála á fundi borgarstjórnar 15. nóvember 2022

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að sett verði upp mælaborð þar sem hægt er að sjá hvaða úrræði skólar, íþrótta- og tómstundafélög Reykjavíkurborgar, hafa tiltæk þegar upp koma eineltis eða önnur ofbeldismál. Í sérhverri verkfærakistu skóla og félaga þurfa að vera til eftirfarandi gögn og þau aðgengileg á heimasíðu eða í „appi“:

– Stefna í eineltis- og öðrum ofbeldismálum

– Viðbragðsáætlun þar sem raktir eru verkferli ef tilkynning berst um einelti

– Tilkynningareyðublað

– Upplýsingar um hverjir sitja í eineltisteyminu.

Gagnsemi mælaborðsins er a.m.k. tvíþætt:

Foreldrar geta kynnt sér viðbragðsferilinn áður en barn byrjar í skólanum eða í íþróttafélagi. Þau fá jafnframt upplýsingar um hvert þau eiga að leita ef barn segir frá einelti. Mælaborðið yrði jafnframt hvatning til skóla og félaga að vera vel undirbúin þegar slík mál komi upp.

Tilraun var gerð fyrir mörgum árum að halda þessum upplýsingum til haga á vefsíðu borgarinnar en rann það verkefni út í sandinn. Gagnsemi mælaborðsins er víðtækari en nefnt er hér að ofan. Með því að hafa þessar upplýsingar aðgengilegar á einum stað fyrir borgarbúa er auðveldara að tryggja að verklag skóla- íþrótta- og tómstundafélaga sé samræmt. Samræmt verklag eykur líkurnar á því að börnin fái svipaða eða sambærilega þjónustu óháð því hvaða skóla þau eru.

Greinargerð

Möguleiki er einnig á að setja meira í mælaborðið. Nefna má yfirlit yfir forvarnar- og fræðsluefni og hvort skólar leggi fyrir árlegar ,,kannanir um líðan nemenda”. Skólar sem það gera eru að fá betri og ítarlegri upplýsingar um hvernig andrúmsloftið og menningin er í skólanum og hvernig börnunum líður. Dæmi um spurningar í “Könnun á líðan nemenda” eru:

Hvort barni þykir gaman í skólanum?

Hvort það eigi vini?

Hvort því sé strítt eða það sé lagt í einelti?

Slíka könnun má leggja fyrir tvisvar á vetri.

Nokkur orð um einelti

Það er ekki erfitt að setja sig í spor foreldra barns sem lagt er í einelti. Foreldrar finna til vanmáttar, reiði og sorgar. Flækjustigið verður enn meira þegar gerendur eru margir og ekki eingöngu úr nærumhverfinu (skóla eða íþróttafélagi) heldur einnig krakkar úr öðrum hverfum.

Það er ekki síður áfall fyrir foreldra að fá upplýsingar um að barnið þeirra leggi önnur börn í einelti. Þá hefst glíma við alls konar tilfinningar. Foreldrar vilja vernda barnið fyrir ásökunum en jafnframt vita þau að horfast verði í augu við vandann reynist ásakanir réttar. Einstaka foreldrar bregðast illa við og festast í varnarstöðu. Flestir foreldrar vilja að gengið sé strax í málið og eru tilbúnir að taka fullan þátt í úrvinnslunni. Börn sýna oft ólíka framkomu og hegðun í skólanum en heima hjá sér. Foreldrar eru færastir í að grafast fyrir um orsakir þess að barnið finni hjá sér hvata til að meiða önnur börn. Án þátttöku foreldra í úrvinnslunni er ekki hægt að bæta aðstæður barnsins.

Það er heldur ekki erfitt að setja sig í spor foreldra barns sem leggur í einelti. Barn sem er gerandi eineltis og sýnir viðvarandi ofbeldishegðun gagnvart öðrum þarf aðstoð með sína vanlíðan til að hægt sé að lágmarka hvöt þess til að leggja í einelti. Vanlíðan og vandamál má stundum rekja til skólatengdra þátta eða annarra orsaka. Hafa skal í huga að börn geta einn daginn verið í hlutverki geranda og þann næsta í hlutverki þolanda.

Skaðsemi eineltis getur lifað með þolandanum ævilangt. Ekki er hægt að vita með vissu hversu mörg börn hafa svipt sig lífi vegna óbærilegs lífs sem einkennst hefur af einelti og ofbeldi. Það er í mörgum tilfellum ævilangt verkefni að vinna úr einelti og sumir þolendur ná sér einfaldlega aldrei.

Ekkert foreldri á að þurfa að standa í þeim sporum að geta ekki verndað barnið sitt. Sem samfélag eigum við að gera kröfu um að allir staðir þar sem börn koma saman hafi tiltæk verkfæri til að grípa málið strax og vinna úr því. Reglubundnar forvarnir fremur en átaks bundnar, lágmarka að mál af þessu tagi komi upp.

Grundvallaratriði er að trúa ávallt barni sem segir frá ofbeldi. Ef ábyrgur aðili segir foreldri að barn þess sé að leggja annað barn í einelti verður líka að trúa því. Þegar staðreyndir málsins liggja fyrir er hægt að gera áætlun um úrlausn. Öll börn eiga rétt á því að líða vel.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu málsins

Margsinnis undanfarin ár hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins fengið ábendingar um slaka upplýsingagjöf til borgarbúa og foreldra. Hér leggur borgarfulltrúi Flokks fólksins það til að sett verði upp mælaborð þar sem hægt er að sjá hvaða úrræði skólar, íþrótta- og tómstundafélög Reykjavíkurborgar, hafa tiltæk þegar upp koma eineltis eða önnur ofbeldismál. Í sérhverri verkfærakistu skóla og félaga þurfa að vera: Stefna í eineltis- og öðrum ofbeldismálum; Viðbragðsáætlun þar sem raktir eru verkferlar ef tilkynning berst um einelti; – Tilkynningareyðublað og upplýsingar um hverjir sitja í eineltisteyminu.
Með slíku mælaborði geta foreldrar kynnt sér viðbragðsferilinn áður en barn byrjar í skólanum eða í íþrótta- og tómstundafélagi. Þau fá jafnframt upplýsingar um til hvaða aðila þau eiga að leita ef barn segir frá einelti. Mælaborðið yrði jafnframt hvatning til skóla og félaga að vera vel undirbúin þegar slík mál komi upp. Tilraun var gerð fyrir mörgum árum að halda þessum upplýsingum til haga á vefsíðu borgarinnar en verkefni rann út í sandinn. Með því að hafa þessar upplýsingar aðgengilegar á einum stað er auðveldara að tryggja að verklag skóla- íþrótta- og tómstundafélaga sé samræmt. Samræmt verklag eykur líkurnar á því að börnin fái svipaða eða sambærilega þjónustu óháð því hvaða skóla þau eru. Tillögunni er vísað til borgarráðs

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Tillaga VG um að fjárhagsaðstoð hækki með vísitölu:

Flokkur fólksins hefur ítrekað óskað eftir því í velferðarráði að fjárhagsaðstoð hækki. Á velferðarráðsfundi 4. október var lögð fram tillaga um 4.9% hækkun fjárhagsaðstoðar. Flokkur fólksins studdi þá tillögu en meirihlutinn ákvað fresta ákvörðun.
Á velferðarráðsfundi 2. nóvember kom fram ný tillaga um eingöngu 3% hækkun. Þetta fannst Flokki fólksins einkennileg lækkun þar sem verðbólga er tæp 9% og hefur öll nauðsynjavara hækkað gríðarlega. Flestar gjaldskrár Reykjavíkurborgar hafa hækkað um 4.9% og því er einkennilegt að sjá að þeir sem verst eru settir eigi eingöngu að fá 3%. Á umræddum fundi var ákvörðun frestað og ákveðið að fela sviðsstjóra að skipa stýrihóp til að endurskoða reglur um fjárhagsaðstoð frá grunni. Þessi frestun á ákvörðun á hækkun fjárhagsaðstoðar er mjög bagaleg því þessi hópur er í mjög viðkvæmri stöðu gagnvart öllum verðhækkunum. Þeir sem fá fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar eru borgarbúar sem ekki geta séð sér og sínum farborða af ýmsum ástæðum, með það að markmiði að styðja fólk til sjálfshjálpar. Tillaga þessi er til bóta og myndi auka framfærsluöryggi þeirra sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda. Að vísu telur fulltrúi Flokks fólksins að fjárhæðir sem þessar ættu einnig að taka mið af launavísitölu þannig að miðað sé við þá vísitölu sem hækkaði meira á liðnu ári við uppfærslu hverju sinni.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Umræða um biðskýlin í borginni að beiðni Sjálfstæðisflokksins:

Flokkur fólksins lagði fram tillögu 2019 um endurbætur á öllum biðstöðvum strætó sem voru þá víða í lamasessi. Tillagan kom til afgreiðslu þremur árum síðar og var þá felld. Í umsögn var minnst á niðurstöður úttektar frá 2020 á aðgengismálum á biðstöðvum Strætó. Þá voru Yfir 500 biðstöðvar metnar ófullnægjandi. Flokkur fólksins bókaði 2020 að til stæði að lagfæra 12 strætóbiðstöðvar sem voru verst farnar bæði um aðgengi og yfirborð. Aðeins á 11 biðstöðvum af 556 var aðgengi viðundandi. Aðgengi og lélegt yfirborð stétta við strætó biðstöðvar hefur auðvitað komið verst niður á fötluðu fólki. Staðfest var í umsögn með málinu að endurbætur eru á bið vegna væntanlegrar borgarlínu sem búið er að upplýsa um að tefjist um 3-5 ár. Flokkur fólksins óttast að þessi mál verði látin danka og tefjist borgarlínuverkefnið enn frekar er ekki líklegt að skipulagsyfirvöld ráðist í endurbætur sem tengjast væntanlegri borgarlínu á næstunni. Flokkur fólksins telur að endurmeta verði endurbætur á þeim fjölda biðstöðva sem eru í lamasessi í ljósi fyrirsjáanlegrar seinkunar borgarlínu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fundargerðir borgarráðs frá 10. nóvember, liður 12:

Varðar tillögur starfshóps um mótun stefnu og tillagna um aðkomu Reykjavíkurborgar að sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum.
Flokkur fólksins getur tekið undir margar tillögur starfshópsins sem hefur mótað stefnu og tillögur um aðkomu Reykjavíkurborgar að sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum. Það er mikilvægt að skapa aukið jafnræði fyrir foreldra og nemendur um val á skólum í borginni og að skapa möguleika fyrir einkaaðila að hafa rekstur leik- eða grunnskóla í húsnæði borgarinnar á sömu kjörum og borgar reknir skólar. Tekið er undir að samræma gjaldskrár sjálfstætt starfandi leikskóla og borgarrekinna leikskóla til að skapa aukið jafnræði foreldra við val á leikskólum. Flokkur fólksins fagnar tillögunni um að setja eigi skorður við útgreiðslu arðs og að rekstrarafgangur verði nýttur til að efla skólastarf og tryggja að hann verði nýttur í þróun skóla um leið og skólagjöld verði lögð af.
Flokki fólksins finnst það hins vegar ámælisvert hvernig staðið var að gerð skýrslunnar. Samtök sjálfstæðra skóla (SSSK) var ekki boðið nein aðkoma að gerð hennar þrátt fyrir að beinlínis hafi verið gert ráð fyrir aðkomu fulltrúa SSSK að gerð skýrslunnar og SSSK leitað eftir því. Í erindi frá SSSK er þetta harmað og tekur borgarfulltrúi Flokks fólksins undir það.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fundargerðir SFS og Stafræns ráðs:

Fundargerð Skóla- og frístundaráðs
Liður 6.
Flokkur fólksins lagði til að SFS skoðaði fleiri úrræði innan heimaskólanna fyrir börn sem ekki geta stundað nám í almennum bekk. Tillagan er felld því talið er að nú þegar séu næg úrræði fyrir hendi. Það er hins vegar ekki rétt.
LIður 7.
Flokki fólksins finnst það miður að tillaga um þarfagreiningu húsnæðis Austurbæjarskóla var felld. Styr hefur staðið um risið sem varðveitir skólamuni sem hefur verið úthýst. Þessi ákvörðun var tekin þrátt fyrir hávær mótmæli m.a. íbúasamtaka og Flokks fólksins.
Fundargerð Stafræns ráðs
Liður 4.
Lagðar eru fram kynningar frá skrifstofu upplýsinga- og skjalastýringar, kynning á Hlöðunni/viðmót Hlöðunnar, kynning á átaki í teiknihönnun og loks á öryggisflokkun gagna.
Kynningarnar eru mest lýsingar sem duga því miður skammt þegar óvíst er hvenær þær afurðir sem lýst er verða tilbúnar. Ekkert svið hefur fengið eins mikið fjármagn eins og þjónustu- og nýsköpunarsvið miðað við það hversu lítið það hefur skilað af sér af tilbúnum afurðum sem nýtast borgarbúum beint. Milljarðar hafa farið í yfirbyggingu sviðsins sem og uppgötvunar, þróunar-og tilraunafasa fjölda stafrænna lausna. Það sárvantar að nútímakröfum um skilvirka árángursstjórnun sé fylgt þegar kemur að fjármálum og eftirfylgni verkefna.