Borgarstjórn 16. maí 2023 Umræða Flokks fólksins um Laugarnesskóla

Bókun undir liðnum Græni stígurinn. Flokkur fólksins var með meirihlutanum í bókun um Græna stíginn eftir að viðundandi breytingar voru gerðar s.s. að markmið er að gera stíginn að alvöru samgönguæð:

Græni stígurinn er metnaðarfull hugmynd úr svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins sem gengur út á að tengja saman útivistarsvæðin í Græna treflinum með samfelldum göngu- og hjólastíg, sem yrði raunveruleg samgönguæð fyrir hjólafólk, örugg og þægileg yfirferðar. Markmiðin með honum eru að auka útivist, bæta lýðheilsu og bæta samgöngur fyrir gangandi og hjólandi auk þess að festa Græna trefilinn í sessi. Á vettvangi Svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins hefur verið ráðist í vinnu við frumgreiningu á legu stígsins og fleiri álitaefnum honum tengdum. Stefnt er að ljúka þeirri vinnu um mánaðarmótin og verða niðurstöðurnar í kjölfarið sendar til sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Verði ákveðið að ráðast í verkefnið er unnt að áfangaskipta því, t.d. með því að merkja fyrst þær leiðir sem færar eru í dag og bæta malbikuðum stígum í áföngum þar sem það á við. Huga þarf að vatnsvernd og náttúruvernd og halda árekstrum við reiðleiðir í lágmarki. Þetta eru spennandi áform sem fróðlegt verður að sjá þróast áfram á næstu misserum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um skýrslu innviðaráðuneytisins: Nýi Skerjafjörður – áhrif byggðar og framkvæmda á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. Umræður um 2. og 3. mál fara fram saman:

Það er mat sérfræðingahóps sem fenginn var til að meta áhrif byggðar á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar að byggðin muni að óbreyttu þrengja að og skerða nothæfi Reykjavíkurflugvallar vegna breytinga á vindafari. Fram kemur að frekari rannsókna er þörf. Mótvægisaðgerðir liggja á borðinu, þær eru margar og sumar umfangsmiklar. Lækka þarf hús og staura og gera fleiri breytingar til að gefa flugvellinum nægjanlegt rými svo hann sé nothæfur. Sníða þarf hverfið með sérstökum hætti í kringum flugvöllinn. Til að velja myndlíkingu verður hverfið með eins konar kyrkingaról svo það ógni ekki flugöryggi. Þetta er erfitt mál vegna þess að það mun kannski ekki finnast staður fyrir flugvöllinn sem er jafngóður eða betri og Vatnsmýrin. Væri Landspítalinn ekki þarna og þau rök sem lúta að sjúkraflugi þar sem hver mínúta skiptir máli væru færri rök almennt séð fyrir að flugvöllurinn ætti yfir höfuð að vera í miðri borg. Á meðan staðan er svona snúin hefði átt að hinkra með þessa vegferð að nýjum Skerjafirði. Bæði flugvöllurinn og hverfið líða fyrir þessar þröngu stöðu. Nú er verið að finna einhverjar málamiðlanaleiðir, finna leiðir til að flugvöllur og þétt byggð geti lifað saman í sátt og samlyndi.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Rannsóknir í tengslum við skýrslu innviðaráðuneytisins. Lagt er til að farið verði í ítarlegri rannsóknir á áhrifum nýrrar byggðar í Skerjafirði á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar sbr. niðurstöður nýútkominnar skýrslu um það málefni sem ber heitið Nýi Skerjafjörður – áhrif byggðar og framkvæmda á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar:

Meðal þess sem fram kemur í skýrslu sérfræðingahópsins sem fenginn var til að meta áhrif byggðar á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar að frekari rannsókna væri þörf. Orðrétt segir í skýrslunni: „Ekki er hægt að fullyrða, án frekari rannsókna, að byggðin hafi slík áhrif á aðstæður fyrir flug á Reykjavíkurflugvelli að þörf sé á að hætta við byggingarhugmyndir í nýja Skerjafirði.“ Það ætti að vera sjálfsagt að fylgja öllum ábendingum og hvatningu um rannsóknir sem fram koma í skýrslunni. Skýrsluhöfundar geta í raun ekkert fullyrt af eða á í þessum efnum og gætt er að tala ekki of skýrt þótt skýrt sé sagt að byggð „hafi áhrif á flug- og rekstraröryggi, að óbreyttu.“ Þetta er spurning um orðalag og allt er þetta túlkunaratriði. Á að rannsaka hvort byggð hafi slík áhrif að ekki sé þörf á að hætta við byggð eða rannsaka hvort byggð hafi slík áhrif að þörf sé á hætta við byggð? Auðvitað vill enginn taka á þessu mikla ábyrgð. Hvað sem þessu líður þá eru til ýmis rannsóknargögn sem ekki hefur verið unnið úr sem vert væri að skoða nánar hvort sem þau styðja að flugvellinum standi mikil eða lítil ógn af umræddri byggð.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Að beina því til stjórnar Faxaflóahafna að endurskoða samning hafnarinnar við fyrirtækið Hval hf. um hafnaraðstöðu fyrir hvalveiðiskip félagsins, segja honum upp eða sjá til þess að hvalveiðiskipunum verði fundinn annar staður en í miðri gömlu höfninni í Reykjavík sem er miðstöð ferðamennsku og hvalaskoðunar.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins tók þessari tillögu Vinstri grænna um að segja upp samning Hvals hf. um hafnaraðstöðu fyrir hvalveiðiskip félagsins í Reykjavík sem lið í að gera Hvali hf. erfitt fyrir að veiða hval. En í raun er tilgangurinn að vernda ferðamenn sem heimsækja höfnina og sem, margir hverjir, fordæma þessar veiðar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins skilur vel tilfinninguna að baki tillögunni en hefur ekki svo miklar áhyggjur af ferðamönnunum heldur frekar hvölunum sem lenda í netum Hvals hf. í ljósi umræðu um hvernig veiðum kann að vera háttað. Á meðan hvalveiðiskip liggja í Reykjavíkurhöfn eru þau alla vega ekki á veiðum og ef höfninni verður lokað fyrir hvalveiðiskip Hvals þá færi Hvalur annað með skipin, t.d. í Hvalfjörðinn og hvalveiðar halda áfram. Ferðamenn eru auk þess út um allt, líka í Hvalfirði en vissulega í minna mæli. Ef við viljum hindra hvalveiðar er kannski best að þessi skip verði bundin sem rækilegast við bryggju um aldur og ævi. Ef tillagan er samþykkt er hér vissulega um skýra yfirlýsingu að ræða og mun Flokkur fólksins því styðja þessa tillögu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarstjórn samþykki að Reykjavíkurborg tryggi gjaldfrjálsan strætó á þeim leiðum sem ganga innan borgarinnar á kjördag. Þetta á við þá daga þegar alþingis-, forseta- og borgarstjórnarkosningar eiga sér stað. Einnig gildi þetta ef þjóðaratkvæðagreiðsla á sér stað.

Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst sjálfsagt að samþykkja tillögu um að frítt verði í strætó í Reykjavík á kjördag. Skoða mætti fleiri daga þar sem frítt yrði í strætó. Fargjald strætó er of hátt og hefur vegna þess heilmikinn fælingarmátt. Strætó hefur ekki beinlínis tekist að laða að nýjan farþegahóp og þetta gæti verið liður í kynningarátaki Strætó bs.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarstjórn samþykki að afnema gjaldtöku á ferðum í akstursþjónustu fatlaðs fólks á kjördag. Þetta á við þá daga þegar alþingis-, forseta- og borgarstjórnarkosningar fara fram. Þau sem greiða atkvæði utan kjörfundar skulu einnig eiga rétt á gjaldfrjálsri akstursþjónustu á kjörstað. Reykjavíkurborg kynni ákvörðunina með góðum fyrirvara þannig að notendum sé ljóst að þjónustan sé í boði:

Flokkur fólksins styður tillögu um að afnema gjaldtöku á ferðum í akstursþjónustu fatlaðs fólks á kjördag. Þetta á við þá daga þegar alþingis-, forseta- og borgarstjórnarkosningar fara fram eins og segir í tillögunni. Skoða mætti fleiri hátíðisdaga sem yrðu fríir. Þau sem greiða atkvæði utan kjörfundar ættu sannarlega einnig eiga rétt á gjaldfrjálsri akstursþjónustu á kjörstað. Öll vitum við hvað skerðingar eru miklar hjá þeim sem fá örorkubætur. Minnt er á niðurstöður rannsóknar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir Öryrkjabandalag Íslands um bágborinn fjárhag fjölmargra öryrkja. Einnig má nefna rannsókn Vörðu fyrir Öryrkjabandalag Íslands frá 2021 sem sýndi sláandi niðurstöður um erfiða fjárhagsstöðu stórs hóps fatlaðs fólk. Sjálfsagt er að létta þessum hópi róðurinn t.d. með gjaldfrjálsri akstursþjónustu á ákveðnum dögum, tyllidögum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum :Fram fer umræða um úrbætur á starfsaðstöðu nemenda og kennara í Laugarnesskóla.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: Í of mörg ár hafa nemendur og starfsfólk Laugarnesskóla unnið í heilsuspillandi starfsumhverfi vegna myglu, rakaskemmda og leka. Ekki hefur verið hægt að kenna í mörgum rýmum vegna viðhaldsframkvæmda. Nemendur hafa ítrekað þurft að skipta um stofur meðan plástrað er yfir myglu og rakaskemmdir. Starfsfólk hefur hrökklast úr starfi vegna veikinda tengdum myglu. Skólayfirvöld hafa margsinnis óskað eftir úrbótum við Reykjavíkurborg sem er vel kunnugt um stöðuna. Nýlega barst borgarfulltrúum ályktun frá fulltrúum starfsfólks Laugarnesskóla sem segir komið að þolmörkum. Laugarnesskóli er löngu sprungin og nemendum hefur fjölgað hratt undanfarin ár og mun fjölga mikið. Sífelldar afsakanir berast vegna tafanna. Viðkvæðið er alltaf að verið sé að “stilla upp” fyrir framkvæmdir og fleiru er kennt um. Iðnaðarmenn hafa ekki sést í marga mánuði.
Til stóð að setja gáma sl. haust en ekkert varð af því. Gámar eru besta lausnin í þessum aðstæðum. Ekki er búið að gera deiliskipulag að nýrri viðbyggingu og endanleg ákvörðun um viðbyggingu verður ekki tekin fyrr en í júní. Deiliskipulag er margra mánaða ferli. Á meðan bíða nemendur og starfsfólk. Það er almenn töf á öllum framkvæmdum og með ólíkindum að það taki tvö ár að undirbúa viðgerðir á húsinu á sama tíma og húsnæðið er heilsuspillandi.

Greinargerð með umræðu:

Nýlega barst ályktun frá fulltrúum starfsfólks Laugarnesskóla en þar segir að í of mörg ár hafa nemendur og starfsfólk Laugarnesskóla unnið í heilsuspillandi starfsumhverfi vegna myglu, rakaskemmda og leka. Einnig hafa þau ítrekað þurft að skipta um stofur meðan plástrað er yfir myglu og rakaskemmdir. Starfsfólk hefur hrökklast úr starfi vegna veikinda tengdum myglu.  Frá því í haust hefur ekki verið hægt að kenna í hluta heimilisfræði stofunnar vegna viðhaldsframkvæmda. Þessum framkvæmdum er enn ekki lokið og hafa iðnaðarmenn ekki sést í marga mánuði.

Í of mörg ár hafa nemendur og starfsfólk Laugarnesskóla unnið í heilsuspillandi starfsumhverfi vegna myglu, rakaskemmda og leka. Frá því í haust hefur ekki verið hægt að kenna í hluta heimilisfræðistofunnar vegna viðhaldsframkvæmda. Þessum framkvæmdum er enn ekki lokið og hafa iðnaðarmenn ekki sést í marga mánuði. Skólayfirvöld hafa ítrekað óskað eftir úrbótum við Reykjavíkurborg sem er vel kunnugt um stöðuna.

Laugarnesskóli er löngu sprunginn og nemendum hefur fjölgað hratt undanfarin ár. Spár Reykjavíkurborgar um nemendafjölda og áform um uppbyggingu í hverfinu benda einnig til þess. Skortur á kennslustofum og plássleysi í öðrum rýmum, s.s. sérgreinastofum, íþróttaaðstöðu, mötuneyti, eldhúsi og vinnuaðstöðu er því ekki tímabundið vandamál.

Það er með ólíkindum að það taki svona langan tíma að hefja viðgerðir og undirbúa viðbyggingu. Þegar spurt er um hvað veldur töfum er sífellt klifað á að verið sé að undirbúa, ,,að stilla upp” eins og það er gjarnan orðað hjá borgaryfirvöldum þegar skólasamfélagið ýtir við málinu. Sagt er að “framkvæmdaaðilar séu að stilla upp”. Enginn veit svo sem hvað er átt við með því eða hvort það merki að hefja eigi brátt alvöru framkvæmdir.

Hér er ekki um einsdæmi að ræða. Hávær hróp hafa borist lengi frá skólasamfélaginu vegna myglu og raka vanda í fjölmörgum skólum borgarinnar. Frá árinu 2018 hefur greinst mygla í yfir 30 skólahúsum sem tilheyra borgarreknum leik- og grunnskólum samkvæmt samantekt fréttastofu RÚV frá því í haust. Þá voru yfir 1.200 grunn- og leikskólabörn í húsnæði utan skólalóðar heimaskóla vegna mygluvandamála, 860 grunnskólabörn og 350 leikskólabörn. Síðan þá hafa líklega bæst við hátt í hundrað börn. Mörg þúsund börn verða fyrir raski á skólastarfi vegna myglu og raka. Skaðsemi og önnur áhrif af þessu eru með öllu óljós.

 

Umræðu að beiðni Flokks fólksins  um húsaleigumarkaðinn í Reykjavík er frestað. MSS23050098

 

Umræðu að beiðni Flokks fólksins um um þróunarverkefnið kveikjum neistann í Reykjavík er frestað. MSS2305009

 

Bókun Flokks fólksins undir fundargerðum m.a. borgarráðs frá 5.5. 2012. Bókun undir lið 1 í fundargerð borgaráðs 11. maí, hækkun gjaldskrá Sigluness:

A-hlutinn er undirstaðan og bakhjarl B-hluta fyrirtækja ef þau þurfa fjárhagslegan stuðning. Samþykkt var tilboð í tvo verðtryggða skuldabréfaflokka fyrir samtals 3,2 milljarða króna að nafnvirði. Borgin hefur þegar selt skuldabréf fyrir um 4,1 milljarð og dregið 3 milljarða á langtímalánalínu hjá Íslandsbanka – samtals 7 milljarða. Útboðið nú gekk vonum framar enda þótt Reykjavíkurborg fengi töluvert verri kjör en ríkið og þurfi að borga hærri raunvexti en það. Framundan eru miklar lántökur til að geta greitt af lánum. Það er verðbólga og vaxtahækkanir og ganga þarf þess vegna röskar fram í að draga úr fjárfestingum sem ekki snúa að grunnþjónustu og hagræði verulega í rekstri miðlægrar stjórnsýslu svo draga megi úr lántökuþörf. Liður 8: Fulltrúi Flokks fólksins getur ekki glaðst yfir þessari tillögu borgarstjóra og meirihlutans. Lagt er til að þjónusta Sigluness verði dregin saman. Og til viðbótar á að hækka gjaldskrá um rúm 25%. Halda mætti að hér væri komin matarhola fyrir borgarsjóð í erfiðri fjárhagsstöðu. Það eru aðeins tvær vikur síðan viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023 sýndi að halda ætti starfi Sigluness áfram. Ljóst er að skera á rösklega utan af starfseminni og er óvissa um tímalengd námskeiða og almennt um framtíð Sigluness.

 

Bókun Flokks fólksins undir lið 8 í fundargerðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs:

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði upplýsinga um gestakomur í Húsdýragarðinn. Þakkað er fyrir svarið. Ekki kemur á óvart að gestakomur eru mun fleiri yfir sumartíma en vetrartíma. Yfir sumarið eru þær rúmlega 130 þúsund en frá september-desember 2022 eru þær tæplega 30 þúsund. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því upp hvað sé hægt að gera betur til að laða gesti að Fjölskyldu- og húsdýragarðinum yfir vetrartímann. Sem dæmi mætti skoða að hafa meiri  afþreyingu innandyra en margt annað kemur til greina. Um jól mætti  bjóða upp á jólaleg skemmtiatriði til að laða að. Einnig væri vert að kynna Fjölskyldu- og húsdýragarðinn betur t.d. fyrir nýjum Íslendingum. Einnig að bjóða upp á fleiri valmöguleika með aðgangseyri og afslátt á honum. Efnalítið fólk á oft ekki auka krónu til að leyfa sér að heimsækja Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Umfram allt þarf að stefna að því Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn verði fullur af fólki allt árið um kring.